Vegur til visku og velferðar
Menntastefna Sveitarfélagsins Árborgar til 2030
Menntastefna Sveitarfélagsins Árborgar 2030 | kynningarmyndband
Inngangur
Menntastefna Árborgar ber heitið Vegur til visku og velferðar og er ætlað að vera öllum þeim sem vinna með börnum og unglingum sveitarfélagsins leiðbeinandi leiðarljós að farsælu námi og frístundastarfi. Menntastefnan inniheldur eitt meginmarkið, þrjú leiðarljós og fimm stoðir sem að styðja við og leiðbeina um það hvernig faglegt skóla- og frístundarstarf er framkvæmt í sveitarfélaginu með vellíðan barna og unglinga í huga.
Byggt var á niðurstöðum úr rýnihópum og spurningakönnunum sem lagðar voru fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskóla, íþróttahreyfingar og frístundaþjónustu á vordögum 2023. Menntastefnan byggir einnig á Menntastefnu stjórnvalda til 2030, grunnþáttum menntunar og gildandi aðalnámskrám leik- og grunnskóla auk Barnasáttmála og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Þverfaglegur hópur hagaðila tók þátt í gerð menntastefnunnar og fékk hún umsögn frá foreldraráðum leik- og grunnskóla, fræðslu- og frístundanefnd og þverfaglegum hópi starfsfólks fjölskyldusviðs.
Menntastefna Árborgar var samþykkt af bæjarstjórn í júní 2024 og gefin út 20. ágúst 2024. Innleiðing stefnunnar hefst skólaárið 2024-2025 og verður framkvæmd í áföngum þar sem áherslur hennar munu speglast í skólanámskrám, starfsáætlunum og aðgerðaáætlunum hverrar stofnunar fyrir sig. Menntastefnan verður endurskoðuð a.m.k. einu sinni á gildistímanum.
Meginmarkmið menntastefnu Árborgar
Meginmarkmið menntastefnunnar er að veita öllum börnum og unglingum í Árborg jafnan aðgang að framúrskarandi og inngildandi menntun og frístundastarfi í öruggu, fjölbreyttu og áhugahvetjandi umhverfi. Börn og unglingar hafi jöfn tækifæri til að þroska og rækta hæfni sína í námi og leik og njóti farsældar í daglegu lífi þar sem áhersla er lögð á virðingu fyrir einstaklingnum og umhverfinu, jákvæða sjálfsmynd, vellíðan og góða félagsfærni.
Menntastefnan byggir á þremur leiðarljósum sem eiga að einkenna allt starf með börnum og unglingum í Árborg. Leiðarljósin: Farsæld í fyrirrúmi, Fjölbreytileiki og Faglegt lærdómssamfélag eru lykillinn að því gæða starfi sem einkennir skóla- og frístundastarf í Árborg.
Farsæld í fyrirrúmi
Börn og unglingar eru hjartað í kerfinu. Þau eiga rétt á að borin sé virðing fyrir skoðunum þeirra, menningu og fjölbreytileika. Lögð er áhersla á að þau þekki réttindi sín og skyldur, læri að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum og kunni að beita gagnrýnni og skapandi hugsun í daglegu lífi. Börn og unglingar eiga að fá tækifæri til að segja skoðanir sínar á þeim málefnum sem þau varða og hafa áhrif á líf þeirra.
Börnum og unglingum á að líða vel í námi og leik þar sem umhverfi og aðstæður eru aðlagaðar að aldri þeirra og þroska. Þau eiga að fá tækifæri til að rækta sjálfsmynd sína, félagsfærni, sjálfstæði, seiglu, hæfileika og færni í öruggu og áhugahvetjandi umhverfi.
Farsæld barna og unglinga felur í sér að tryggja aðstæður og umhverfi sem skapa þeim skilyrði til að þroskast og blómstra á eigin forsendum til framtíðar. Starfsfólki sem vinnur með börnum og unglingum ber að vinna saman að farsæld þeirra og tryggja að þau fái þá þjónustu sem þau þurfa, á réttum tíma frá réttum aðilum.
Fjölbreytileiki
Til að skapa börnum og unglingum öruggt umhverfi og jöfn tækifæri þar sem hæfni þeirra og fjölbreytileiki fá að njóta sín er mikilvægt að ýta undir virka þátttöku í skóla- og frístundastarfi. Öflugt og gott samstarf við foreldra er lykillinn að virkri þátttöku.
Mikilvægt er að leiðbeina og hlúa að heilbrigðri og jákvæðri sjálfsmynd og leggja áherslu á virðingu fyrir fjölbreytileikanum í allri sinni mynd. Í skóla- og frístundastarfi er unnið að eflingu umburðarlyndis, mannréttinda- og lýðræðisvitundar.
Árborg er fjölmenningarlegt samfélag þar sem litið er á ólíkan tungumála- og menningarbakgrunn sem auðlind. Sú sýn endurspeglar starfshætti allra sem vinna með börnum og unglingum í sveitarfélaginu og byggir skipulag skóla- og frístundastarfs á að skapa umhverfi þar sem börn og unglingar upplifa að þau hafi rödd og áhrif í samfélaginu.
Faglegt lærdómssamfélag
Til að tryggja gæða menntun og jafnræði í skóla- og frístundastarfi er hugmyndafræði lærdómssamfélagsins höfð að leiðarljósi. Faglegt lærdómssamfélag stuðlar að samvinnu og sameiginlegri sýn skólasamfélagsins og byggir á fagmennsku, teymisvinnu, ígrundun í námi og starfi og árangursríkri starfsþróun. Lögð verður áhersla á hæfni og faglegt sjálfstæði kennara og annarra fagaðila auk fjölbreyttra kennsluaðferða, nýsköpunar og samvinnu fagfólks þar sem fjölbreytt sérþekking er höfð að leiðarljósi.
Faglegt lærdómssamfélag felur m.a. í sér samtal og samstarf á milli foreldra, skóla- og frístundastofnana sem og við atvinnulífið og nærsamfélagið þar sem jafnræði í námi og kennslu er tryggt og börn, unglingar og starfsfólk fá tækifæri til að læra hvert af öðru og hvert með öðru.
Starfsfólki er gefinn kostur á öflugri endurmenntun og starfsþróun sem tekur mið af áskorunum samfélagsins hverju sinni. Þekking og hæfniþróun starfsfólks er talinn einn veigamesti þátturinn til að tryggja gæða kennslu og skal leitast við að skapa svigrúm til að starfsfólk geti aukið þekkingu sína og hæfni, kynnt sér faglegar nýjungar og eflt samstarf sín á milli. Áfram verður unnið að eflingu innra mats og faglegri starfsþróun í góðu samstarfi við skólayfirvöld.
Menntastefna Árborgar hvílir á fimm megin stoðum sem eiga að ná utan um þær áherslur sem lagðar eru í öllu starfi með börnum og unglingum. Stoðunum er ætlað að stuðla að farsæld allra barna og unglinga í Árborg bæði í námi og leik og tryggja að þau fái tækifæri til að efla hæfni sína og færni til framtíðar.
Stoðirnar eru: Vellíðan í öndvegi, jöfn tækifæri, gæða menntun, hæfni fyrir framtíðina og umhverfi og samfélag.
Vellíðan í öndvegi
Í Árborg er lögð áhersla á að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, góðri andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan. Börn og unglingar fá markvissa fræðslu um heilbrigðan lífsstíl, holla neysluhætti og mikilvægi hreyfingar og íþróttaiðkunar. Hamingja og vellíðan barna og unglinga er í öndvegi þar sem góð félagsfærni og jákvæð samskipti eru einn af lykilþáttum vellíðunar, virkni og árangurs í námi og frístundastarfi.
Gleði þarf að vera ríkjandi í umhverfi barna og unglinga svo upplifun þeirra verði í senn gefandi og skemmtileg. Að læra í gegnum leik er grunnur að þroskaferli sérhvers barns en leikurinn færir jafnframt ótal tækifæri til að upplifa gleði, efla sköpunarhæfni og stuðla að vellíðan. Börn og unglingar eiga að upplifa vinsemd og virðingu og að ávallt sé haft í huga hvað þeim er fyrir bestu.
Í öllu skóla- og frístundastarfi er öflug forvarnarfræðsla. Gott samstarf við forvarnateymi sveitarfélagsins, foreldrasamfélagið og íþróttahreyfinguna er lykilþáttur svo tryggja megi öflugar forvarnir. Áhersla verður lögð á að fyrirbyggja þróun óheilbrigðra samskipta, áhættuhegðunar og ofbeldis. Það verður m.a. gert með fræðslu um hegðunar-, félags- og tilfinningafærni, jákvæð samskipti, kynheilbrigði, hinsegin fræðslu og réttindi hvers og eins. Gætt verður að jafnréttissjónarmiðum og að börnum og unglingum stafi ekki ógn af
andlegu-, líkamlegu-, kynbundnu- og kynferðislegu ofbeldi, áreitni og einelti.
Jöfn tækifæri
Í Menntastefnu Árborgar er lögð áhersla á að skapa öllum börnum og unglingum jöfn tækifæri til náms, frístunda og íþróttaiðkunar. Tekið skal tillit til þarfa, getu og hæfni hvers og eins og að einstaklingurinn fái tækifæri til að nýta styrkleika sína og áhuga í námi og leik. Leitað skal leiða til að tryggja að öll finni sinn stað í menntakerfinu og að jafnrétti innan þess sé í hávegum haft.
Tryggja þarf að rödd barna og unglinga heyrist óháð aldri, getu eða bakgrunni. Þau fái tækifæri til að hafa áhrif á umhverfi sitt bæði í skóla- og frístundastarfi með öflugu nemendalýðræði þar sem m.a. verði unnið með lýðræðis- og mannréttindamenntun sem byggist á gagnrýninni hugsun um grunngildi samfélagsins. Nemendur taki þátt í að móta jákvæðan skólabrag og samskiptareglur eftir aldri og þroska.
Fjölbreytileika barna og unglinga í fjölmenningarsamfélagi er fagnað og hann nýttur til að efla samfélagið. Tryggt skal að enginn sé undanskilinn með því að leggja áherslu á jafnrétti, samábyrgð, samstöðu og viðurkenningu fyrir ólíkum einstaklingum og sjónarmiðum. Stuðlað er að virðingu fyrir fjölbreytileikanum og haft að leiðarljósi að hver og einn hefur eitthvað fram að færa.
Gæða menntun
Samstarf, skýr ábyrgð og samþætting innan og milli kerfa er rauður þráður í menntastefnu Árborgar. Stuðningur við nemendur og leiðsögn við foreldra og starfsfólk skóla er í forgrunni á öllum skólastigum þar sem stoðþjónusta skólanna sinnir mikilvægu hlutverki við að aðlaga skóla- og frístundastarf að fjölbreyttum hópi barna og unglinga. Tryggja þarf viðeigandi, fullnægjandi, tímanlegan og samfelldan stuðning í námi og leik fyrir þau börn og unglinga sem hann þurfa. Sérstaklega þarf að gæta að börnum og unglingum með fjölbreyttan tungumála - og menningarbakgrunn, fötlun og þeim sem eiga við náms- og félagslega örðugleika að stríða. Stöðumat er lagt fyrir nýkomna nemendur í grunnskóla til að tryggja nám við hæfi og farsæla skólagöngu.
Börnum og unglingum er gert kleift að afla sér nýrrar þekkingar, auka hæfni ásamt því að geta beitt og hagnýtt þekkingu sína. Mikilvægt er að börn og unglingar séu meðvituð um nauðsyn þess að vera skapandi og ábyrg í þekkingarleit sinni og óhrædd við að prófa sig áfram. Væntingar eru gerðar til nemenda um árangur í námi, þrautseigju og námsframvindu að teknu tilliti til þarfa og aðstæðna. Nemendur læri að bera ábyrgð á eigin námi, venji sig á gott vinnulag, þrói með sér vaxtarhugarfar og læri að setja sér markmið. Áhersla er lögð á gott samstarf heimila og skóla þar sem gagnkvæm virðing og traust er viðhaft.
Námsmat skal meta hæfni nemenda á gagnsæjan og leiðbeinandi hátt og horfa til mismunandi hæfileika hvers og eins. Námsmat er sett fram með þeim hætti að það veiti reglulega skýrar upplýsingar um framvindu náms. Einnig er mikilvægt að leggja mat á vellíðan og velferð nemenda.
Tryggð verður heildstæð skólaþjónusta með starfstengda leiðsögn, kennslufræðilega ráðgjöf, starfsþróun og stuðning við skólasamfélagið í forgrunni. Áfram verði unnið að eflingu innra mats á skóla- og frístundastarfi í samræmi við menntastefnu stjórnvalda til 2030 og tryggja skal skilvirka ráðstöfun fjármuna til skólasamfélagsins.
Hæfni fyrir framtíðina
Læsi er félagslegt fyrirbæri sem verður til á löngum tíma og er grunnur að því lagður strax við máltöku þar sem foreldrar gegna veigamiklu hlutverki í máluppeldinu. Nám barna og unglinga er samvinnuverkefni heimila og skóla þar sem skólinn gegnir faglegu leiðtogahlutverki. Í leikskólum er lögð áhersla á málörvun og í öllu skóla- og frístundastarfi er leitast við að styrkja málumhverfi og orðaforða barna til farsællar skólagöngu. Unnið er með snemmtæka íhlutun og stuðning bæði í skóla- og frístundastarfi til að styðja við þau börn og unglinga sem þess þurfa.
Læsi gegnir veigamiklu hlutverki í því stafræna umhverfi sem við búum við í dag. Upplýsinga- og miðlalæsi eru forsendur velfarnaðar, öryggis og framþróunar í stafrænum heimi og styðja þarf börn og unglinga við að tileinka sér gagnrýna hugsun við meðferð og greiningu upplýsinga. Þau þurfa að læra að bera ábyrgð á sínu stafræna spori, þekkja persónuvernd og öðlast þekkingu og þjálfun í starfrænum samskiptum með öryggi í fyrirrúmi. Huga þarf að færni barna og unglinga í stafrænu náms - og starfsumhverfi þannig að þau öðlist hæfni og þekkingu á sem víðustum grunni.
Vaxtarsprotar framtíðarinnar felast meðal annars í því að greina sóknarfæri í nýsköpun. Skóla- og frístundastarf þarf að veita börnum og unglingum tækifæri til að vinna með óhefðbundnum hætti þar sem ímyndunarafl þeirra fær að blómstra og leiðir til nýsköpunar. Grunnskólanemendur fái kennslu í iðn- og tæknigreinum og í þeim tilfellum sem horfa þarf til óhefðbundins náms verður unglingum boðið upp á að stunda starfsnám og/eða verkefnamiðað nám við hæfi.
Skapa þarf börnum og unglingum aðstæður til að sinna listsköpun og listnámi í skóla- og frístundastarfi Árborgar. Listnám ýtir undir nýsköpun, frumkvöðlastarf og glæðir samfélag lífi og litum. Hvetja skal til sköpunar í sínu víðasta formi með uppbyggjandi námsumhverfi. Tryggja þarf aðstæður, samstarf og þróunarvinnu með listastofnunum Árborgar svo markvisst megi þróa og efla listsköpun í samfélaginu.
Áhersla er lögð á markvissa náms- og starfsráðgjöf í öllum grunnskólum. Slík ráðgjöf styður við hæfni nemenda til að stýra eigin náms- og starfsferli í breytilegum heimi og styður nemendur í að taka upplýstar og ígrundaðar ákvarðanir um nám og störf út frá eigin áhugasviðum, styrkleikum og gildum. Mikilvægt er að tryggja samvinnu- og þróunargrundvöll mennta-, frístundastofnana og atvinnulífs svo lærdómssamfélag Árborgar eigi eins öfluga vaxtarmöguleika og kostur er á.
Umhverfi og samfélag
Umhverfisvitund barna og unglinga verður efld með öflugri fræðslu um samspil náttúru og mannlífs og með fjölbreyttum tækifærum til að kynnast umhverfinu í námi og leik. Þekking á umhverfis- og loftslagsmálum, náttúrunni og nærsamfélaginu eru forsendur þess að börn og unglingar læri að umgangast umhverfi sitt af virðingu og alúð. Nýting auðlinda, umhverfisvernd og flokkun sorps er sjálfsagður hluti af samfélaginu og er lögð áhersla á að stofnanir sveitarfélagsins séu til fyrirmyndar á þessu sviði.
Í nærumhverfinu eru bæði tækifæri og áskoranir sem mikilvægt er að börn og unglingar séu meðvituð um. Leita þarf leiða til að þau þekki helstu fyrirtæki og stofnanir í nærumhverfinu, kynnist náttúrunni og umhverfinu, þekki til orku- og samgöngumála og séu meðvituð um mikilvægi sjálfbærni samfélagsins. Þetta er gert í góðu samstarfi við fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og einstaklinga í nærsamfélaginu.
Mikilvægt er að námsumhverfi barna og unglinga sé áhugahvetjandi og aðbúnaður taki mið af aldri og þroska. Náms- og kennslugögn sem og tækjabúnaður sé fjölbreyttur, við hæfi og í takt við helstu áherslur faglegs skóla- og frístundastarfs. Umhverfi skóla og frístundastofnana sé aðlaðandi og snyrtilegt þar sem öryggi er í fyrirrúmi bæði innan og utandyra.