Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn - 30

Haldinn í Grænumörk 5, Selfossi,
13.12.2023 og hófst hann kl. 16:00
Fundinn sátu: Kjartan Björnsson forseti bæjarstjórnar,
Bragi Bjarnason bæjarfulltrúi, D-lista,
Fjóla Steindóra Kristinsdóttir bæjarfulltrúi, D-lista,
Sveinn Ægir Birgisson bæjarfulltrúi, D-lista,
Brynhildur Jónsdóttir bæjarfulltrúi, D-lista,
Þórhildur Dröfn Ingvadóttir bæjarfulltrúi, D-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi, S-lista,
Sigurjón Vídalín Guðmundsson bæjarfulltrúi, S-lista,
Arnar Freyr Ólafsson bæjarfulltrúi, B-lista,
Ellý Tómasdóttir bæjarfulltrúi, B-lista,
Álfheiður Eymarsdóttir bæjarfulltrúi, Á-lista,
Sigríður Vilhjálmsdóttir lögfræðingur.
Fundargerð ritaði: Fjóla St. Kristinsdóttir, bæjarstjóri
Í upphafi kallar forseti eftir athugasemdum við útsent fundarboð. Engar athugasemdir eru gerðar.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 2311325 - Samkomulag um golfskála - Svarfhólsvöllur
Á 64. fundi bæjarráðs var samþykktur kaupsamningur á golfskála við Svarfhólsvöll. Samkomulagið var niðurstaða samningaumleitana vegna nauðsynlegrar hitaveitulagnar í gegnum land Laugardæla.

Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja samning um kaup á golfskálanum við Svarfhólsvöll.

Fyrir fundinum liggur jafnframt tillaga um gerð viðauka vegna málsins og verður hún afgreidd sérstaklega í dagskrálið 2.

Sveinn Ægir Birgisson, D-lista, Sigurjón Vídalín Guðmundsson, S-lista, Arnar Freyr Ólafsson, B-lista, Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, D-lista og Álfheiður Eymarsdóttir, Á-lista, taka til máls.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt með alls 10 atkvæðum, þ.e. 6 atkvæðum fulltrúa D-lista, 2 atkvæðum fulltrúa B-lista, 1 atkvæði fulltrúa Á-lista og 1 atkvæði fulltrúa S-lista. Sigurjón Vídalín Guðmundsson, S-lista situr hjá.

Arnar Freyr Ólafsson, B-lista og Álfheiður Eymarsdóttir, Á-lista, gera grein fyrir atkvæðum sínum.
2. 2306308 - Viðauki við fjárhagsáætlun 2023
Viðauki 5.
Viðauki 6.

Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja viðauka 5 og 6.

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista tekur til máls og leggur til að hvor viðauki fyrir sig verði borin undir atkvæði.

Forseti samþykkir af afgreiða atkvæðagreiðslu um viðaukana með þeim hætti.

Tillaga um samþykki viðauka 5 er borin undir atkvæði og samþykkt með alls 10 atkvæðum, þ.e. 6 atkvæðum fulltrúa D-lista, 2 atkvæðum fulltrúa B- lista, 1 atkvæði fulltrúa Á-lista, og 1 atkvæði fulltrúa S-lista, Sigurjón Vídalín Guðmundsson, S-lista situr hjá við atkvæðagreiðsluna.

Tillagan um samþykki viðauka 6 er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 11 atkvæðum.
3. 21101800 - Deiliskipulagstillaga - Nabbi 3
Tillaga frá 18. fundi skipulagsnefndar, frá 28. nóvember, liður 7. Deiliskipulagstillaga - Nabbi 3.

Lögð er fram að nýju tillaga að deiliskipulagi sem nær yfir lóðina Nabbi 3 (L232497) sem er 14225,4 m2 að stærð. Lóðin er staðsett í Sveitarfélaginu Árborg, í Sandvíkurhreppi hinum forna. Tillagan gerir ráð fyrir að heimilt verði að byggja frístundahús og gestahús. Deiliskipulagið er í samræmi við gildandi aðalskipulag Árborgar 2020-2036, skilgreint sem landbúnaðarsvæði.

Skipulagsnefnd samþykkti tillöguna til auglýsingar í samræmi við 41 gr. skipulagslaga nr,123/2010, og mæltist til að Bæjarstjórn Árborgar samþykkti tillöguna til auglýsingar í samræmi við 41.gr skipulagslaga.

Bragi Bjarnason, D-lista tekur til máls.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 11 atkvæðum.
9187-001-01-DSK-001-V02-Nabbi 3 DSK.pdf
4. 2311332 - Hjalladæl - Deiliskipulag íbúðabyggðar Eyrarbakka
Tillaga frá 19. fundi skipulagsnefndar, frá 6. desember sl., liður 2. Hjalladæl - Deiliskipulag íbúðabyggðar Eyrarbakka.

Lögð er fram að nýju til samþykktar, breytt tillaga að deiliskipulagi íbúðabyggðar við Hjalladæl á Eyrarbakka. "Lýsing deiliskipulags hefur verið kynnt með auglýsingu og var það gert árið 2020. Bæjarstjórn Árborgar samþykkti deiliskipulagstillöguna til auglýsingar á fundi sínum 28.4.2021. Tillagan var auglýst 12.5.2021, og var athugasemdafrestur til 23.6.2021. Engar athugasemdir bárust."
Fram lögð breytt deiliskipulagstillaga nú, tekur til um 6ha svæðis, við norðanverða Túngötu og Hjalladæl á Eyrarbakka. Skipulagið nær til núverandi húsa norðan Túngötu og gerir ráð fyrir framlengingu á Hjalladæl. Gatan Hjalladæl lengist um 330m til vesturs og um 140m til austurs. Við það verða til 5 nýjar lóðir fyrir þriggja íbúða raðhús, 8 lóðir fyrir parhús og 6 lóðir fyrir einbýlishús, þ.e. 15 íbúðir í raðhúsum, 16 íbúðir í parhúsum og 6 íbúðir í einbýlishúsum, samtals 37 nýjar íbúðir.
Skilgreindar eru lóðir og byggingareitir á lóðum norðan Túngötu á milli lóða nr. 20 til 66 og gerð grein fyrir byggingarmagni á þeim lóðum, í töflu 1.1. á uppdrætti.
Forsendur breytinga:
Talið er æskilegt er að auka lóðaframboð á hagkvæmu íbúðarhúsnæði í þegar byggðum hverfum á Eyrarbakka og stuðla þannig að aukinni uppbyggingu en nokkuð er farið að bera á lóðaskorti.
Til staðar eru tvö eldri deiliskipulög á skipulagssvæðinu (sjá yfirlitsmynd 02). Hið fyrra er deiliskipulag Svæðis 2 (gul brotin lína) sem samþykkt var í hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps 13. maí 1989 og hið síðara (appelsínugul brotin lína) er deiliskipulag fyrir Hjalladæl, samþykkt í bæjarstjórn Árborgar 14. júlí 2004. Bæði þessi deiliskipulög falla úr gildi
við gildistöku þessa nýja deiliskipulags. Búið er að byggja á flestum lóðum hinna tveggja eldri deiliskipulaga sem nefnd eru hér að framan ef undan er skilið tvær vestustu lóðirnar norðan Túngötu á Svæði 2. Á þeim tveimur lóðum er nú lagt til að þær breytist úr eins og hálfrar hæðar einbýlishúsi í einnar hæðar raðhús. Nýtt deiliskipulag miðbæjar Eyrarbakka frá 2015
(blá brotin lína á yfirlitsmynd 02) gildir fyrir svæði sunnan Túngötu.

Deiliskipulagstillagan er í samræmi við gildandi aðalskipulag Árborgar 2020-2036, sem gerir ráð fyrir íbúðabyggð (ÍB30).
Nefndin telur ekki nauðsynlegt að kynna að nýju skipulagslýsingu, þar sem það liggja fyrir allar forsendur til samræmis við Aðalskipulag Árborgar 2020-2036.

Skipulagsnefnd samþykkti tillöguna til auglýsingar í samræmi við 41 gr. skipulagslaga nr,123/2010, og mæltist til að bæjarstjórn Árborgar samþykkti tillöguna til auglýsingar í samræmi við 41.gr skipulagslaga.

Bragi Bjarnason, D-lista, Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, D-lista, Arnar Ólafsson, B-lista, og Sigurjón Vídalín Guðmundsson, S-lista taka til máls.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 11 atkvæðum.
Hjalladæl DSK. 2.12.2023.pdf
5. 2310366 - Tryggvagata 15 - Breyting á deiliskipulagi 2023
Tillaga frá 19. fundi skipulagsnefndar frá 6. desember sl., liður 3. Tryggvagata 15 - Breyting á deiliskipulagi 2023.

Lagðar eru fram þrjár tillögur (A,B og C) að breytingu á gildandi deiliskipulagi skóla- og sundhallarreits við Tryggvagötu 15, á Selfossi.
Breytingin nær til nyrsta hluta sundhallarreits. Meginbreytingin fellst í að gert er ráð fyrir að heimilt verði að byggja tvær hæðir, í stað einnar hæðar sem var samþykkt í deiliskipulagsbreytingu með birtingu í B-deild stjórnartíðinda 23.9.2019.
Tillaga A og B er svipaðar, þ.e. báðar með gegnumakstri frá Tryggvagötu yfir á Bankaveg.
Tillaga A gerir réð fyrir einstefnuakstri en í tillögu B er gert ráð fyrir tvístefnuakstri og bílastaæði í bæði tillögu A og B halda sér sunnan við Sandvíkursetur.
Í tillögu C er gert ráð fyrir svæði án gegnumaksturs, þ.e. göngugötu með stóru torgi auk trjágróðurs og gróðurbeðum.
Samfara ofangreindum breytingum verða lóðamörk Tryggvagötu færð til norðurs, auk þess sem lóðarlína á austurmörkum Sandvíkurseturs eru færð nokkra metra til vesturs.

Skipulagsnefnd samþykkti tillögu A í samræmi við 43.gr. skipulagalaga nr. 123/2010 og samþykkti að tillagan yrði auglýst skv.41 gr. sömu laga, og mæltist til að Bæjarstjórn Árborgar samþykkti tillöguna skv. 43.gr. skipulagslaga og til auglýsingar í samræmi við 41.gr sömu laga.

Bragi Bjarnason, D-lista, Álfheiður Eymarsdóttir, Á-lista og Arnar Freyr Ólafsson, B-lista taka til máls.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt með alls 10 atkvæðum, þ.e. 6 atkvæðum fulltrúa D-lista, 2 atkvæðum fulltrúa S-lista, 2 atkvæðum fulltrúa B-lista, Álfheiður Eymarsdóttir fulltrúi Á-lista situr hjá.

Álfheiður Eymarsdóttir, Á-lista gerir grein fyrir atkvæði sínu.
Sandvik-dSK-04-breyting2023_Breyt-Sundholl-2023-varC.pdf
Sandvik-dSK-04-breyting2023_Breyt-Sundholl-2023-varB.pdf
Sandvik-dSK-04-breyting2023_Breyt-Sundholl-2023-varA.pdf
6. 2311424 - Austurvegur 11 og Tryggvagata 8 - Deiliskipulagsbreyting
Tillaga frá 19. fundi skipulagsnefndar frá 6. desember, liður 4. Austurvegur 11 og Tryggvagata 8 - Deiliskipulagsbreyting.

Breytingin tekur til verslunar- og þjónustulóðanna að Austurvegi 11 og Tryggvagötu 6 á Selfossi.
"Markmið breytingarinnar er að heimila uppbyggingu í samræmi við stefnur og ákvæði sem sett eru fram í nýju Aðalskipulagi Árborgar 2020-2036. Frá því að gildandi deiliskipulag var tekið í gildi hefur mikil uppbygging átt sér stað á Selfossi og er miðbæjarsvæði bæjarins í miklum vexti. Mikil eftirspurn er eftir verslunar- og þjónusturýmum á svæðinu en einnig eftir íbúðum þar sem íbúafjöldi hefur stóraukist á undanförnum árum. Austurvegur er mikilvæg miðja verslunar, þjónustu og stjórnsýslu í sveitarfélaginu og er lögð áhersla á að meðfram Austurveginum byggist upp aðlaðandi og líflegt bæjarumhverfi. Austurvegur 11 (1132 m2) er þegar byggð, þar stendur hús á einni hæð sem er nýtt undir verslunarstarfsemi. Núverandi nýtingarhlutfall lóðar er 0,6. Tryggvagata 8 (486 m2) er óbyggð lóð og með breytingunni er byggingarreitur lóðar felldur út. Heimilt verður að hafa bílastæði innan lóðar og er gert ráð fyrir aðkomu um lóð Austurvegar 11."
Breyting á gildandi deiliskipulagi fellst í að nýtingarhlutfall á lóðinni Austurvegur 11, er aukið úr 0,6, í 2,0 ofanjarðar og 1,0 neðanjarðar, sem er í samræmi við ákvæði um miðsvæði (M4), í gildandi Aðalskipulagi Árborgar 2020-2036. Tryggvagata 6, breytist og verður Tryggvagata 8, og mun þjóna Austurvegi 11, sem bílastæðalóð. Heimilt verður byggja á Austurvegi 11, allt að 4 hæða hús, auk bílakjallara.

Skipulagsnefnd samþykkti tillöguna í samræmi við 43.gr. skipulagalaga nr. 123/2010 og samþykkti að tillagan yrði auglýst skv.41 gr. sömu laga, og mæltist til að bæjarstjórn Árborgar samþykkti tillöguna skv. 43.gr. skipulagslaga og til auglýsingar í samræmi við 41.gr sömu laga, að teknu tilliti til nýrrar samþykktar Sveitarfélagsins Árborgar um samningsákvæði vegna aukins byggingarmagns og nýtingarhlutfalls.

Bragi Bjarnason, D-lista tekur til máls.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 11 atkvæðum.
2839-109-DSK-V01- Austurvegur 11.pdf
7. 2311376 - Breyting á reglum um stuðnings og stoðþjónustu fyrir fullorðinna einstaklinga
Tillaga frá 6. fundi velferðarnefndar frá 30. nóvember, liður 3. Breyting á reglum um stuðnings- og stoðþjónustu fyrir fullorðinna einstaklinga.

Lagt er fyrir Velferðarnefnd minnisblað um breytingar á reglum Árborgar um stoð- og stuðningsþjónustu fullorðinna.

Velferðarnefnd samþykkti breytingu á reglum um stoð- og stuðningsþjónustu fullorðinna hjá sveitarfélaginu Árborg. Velferðarnefnd lagði til við Bæjarstjórn að samþykkja breytinguna.

Bragi Bjarnason, D-lista tekur til máls.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 11 atkvæðum.
8. 2311369 - Reglur um daggæslu barna í heimahúsum
Tillaga frá 6. fundi velferðarnefndar, frá 30. nóvember, liður 4. Reglur um daggæslu barna í heimahúsum.

Lagt var fyrir minnisblað vegna breytinga á reglum sveitarfélagsins um daggæslu í heimahúsi. Velferðarnefnd samþykkti breytingu á reglum um daggæslu í heimahúsi fyrir sitt leyti og vísaði áfram til afgreiðslu í bæjarstjórn.

Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, D-lista tekur til máls.

Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja reglurnar.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 11 atkvæðum.
9. 2311364 - Reglur um skólahverfi, innritun og umsóknir í grunnskóla Árborgar
Tillaga frá 9. fundi fræðslunefndar, frá 6. desember, liður 3. Reglur um skólahverfi, innritun og umsóknir í grunnskóla Árborgar.

Nýjar reglur um skólahverfi, innritun og umsóknir í grunnskóla Árborgar lagðar fram til samþykktar.

Fræðslu- og frístundanefnd samþykkti reglurnar og vísar áfram til afgreiðslu bæjarstjórnar.


Brynhildur Jónsdóttir, D-lista og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista taka til máls.

Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja reglurnar.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 11 atkvæðum.
10. 2301250 - Reglur um þjónustu frístundaheimila 2023
Tillaga frá 9. fundi fræðslu- og frístundanefndar, frá 6. desember, liður 2. Reglur um þjónustu frístundaheimila 2023.

Fræðslu- og frístundanefnd óskaði eftir að liður 1.b.a. yrði skýrður betur. Að öðru leyti samþykkti nefndin reglurnar og vísaði til bæjarstjórnar til afgreiðslu.

Brynhildur Jónsdóttir, D-lista tekur til máls.

Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja reglurnar.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 11 atkvæðum.
11. 2312193 - Samningur um samræmda móttöku flóttafólks
Beiðni félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins um endurnýjun á samningi um samræmda móttöku flóttamanna í Árborg.
Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, D-lista, Álfheiður Eymarsdóttir, Á-lista og Arnar Freyr Ólafsson, B-lista taka til máls.

Lagt er til við bæjarstjórn Árborgar að samþykkja að fela sviðstjóra fjölskyldusviðs að vinna áfram að útfærslu samningsins og leggja hann fyrir bæjarráð til afgreiðslu þegar endanleg útgáfa liggur fyrir.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 11 atkvæðum.

12. 2311161 - Gjaldskrár 2024
Síðari umræða.
1) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir frístundaheimili, frístundaklúbba og sumarfrístund 2024
2) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir leikskólum Árborgar 2024
3) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir fæði í grunnskólum Árborgar 2024
4) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir hunda- og kattahald í Árborg 2024
5) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir bókasöfn Árborgar 2024
6) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir félagslega stuðningsþjónustu í Árborg 2024
7) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir leigubílaakstur aldraðra í Árborg 2024
8) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir Grænumörk 2024
9) Tillaga að breytingu á gjaldskrá húseigna 2024
10) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir sundstaði í Árborg 2024
11) Tillaga að breytingu á gjaldskrá íþróttahúsa í Árborg 2024
12) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir heimsendan mat í Árborg 2024
13) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir vatnsveitu 2024
14) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir skipulags- og byggingardeild 2024
15) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir fráveitu (tæming rotþróa) í Árborg 2024
16) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir sorphirðu í Árborg 2024
17) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir gámasvæði Árborgar 2024
18) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir Selfossveitur 2024


Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja breytingar á gjaldskrám fyrir fæði í grunnskólum og fyrir heimsendan mat í Árborg milli umræðna, ekki er breyting á öðrum gjaldskrám á milli umræðna.

Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja gjaldskrár fyrir árið 2024.

Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, D-lista tekur til máls.

Tillaga að gjaldskrám 2024 eftir atvikum með áorðnum breytingum eru bornar undir atkvæði og samþykktar með alls 9 atkvæðum, þ.e. 6 atkvæðum fulltrúa D-lista, 2 atkvæðum fulltrúa B-lista og 1 atkvæði fulltrúa Á-lista. Bæjarfulltrúar S-lista sitja hjá.
Gjaldskrá 2024 frístund og sumarfrístund.pdf
Gjaldskrá leikskóla 2024.pdf
Gjaldskrá fyrir fæði í grunnskólum í Árborg 2024_loka.pdf
Gjaldskrá hunda og kattahald 2024.pdf
Gjaldskrá Bókasafna Árborgar 2024 (1).pdf
Gjaldskrá fyrir félagslega stuðningsþjónustu 2024.pdf
Gjaldskrá fyrir leigubílaakstur aldraðra í Árborg 2024.pdf
Gjaldskrá fyrir Grænumörk 2024.pdf
Gjaldskrá húseigna 2024.pdf
Gjaldskrá Sundlauga Árborgar frá 1.jan 2024.pdf
Gjaldskrá - Íþróttahús í Árborg 2024.pdf
Gjaldskrá fyrir heimsendan mat í Árborg 2024_loka.pdf
Gjaldskrá vatnsveitu Árborgar - 2024.pdf
Skip-bygg gjaldskrá 2024.pdf
Gjaldskrá vegna fráveitu í Árborg 2024.pdf
Gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs og sorphirðu í Árborg 2024.pdf
Gjaldskrá gámasvæðis í Árborg 2024.pdf
Gjaldskrá Selfossveitna 2024.pdf
13. 2306129 - Fjárhagsáætlun 2024-2027
Síðari umræða.
Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, D-lista, Álfheiður Eymarsdóttir, Á-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Bragi Bjarnason, D-lista, Arnar Ólafsson, B-lista, Ellý Tómasdóttir, B-lista, Sigurjón Vídalín Guðmundsson, S-lista, Sveinn Ægir Birgisson, D-lista og Þórhildur Dröfn Ingvadóttir, D-lista taka til máls.


Bókun bæjarfulltrúa Á-lista:

Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins Árborgar.

Eftirlitsnefnd sveitarfélaga gerir kröfu um ákveðið skuldaviðmið upp á 150%. Það þýðir að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum sveitarfélagsins. Hún gerir ennfremur kröfu um jafnvægisreglu sveitarfélaga, þ.e. að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A- og B-hluta í reikningsskilum séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en sem nemur samanlögðum reglulegum tekjum.
Við uppfyllum hvorugt viðmið eftirlitsnefndarinnar.
Samstarf við gerð fjárhagsáætlunarinnar gekk að mestu leyti vel og ég vil enn og aftur þakka starfsfólki sveitarfélagsins og kollegum mínum í bæjarstjórn fyrir góða samvinnu. Þetta var þung vinna og engir skemmtifundir.
Það sem var kannski erfiðast var að aðgerðirnar sem grípa þurfti til komu við alla íbúa sveitarfélagsins. Við reyndum eins og við gátum að hlífa öryrkjum, eldra fólki, barnafjölskyldum, börnum og unglingum með sérþarfir og öðrum þeim sem reiða sig sérstaklega á þjónustu sveitarfélagsins. En það reyndist ómögulegt ef við ætluðum að standast skuldbindingar við eftirlitsnefndina.
En staðan er þessi og bæjarstjórnin var einhuga um flestar aðgerðir sem gripið hefur verið til. Þó ekki allar. Sumt var mjög vel gert en annað miður vandað eins og gengur.
Það eru nokkur atriði sem ég vil minnast sérstaklega á.
Í greinargerð með fjárhagsáætlun er tekið fram að henni sé skilað með afgangi upp á tæpar 35mkr árið 2024. Ég vil ítreka að það er A og B hluti. A hlutinn, rekstur sveitarfélagsins, er enn rekinn í mínus upp á tæpar 870 milljónir árið 2024.
Við höfum lagst í sársaukafullar aðgerðir í rekstri og mikinn niðurskurð í fjárfestingum til að ná þessum árangri í excelskjalinu. Það er þó ljóst að þetta er ansi knappt og spurning hvort áætlunin sé raunhæf. Ég er ekki viss um það, sérstaklega miðað við þær forsendur sem notaðar eru um verðbólgu næsta árs. Ég held að þjóðhagsspá um 5,6% verðbólgu 2024 sé út úr kortinu og við þurfum að búa okkur undir þyngri verðbólgu en spáð er.
Nú fjárhagsvandi Árborgar er margþættur.
Skuldastaðan versnar verulega vegna verðbólgunnar en lánasafn sveitarfélagsins er að langmestum hluta verðtryggt. Á árinu 2024 greiðum við um 6 milljarða í afborganir langtímalána. Þetta er tæpur þriðjungur af heildarveltu sveitarfélagsins. Og við erum enn að taka lán. Við erum litla Grikkland í bili, að taka lán fyrir afborgunum annarra lána. Við erum í miklum skuldavanda og ljóst að lánsþörfin er töluverð á næsta ári.
Við erum með neikvætt eigið fé upp á 5,6 milljarða árið 2024. Það er auðvitað óásættanlegt.
En þetta eru langtímaverkefni að koma fjárhagsvanda sveitarfélagsins í bærilegt horf. Það verður ekki gert á einu ári, ekki tveimur og varla á þremur. Sérstaklega þegar við horfum til efnahagsumhverfisins sem er lítið að hjálpa okkur.
Skipinu er ekki snúið við á nóinu.
Við í Áfram Árborg komum með margar tillögur, tillögur sem var tekið tillit til en einnig tillögur sem var sópað út af borðinu eða lítið ræddar.
Við hefðum gert margt öðruvísi.
Okkur fannst að sveitarfélagið hefði átt að þrýsta verulega á eftirlitsnefnd sveitarfélaga og Innviðaráðuneytið til að fá sveigjanleika og meiri tíma til að koma fjármálunum í betra horf.
Ég hef gert athugasemdir um hvernig staðið var að uppsögnum starfsfólks eftir að fólk kom að máli við mig en við keyptum utanaðkomandi ráðgjöf og þjónustu sem kostaði eina milljón. Fyrir eina milljón hefði maður haldið að hægt hefði verið að standa sómasamlega að uppsögnunum. Þetta hefur gríðarleg áhrif á heilu fjölskyldurnar og við erum að eiga við starfsfólk. Lifandi manneskjur. Þá þarf að vanda sig. Við erum stór atvinnurekandi og verðum að standa okkur vel í því hlutverki.
Það var ráðist að vandanum úr öllum áttum, niðurskurður í rekstri, niðurskurður í fjárfestingum, gjaldskrár hækkaðar, þjónusta skert og ýmis ólögbundin þjóðþrifaverkefni lögð niður. Plús 10% álag á útsvar. Við hefðum heldur viljað ná þeim fjármunum sem álagið skilar með ððrum aðgerðum. Álag á útsvar bitnar á íbúum sem sumir hverjir eru í fjárhagsvanda rétt eins og sveitarfélagið. Og álagið gerir sveitarfélagið ekki eins ákjósanlegt til búsetu.
Okkur fannst einnig skammsýni að selja byggingarland. Það gefur okkur bara einskiptistekjur. Þess í stað vildum við að sveitarfélagið ætti landið, seldi byggingarrétt og fengi lóðaleigu árlega.
Við vorum með enn fleiri tillögur og þetta er ekki tæmandi listi:
Engar veitingar á fundum
Enga launaða starfshópa
Engin risna
Starfsmannaferðum frestað
Fjárfestingaáætlun verði í 1.5M þar til við náum jafnvægisreglu og erum komin undir skuldaviðmið. Eftir það fari fjárfestingar eftir fjárhagsstöðu.
Neita öllum hækkunum í byggðasamlögum og öðrum samstarfsverkefnum (SASS ofl) umfram fjárfestingakostnað og launahækkanir. Hér erum við því miður ekki einráð og oft í minnihluta og getum lítið um það sagt þegar lögð er til útgjaldaaukning og ný verkefni. Þetta er mjög bagalegt fyrir sveitarfélag sem er að skera niður útgjöld.
Byggðasamlög og samvinnuverkefni af ýmsu tagi verður að leggjast betur yfir. Við lögðum td fram tillögu sem var samþykkt af bæjarstjórn um að endurskoða Bergrisann með tilliti til kostnaðar og hvað við fáum fyrir hann. Þetta hefur enn ekki verið gert.
Engin ný verkefni. Gerum betur það sem við erum þegar að gera.
Yfirvinnu og ráðningabann.
Athuga sérstaklega með alla aðkeypta þjónustu og minnka hana eins og mögulega er hægt.
Endurskoða alla þjónustusamninga.
Athuga með betri nýtingu húsnæðis í eigu sveitarfélagsins.
Fara vel yfir yfirbyggingu sveitarfélagsins.
Meiri sjálfsafgreiðslu á vef (sparar sporin fyrir íbúa og starfsfólk)
Formaður bæjarráðs fari úr 100% stöðugildi í 50%
Opið bókhald. Þetta er bráðnauðsynlegt, sérstaklega undir þessum kringumstæðum en er ekki enn komið á koppinn. Íbúarnir veita besta aðhaldið. Og þeir eiga rétt á því að vita hvert fjármunir sveitarfélagsins renna. Ég legg því eindregið til að opið bókhald verði eitt af forgangsverkefnum á nýju ári.
Svo þarf að koma veitunum alfarið í sjálfstæð B hluta fyrirtæki, þetta er rassvasabókhald eins og er, ógagnsætt og vafasamar millifærslur sem eru ekki skynsamlegar.
Við eigum enn langt í land. Það sýnir rekstrarhallinn í A hluta upp á tæpar 870 milljónir á næsta ári.
Það þarf að fara enn betur yfir reksturinn.
Ég hefði heldur viljað sjá fleiri verkefnum sem ekki eru lögbundin frestað frekar en að leggja álag á útsvar.
En ég ætla ekki að standa í vegi fyrir fjárhagsáætluninni þó ég mér finnist hún ansi brött og óraunhæf. Eiga jafnvel heima í þorrablótsnefndinni. Og ég er mjög svekkt með álagið á útsvarið.
Ég ætla að enda þetta á bjartsýni, samstarf gengur vel, vonum að efnahagsumhverfi landsins skáni og vinni með okkur, vonum að sem flestar þessar aðgerðir skili tilætluðum árangri og séu tímabundnar þannig að hér verði áfram blómleg byggð þar sem fólk vill búa og starfa.

Álfheiður Eymarsdóttir, bæjarfulltrúi, Á lista, Áfram Árborgar.

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista óskar eftir fundarhléi. Fundarhlé tekið kl. 19.02. Fundi fram haldið kl. 19.17.

Fjárhagsáætlun 2024 og 3ja ára áætlun eru bornar undir atkvæði og samþykktar með 6 atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista. Bæjarfulltrúar Á-, B- og S-lista sitja hjá undir atkvæðagreiðslunni.

Bókun bæjarfulltrúa Á-, B- og S- lista:
Bókun vegna fjárhagsáætlunar Svf. Árborgar fyrir árið 2024:

Það ríkja óvenjulegir tímar í efnahagsmálum á Íslandi, þar sem gríðarlega háir stýrivextir og verðbólga hefur verið staðreynd um allt of langt skeið. Slíkt efnahagsástand kemur auðvitað illa við alla íbúa landsin en ekki síður við sveitarfélög þar sem íbúafjölgun hefur verið hátt í 30% á örfáum árum eins og raunin er með Svf. Árborg. Hröð uppbygging innviða til þess að mæta þörf fyrir aukna þjónustu hefur kallað á skuldsetningu með tilheyrandi hækkunum á fjármagnskostnaði eins og nú árar.
Í þeirri fjárhagsáætlun sem hér er til umfjöllunar eru gjaldskrár hækkaðar verulega. Mikil og sársaukafull hækkun verður á fasteignagjöldum auk þess sem lagt verður á íbúa 10% viðbótarútsvar. Undirritaðir bæjarfulltrúar lýsa yfir nokkrum vonbrigðum með þann ósveigjanleika sem Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga hefur viðhaft í því samstarfi sem Svf. Árborg gekk að. Það hefur haft í för með sér skattpíningu á íbúa eins sveitarfélags án þess að tekið sé tillit til þess að íbúar eru nú þegar að fást við mikla efnahagslega erfiðleika vegna hárra vaxta og verðbólgu. Þar sem Svf. Árborg hefur lagt fram ábyrga áætlun um hvernig unnið verður að því að komast úr erfiðri fjárhagsstöðu sætir það nokkurri furðu að ekki hafi verið hægt að veita frekara svigrúm í tíma þar sem allar líkur eru til þess að með þeirri áætlun sem unnið er eftir megi ná skuldaviðmiðum fjármálareglna innan ásættanlegs tíma.
Bæjarstjórn hefur átt gott samstarf um vinnslu fjárhagsáætlunar þar sem ræddar hafa verið tillögur og hugmyndir í þeirri viðleitni að ná fram sem bestri niðurstöðu í reksturinn á komandi tímum. Við væntum þess að áfram verði unnið að því að leita leiða til þess að bæta reksturinn með starfsfólki sveitarfélagsins þar sem ekki hefur náðst að klára að vinna með allar tillögur og hugmyndir.
Við viljum að lokum þakka starfsfólki sveitarfélagsins fyrir þeirra mikilsverða framlag við fjárhagsáætlunargerðina og margar góðar tillögur til þess að ná sem mestri skilvirkni í rekstri Svf. Árborgar.
Undirrituð sitja hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar þrátt fyrir að vera í meginatriðum sammála framlagðri áætlun. Áfram eru það vonbrigði að á fjárhagslega erfiðum tímum verður þóknun formanns bæjarráðs áfram 65% af þingfararkaupi í stað 21% eins og var áður. Með þessu verður sveitarfélagið af sparnaði upp á 7 milljónir á ári sem er erfitt að verja þegar illa árar.

Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi, S-lista
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, bæjarfulltrúi, S-lista
Arnar Freyr Ólafsson, bæjarfulltrúi, B-lista
Ellý Tómasdóttir, bæjarfulltrúi, B-lista
Álfheiður Eymarsdóttir, bæjarfulltrúa, Á-lista.

Bókun bæjarfulltrúa D-lista:
Hér liggur fyrir samþykkt fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árin 2024-2027. Í fjárhagsáætluninni er lögð áhersla á að standa vörð um grunnþjónustu við íbúa en það gera sér þó allir grein fyrir því að næsta ár verður íþyngjandi með hækkun gjalda.
Áætluninni gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu sveitarfélagsins fyrir A- og B hluta sem er gott skref í rétta átt og vilja bæjarfulltrúar D-lista þakka öllum þeim sem hafa komið að vinnunni hingað til. Þrátt fyrir þennan góða árangur sem er að nást verðum við áfram að gæta aðhalds í rekstrinum, forgangsraða, auka tekjur og selja eignir til að ná fram þeim fjárhagslegu markmiðum sem koma fram í samningi sveitarfélagsins við Innviðaráðuneytið. Bæjarfulltrúar D-lista munu vinna áfram að verkefninu með öðrum bæjarfulltrúum, starfsmönnum og hagsmunaaðilum með hag Sveitarfélagsins Árborgar og íbúa þess að leiðarljósi.

Bragi Bjarnason, bæjarfulltrúi, D-lista
Fjóla St. Kristinsdóttir, bæjarfulltrúi, D-lista
Kjartan Björnsson, bæjarfulltrúi, D-lista
Sveinn Ægir Birgisson, bæjarfulltrúi, D-lista
Brynhildur Jónsdóttir, bæjarfulltrúi, D-lista
Þórhildur Dröfn Ingvadóttir, bæjarfulltrúi, D-lista.
Sveitarfélagið Árborg fjárhagsáætlun 2024-2027 seinni umræða.pdf
Greinargerð með fjárhagsáætlun 2024-2027 Seinni umræða.pdf
14. 2206157 - Fundartími bæjarstjórnar kjörtímabilið 2022-2026
Fundur bæjarstjórnar í janúar.
Lagt er til að fella niður fund 3. janúar og að næsti fundur bæjarstjórnar verði 17. janúar.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 11 atkvæðum.
Fundargerðir
15. 2311025F - Bæjarráð - 64
64. fundur haldinn 30. nóvember.
Álfheiður Eymarsdóttir, Á-lista og Bragi Bjarnason, D-lista taka til máls undir dagskrárlið 3, varðandi Björkustykki.
16. 2311026F - Eigna- og veitunefnd - 25
25. fundur haldinn 28. nóvember.
17. 2311021F - Skipulagsnefnd - 18
18. fundur haldinn 29. nóvember.
18. 2311030F - Velferðarnefnd - 6
6. fundur haldinn 30. nóvember.
19. 2311034F - Ungmennaráð - 14/2023
14. fundur haldinn 31. október.
20. 2311035F - Ungmennaráð - 15/2023
15. fundur haldinn 21. nóvember.
21. 2312001F - Bæjarráð - 65
65. fundur haldinn 7. desember.
Bragi Bjarnason, D-lista tekur til máls undir dagskrárlið 6, Svæðisskipulag við sveitarfélagamörk við Flóahrepp
Bæjarstjórn Árborgar sendir starfsmönnum og íbúum öllum hugheilar jóla- og nýárskveðjur með þökk fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.



Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:28 

Til baka Prenta

Eldri fundargerðir

Einnig er hægt að nálgast eldri fundargerðir.

Sjá eldri fundargerðir
Þetta vefsvæði byggir á Eplica