Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


13.9.2007

10. fundur lista- og menningarnefndar

 

10. fundur lista- og menningarnefndar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn miðvikudaginn 12. september 2007  í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 18:00

 

Mætt:
Andrés Rúnar Ingason, formaður, V-lista (V)
Sigrún Jónsdóttir, nefndarmaður B-lista (B)
Már Ingólfur Másson, nefndarmaður S-lista (S)
Kjartan Björnsson, nefndarmaður D-lista (D)
Þórir Erlingsson, nefndarmaður D-lista (D)
Andrés Sigurvinsson, verkefnisstjóri íþrótta-, forvarna- og menningarmála

 

Þórir Erlingsson D - lista óskaði í upphafi fundar eftir að fá að setja inn sérstaka bókun og ræða hana nánar í lok fundar ef fundarmenn vildu. Samþykkt samhljóða.
Eftir nokkrar umræður var öll nefndin sammála að bóka eftirfarandi: LMÁ harmar að ekki skuli hafa verið leitað álits nefndarinnar um úthlutun styrkja vegna allra menningarhátíða í Sv. Árborg. LMÁ hvetur bæjarstjórn til að leita umsagnar um þau mál sem viðkoma listum og menningu í framtíðinni.

 

Dagskrá:

 

1.  0707146 - Sléttusöngur - Samkór Selfoss
Eins og fram kemur í þeim gögnum sem liggja fyrir og lögð voru fyrir á fundinum, þá hefur Samkór Selfoss ákveðið að hætta störfum og segir sig þar með frá að hafa yfirumsjón með Sléttusöngnum. LMÁ þakkar formanni kórsins, Ingibjörgu Stefánsdóttur og félögum gott samstarf undanfarin ár. LMÁ felur verkefnisstjóra að koma með tillögur fyrir næsta fund um í hvaða farveg þessi hátíð verður sett á komandi árum.

2. 0707135 - Tjald fyrir útiskemmtanir
Tjald það sem notað hefur verið í tengslum við ýmsar skemmtanir og útihátíðir og var í umsjón Björgunarfélags Árborgar er nú ónýtt. LMÁ telur nauðsynlegt fyrir Sv. Árborg að eiga slíkt tjald og/eða hafa í fórum sínum í ljósi reynslunnar. LMÁ felur verkefnisstjóra í samráði við þá er best til þekkja að koma með tillögur að kaupum á nýju tjaldi og jafnframt að það verði gert ráð fyrir þeim á fjárhagsáætlun 2008 ef niðurstaðan verður að sveitarfélagið eigi það og varðveiti.

Erindi til kynningar:

 

3.  0709019 - Stofnun þjóðartæknisafns - samráð við Árborg o.fl.
LMÁ þakkar Valdimari Össurarsyni, verkefnisstjóra greinagóða kynningu, sem hann sendi nefndarmönnum fh. undirbúningsnefndar og felur verkefnisstjóra um að koma á samráðsfundi þeim sem óskað var eftir.

4.  0709010 - Endurbygging Vesturbúðarinnar á Eyrarbakka
LMÁ þakkar Ingu Láru Baldvinsdóttur greinargerðina og upplýsingar um uppgjör vegna Endurbyggingar Vesturbúðarinnar - draumur eða veruleiki.

5. 0708079 - Stýrihópur um menningarstefnu Sv.Árborgar
Margrét I. Ásgeirsdóttir forstöðumaður Bæjar- og héraðsbókasafnsins á Selfossi sagði frá starfi stýrihóps um menningarstefnu Árborgar sem gengur vel, en vinnu skal lokið fyrir 1. nóvember n.k. samkv. verklagsreglum. Í stýrihópunum eru ásamt Margréti, sem er formaður, Friðrik Erlingsson sem skipaður var ritari, Björn Ingi Bjarnason, Kjartan Björnsson, Andrés Rúnar Ingason og Andrés Sigurvinsson verkefnastjóri. LMÁ þakkaði formanni fyrir komuna og upplýsingarnar.

6. 0706054 - Sumarlestur bókasafnsins 2007 - ofl.
Margrét sagði frá sumarlestrarnámskeiði sem haldið var í 15. skiptið í Bæjar- og héraðsbókasafninu á Selfossi. Börnum úr Árborg og Flóahreppi var boðið að vera með. Boðið var upp á ferðir frá Eyrarbakka og Stokkseyri. 110 börn voru skráð í sumarlesturinn. Þemað var álfar og huldufólk og var Álfheiður Ólafsdóttir myndlistakona fengin til að sýna myndir sínar sem eru í þessum anda í Listagjánni og útlánasal. Í vor voru haldnir bókamarkaðir í Bókasafni Stokkseyrar og Bókasafni U.M.F.E. Eyrarbakka og einnig á Selfossi. Seld voru aukaeintök af bókum og tímaritum og var mikil aðsókn og ánægja hjá fólki. Í apríl var byrjað að lána út úr landskerfi bókasafna Gegni á Eyrarbakka, á 80 ára afmæli safnsins, og þann 1. júní var byrjað að nota Gegni á Selfossi. Frá 1. júní - 10. sept. hafa 2456 ný lánþegakort verið búin til og bætist við á hverjum degi. Bókasafnið fékk styrk úr Þjóðhátíðarsjóði vegna yfirfærslu myndefnis heimildarmynda um Selfoss og Ölfusárbrú á DVD form. Sveitarfélagið greiðir jafnháa upphæð í verkefnið kr. 75.000. Margrét minnir á að árið 2009 á Bæjar- og héraðsbókasafnið á Selfossi 100 ára afmæli sem ber að minnast því ekki eru margar stofnanir í héraði sem hafa svo gamlar rætur og verið hluti menningarlífs og samfélagsins svo lengi. Einnig kom fram í máli Margrétar að Upplýsingarmiðstöðin lokar 15. september nk. og að Listagjáin væri fullbókuð fram að áramótum og yrði dagskráin kynnt nánar. LMÁ þakkar Margréti greinagóðar upplýsingar og svör.

7.  0706036 - Styrktarsjóður EBÍ 2007
Verkefnisstjóri upplýsti að sótt hefði verið um styrk til að undirbúa og setja á stofn Skólasögusafn Íslands sem staðsett yrði í húsnæði Barnaskólans á Eyrarbakka, í samræmi við samþykkta tillögu í bæjarráði frá 21.júní sl., og í framhaldi af fundi viðræðuhópsins við rektor KHÍ.

8. 0709045 - Umsókn til Menningarsjóðs barna Árborg - hafið, ströndin, þorpið.
Verkefnisstjóri upplýsti að Jóhannes Bjarnason, forstöðumaður Sundlaugar Stokkseyrar og listakonan Hjördís Davíðsdóttir, myndlistarkennari BES hefðu áttu hugmyndina og útfærðu hana í samráði við nemendur,skólayfirvöld og sveitarfélagið. Þema þessara tveggja verka var "sjórinn og lífið í sjónum" og eru þetta fyrstu tvær myndirnar af 6 mynda seríu. Bæjarstjóri afhjúpaði verkin í sumar, þakkaði börnunum og aðstandendum öllum fyrir að hafa hrint hugmyndinni í framkvæmd. Kvað það ómetanlegan auð hvers bæjarfélags að eiga öfluga og frjóa grasrót. LMÁ tekur undir orð bæjarstjóra og óskar hlutaðeigendum til hamingju.

9. 0706043 - Sýning á Jónsmessuhátíð 2007 á Selfossi
Verkefnisstjóri upplýsti að margir hefðu haft samband og þakkað LMÁ fyrir að að bjóða börnum og fjölskyldum þeirra upp á leiksýninguna Dýrin í Hálsaskógi í byrjun sumars. Leikhópurinn Lotta sýndi verkið undir berum himni í blíðskapaveðri á Gesthúsasvæðinu á Selfossi. Sveitarfélagið sendi og rútu eftir fólki neðan af strönd og keyrði heim að lokinni sýningu. Samtímis var Fornbílaklúbburinn með sína sýningu og niður á Eyrarbakka var Jónsmessuhátíðin. Þetta var í 9. sinn sem hátíðin er haldin, var vel sótt og heppnaðist einkar vel. Fjölskyldur opnuðu híbýli sín upp á gátt og tóku á móti gestum og gangandi. Jónsmessubrennan á Eyrarbakka var svo hápunktur hátíðahaldanna í sveitarfélaginu. LMÁ þakkar öllum sem komu að þessum hátíðarhöldum og felur verkefnisstjóra að undirbúa þjónustusamninga fyrir 2008. Einnig felur LMÁ honum að leggja til við fjárhagsáætlanagerð 2008 að ákveðnir fjármunir verði eyrnamerktir óvæntum og ófyrirséðum verkefnum sem reka á fjörur sveitarfélagsins og standa því til boða sbr. leiksýningin og sirkusinn.

10.  0707147 - Tónleikar í félagsmiðstöðinni Zelsíuz
Verkefnisstjóri upplýsti að Sv. Árborg hefði styrkt þungarokkstónleika sem haldnir voru í félagsmiðstöðinni Zelzíusi þann 26. júli sl. Þrjár hljómsveitir, I Adapt, Dust Cap og Helshare komu þar fram og var aðgangur að tónleikunum ókeypis og öllum opinn. Sömuleiðis voru ferðir neðan af strönd með rútu til og frá tónlistarstað ókeypis. Tónleikarnir þóttu takast mjög vel, voru vímuefnalausir með öllu og aðstandendum til mikils sóma. Verkefnisstjóri upplýsti og að fyrirhugaðir væru tónleikar á svipuðum nótum, heldur "léttari" á næstu dögum og verða þeir auglýstir og kynntir er nær dregur. LMÁ fagnar þessu framtaki og að menn séu vakandi fyrir að sinna mismunandi áhugamálum íbúanna.

11.  0707005 - Cirkus Flik Flak frá Danmörku
Verkefnisstjóri upplýsti að milli 600 – 700 áhorfendur hefðu mætt á sýningu danska barna- og unglingasirkussins Flik Flak, sem sýndi hér í íþróttahúsi Sólvallarskóla þann 5. júlí. LMÁ bauð til sýningarinnar. Krakkarnir og ekki síður þeir fullorðnu voru mjög hrifnir af sýningunni sem samanstóð af fjölmörgum atriðum, allt frá töframönnum og trúðum til mikilla fimleika og áhrifamikilla atriða með lifandi eld. Eftir að sýningu lauk bauð Sv. Árborg sirkusmeðlimum og aðstandendum upp á grill niður á Stokkseyri. Áður hafði hópurinn gefið sér tíma til að líta inn á Álfa- og tröllasafnið. Knattspyrnufélagið Árborg sá um framkvæmd grillsins og veitinganna. Flik Flak vildi koma á framfæri kæru þakklæti til bæjarstjórnar og íbúa fyrir heimboðið og móttökurnar. Verkefnisstjóri afhenti þeim bókagjafir til minningar um Sv. Árborg að skilnaði. LMÁ þakkar öllum sem komu að þessu máli.

12.  0706053 - Bryggjuhátíð á Stokkseyri 2007
LMÁ óskar Hrútavinafélaginu Örvari og öðrum aðstandendum Bryggjuhátíðar Stokkseyrar til hamingju með velheppnuð hátíðarhöld í sumar. Dagskráin stóð frá 12. júlí - 15. júlí og var mjög fjölbreytt. Sýning Þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar líður mönnum líklega seint úr minni. Verkefnisstjóri dreifði dagskrá Bryggjuhátíðarinnar á fundinum mönnum til upprifjunar. Sveitarfélagið styrkti og þessa hátíð og felur LMÁ verkefnisstjóra að ganga frá þjónustusamningi 2008 við Hrútavinafélagið Örvar fyrir árið 2008.

13.  0707142 - Leik-hús-námskeið 2007
Verkefnisstjóri upplýsti að beðið hefði verið um kostnaðaruppgjör vegna leik-hús-námskeiða Leikfélagsins í sumar vegna fjárhagsáætlunar 2008.
Sömuleiðis var óskað eftir greinagerð um áætluð námskeiðsgjöld, fyrirhugaða uppbyggingu námskeiðanna næsta sumar og öðrum atriðum sem félagsmenn vildu koma á framfæri. Á forsenum þessa verður síðan gerður þjónustusamningur fyrir 2008. Jafnframt var bent á, að sú stefna hefur verið mörkuð hér, að í tengslum við fjárframlög Sv. Árborgar liggi til grundvallar þjónustusamningar þannig að báðir samningsaðilar séu meðvitaðir um réttindi sín og skyldur og til hvers er ætlast af þeim í tilefni af fjárveitingu. 
 
14.  0708136 - Þjónustusamningur 2008 - Kvenfélag Eyrarbakka
Verkefnisstjóri gerðir grein fyrir að um árabil hafa þær kvenfélagskonur séð um framkvæmd hátíðarhald 17. júní á Eyrarbakka og fengið ákveðna fjárhæð greidda fyrir. Enginn skriflegur þjónustusamningur væri til varðandi þjónustukaup af félaginu. Eftir fund með Eygerði Þórisdóttur, formanni félagsins voru þau sammála um nauðsyn þess að koma á skriflegum þjónustusamningi fyrir 2008 og um helstu atriði sem tilgreind skyldu í þeim samningi. Kvenfélagið hafi yfirumsjón með hátíðarhöldunum, útvegi fjallkonu, tryggi að flöggun eigi sér stað, hafi yfirumsjón með skemmti- og hátíðardagskrá, veitingar o.fl. LMÁ þakkar upplýsingarnar og felur verkefnisstjóra að ljúka málinu.

15.  0705069 - Vinabæjarmót í Kalmar 2007
Verkefnisstjóri vísaði í meðfylgjandi gögn um Kalmarferðina og upplýsti jafnframt, að LMÁ væri hér með boðið að koma nk. fimmtudag og sjá dagskrá þá sem sýnd var ytra í félagsmiðstöðinni Zelzíusi, sem hæfist kl. 20:30. Bæjarstjórninni væri jafnframt boðið, svo og fjölskyldum og nánustu aðstandendum. Hann sagði að nú væri ýmislegt i farvatninu varðandi frekari samstarf við vinabæi okkar og aðra sem hefðu leitað hófanna um ungmennasamstarf. LMÁ þakkaði upplýsingarnar og boðið, undirstrikaði mikilvægi þess að koma á samstarfi við ungmenni af ólíkum menningarsvæðum til að auka okkur víðsýni og eiga möguleika á að kynna menningu okkar og siði.

16.  0709009 - Uppsögn á vinabæjarsamningi
Silkeborg í Danmörku sagði sig úr vinarbæjarsamstarfinu vegna sameiningar sveitarfélaga heima fyrir og sögðu þar með allir þeir sem sameinuðust upp vinarbæjarsamstarfi sem þeir höfðu verið í. Verkefnisstjóri flutti nefndinni kærar kveðjur frá Sören Andersen, sem var fulltrúa þeirra í Kalmar,þar sem aðildarfélögum var tilkynnt formlega úrsögn þeirra. LMÁ þakkar frændum okkar vinarbæjarsamstarfið í gegn um tíðina.

17.  0707132 - Fjölskyldudagar á Stokkseyri
Bæjarráð ákvað að styrkja Fjölskyldudagana á Stokkseyri 2007 og kallaði jafnframt eftir greinagerð um hvernig styrktarfénu hafi verið varið. LMÁ óskar aðstandendum til hamingju með hátíðina, en hún hófst fimmtudaginn 2. ágúst og lauk á mánudeginum 6.ágúst eins og sjá má í meðfylgjandi gögnum og gekk vel.

18.  0706080 - 60 ára afmæli Selfossbæjar
Fyrir liggur dagskrá sem aðstandendur fyrirhugaðrar 60 ára afmælishátíðar sendu á dögunum og verkefnisstjóri afhenti lokaútgáfu á fundinum. Auðsýnlega er mikið í hana lagt og hvetur LMÁ íbúa Sv. Árborgar til almennrar þátttöku. Bæjarráð ákvað á dögunum að styrkja þessa hátíð eins og önnur hátíðarhöld sem haldin hafa verið innan Sv. Árborgar. LMÁ þakkar fyrir upplýsingarnar.

19.  0708042 - Æfingaaðstaða Lúðrasveitar Selfoss
Verkefnisstjóri upplýsti að stjórn Lúðrasveitarinnar hefði leitað hófanna hjá framkvæmdastjóra Fjölskyldumiðstöðvar um nýtt æfingahúsnæði fyrir sveitina en niðurstaðan hefði orðið sú að æfingar verði áfram í sal Tónlistarskóla Árnesinga. LMÁ þakkar upplýsingarnar.

20.  0708011 - Spurningakeppni Sveitarfélaganna 2007
Verkefnisstjóri upplýsti að búið væri að velja þátttakendur í spurningakeppni þá sem Ríkissjónvarpið væri að fara af stað með núna í haust. Þarna munu stærstu sveitarfélög landsins keppa sín á milli. Keppnislið Sv. Árborgar er þannig skipað: Margrét Þórðardóttir, Soffía Sigurðardóttir og Ólafur Helgi Kjartansson. Liðið keppir á móti liði Akureyrar þann 2. nóvember nk., og fer þátturinn í loftið kl. 20.10. LMÁ fagnar valinu og vill hvetja íbúa Sv. Árborgar til að mæta á pallana í sjónvarpssal og styðja sitt lið.

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 20:05

Andrés Rúnar Ingason            
Sigrún Jónsdóttir
Már Ingólfur Másson                           
Kjartan Björnsson
Þórir Erlingsson                                   
Andrés Sigurvinsson


Þetta vefsvæði byggir á Eplica