Barnavernd
Markmið barnaverndarlaga er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Það er því hlutverk barnaverndar að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu.
Hagnýtt
Hvert á að hringja ef áhyggjur af barni koma upp?
Viljir þú tilkynna um aðstæður barns getur þú hringt í síma 480 1900 á dagvinnutíma og fengið að ræða við félagsráðgjafa. Komi upp neyðartilvik eftir að skrifstofu hefur verið lokað, getur þú hringt í 112 og sagt frá áhyggjum þínum.
Netfang barnaverndarteymis Árborgar er barnavernd@arborg.is.
Hvað gæti legið að baki tilkynningu um aðstæður barna og unglinga?
- Líkamleg og tilfinningaleg vanræksla
- Líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi og misnotkun
- Ung börn skilin eftir gæslulaus eða í umsjá annarra barna
- Eldri börn skilin eftir gæslulaus langtímum saman og þurfa að sjá um sig sjálf
- Léleg skólasókn, skólaskyldu ekki sinnt
- Afbrot, árásargirni
- Heilsugæslu eða læknisaðstoð ekki sinnt þrátt fyrir þörf
- Endurtekin slys og óhöpp sem hægt hefði verið að fyrirbyggja
- Endurteknir áverkar sem barn á erfitt með að útskýra
- Vannæring
- Lélegur fatnaður og umhirða sem samræmist ekki aðstæðum
- Óeðlileg útivist og endurtekin brot á útivistarreglum
- Áfengis- eða vímuefnaneysla foreldra
- Almennt vanhæfi foreldra
Hver getur tilkynnt til barnaverndar?
Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Einnig er skylt að tilkynna ef grunur leikur á að lífi ófædds barns sé stofnað í hættu.
Almenningur getur tilkynnt til barnaverndar undir nafnleynd. Það þýðir að þó barnaverndarstarfsmaður fái nafn og símanúmer hjá þeim sem er að tilkynna þá mun starfsmaðurinn halda því leyndu fyrir þeim sem málið snýr að. Þeir sem hafa afskipti af börnum, svo sem starfmenn leikskóla, skóla, frístunda, heilbrigðisstofnanna o.s.f., er skylt að tilkynna til barnaverndar en þessir aðilar geta ekki tilkynnt undir nafnleynd.
Hvað gerir barnavernd?
Þegar barnavernd hefur fengið tilkynningu um barn, meta barnaverndarstarfsmenn hvort ástæða sé til að kanna málið nánar. Foreldrar barns eru í flestum tilvikum látnir vita af tilkynningu og vinnunni sem mun fara í gang. Undartekning á því er ef barn er talið vera í hættu í umsjá foreldra og það er talið þjóna hagsmunum barnsins að foreldri viti ekki af könnuninni í bili.
Vinna barnaverndar, sem fer af stað þegar ákvörðun hefur verið tekinn um að kanna skuli málið, felst í því að fá greinargóðar upplýsingar um barnið og hagi þess, svo stuðningur og aðstoð við barn, foreldra og fjölskyldu verði sem markvissastur. Í flestum tilfellum felst stuðningur barnaverndar í stuðningsviðtölum, ráðgjöf, fræðslu og leiðbeiningum. Eins getur barnavernd útvegað barni stuðningsfjölskyldu, verið í samtarfi við skóla og leikskóla o.fl.
Gangi samstarf milli barnaverndar og foreldra ekki upp og aðstæður barns eru enn taldar óviðunandi getur reynst nauðsynlegt að barn fari í fóstur. Mikilvægt er að hafa í huga að fósturráðstöfun kemur aðeins til greina ef öll önnur og vægari úrræði hafa ekki skilað tilsettum árangri.