Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð - 58

Haldinn í Norðursal, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi,
19.12.2019 og hófst hann kl. 17:00
Fundinn sátu: Eggert Valur Guðmundsson formaður, S-lista,
Tómas Ellert Tómasson bæjarfulltrúi, M-lista,
Gunnar Egilsson bæjarfulltrúi, D-lista,
Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði: Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 1912052 - Umsögn - tillaga til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020 - 2024 og tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020 ? 2034
Bæjarráð fól bæjarstjóra á 57. fundi að gera drög að umsögn og leggja fyrir bæjarráð.
Því er fagnað að fullur skilningur ríkisins skuli vera á mikilvægi þess að ný Ölfusárbrú komist í framkvæmd sem fyrst en bæjarráð leggur ríka áherslu á að lok framkvæmdarinnar verði ekki síðar en árið 2023. Málið er orðið svo brýnt að það þolir enga bið.
Bæjarráð Árborgar ítrekar gagnrýni á að ekki skuli ráðist í tvöföldun hringvegarins á milli Hveragerðis og Selfoss, þó að vissulega sé ánægja með að vinnu skuli haldið áfram við endurbætur. Gríðarlegur umferðarþungi er á þessari leið og líklegt að hann eigi enn eftir að aukast mikið.
Bæjarráð þakkar þann skilningi sem í frumvarpinu er sýndur á mikilvægi þess að gert verði hringtorg á Eyrarbakkavegi við Suðurhóla á Selfossi ásamt undirgöngum á árinu 2020.
Bæjarráð Árborgar tekur undir með Sveitarfélaginu Ölfus og leggur áherslu á mikilvægi þess að ráðist verði í hafnarframkvæmdir í Þorlákshöfn. Höfnin er nú þegar orðin mikilvæg vöruflutningahöfn en ljóst er að þær fjárfestingar sem óskað er eftir í hafnarmannvirkjum í Þorlákshöfn munu hafa í för með sér verulegan efnahagslegan ábata fyrir landshagi, en ekki aðeins fyrir atvinnusvæðið á Suðurlandi. Heppileg staðsetning hafnarinnar, sívaxandi umsvif í fiskeldi á Íslandi og væntaleg framþróun í matvælaframleiðslu á svæðinu eru meðal atriða sem gera munu höfnina mikilvægari á allra næstu árum.
Bæjarráð telur mikilvægt að hugað verði strax að því að færa þungaumferð til og frá Þorlákshöfn suður fyrir Selfoss og bendir á Votmúlaveg í því sambandi.
2. 1912053 - Umsögn - frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 með síðari breytingum (viðaukar)
Bæjarráð fól bæjarstjóra á 57. fundi að gera drög að umsögn og leggja fyrir bæjarráð.
Bæjarráð Svf. Árborgar telur að þrátt fyrir töluverðar breytingar á frumvarpinu, frá því það kom fyrst fram á haustdögum, sé enn margt óljóst um þær breytingar sem lagðar eru til.
Heilbrigðiseftirlit sveitafélaga hafa haft á höndum útgáfu starfsleyfa og eftirfylgni með þeirri starfsemi sem þau gefa út starfsleyfi fyrir. Nú er lagt til að fækka þeim aðilum sem þurfa starfsleyfi en taka upp skráningarskyldu í staðinn. Ekkert kemur fram um hvernig skráningarskyldu skuli háttað eða um leiðbeiningaskyldu um hana. Eftirlit á samt sem áður að vera á hendi heilbrigðiseftirlita áfram.
Sárlega vantar rökstuðning fyrir vali á þeim flokkum starfsemi sem verða eða verða ekki skráningaskyldir.
Bæjarráð telur að fresta eigi afgreiðslu þessa frumvarps og taka upp víðtækara samráð við hagsmunaaðila um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru. Sérstaklega þarf betur að ræða og skýra hvernig skráningarskyldu og eftirliti verður háttað.
Bæjarráð varar við því að verkefni Heilbrigðiseftirlits verði færð á hendur ríkisstofnana.
3. 1910083 - Sameining sveitarfélaga
Bæjarstjóri fer yfir svör frá sveitarfélögunum.
Bæjarráð Árborgar lýsir vonbrigðum yfir að sveitarfélög í Árnessýslu séu almennt ekki tilbúin í samtal um mál sem varða hugsanlegar sameiningar sveitarfélaga í Árnessýslu, nú þegar jafnvel vofir yfir að sveitarfélög verði skylduð til sameininga með einhverjum hætti. Bæjarráð telur að réttara væri að ræða málin vandlega og vera sem best undirbúin undir þá framtíð sem kann að vera handan við hornið.
Bæjarráð þakkar jákvæðar undirtektir sveitarstjórnar Hrunamannahrepps og felur bæjarstjóra að hafa samband við sveitarstjóra hreppsins um frekari samræður.
4. 1912077 - Styrkumsókn - Starf meðal lesblindra í skólum
Styrkbeiðni frá Félagi lesblindra á Íslandi, dags. 13. desember þar sem óskað er eftir styrk kr. 400.000.- fyrir áframhaldandi starf meðal lesblindra í skólum.
Bæjarráð vísar erindinu til umfjöllunar í fræðslunefnd.
5. 1912076 - Tækifærisleyfi - dansleikur á annan í jólum Hvíta húsið
Beiðni frá Sýslumanninum á Suðurlandi, dags. 13. desember, þar sem óskað er eftir umsögn um umsókn um tækifærisleyfi sem viðbót við gildandi rekstarleyfi í Hvítahúsið vegna dansleiks á 2. í jólum. Óskað er eftir leyfi til kl. 04:00 aðfaranótt 27. desember.
Bæjarráð samþykkir tækifærisleyfið.
6. 1912078 - Forkaupsréttur í bátinn Anna María ÁR-109
Erindi frá Kvótamarkaðnum ehf, daga. 12. desember, þar sem Sveitarfélaginu Árborg er boðið að nýta sér forkaupsrétt sinn að bátnum Önnu Maríu ÁR-109 sem svf. á rétt á lögum samkvæmt.
Bæjarráð samþykkir að sveitarfélgið falli frá forkaupsréttinum.
7. 1912065 - Styrkbeiðni - leikin kvikmynd um íslensku jólasveinana Jóhannesar úr Kötlum
Styrkbeiðni frá SEK production ehf, dags. 9. desember, til að vinna að gerð leikinnar kvikmyndar sem byggir á ljóðum Jóhannesar úr Kötlum um íslensku jólasveinana í bók hans Jólin koma. Óskað er eftir styrk upp á 7.000.000 kr.
Bæjarráð telur sér ekki fært að verða við styrkbeiðninni.
Styrkbeiðni.pdf
8. 1902108 - Húsnæðisáætlun Árborgar 2. útgáfa
Húsnæðisáætlun Árborgar 2020-2024.
Bæjarráð samþykkir að vísa tillögu að húsnæðisáætlun til umfjöllunar í skipulags- og byggingarnefnd, starfshópi um endurskoðuna aðalskipulags og eigna- og veitunefnd áður en hún verður tekin til afgreiðslu í bæjarstjórn.
9. 1906257 - Beiðni um makaskipti á landi - land úr Stekkum fyrir land úr Óseyri
Bæjarstjóri fer yfir stöðu viðræðna.
Bæjarráð samþykkir með 2 atkvæðum gegn 1 að ganga til makaskipta um kaup á landi úr Stekkum fyrir land úr Óseyri.

Gunnar Egilson gerði grein fyrir mótatkvæði sínu og lét bóka:
Undirritaður getur ekki samþykkt þann gjörning sem hér er lagður fyrir bæjarráð. Það er hlutverk kjörinna fulltrúa að gæta hagsmuna sveitarfélagsins og það er ekki hægt að sjá að það sé gert í þessu tiviki. Hér er lagt til að sveitarfélagið láti landspildu sem liggur að öðru landi í eigu sveitarfélagsins fyrir spildu sem er eyland innan um eignarlönd annarra, með takmörkuðu aðgengi. Undirritaður getur ekki með nokkru móti séð að sveitarfélagið hafi hag af þessum viðskiptum eða að landið sem boðið er í skiptum muni nýtast sveitarfélaginu á nokkurn hátt. Kjörnir fulltrúar verða að geta sagt nei við erindum sem samræmast ekki hagsmunum sveitarfélagsins. Þá er einnig eðlilegt að auglýsa landi í eigu sveitarfélagsins til sölu, ef á annað borð er vilji til að selja.

Eggert Valur og Tómas Ellert létu bóka:
Hagsmunir sveitarfélagsins liggja í því að hér er sveitarfélagið að fá meira land fyrir minna eða 19,9 hektara á móti 13,2 hekturum sem kemur í framtíðinni til að nýtast á sama hátt og það land sem er í skiptum.
10. 1912109 - Beiðni um vilyrði fyrir lóð við Nauthaga
Beiðni um vilyrði fyrir lóð við Nauthaga til að byggja þjónustu- og íbúðakjarna fyrir Bergrisann bs.
Bæjarráð samþykkir að vilyrðið verði veitt og vísar erindinu til skipulags- og byggingarnefndar til frekari úrvinnslu.
11. 1912008 - Fyrirspurn frá bæjarfulltrúa D-lista - skipurit fyrir mannvirkja- og umhverfissvið
Á síðasta fundi bæjarráðs voru gefnar upplýsingar um skipurit eigna- og veitusviðs. Þær upplýsingar virðast ekki í samræmi við upplýsingar á heimasíðu sveitarfélagsins, auk þess sem deildarstjóri er titlaður sem veitustjóri í samskiptum fyrir veiturnar út á við. Óskað er eftir skýringum á því að í raun virðist ekki unnið eftir skipuritinu.
Það skipurit sem birt er á heimasíðu Árborgar er í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar frá 27. febrúar 2019. Þar er eingöngu greint frá sviðunum fjórum og helstu verkefnum þeirra, en ekki útlistuð skipurit einstakra sviða. Nú þegar ný heimasíða er komin í loftið er stefnt að því að ítarlegri upplýsingar verði að finna á heimasíðunni um þau skipurit sem heyra til sviðanna.
Frá samþykkt bæjarstjórnar í febrúar hafa verið gerðar breytingar á skipuriti Mannvirkja- og umhverfissviðs í þá veru að framkvæmda- og tæknideild hefur verið bætt við sem stoðdeild hinna deildanna þriggja. Sú breyting var gerð í miklu og góðu samráði við starfsfólk á sviðinu, sem hafði athugasemdir við þá útfærslu sem samþykkt var í bæjarstjórn. Breytingin hefur þegar gefið góða raun þó deildin sé enn í mótun.
Starfstitlar og heiti eru með ýmsum hætti hjá sveitarfélaginu sem dæmi er ekki talað um umhverfisdeild heldur þjónustumiðstöð og þar er talað um verkstjóra en ekki deildarstjóra. Með sama hætti þykir eðlilegt að deildarstjóri hita- og vatnsveitu kallist veitustjóri, en það hefur hinsvegar ekki verið samþykkt með formlegum hætti. Það er hins vegar ekki rétt sem kemur fram í fyrirspurn bæjarfulltrúans að ekki sé unnið eftir skipuritinu, heldur miklu frekar um formsatriði að ræða sem einfalt er að laga. Undirritaðir lýsa undrun sinni á því hvers vegna bæjarfulltrúi Gunnar Egilsson óskar ekki eftir framgreindum upplýsingum hjá bæjarstjóra, í stað þess að leggja fram formlega fyrirspurn í bæjarráði.
Eggert Valur Guðmundsson S lista
Tómas Ellert Tómasson M lista
12. 1912106 - Fyrirspurn frá bæjarfulltrúa D-lista - afhending á heitu vatni til notenda
Svo virðist sem meirihlutinn hafi ekki hugað að því að tryggja að unnt væri að afhenda nægilega mikið af heitu vatni til notenda í kuldatíð síðustu daga, þrátt fyrir að næg tækifæri hafi verið til þess.

Hvernig stendur á því að ekki er búið að virkja borholu í Ósabotnum sem boruð var á þessu ári?

Helstu tafir þessa verkefnis eru tilkomnar vegna þess að eldra skipulag gerði ekki ráð fyrir nema 3 virkjuðum holum á svæðinu og þurfti því að láta fara fram deiliskipulagsbreytingu á svæðinu. Eins og bæjarfulltrúa Gunnari Egilssyni ætti að vera kunnugt um, sér í lagi eftir að hafa verið formaður bæði framkvæmda og veitunefndar og skipulagsnefndar, þá er slík vinna oftar en ekki mjög tímafrek. Fyrirliggjandi gögn sem lúta að þessu máli eru greinagerð um skipulagsbreytinguna, svar við byggingarleyfisumsókn og svar við skipulagsbreytingu. Verið er að leggja lokahönd á virkjun ÓS-4 þrátt fyrir að verkið hafi tafist. Verkið sem slíkt hefur gengið hratt og vel og er verið að ljúka síðustu verkþáttum, og stefnt að því að dæling hefjist snemma á næsta ári. Það er skoðun undirritaðra að fyrirspurn eins og sú sem hér um ræðir eigi að leggja fyrir eigna- og veitunefnd en ekki bæjarrráð, auk þess sem bæjarfulltrúinn vegur ómaklega að okkar dómi að starfsheiðri þeirra starfsmanna sveitarfélagsins sem leggja sig mjög fram í sínum störfum og bera ábyrgð á rekstraröryggi Selfossveitna. Einnig er rétt að það komi fram að margsinnis á undanförnum árum hefur verið brugðið á það ráð að loka sundlaugum í sveitarfélaginu þegar spáð er miklu kuldakasti, enda féll ekki þrýstingur heita vatnsins niður í þessu kuldakasti og engar kvartanir vegna þrýstingsleysis borist Selfossveitum. Rétt er að benda á í þessu samhengi að tveir af fimm stjórnarmönnum Eigna- og veitunefndar sitja þar í umboði Sjálfstæðisflokksins og eðlilegast hefði verið að bæjarfulltrúi Gunnar Egilsson hefði leitað eftir upplýsingum hjá þeim vegna málsins í stað þess að leggja fram formlega fyrirspurn í bæjarráði.

Eggert Valur Guðmundsson S lista
Tómas Ellert Tómasson M lista

13. 1912108 - Beiðni frá bæjarfulltrúa D-lista - um upplýsingar vegna dæluhúss við Selfossveitur
Bæjarfulltrúi D-lista óskar eftir að lagt verði fram svarbréfi frá Þ.G. Verk ehf ef það hefur borist vegna dæluhúss við Selfossveitur.
Á fyrsta fundi framkvæmda og veitunefndar á kjörtímabilinu 2018-2022 var tekin ákvörðun um að flýta framkvæmdum við byggingu nýs dæluhúss frá því sem áður hafði verið ákveðið. Eftirfarandi var bókað á fundi sem haldin var 28 júní 2018. Stjórnin samþykkir að bjóða út framkvæmdir við nýja dælustöð Selfossveitna við Austurveg 67. Gert er ráð fyrir að flýta verklokum og þau verði haustið 2019 í stað 2020 eins og fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Umtalsverðar tafir hafa orðið á framkvæmdum við dæluhús fyrir Selfossveitur og voru aðilar ekki sammála um orsakir þeirra tafa. Bréfaskipti milli aðila gefa ekki fullnægjandi mynd af þessum samskiptum, enda voru þau munnleg að stórum hluta. Nú hefur náðst sátt milli verkkaupa og verktaka um verklok og ekki eðlilegt að birta opinberlega einstök bréf úr þeim samskiptum og málamiðlunum sem leiddu til þeirrar sáttar. Gögn vegna þessa máls eru að mati undirritaðra trúnaðarmál , bæjarráðsfulltrúi hefur að sjálfsögðu fulla heimild til að kynna sér öll gögn málsins í eigin persónu enda liggja þau frammi á þessum fundi.

Eggert Valur Guðmundsson S lista
Tómas Ellert Tómasson M lista
14. 1904027 - Fundartími bæjaráðs 2019
Næsti fundur bæjarráðs verður haldinn þann 9. janúar árið 2020.
Fundargerðir
15. 1912007F - Öldungaráð Árborgar - 1
1. fundur haldinn 12. desember.
Fundargerðir til kynningar
16. 1901176 - Fundargerðir stjórnar SASS 2019
551. fundur haldinn 29. nóvember.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:10 

Til baka Prenta

Eldri fundargerðir

Einnig er hægt að nálgast eldri fundargerðir.

Sjá eldri fundargerðir
Þetta vefsvæði byggir á Eplica