Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


21.8.2008

104. fundur bæjarráðs

104. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn fimmtudaginn 21. ágúst 2008 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10

Mætt: 
Jón Hjartarson, formaður, V-lista (V)
Margrét Katrín Erlingsdóttir, bæjarfulltrúi, B-lista (B)
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi, D-lista (D)
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri (S)

Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari

Formaður bæjarráðs leitaði afbrigða til að taka á dagskrá tillögu um niðurfellingu fasteignagjalda af húsum sem þarf að rífa vegna tjóns af völdum jarðskjálfta. Var það samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

Fundargerðir til staðfestingar:

1.0801034 - Fundargerðir félagsmálanefndar 2008
29.fundur haldinn 11.ágúst


-liður 4, 0806076, breyting á lögum um málefni aldraðra, bæjarráð tekur undir sjónarmið nefndarinnar um að eðlilegra hefði verið að hafa eina vistunarmatsnefnd í stað tveggja.
Fundargerðin staðfest.

2. 0801026 - Fundargerðir skólanefndar grunnskóla 2008
25.fundur haldinn 14. ágúst


-liður 2, stefnumótun um framtíðaruppbyggingu skólamannvirkja á Selfossi, bæjarráð felur formanni skólanefndar og verkefnisstjóra fræðslumála í samráði við bæjarritara að gera tillögu til bæjarráðs um skipan í vinnuhóp um framtíðaruppbyggingu skólamannvirkja.
Fundargerðin staðfest.

3. 0801021 - Fundargerðir skipulags- og byggingarnefndar 2008
54.fundur haldinn 14.ágúst


-liður 1, 0804106, umferðarskipulag í Tjarnarbyggð, bæjarráð samþykkir umferðarskipulagið. Bæjarráð tekur undir sjónarmið nefndarinnar um lagfæringu gatnamótanna og felur skipulags- og byggingafulltrúa að ræða við Vegagerðina um málið.
-liður 6, 0804126, tillaga að breyttu deiliskipulagi búgarðabyggðar í landi Byggðarhorns, bæjarráð samþykkir tillöguna.
-liður 8, 0808027, tillaga að breyttu deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis á Selfossi, bæjarráð samþykkir tillöguna.
Fundargerðin staðfest.

Almenn erindi

4. 0808023 - Kosning fulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar á aðalfund afréttarfélags Flóa og Skeiða

Lagt var til að Grétar Zóphoníasson og Ari B. Thorarensen verði fulltrúar Árborgar á aðalfundi afréttarfélags Flóa og Skeiða.
Var það samþykkt samhljóða.

5. 0808026 - Tillaga um gerð leigusamnings milli Sveitarfélagsins Árborgar og Landsbanka Íslands vegna stækkunar á skólalóð Sandvíkurskóla.

Lögð voru fram drög að leigusamningi. Bæjarstjóra var falið að undirrita samninginn.

6. 0808030 - Beiðni ferðaþjónustuaðila á Stokkseyri um fjárstyrk v/fjölskyldudaga á Stokkseyri um verslunarmannahelgina

Lagt var til að erindinu yrði hafnað.
Var það samþykkt með tveimur atkvæðum, Eyþór Arnalds, D-lista, sat hjá.

Eyþór Arnalds, D-lista óskaði eftir að bókað yrði:
Mikilvægt er að hafa skýra stefnu í styrkjamálum vegna menningarmála, jafnframt þarf að bæta upplýsingagjöf um möguleika á styrkjum.

Jón Hjartarson, V-lista, óskaði eftir að bókað yrði:
Stefnan er skýr.

7. 0706066 - Erindi Sorpstöðvar Suðurlands vegna fyrirhugaðra kaupa Sorpstöðvarinnar á viðbótarhlutafé í Förgun ehf.

Lagt var til að bæjarráð Árborgar fallist á hlutafjáraukningu með þeim skilyrðum að framlagið verði tekið af eigin fé Sorpstöðvarinnar og að stefnt verði að því að Sorpstöð Suðurlands selji sinn hlut í fyrirtækinu.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum, Eyþór Arnalds, D-lista, situr hjá.

8. 0808039 - Umsókn um undanþágu til náms í Flóaskóla

Lagt er til að erindinu verði hafnað með vísan til fyrri afgreiðslu málsins.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum, Eyþór Arnalds, D-lista situr hjá.

Eyþór Arnalds, D-lista, óskaði eftir að bókað yrði:
Valfrelsi er almennt æskilegt í skólamálum.

9. 0808041 - Samstarfssamningur vegna Sérdeildar Suðurlands og starfsreglur sérdeildarinnar

Lagt var til að samningurinn yrði staðfestur með þeim fyrirvara að uppsagnarákvæði líkt og gilti í eldri samningi verði bætt inn.
Samþykkt samhljóða.

10. 0808045 - Tillaga um þátttöku í umsókn um verkefnisstyrk til Northern Periphery Program vegna verkefnis sem varðar undirbúning samfélaga til að mæta náttúruhamförum

Lögð var fram svohljóðandi tillaga:
Tillaga um þátttöku í umsókn um verkefnisstyrk til Northern Periphery Programm vegna verkefnis sem varðar undirbúning samfélaga til að mæta náttúruhamförum. Að umsókninni standa fyrir hönd Íslands, Stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands, auk tveggja sveitarfélaga og er hér lagt til að Árborg verði annað þeirra.

Bæjarstjóra hefur borist beiðni frá Stofnun Sæmundar fróða, Háskóli Íslands, um að Sveitarfélagið Árborg taki þátt í umsókn um verkefni til Northern Periphery Programm sem varðar undirbúning samfélaga til að mæta náttúruhamförum. Að umsókninni stendur Stofnun Sæmundar fróða og hefur verið leitað samstarfs við tvö sveitarfélög á Íslandi, Sveitarfélagið Árborg og Mýrdalshrepp. Um er að ræða fjölþjóðlegt samstarfsverkefni og er mikil áhersla lögð á þátttöku sveitarfélaga, þar sem m.a. mun gefast tækifæri til að deila reynslu og þekkingu, bera saman viðbragðsáætlanir og fleira en markmiðið er að gera smá samfélög hæfari til að takast á við afleiðingar náttúruhamfara. Sú vinna sem við höfum unnið í kjölfar Suðurlandsskjálftans 2008 við að útbúa og innleiða leiðbeiningar við endurreisnarstarf hefur skilað mikilvægri og sérstakri reynslu og þekkingu sem mikilvægt er að miðla til annarra. Árborg er á þekktu jarðskjálftasvæði auk þess sem í Ölfusá er flóðahætta og sjávarflóð eru þekkt við ströndina. Þá er mikilvægt að hugað sé að þeirri staðreynd að yfirborð sjávar fer sífellt hækkandi og nauðsynlegt að við látum það okkur varða. Þátttaka í verkefninu getur því verið mikilsverð fyrir okkur í framtíðinni.
Framlag Árborgar til verkefnisins felst í þátttöku 1-2 einstaklinga sem þekkja vel til og að halda einn vinnufund einhvern tíman á 3ja ára tímabili verkefnisins. Þar kæmi allur fjölþjóðlegi hópurinn (ca. 50 manns) og fundaði á Suðurlandi auk þess að fara um svæðið og skoða aðstæður. Fjárframlag sveitarfélagsins á tímabilinu yrði á bilinu 900-1.000 þúsund kr.. Lagt er til að kostnaði vegna þess verði vísað til fjárhagsáætlunargerðar vegna ársins 2009.
Ragnheiður Hergeirsdóttir
bæjarstjóri

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

11. 0808046 - Tillaga frá fulltrúa, D-lista, um metangas

Svohljóðandi tillaga var lögð fram:

Tillaga um metangas
Bæjarráð samþykkir að vinna að því að komið verði upp afgreiðslu á metangasi og öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum innan Árborgar.

Greinargerð:
Hátt eldsneytisverð og aukin meðvitund um umhverfismál hafa orðið til þess að ríkistjórn og hagsmunaaðilar í eldsneytisdreifingu hafa beint sjónum sínum að endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir bifreiðar. Nú þegar eru komnar dælustöðvar í Reykjavík þar sem unnt er að fá metan og annað eldsneyti fyrir bifreiðar. Þá hafa opinberar stofnanir og fyrirtæki fjárfest í bifreiðum sem nota endurnýjanlega orkugjafa og bendir margt til þess að á því verði enn frekari aukning. Þeir sem vilja nota bifreiðar sem nota endurnýjanlega orkugjafa og búa í sveitarfélaginu Árborg hafa enga kosti á að fá áfyllingu á bíla sína á svæðinu. Það er því til hagsbóta fyrir íbúa og umhverfið að bæta aðgengi fólks að endurnýjanlegum orkugjöfum innan sveitarfélagsins. Þá er Selfoss í alfaraleið ferðafólks og því rökrétt að á Selfossi eða í nágrenni verði komið upp dæluaðstöðu hvort sem er á núverandi dælustöðvum eða með öðrum hætti. Þá hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að hún muni beita sér fyrir því að efla aðstöðu sem þessa á helstu þjóðvegum.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

 

12. 0808047 - Fyrirspurn frá fulltrúa, D-lista, vegna kaupa á Vallholti 38

Lögð var fram svohljóðandi fyrirspurn vegna kaupa á Vallholti 38:

Meirihluti bæjarstjórnar ákvað að kaupa einbýlishúsið við Vallholt 38 í janúar síðastliðnum. Húsið var keypt á þeim forsendum að nota ætti húsið sem dagvist fyrir skjólstæðinga FAAS. Húsið sem er einbýlishús með bílskúr þarfnast augljóslega mikilla breytinga til að geta nýtst, en ekki hefur komið fram hvenær eða hvernig breyta eigi húsinu. Í svari meirihluta bæjarráðs frá 24. janúar segir m.a.:

"Ráðast þarf í endurbætur á húsinu í samráði við FAAS til að laga það að þörfum slíkrar starfsemi og mun kostnaðaráætlun liggja fyrir á næstu vikum. Sambærileg starfsemi er rekin í eldri einbýlishúsum í Reykjavík sem endurbætt hafa verið í samræmi við þarfir starfseminnar.
Ekki var hægt að sækja um leyfi til reksturs starfsemi í húsi sem sveitarfélagið hafði ekki eignast. Framtíðaráform eru þau að starfsemi dagþjálfunar fyrir fólk með alzheimer og skylda sjúkdóma verði í þjónustuhúsnæði sveitarfélagsins við Austurveg/Grænumörk sem áætlað er að taka í notkun árið 2010. Þetta má sjá í samningi sem afgreiddur var í bæjarráði þann 10. janúar s.l. og fyrirspyrjandi hefur undir höndum. Meirihluti bæjarstjórnar leggur áherslu á að fá þessa þjónustu í gang á yfirstandandi ári."

Því er rétt að spyrja nú:
a) Liggur kostnaðaráætlun fyrir?
b) Hver verður heildarkostnaður vegna kaupa og endurbóta?
c) Hver er staðan á framtíðaráformum þeim sem á að taka í notkun árið 2010?
d) Mun starfssemi í Vallholti 38 hefjast á yfirstandandi ári eins og meirihluti bæjarstjórnar leggur áherslu á?

Lögð voru fram eftirfarandi svör:
a) Nei
b) sjá a)
c) Unnið er að hönnun hússins
d) Afgreiðsla félagsmálaráðuneytisins liggur ekki fyrir.

13. 0808049 - Fyrirspurn frá fulltrúa, D-lista um heimsendan mat eldri borgara

Lögð var fram svohljóðandi fyrirspurn um heimsendan mat eldri borgara:

Hvers vegna var fallið frá því að senda heitan mat til eldri borgara þegar samningur þar að lútandi við HSu féll niður?

Lagt var fram svohljóðandi svar:
Í fyrirspurninni er farið með rangt mál þegar sagt er að samningur hafi fallið niður, rétt er að benda bæjarfulltrúa D lista á það enn og aftur að Heilbrigðisstofnun Suðurlands sagði upp samningi við sveitarfélagið um heimsendan mat. Leitað var eftir því við HSu að áframhald yrði en var því hafnað. Eftir að tilboða hafði verið leitað var ákveðið að semja við Sláturfélag Suðurlands um kaup á mat í staðinn fyrir þann sem áður var fenginn hjá HSU.. Fyrirtækið hefur langa reynslu í framleiðslu á mat fyrir stofnanir s.s skóla, leikskóla, elliheimili o.fl. Hefur ekki borið á öðru en almenn ánægja ríki með þessa lausn mála, hjá þeim sem fá matinn sendan heim.

Eyþór Arnalds, D-lista, óskaði eftir að bókað yrði:
Ástæður þess að samningur við HSu er úr gildi fallinn breyta engu um það að hann er ekki lengur í gildi. Borið hefur á óánægju vegna þessara breytinga eins og víða hefur komið fram.

14. 0709116 - Fyrirspurn frá fulltrúa, D-lista um knattspyrnuaðstöðu

Lögð var fram svohljóðandi fyrirspurn um knattspyrnuaðstöðu:

Hvernig hefur sveitarfélagið undirbúið aðstöðumál vegna knattspyrnu við Engjaveg?
Frábær árangur UMF Selfoss í 1. deild knattspyrnu karla vekur vonir um að félagið leiki í úrvalsdeild innan skamms. Eins og kunnugt er gerir KSÍ ákveðnar kröfur til aðstöðu og er því eðlilegt að fram komi á hvern hátt sveitarfélagið hefur undirbúið aðstöðumál við Engjaveg í samræmi við kröfur KSÍ. Þá hefur komið fram að framkvæmdir eru hafnar á æfingaaðstöðu án þess að nýtt deiliskipulag hafi tekið gildi eða verið auglýst.

Lagt var fram eftirfarandi svar:
Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum 13.03.08 tillögu um að endurnýja knattspyrnuvöllinn á íþróttasvæðinu við Engjaveg á Selfossi. Jafnframt kemur fram í tillögunni að fara skyldi „fram nánari útfærsla svæðisins í góðu samráði fulltrúa sveitarfélagsins og fulltrúa íþróttahreyfingarinnar...." og skipaður „...samráðshópur sem vinni með hönnuðum. Hópinn skipi íþrótta- og tómstundafulltrúi Árborgar, framkvæmdastjóri Framkvæmda- og veitusviðs, formaður ÍTÁ og einn fulltrúi tilnefndur af stjórn UMFS", eins og fram kemur í fundargerð. Á fundi samráðshópsins komu til álitsgjafar margir fulltrúar knattspyrnudeildar Umf. Selfoss og lauk vinnu hópsins með því að óskum knattspyrnudeildarinnar um tímasetningar og röð framkvæmda var fylgt og skrifað undir viljayfirlýsingu um það hvernig staðið yrði að málum. Vegna orða fyrirspyrjanda um að fram hafi komið að framkvæmdir séu „...hafnar á æfingaaðstöðu án þess að nýtt deiliskipulag hafi tekið gildi eða verið auglýst", þarf að koma fram að engar framkvæmdir eru hafnar á svæðinu sem ekki eru í samræmi við gildandi deiliskipulag, frá 15. janúar 2003. Allar þessar upplýsingar eru fyrirspyrjanda kunnar og auk þess aðgengilegar í fundargerðum.

15. 0807027 - Beiðni um aukafjárveitingu til prentunar og dreifingar á forvarnastefnu sveitarfélagsins

Bæjarráð samþykkir fjárveitingu að fjárhæð kr. 900.000 til prentunar og dreifingar á forvarnarstefnu og aðgerðaráætlun 2008-2009. Kostnaðinn skal taka af liðnum óráðstafað.

16. 0807022 - Svör við fyrirspurnum bæjarfulltrúa D-lista frá 10. júlí s.l. um tillögu um að óskað verði eftir viðræðum við félagsmálaráðherra til að ræða möguleika á að teknar verði upp viðræður við ráðuneytið um yfirtöku á málefnum aldraðra

1. Hvaða undirbúningsvinna sem meirihlutanum þykir nauðsynleg, hefur farið fram? Óskað er eftir yfirliti um hana.
Í upphafi skal á það minnt að fleiri en einn stjórnmálaflokkanna sem buðu fram í sveitarstjórnakosningum vorið 2006 höfðu á stefnuskrá sinni að semja við ríkið um yfirfærslu á þjónustu við aldraða til sveitarfélaganna. Athygli vekur hversu oft fulltrúar D lista telja sinn flokk þann eina sem komið hefur fram með hugmyndir, tillögur og úrlausnir. Vekur það spurningar um hversu vel fulltrúarnir fylgist með því sem gerist utan þeirra eigin raða. Frá því fulltrúar D lista lögðu fram tillögu sína í janúar 2007, en fyrirspyrjandi vísar til hennar er hann lagði fram þessa fyrirspurn í bæjarráði þann 10. júlí s.l., hafa eftirtalin atriði komið fram: Á vegum SASS hefur ekki verið unnin athugun á vilja sveitarfélaga á Suðurlandi til þess að gera þjónustusamning við ríkið um málefni aldraðra, eins og áætlað var. Vinna verkefnisstjórnar á vegum ríkis og sveitarfélaga um yfirfærslu á málefnum aldraðra er langt komin. Félagsmálaráðherra hefur lýst yfir vilja sínum til að fara í samningaviðræður við sveitarfélög um verkefnið. Síðustu mánuði hefur verið unnið að mati á þjónustu við aldraða í Árborg og gerð tillagna um áframhaldandi uppbyggingu þjónustunnar en til verksins var fenginn Jón Björnsson sálfræðingur.

2. Hefur þessi vilji Sveitarfélagsins Árborgar verið kynntur stjórn og velferðarmálanefnd SASS?
Nei

17. 0807023 - Svör við fyrirspurnum bæjarfulltrúa D-lista frá 10. júlí s.l. um staðsetningu akstursæfingasvæðis

Lagt var fram svohljóðandi svar:
Staðsetning akstursæfingasvæðis er ekki endanlega ákveðin, en horft hefur verið til svæðisins nærri Selfossflugvelli.

18. 0808048 - Svör við fyrirspurn bæjarfulltrúa D- lista frá 10. júlí um hvenær iðnaðar- og atvinnulóðir verði tilbúnar til umsóknar.

Lagt var fram svohljóðandi svar:
Lóðir við Fossnes verða auglýstar í haust. Deiliskipulagstillaga fyrir "Eyðimerkursvæðið" verður væntanlega á dagskrá Skipulags- og bygginganefndar í næstu viku en þar er gert ráð fyrir nokkrum stórum lóðum.

19. 0805070 - Svör við fyrirspurn bæjarfulltrúa D-lista frá 10. júlí s.l. um hvort fallið hafi verið frá uppbyggingu íþróttamannvirkja á næstu árum við Selfossflugvöll

Lagt var fram eftirfarandi svar:
Eins og bæjarfulltrúa D-lista ætti að vera ljóst kom í ljós við ítarlegar rannsóknir að umrætt land við Selfossflugvöll er mjög sprungið og því nánast útilokað að koma þar fyrir þeim mannvirkjum sem fyrirhugað var, án þess að þær lægju yfir jarðsprungur, hvað þá að tengja með hagkvæmum hætti fjölnota íþróttahús, sundlaugarmannvirki, íþróttavelli og aðra tómstunda- og ferðaþjónustu, sem var kjarninn í þeirri tillögu sem unnið var að. Það kemur einnig spánskt fyrir sjónir að bæjarfulltrúa D-lista skuli ekki vera ljóst að á umræddu landi hefur fyrir mörgum mánuðum verið samþykkt að deiliskipuleggja iðnaðarsvæði, og vinna við gerð breytinga á aðalskipulagi og nýju deiliskipulagi svæðisins er nú á lokastigi hjá hönnuðum. Á fundi bæjarráðs þann 27. júní s.l. var eftirfarandi samþykkt: Bæjarráð veitir Set ehf. vilyrði skv. 8. gr. reglna um úthlutun lóða fyrir lóð við flugvöll, milli flugvallar og Eyrarbakkavegar, allt að 12 ha að stærð, og felur skipulags- og byggingarnefnd að úthluta lóðinni að lokinni þeirri deiliskipulagsvinnu sem stendur yfir.
Fulltrúi D lista í bæjarráði stóð að þessari afgreiðslu.
Óskandi væri að kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn sýndu meiri áhuga og fylgdust betur með á fundum sem þeir sitja, en ráða má af þessari fyrirspurn að þeir geri.

20. 0806028 - Svör við fyrirspurnum bæjarfulltrúa D-lista um viðgerðir á fasteignum Sveitarfélagsins Árborgar eftir jarðskjálfta 29. maí

Lögð voru fram svohljóðandi svör:
Mikil vinna var lögð í að finna verktaka sem höfðu þekkingu, mannskap og tækifæri til að koma til starfa með stuttum fyrirvara. Haft var samband við verktaka sem áður hafa unnið fyrir sveitarfélagið auk þess sem óskað var eftir ábendingum frá verkfræðistofum og söluaðilum viðgerðaefna um hæfa verktaka. Núna eru 24 mismunandi verktakar að vinna fyrir sveitarfélagið við viðgerðir eftir jarðskjálftann og hvernig aðkoma þeirra hófst er jafn misjöfn og þeir eru margir.
Ekki var gerlegt að bjóða viðgerðir út eða leita tilboða vegna þess stutta tíma milli þess sem jarðskjálftinn ríður yfir þar til viðgerðum á leikskólum, grunnskólum og íþróttahúsum þurftu að vera búnar. Unnið er ýmist eftir einingaverðum eða í tímavinnu en einingaverð fyrir múrviðgerðir og málningarvinnu eru þekkt og ekki verður greitt umfram það sem eðlilegt getur talist.
3. Gott útlit er fyrir að starfsemi leik- og grunnskóla raskist ekki mikið. Meiriháttar viðgerðum verður lokið en einhverjar minni viðgerðir verða að bíða betri tíma. Hugsanlega þarf að loka sundlauginni á Selfossi um tíma í haust en ekki er mögulegt að segja nákvæmlega til um það eins og er. Listi yfir þau verk sem vinna þarf og kostnaðaráætlun er ekki til. Fulltrúar Viðlagatryggingar eru að vinna tjónamat fyrir hverja byggingu fyrir sig og ekki liggur fyrir hvenær því starfi lýkur. Auk þess má reikna með að skemmdir munu koma í ljós á næstu mánuðum og jafnvel árum.

Guðmundur Elíasson, framkvæmdastjóri Framkvæmda- og veitusviðs Árborgar

21. 0803119 - Svör við fyrirspurnum bæjarfulltrúa D-lista um framkvæmdir á Engjavegssvæðinu við Langholt.

Lögð voru fram svohljóðandi svör:
1. Þessa dagana er verið að slétta svæðið og tyrfa.
2. Í gildandi deiliskipulagi frá 15.janúar 2003 er þarna gert ráð fyrir útivistar- og íþróttasvæði og er þetta verk í samræmi við það. Reiknað er með að Knattspyrnudeild UMF Selfoss geti nýtt sér svæðið til æfinga og æfingaleikja meðan verið er að vinna við aðalvöllinn frá komandi hausti og yfir sumarið 2009.
3. Á fundi bæjarstjórnar sem haldinn var þann 13.03.2008 var samþykkt að endurbæta knattspyrnuvöllinn og gera frjálsíþróttavöll á íþróttasvæðinu við Engjaveg. Í framhaldi af því var stofnaður samráðshópur skipaður af íþrótta- og tómstundafulltrúa Árborgar, framkvæmdastjóra Framkvæmda- og veitusviðs, formanni ÍTÁ og einum fulltrúa tilnefndum af stjórn UMFS. Á fundum sem haldnir voru með fulltrúum knattspyrnudeildar komu fram óskir þeirra um að framkvæmdin færi ekki af stað fyrr en eftir keppnistímabilið 2008 og var ákveðið að verða við þeim óskum. Auk þess óskuðu þeir eftir því að fundin yrði lausn á aðstöðuleysi deildarinnar meðan á framkvæmdum stendur en með því að missa vellina sem fara undir vinnusvæðið myndi starf deildarinnar skaðast bæði hvað varðar æfingar og mótshald OL&Iacut


Þetta vefsvæði byggir á Eplica