1. fundur lista- og menningarnefndar Árborgar
1. fundur lista- og menningarnefndar Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014 haldinn mánudaginn 5. júlí 2010 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 18:00.
Mætt:
Kjartan Björnsson, formaður, D-lista,
Björn Ingi Bjarnason, nefndarmaður D-lista,
Kjartan Ólason, nefndarmaður S-lista,
Andrés Sigurvinsson. verkefnisstjóri íþrótta-, forvarna- og menningarmála,
Dagskrá:
1. 1007013 - Lista- og menningarnefnd 2010-2014
Formaður bauð nefndarmenn velkomna á þennan fyrsta fund nefndarinnar. Hann fór yfir og ræddi ýmis mál varðandi nefndina og störf hennar. Verkefnisstjóri afhenti nefndarmönnum ýmis gögn tengd menningarmálum, s.s. fjárhagsáætlun, embættisbréf nefndarinnar, skipulag stjórnsýslunnar, fastar styrkveitingar til ýmissa hópa, rakti samstarf og upplýsingamiðlun til forstöðumanna stofnana sem undir starf hans heyra o.fl. Ákveðið og samþykkt samhljóða, að fyrsta mál á næsta fundi verði, að yfirfara og uppfæra erindisbréf fyrir lista-og menningarnefnd, sem sent verði til bæjarstjórnar. Formaður upplýsti að fundirnir yrðu líka framvegis haldnir mánaðarlega og fundardagar og fundartími liggi fyrir á næsta fundi sem verður þriðjudaginn 6. september kl. 18:00. Jafnframt bar formaður upp þá tillögu að Björn Ingi Bjarnason, fulltrúi D-lista verði varaformaður nefndarinnar. Samþykkt með 2 atkvæðum D-listamanna en fulltrúi S-lista sat hjá.
2. 1002020 - Bæjar- og menningarhátíðir í Sveitarfélaginu Árborg 2010
Verkefnisstjóri lagði fram lista yfir bæjar- og menningarhátíðarhöld í Sveitarfélaginu Árborg 2010, eins og hann er núna. Fram kom að gerðir hafa verið samningar við ýmis íþrótta-, tómstunda- og félagasamtök eins og kynnt hefur verið í nefndinni og fram kemur á heimasíðunni www.arborg.is., sbr. gögn. Hátíðarhöldin hafa gengið mjög vel fyrir sig og spurst vel út og fengið góða aðsókn. Nokkur félög fyrir utan þau sem ekki eru á föstum styrkjum, hafa fengið styrki samþykkta af fyrrverandi- og núverandi bæjarráð s.s. Kóteletta, til flöggunar og niðurfelling gjalds í sundlaugar Árborgar, Landsmót Fornbílaklúbbsins, fékk styrk til flöggunar, og Bíladelludagar fengu sömuleiðis fjárstyrk, styrk vegna flöggunar og trygginga. Nefndarmenn sammála að taka markvissa umræðu um frekari samráð með öllum hlutaðeigendum og verði það rætt nánar og sett í farveg á næsta fundi nefndarinnar. LMÁ þakkar upplýsingarnar.
3. 1007014 - Þátttaka lista-og menningarnefndar í kynningum viðburða í sveitarfélaginu
Formaður leggur fram eftirfarandi tillögu. LMÁ samþykkir að styðja við bakið á menningarviðburðum í sveitarfélaginu með auglýsingum í útvarpi fyrir hverja hátíð sem eftir lifir árs. Frekari mótun og útfærsla á tillögunni verði rædd nánar í haust. Samykkt samhljóða.
4. 1007015 - Menningarmánuðurinn október
Lista- og menningarnefnd leggur til að haldinn verði Menningar- og minningarkvöld í október 2010, 4 menningar- og minningarkvöld.
7. október í minningu Páls Lýðssonar á fæðingardegi hans (f. 1936. d. 8. apríl 2008), 12. október í minningu Páls Ísólfssonar á fæðingardegi hans (f. 1893. d. 23. nóv. 1974),18. október í minningu Tryggva Gunnarssonar á fæðingardegi hans (f. 1835. d. 21. okt. 1917) og 21. október í minningu Sigurjóns Ólafssonar á fæðingardegi hans (f. 1908. 20. des. 1982). Greinargerð: Allir fjórmenningarnir eiga sterkar rætur í hinum fyrrum hreppum sem nú eru Sveitarfélagið Árborg; Tryggvi Gunnarsson við byggingu Ölfusárbrúar síðan Tryggvaskála og Tryggvagarðs sem bera nafn hans, Páll Ísólfsson, tónskáld sem fæddur var á Stokkseyri, Sigurjón Ólafsson, myndhöggvari sem fæddur var á Eyrarbakka og Páll Lýðsson sem fæddur var í Litlu-Sandvík og var þar bóndi og fræðimaður. Undirbúningur hefst strax og skipta nefndarmenn og verkefnisstjóri með sér verkum. Verkefnið er tilraun og mikilvægt að hafa náið samstaf við grasrótina. Samþykkt samhljóða
5. 0804042 - Menningarsalur í Hótel Selfoss
Lista- og menningarnefnd leggur til við bæjarstjórn Árborgar að skipaður verði vinnuhópur sem fari í viðræður við eigendur Hótel Selfoss um Menningarsalinn ókláraða í hótelinu og möguleika þess að koma salnum í notkun. Greinargerð: Í vor, skömmu fyrir kosningar, boðuðu eigendur Hótels Selfoss til opins fundar um framtíð Menningarsalarins í hótelinu og var fundurinn í Menningarsalnum. Í ljósi þess sem fram kom á fundinum, varðandi afstöðu eigendanna til möguleika þess að koma salnum í notkun, er æskilegt að látið verði reyna á þessa möguleika. Samþykkt með 2 atkvæðum D-lista fulltrúa, en fulltrúi S-lista greiddi atkvæði á móti og óskaði að bóka eftirfarandi: Fulltrúi S-lista telur þetta mál að mörgu leyti vanreifað. Ekkert formlegt erindi hefur borist nefndinni frá þessum einkaaðila um aðstoð við að koma þessari eign hans í nothæft ástand. Rétt er að minna á að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins stóðu að því á sínum tíma að selja þessa eign úr höndum sveitarfélagsins til einkaaðila með því fororði að markaðsöflin væru betur í stakk búin að ljúka þessu verki. Nú þegar það hefur ekki gengið eftir eins og fleira í stefnu þess flokks skýtur nokkuð skökku við að fulltrúar þessa sama flokks ætli að beita eigendum Hótels Selfoss á sameiginlega sjóði samfélagsins til þess að lappa upp á eign sem þeir fengu svo gott sem gefins á sínum tíma.
6. 1003039 - Árborgarstofa
Kjartan Ólason, fulltrúi S-lista, leggur fram eftirfarandi tillögu: Lista- og menningarnefnd samþykkir að leggja til við bæjarstjórn Árborgar að gert verði samkomulag við stjórn Skálafélagsins um leigu á hluta Tryggvaskála undir starfsemi svonefndrar Árborgarstofu. Samningur þessi er forsenda þess að Skálafélagið geti hafist handa um frágang á lóð Tryggvaskála samkvæmt deiliskipulagstillögu sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili. LMÁ hefur þegar tekið undir og samþykkt samhljóða áskorun bæjaryfirvalda um uppbyggingu markaðs- og kynningarstofu í Tryggvaskála í samvinnu við Skálafélgið sbr. samþykkt frá 26. fundi þar um, 6. mál. Á sama fundi samþykkti nefndin samhljóða áskorun til bæjaryfirvalda að stofan bæri nafn Tryggva Gunnarssonar. Fulltrúar D-lista vísa málinu til bæjarstjórnar Árborgar.
7. 1007011 - Safn mjólkuriðnaðarins á Selfossi
Kjartan Ólason, fulltrúi S- lista ,leggur fram eftirfarandi tillögu: Lista- og menningarnefnd samþykkir að leggja til við bæjarstjórn Árborgar að leitað verði eftir samstarfi við MS og Byggðasafn Árnessýslu um stofnun Safns mjólkuriðnaðarins á Selfossi. Fulltrúar D-lista samþykkja tillöguna.
8. 1007010 - Pálsstofa á Stokkseyri
Kjartan Ólason, fulltrúi S-lista leggur fram eftirfarandi tillögu: Lista-og menningarnefnd samþykkir að leggja til við bæjarstjórn Árborgar að tekinn verði upp þráðurinn við stofnun Pálsstofu á Stokkseyri. Leitast verði við að sigla framhjá þeim skerjum sem málið steytti á í seinustu atrennu. Mikilvægt er að gott samstarf náist við aðstandendur Páls Ísólfssonar og fagaðila. LMÁ samþykkir tillöguna samhljóða.
9. 1007012 - Guðmundur Daníelsson, rithöfundur 100 ára
Kjartan Ólason, fulltrúi S-lista, leggur fram eftirfarandi tillögu: Lista- og menningarnefnd samþykkir að leggja til við Bæjarstjórn Árborgar að efnt verði til hátíðardagskrár 4. október af þessu tilefni. Fulltrúar D-lista samþykkja tillöguna og allir fulltrúar LMÁ sammála að tengja þessa tillögu inn í mál númer 4, Menningarmánuðurinn október.
10. 1006067 - Staða verkefnisstjóra íþrótta-, forvarna- og menningarmála.
Fyrirspurn frá Kjartani Ólasyni, fulltrúa S lista
Kjartan Ólason, fulltrúi S lista leggur fram eftirfarandi fyrirspurn: Nú þegar staða verkefnisstjóra íþrótta-, forvarna- og menningarmála hefur verið lögð niður, hvaða starfsmaður sveitarfélagsins mun þá sinna þessum verkefnum? Og hver var ástæða þess að starfið var lagt niður? Í ljósi síendurtekinna yfirlýsinga sjálfstæðismanna um samráð og samstarf varandi mikilvægar ákvarðanir, þá vaknar af þessu tilefni eftirfarandi spurning: Við hverja var haft samráð eða samstarf þegar ákvörðunin var tekin um að leggja niður starf Verkefnisstjóra íþrótta-, forvarna- og menningarmála? Eða tók oddviti sjálfstæðismanna ákvörðunina einn? Fulltrúar D-lista vísa fyrirspurninni frá þar sem henni er ekki beint til LMÁ.
Bókun fulltrúa S-lista: Fulltrúi S-lista mótmælir þessari málsmeðferð, telur sig eiga rétt á að fá fyrirspurninni svarað af bæjarstjórn Árborgar. Ástæðan er sú að um vinnulag í nefndinni er að ræða.
11. 1005111 - Styrktarsjóður EBÍ 2010
Fram kom í gögnum sem lágu fyrir fundinum að ekki yrði óskað eftir umsóknum í sjóðinn þetta árið heldur myndi stjórnin verja úthlutunarfé hans til sérstakra brýnna verkefna í sveitarfélögum. LMÁ þakkar upplýsingarnar.
12. 1006075 - Uppbygging í Fuglafriðlandi í flóagaflsmýri og uppbygging fjörustígs milli Stokkseyrar og Eyrarbakka
Björn Ingi Bjarnason D-lista, lagði fram bréf á fundinn, ásamt greinagerð, sambærilegt því sem sent var á fyrrverandi bæjarstjóra frá Stígavinafélagi Stokks-Eyrarbakka, þar sem farið var fram á leyfi til lagningar slitlags á göngustíg frá Eyrarbakka til Stokkseyrar. Fram kom að erindi þetta var afgreitt á 145. fundi bæjarráðs 2009 þar sem tekið var jákvætt í það (0906044). Framkvæmdastjóri veitu- og framkvæmdasviðs lýsti því yfir á fundi með Stígavinafélagi Stokks-Eyrarbakka þann 12. október 2009 að meta mætti þetta boð félagsins á allt að 6. milljónir króna. Verkefnisstjóri vakti athygli á að tæplega yrði hægt að skila inn greinagerð varðandi möguleika á styrkveitingum til uppbyggingarverkefnanna í flóagaflsmýrinni fyrir tilsettan tíma, 1. ágúst sem bæjarráð setti á öðrum fundi sínum, þar sem hluti starfsmannanna væru og yrðu í sumarleyfi í júlí og ágúst. Taldi raunhæft að greinargerð gæti legið fyrir um miðjan september eða í byrjun október. LMÁ tekur undir þetta og leggur til að málinu verði frestað til 1. október.
13. 1004130 - Kynningarmyndbönd, Sveitarfélagið Árborg
Verkefnisstjóri lagði fram sýnishorn af kynningarmyndböndum, sem greint var frá á seinasta fundi LMÁ. Enn á eftir að ljúka við, að koma þeim öllum fyrir á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem sumarleyfi hjá þeim, er sjá um hýsingu- og þjónustu, hafa sett strik í reikninginn. Sömuleiðis á enn eftir að ljúka við nokkrar breytingar og lagfæringar á heimasíðunni m.a. setja inn auglýsingaborða. Umsjónarmaður heimasíðu er Bryndís Sumarliðadóttir. LMÁ þakkar upplýsingarnar.
14. 1004188 - Árskýrsla 2009, Sveitarfélagið Árborg
LMÁ þakkar upplýsingarnar og hvetur alla til að kynna sér árskýrslu sveitarfélagsins 2009 en hana má nálgast á heimasíðunni www.arborg.is
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 20:35
Kjartan Björnsson
Björn Ingi Bjarnason
Kjartan Ólason
Andrés Sigurvinsson