Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


6.6.2013

10. fundur Hverfisráðs Eyrarbakka

10. fundur Hverfisráðs Eyrarbakka haldinn í Blátúni þann 30. apríl 2013 kl 20.

Mætt eru: Arnar Freyr Ólafsson formaður, Gísli Gíslason, Guðlaug Einarsdóttir, Ívar Örn Gíslason og Siggeir Ingólfsson.

1.      Formaður setur fund, býður meðlimi velkomna.

2.      Undirrituð er settur ritari hverfisráðsins.

3.      Formaður áréttar hlutverk ráðsins sem ráðgefandi fyrir bæjaryfirvöld en án boðvalds og er það sameiginlegur skilningur meðlima. Formaður minnir ennfremur á að þó hverfisráðið hafi ekki völd, hafi það aðhaldshlutverk um ásýnd Eyrarbakka og önnur mál tengd Bakkanum. Rætt um áhrif starfa fyrra hverfisráðs sem urðu til endurnýjunar gangstétta og mun sú vinna halda áfram í sumar. Eins var ábendingum hverfisráðs um kanínuplágu fylgt eftir og hafa á fjórða hundrað kanínur verið felldar.

4.      Formaður leggur til að meðlimir viði að sér upplýsingum um þau málefni sem þeim eru hugleikin í þessu samhengi og kallar eftir ábendingum.

a.       Umræða um mikla ruslsöfnun kringum fjölmörg hús, bæði rusl, gáma og bílhræ. Bent er á að ruslsöfnun innan lóða heyra undir heilbrigðiseftirlit en utan lóða heyrir ruslsöfnun undir sveitarfélög. Óvíst er því hvort sveitarfélagið geti haft afskipti af mestu ruslsöfnuninni og þurfi því aðkomu heilbrigðiseftirlits. Hugmynd er um að í fyrsta kasti álykti hverfisráð um ruslasöfnunina og mælist til þess við Eyrbekkinga að þeir taki til á lóðum sínum.

b.      Ábending um að bera þurfi möl í göngustíg á sjóvarnargarði frá Slippnum og vestur úr, enda hefur það ekki verið gert síðan árið 2002 og er nú orðinn illfær krákustígur.

c.       Umræða um framvindu verkáætlunar göngustígs milli Eyrarbakka og Stokkseyrar sem nú er komin vestur yfir Hraunsá en ekki hefur verið unnið að um tíma. Siggeir upplýsir að verkáætlun hafi við skóflustungu verið tilkynnt á þá leið að leggja ætti stíginn vestur yfir Hraunsá á árinu 2012, þaðan og að Eyrarbakka árið 2013 og malbika stíginn árið 2014. Umræða um mikilvægt hlutverk stígsins fyrir samgang barna milli Stokkseyrar og Eyrarbakka utan skóla, aðgang að sundlaug á Stokkseyri fyrir börn af Eyrarbakka, almenna hreyfingu og síðast en ekki síst, skoðunarferðir með ferðamenn, enda saga við hvert fótmál á þessari leið. Tillaga um að eiga samstarf við hverfisráð Stokkseyrar við að vinna að þessu máli.

d.      Umræða um úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða en í ár var 576 milljónum úthlutað úr úr sjóðnum og hlaut skipulag og hönnun við Húsið á Eyrarbakka og Eyrarbakkakirkju 3.150.000 kr og Krían við Eyrarbakka hlaut 1.150.000kr til umhverfishönnunar og skipulags.

e.       Umræða um húsnæðismál skólanns sem meðlimir eru sammála um að sé aðkallandi og stórt mál sem bæta þarf úr hið fyrsta.

f.       Umræða um skort á vinnuvélastæðum innanbæjar en vörubílum og stórvirkum vinnuvélum er nú lagt í íbúðahverfum til lítillar príði.

g.      Umræða um félagslíf barna eftir skóla. Lítið er um skipulagða félagsstarfssemi á Eyrarbakka og ferðaáætlun almenningssamgangna innan sveitarfélagsins fer ekki saman með tímasetningu æfinga hjá Ungmennafélagi Selfoss svo börn á Eyrarbakka geti sótt æfingar þangað. Því er óhætt að segja að í þessum efnum sitji börn á Eyrarbakka ekki við sama borð og önnur börn sveitarfélagsins. Ívar bendir á að samgangur barnanna sé mikilvægur þáttur í félagsfærni þeirra og félagslegri stöðu þegar á framhaldsskólaaldur kemur.

h.      Umræða um efnisval í gangstéttir utan Búðarstígs og Eyrargötu.

Fleiri mál ekki rædd en tillaga formanns um klukkustundarlanga fundi, er samþykkt. Einnig ákveðið að ritari sendi fundargerðir til meðlima sem geri athugasemdir eða samþykki þær innan viku frá fundi með tölvupósti til allra meðlima („reply all“).

Næsti fundur ákveðinn á sama stað og stund að viku liðinni.

Fundi slitið kl 21.

Fundarritari: Guðlaug Einarsdóttir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica