Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


10.7.2008

100. fundur bæjarráðs

100. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn fimmtudaginn 10. júlí 2008 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10

Mætt: 
Margrét Katrín Erlingsdóttir, bæjarfulltrúi, B-lista (B)
Þórunn Jóna Hauksdóttir, bæjarfulltrúi, D-lista
Helgi Sigurður Haraldsson, bæjarfulltrúi, B-lista
Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari

Bæjarráð óskar starfsmanni sveitarfélagsins, Sigmundi Stefánssyni, innilega til hamingju með frábæran árangur í keppninni Ironman, sem haldin var í Frankfurt í vikunni.

Dagskrá:

Fundargerðir til staðfestingar:

1. 0801044 - Fundargerð umhverfisnefndar Árborgar
frá 02.07.2008


-0806123, garða- og götuverðlaun 2008, bæjarráð sendir eigendum verðlaunagarða og íbúum Suðurengis hjartanlegar hamingjuóskir með verðlaunin.
Fundargerðin staðfest.

2. 0801047 - Fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar
frá 26.06.08


-liður 4, 0712069, gjaldskrá vatnsveitu, bæjarráð samþykkir tillöguna.
-liður 5, 0801167, meirihluti bæjarráðs lagði fram svohljóðandi bókun: Fram kemur að íbúar Árborgar eru skráðir þann 18. júní sl. 7.789. Fjölgun íbúa ber vitni um að Sveitarfélagið Árborg er framsækið sveitarfélag og eftirsóknarvert til búsetu, að hér er blómlegt athafnalíf og þjónusta góð. Íbúum hefur fjölgað um 201 frá 1. janúar eða um rúmlega einn íbúa á dag, og þar af 60 íbúar í júní.
Fulltrúi D-lista lagði fram svohljóðandi bókun:
Ég fagna fjölgun íbúa og brýni bæjarfulltrúa til að standa vaktina í þjónustu, s.s. með nægilegu framboði lóða svo að íbúarnir geti lifað og starfað innan sveitarfélagsins.
Fundargerðin staðfest.

3. 0801021 - Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar
frá 26.06.2008


-liður 4, 0608068, beiðni Skipulagsstofnunar um umsögn um svar Vegagerðarinnar, bæjarráð samþykkir afgreiðslu nefndarinnar og felur skipulags- og byggingafulltrúa að senda Skipulagsstofnun afgreiðsluna, svo auglýsa megi skipulagið í b-deild stjórnartíðinda.
Fundargerðin staðfest.

Fundargerðir til kynningar:

4. 0807019 - Fundargerð stjórnar Brunavarna Árnessýslu
frá 05.06.08


Lagt fram.

5. 0807015 - Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
frá 27.06.08


-liður 3, bæjarráð Árborgar óskar Karli Björnssyni til hamingju með nýtt starf á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og óskar honum velfarnaðar.
Lagt fram.

6. 0802080 - Fundargerð stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands
frá 24.06.08


-liður 2, sameiginleg svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs, Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, lagði fram svohljóðandi tillögu bæjarfulltrúa D-lista:
Bæjarráð samþykkir að endurskoða ákvörðun sína um þátttöku í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs þar sem ljóst er að ekki er samstaða meðal sunnlenskra sveitarfélaga um verkefnið.

Tillagan var borin undir atkvæði og felld með tveimur atkvæðum gegn atkvæði bæjarfulltrúa D-lista.

Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, gerði grein fyrir atkvæði sínu:
Áætlað er að framkvæmda- og rekstrarkostnaður svæðisáætlunarinnar muni vera 13.320.000.000 á árunum 2010-2015 og 4.000.000.000 betur 2015-2020. Aðrar leiðir til meðhöndlunar úrgangs hafa ekki verið kannaðar að fullu.

Meirihluti bæjarráðs gerði grein fyrir atkvæði sínu:
Meirihluti bæjarráðs óskar eftir upplýsingum Sorpstöðvar um stöðu mála og hvaða áhrif það hefur á verkefnið að tvö aðildarsveitarfélög taka ekki þátt í því. Meirihluti bæjarráðs felur bæjarstjóra að afla upplýsinga frá Hveragerði og Flóahreppi um lausnir þeirra í sorpmálum.

Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, lagði fram svohljóðandi bókun:
Bæjarfulltrúi D-lista óskar eftir sömu gögnum.

Lagt fram.

Almenn erindi

7.  0806122 - Gjaldskrá fyrir skólavistun frá ágúst 2008

Lagt var til að bæjarráð samþykki gjaldskránna.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum, bæjarfulltrúi D-lista situr hjá.

8. 0804128 - Tilkynning Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis um úthlutun byggðakvóta 2007/2008

Bæjarráð samþykkir að setja ekki sérstök skilyrði varðandi úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa, heldur gildi almennar reglur.

9. 0807022 - Tillaga um að óskað verði eftir fundi með félagsmálaráðherra til að ræða möguleika á að teknar verði upp viðræður við ráðuneytið um yfirtöku á málefnum aldraðra

Lögð var fram svohljóðandi tillaga:
Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir fundi með félags- og tryggingamálaráðherra til að ræða möguleika á að taka upp viðræður um að Árborg taki að sér þá þann hluta öldrunarþjónustu ríkisins sem nú heyrir undir félags- og tryggingamálaráðuneytið.

Greinargerð:
"Augljóst er að breytingar á öldrunarþjónustu sveitarfélaga eru í aðsigi. Ábyrgð og rekstur á öldrunarstofnunum (hjúkrunarheimilum og hjúkrunardeildum utan sjúkrahúsa, dvalarheimili og dagvistarrými) fluttist um síðustu áramót frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Sú stefna liggur fyrir að ábyrgð og rekstur öldrunarstofnana verði aftur færð þaðan til sveitarfélaganna, sennilega á árunum 2011 eða 2012, og eru nefndir á vegum ráðuneytisins í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök aldraðra að starfi við undirbúning þess.
Félagsmálaráðherra hefur lýst yfir áhuga á að láta á það reyna, hvort einhver sveitarfélög séu fús til að taka þessi verkefni til sín fyrr með bráðabirgðasamningum, enda megi með því móti safna dýrmætri reynslu. Margt bendir til þess að hagkvæmt og eftirsóknarvert kunni að vera fyrir Árborg að sækjast eftir þannig samningi við ráðuneytið nú. Þjónusta við aldraða í Árborg hefur í gegnum tíðina verið góð og framundan enn frekari þróun og uppbygging. Undanfarna mánuði hefur farið fram vinna við úttekt sem sveitarfélagið er að láta gera á þjónustu við aldraða í Árborg og gefur sú vinna vísbendingar um að rétt sé að óska nú eftir viðræðum við ríkið um þetta verkefni."

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, gerði grein fyrir atkvæði sínu:
Yfirtaka á málefnum aldraðra var eitt af lykilmálum í kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar. Tillagan sem hér er samþykkt er samhljóða tillögu D-lista á bæjarstjórnarfundi í janúar 2007, þar var vísað var til velferðamálanefndar SASS um málið og mikilvægi þess að Árborg sýndi frumkvæði. B-, S- og V-listi vísaði tillögunni frá með þeim rökum annars vegar að stjórn SASS ætlaði að gera athugun á vilja sveitarfélaga á Suðurlandi til þess að taka yfir frá ríkinu þjónustu við aldraða og fatlaða og hins vegar ,,... að þegar sé hafin sú undirbúningsvinna sem nauðsynleg er áður en farið verður í eiginlegar viðræður við ríkisvaldið ..."

Meirihluti bæjarráðs gerði grein fyrir atkvæði meirihlutans:
Félagsmálaráðherra hefur lýst yfir áhuga á að láta á það reyna hvort einhver sveitarfélög séu fús til að taka þetta verkefni til sín með bráðabirgðasamningum, enda megi með því móti safna dýrmætri reynslu.. Það er mat meirihluta bæjarráðs að framsækið sveitarfélag eins og Árborg eigi að bregðast við og óska eftir viðræðum. Eins og fram kemur í bókun meirihluta bæjarstjórnar í janúar 2007 telur meirihlutinn "...mikilvægt að þessi þjónusta sé á einni hendi, hjá sveitarfélögunum, enda séu þeim skapaðar nauðsynlegar tekjur til að sinna svo mikilvægri þjónustu."

Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, lagði fram svohljóðandi fyrirspurn bæjarfulltrúa D-lista:
1. Hvaða undirbúningsvinna sem meirihlutanum þykir nauðsynleg, hefur farið fram? Óskað er eftir yfirliti um hana.
2. Hefur þessi vilji Sveitarfélagsins Árborgar verið kynntur stjórn og velferðarmálanefnd SASS?


10. 0807023 - Tillaga um akstursæfingasvæði

Lögð var fram svohljóðandi tillaga:
Æfingasvæði fyrir ökukennslu:

Lagt er til að svohljóðandi bókun bæjarráðs frá 6. apríl 2006 verði ítrekuð og bæjarstjóra falið að ræða við Ökukennarafélag Íslands:

Æfingasvæði fyrir ökukennslu - tillaga og greinargerð.

Bæjarráð Sveitarfélagsins Árborgar samþykkir að bjóða Ökukennarafélagi Íslands svæði undir sérstaka braut þar sem nemendur í almennu ökunámi fengju þjálfun í akstri við erfiðar aðstæður. Í nýju aðalskipulagi fyrir Sveitarfélagið Árborg er gert ráð fyrir svæði undir starfsemi af þessu tagi. Sveitarfélagið Árborg er tilbúið til samstarfs um uppbyggingu brautarinnar og nánari útfærslu svæðisins við deiliskipulag þess.

Greinargerð:

Unnið er að því að breyta lögum um ökukennslu og ökupróf á þann veg að allir ökunemar sem ljúka almennu ökuprófi og fá bráðabirgðaökuskírteini til tveggja ára þurfi á þeim tíma að fá þjálfun í akstri við erfiðar aðstæður á sérhannaðri braut þar sem til dæmis er hægt að þjálfa hálkuakstur allt árið. Skilyrði þess að fullnaðarskírteini sé gefið út að tveimur árum liðnum er að þessari akstursþjálfun sé lokið
Engin braut til akstursþjálfunar af þessu tagi er til á landinu í dag.
Í nýju aðalskipulagi fyrir Sveitarfélagið Árborg er gert ráð fyrir svæði undir þessa starfsemi ásamt athafnasvæði undir aðrar hliðstæðar greinar á rúmgóðu landsvæði sem er um 20 hektarar.
Svæðið er tilbúið til deiliskipulags og gæti orðið tilbúið til framkvæmda að loknu deiliskipulagsferlinu.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum. Þórunn Jóna Hauksdóttir, bæjarfulltrúi D-lista, situr hjá.

Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, gerði grein fyrir atkvæði sínu:
Með þessari samþykkt á í fyrsta lagi á að fara í uppbyggingu æfingasvæðis án þess að fyrir liggi kostnaðarskipting við framkvæmd svæðisins. Í öðru lagi eru dæmi um að fyrirtæki hafi beðið svo mánuðum skiptir eftir úrlausn mála við óskum um lóðir í Árborg og nú er engin iðnaðar- og athafnalóð tilbúin til umsóknar. Þess vegna hefur þurft að grípa til þess að veita fyrirtækjum vilyrði fyrir lóðum áður en þær eru skipulagðar, m.a. á því svæði sem fyrirhugað var að byggja upp frístundasvæði í tíð fyrrverandi bæjarstjórnar - þar sem m.a. skyldi rúmast æfingasvæði fyrir ökukennslu. Í þriðja lagi má velta fyrir sér hvort hér gangi aftur tillaga bæjarfulltrúa S-lista frá 2006 um uppbyggingu frístundasvæðis við Selfossflugvöll þar sem segir: ,,... jafnframt [á] að falla frá hugmyndum um stórfellda mannvirkjagerð við Sundhöll Selfoss og á íþróttavallarsvæðinu við Engjaveg."

Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:

1. Hvar er uppbygging akstursæfingasvæðis áætluð?
2. Hvenær er áætlað að iðnaðar- og athafnalóðir verði tilbúnar til umsóknar í Árborg?
3. Hefur meirihluti B-, S- og V-lista fallið frá uppbyggingu íþróttahúss, íþróttavalla og sundlaugarmannvirkja á næstu árum við Selfossflugvöll - eins og gert er ráð fyrir í greinagerð með tillögu bæjarfulltrúa S-lista frá 2006?

11. 0807027 - Forvarnaáætlun 2008, aðgerðaáætlun 2008-2009

Forvarnastefna sveitarfélagsins og aðgerðaáætlun var lögð fram og samþykkt samhljóða.

12. 0807031 - Fyrirspurn bæjarfulltrúa D-lista um flutning skipulags- og byggingamála í Ráðhús

Lögð var fram svohljóðandi fyrirspurn um flutning skipulags- og byggingarmála í Ráðhús Árborgar.
Samþykkt hefur verið að aðskilja skipulags- og byggingarmál og framkvæmda- og veitumál. Öll þessi þjónusta hefur verið staðsett að Austurvegi 67 þar sem hagræði er að því fyrir notendur og starfsmenn.

1. Hvenær var ákveðið að skipulags- og byggingarmál flyttust í Ráðhús Árborgar?
2. Hver tók þá ákvörðun?
3. Hvað kostar flutningurinn?

Lögð voru fram svohljóðandi svör:
Á fundi bæjarráðs þann 6.9. 2007 var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að kaupa ráðgjöf vegna stefnumótunar á framkvæmda- og veitusviði. Fulltrúi minnihlutans lét þá m.a. bóka að löngu væri orðið tímabært að gera skipulagsbreytingar á framkvæmda- og veitusviði. Stefnumótunarvinnan leiddi af sér tillögur að nýju skipulagi sem samþykkt var í bæjarstjórn 15.11. 2007 og starfsmannastjóra í samvinnu við bæjarstjóra falin innleiðing skipulagsins. Skipulagið tók gildi 1. janúar 2008 og þar er m.a. gert ráð fyrir flutningi skipulags- og byggingardeildar í ráðhúsið. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2008 er gert ráð fyrir fjármunum vegna flutnings á Skipulags- og byggingardeild í ráðhúsið. Með samþykkt fjárhagsáætlunar var þessi flutningur afgreiddur athugasemdalaust af hálfu D lista. Það er því undarlegt hjá bæjarfulltrúa D-lista að koma af fjöllum með þetta mál nú eftir athugasemdalausa afgreiðslu í desember 2007. Endanlegur kostnaður vegna breytinga í ráðhúsi liggur ekki fyrir en í því verkefni eins og öðrum liggur fjárhagsáætlun ársins verkinu til grundvallar.

13. 0807030 - Fyrirspurn bæjarfulltrúa D-lista um stöðu mála vegna kaupa á Vallholti 38

Lögð var fram svohljóðandi fyrirspurn um stöðu mála vegna kaupa á Vallholti 38

Kaup á einbýlishúsi við Vallholt 38 sem samþykkt voru af meirihluta bæjarráðs 17. janúar 2008 vöktu spurningar.
Á 77. fundi bæjarráðs 24. janúar 2008 var fyrirspurn D-lista svarað þar sem segir m.a: "Ráðast þarf í endurbætur á húsinu í samráði við FAAS til að laga það að þörfum slíkrar starfsemi og mun kostnaðaráætlun liggja fyrir á næstu vikum."

Nú 6 mánuðum síðar hefur ekkert gerst svo vitað sé og er því rétt að spyrja:

1. Hver er staða þessa máls?
2. Hvar er kostnaðaráætlunin?
3. Hvers vegna lá á að kaupa húsið án kostnaðaráætlunar?

Lögð voru fram svohljóðandi svör:
Þegar kaupin á húsinu Vallholt 38 voru ákveðin á sínum tíma voru vonir um að starfsemi dagþjónustu í samvinnu við FAAS vegna fólks með minnissjúkdóma hér í Árborg lægi í loftinu og talið nauðsynlegt að festa kaup á viðeigandi húsnæði. Dráttur hefur orðið á afgreiðslu málsins frá félags- og tryggingamálaráðuneyti vegna þess að ekki hefur verið gengið frá tilfærslu fjármagns frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis vegna dagþjónustu við aldraða en hluti af öldrunarþjónustu færðist sem kunnugt er frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis um síðustu áramót. Þegar ljóst var að ákvörðun ráðuneytisins myndi dragast var ákveðið að fresta öllum endurbótum þangað til ákvörðun lægi fyrir. Beðið er afgreiðslu félagsmálaráðuneytisins og þegar hún liggur fyrir verða teknar viðeigandi ákvarðanir í málinu.

Erindi til kynningar

14.  0806099 - Stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið - Netríkið Ísland 2008-2012

Lagt fram.

15. 0807017 - Samþykktir aðalfundar Umf. Selfoss 2008

Lagt fram.

Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, ritar undir fundargerðina með fyrirvara um að upplýsingar sem koma fram í svari við fyrirspurn í 12. lið séu réttar.

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 10:04.

Margrét Katrín Erlingsdóttir                             
Þórunn Jóna Hauksdóttir
Helgi Sigurður Haraldsson                                
Ásta Stefánsdóttir


Þetta vefsvæði byggir á Eplica