107. fundur bæjarráðs
107. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn fimmtudaginn 11. september 2008 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10
Mætt:
Jón Hjartarson, formaður, V-lista
Þorvaldur Guðmundsson, bæjarfulltrúi, B-lista
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi, D-lista
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri (S)
Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari
Fundargerðir til kynningar:
•1. 0802100 - Fundargerð stjórnar Leigubústaða Árborgar ehf.
frá 05.09.08
Fundargerðin var lögð fram.
Almenn erindi
•2. 0805074 - Kosning varaformanns í bæjarráð
Lagt var til að Þorvaldur Guðmundsson, B-lista, yrði kosinn varaformaður bæjarráðs. Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt
- 3. 0808124 - Umsókn um aðild að verkefni á sviði kynningar- og ferðaþjónustu (Norðurljós)
Lögð var fram tillaga frá B, S og V lista um að Sveitarfélagið Árborg sæki um aðild að verkefninu Seljum Norðurljósin. Stofnkostnaði vegna umsóknar, kr. 100 þús. verði mætt af liðnum óráðstafað.
Tilgangur verkefnisins er að byggja upp öfluga vetrarferðamennsku á Íslandi með áherslu á Norðurljósaskoðun en nýta samhliða þau tækifæri sem Ísland hefur að bjóða til alhliða vetrarferðaþjónustu.
Markmiðin eru að nýta fjárfestingar í ferðamannaiðnaði betur en nú er gert utan háannatíma og þar með stuðla að betri arðsemi í ferðaþjónustu. Með því að auka ferðaþjónustu allt árið skapast mun fleiri heilsársstörf í ferðaþjónustu, m.a. störf fyrir fagmenntað fólk á sviðinu.
Verkefnið Seljum Norðurljósin er nú samstarfsverkefni 5 sveitarfélaga og ferðaþjónustuaðila og einstaklinga víðs vegar um landið.
Aðilar greiða kr. 100 þúsund í stofnkostnað og taka síðan þátt í sameiginlegri markaðssetningu. Ríkið leggur verkefninu til árlega um 40 % teknanna, 30 % komi frá aðildarsveitarfélögunum og 30 % frá ferðaþjónustuaðilum á þeim svæðum. Hluti af framlagi sveitarfélaga og ferðaþjónustuaðila er reiknuð vinna aðila.
Um er að ræða mjög gott tækifæri til að markaðssetja Sveitarfélagið Árborg sem áhugaverðan og vinsælan ferðamannastað og getur haft gríðarlega víðtæk áhrif á atvinnuuppbyggingu í Árborg og nágrenni.
Meirihluti B, S og V lista.Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Eyþór Arnalds, D-lista, gerði grein fyrir atkvæði sínu:
"Seljum Norðurljósin" er verkefni sem hentar Árborg vel vegna staðsetningar sveitarfélagsins og er eitt af þeim svæðum sem eru að mestu laus við ljósmengun. Seljum Norðurljósin er meðal atriða sem ég benti á í grein í Sunnlenska Fréttablaðinu í apríl 2006 þar sem fjallað var um sóknarfæri í ferðamálum. - 4. 0805017 - Beiðni Fjölskyldumiðstöðvar um aukafjármagn í kjölfar úttektar á tækjaþörf íþróttavallarsvæðisins við Engjaveg
Bæjarráð samþykkir viðbótarfjárveitingu kr. 1.000.000 til tækjakaupa vegna íþróttavallasvæðis. Kostnaður færist á liðinn óráðstafað. - 5. 0809042 - Tillaga um kaup á hraða- og umferðargreini (hraðaviðvörunarskilti)
Lögð var fram svohljóðandi tillaga um kaup á hraða- og umferðargreini:Bæjarráð samþykkir að keyptur verði hraða- og umferðargreinir (hraðaviðvörunarskilti) og felur framkvæmdastjóra framkvæmda- og veitusviðs að láta setja hann upp, í nágrenni skólamannvirkja við Engjaveg, til að byrja með. Kostnaður verði tekinn af liðnum óráðstafað.
Greinargerð:
Mjög brýnt er að stuðla að auknu umferðaröryggi innan sveitarfélagsins, ekki síst á svæðum þar sem ökuhraði er mikill og stöðug umferð gangandi vegfarenda, barna og fullorðinna. Hraðaviðvörunarskilti af þessu tagi eru færanleg og unnt að setja upp þar sem sérstök þörf er á að draga úr umferðarhraða. Tækið mælir hraða bifreiða og gefur upp á hvaða hraða er ekið, auk þess sem hugbúnaður sem fylgir heldur utan um fjölda ökutækja og mældan hraða og geta þær upplýsingar nýst sveitarfélaginu við mat á þörf fyrir sérstakar aðgerðir til að ná niður hraða, auk þess sem þær nýtast lögreglu við umferðareftirlit.
Ragnheiður Hergeirsdóttir,
bæjarstjóriTillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða. Kostnaður færist á liðinn óráðstafað.
- 6. 0809038 - Styrkbeiðni frá Dropanum- sumarbúðir fyrir sykursjúk börn
Bæjarráð samþykkir að veita kr. 120.000 til sumarbúða fyrir sykursjúk börn. Kostnaður færist af fjárveitingu Fjölskyldumiðstöðvar. - 7. 0808032 - Almenningssamgöngur milli Reykjavíkur og Selfoss- staða mála
Farið var yfir málið og ákveðið að taka það til afgreiðslu á næsta fundi. - 8. 0504045 - Kynnt tillaga Vegagerðarinnar um brúarstæði á Ölfusá
Bæjarráð óskar eftir fundi með fulltrúum Vegagerðarinnar vegna hugmynda hennar um færslu á brúarstæði yfir Ölfusá austan Selfoss. Farið er fram á að á þeim fundi verði lagðar fram greinargóðar upplýsingar um forsendur nýrra hugmynda, sérstaklega út frá kostnaðar- og öryggissjónarmiðum. Jafnframt er óskað eftir tillögum um mótvægisaðgerðir vegna umhverfisáhrifa af hálfu Vegagerðarinnar. Þá leggur bæjarráð til við samgönguráðherra og Vegagerðina að sá kostur verði einnig metinn af fullri alvöru að leggja göng undir Ölfusá. Tækninni fleygir stöðugt fram og því telur bæjarráð mikilvægt að allir möguleikar séu vandlega skoðaðir þegar fara þarf í framkvæmdir af þessari stærðargráðu. - 9. 0805143 - Milliuppgjör 2008
Lögð var fram svohljóðandi bókun:Niðurstaða rekstrar Sveitarfélagsins Árborgar skv. uppgjöri eftir fyrstu sex mánuði ársins sýnir 29 milljón króna rekstrartap. Í áætlun var gert ráð fyrir rekstrarafgangi sem nemur 377,3 millj.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins en í fjárhagsáætlun ársins er gert ráð fyrir rekstrarafgangi upp á 66,1 millj.kr. Mismunur tímabilsins og ársáætlunar er því 95,1 millj.kr..
Frávik vegna gengismunar fyrstu sex mánuðina eru um 232 milljónir króna. Það sem af er þessu ári hefur ástandið í efnahagslífinu verið erfitt með mikilli hækkun gengisvísitölu, veikri stöðu krónunnar og mikilli verðbólgu. Gengisvísitala hækkaði um 32 % á tímabilinu, neysluverðsvísitalan hækkaði um 8,9 % fyrstu sex mánuði ársins og byggingavísitalan um 5.7 % á sama tíma. Rekstur stofnana og deilda A-hluta er þó almennt í samræmi við áætlanir en um nokkur frávik að ræða í tveimur deildum, skipulags- og byggingamálum og umferðar- og samgöngumálum. Skýringar liggja m.a. í útgjöldum vegna lögfræði- og verkfræðiþjónustu auk hönnunarkostnaðar vegna skipulagsmála. Þá fór kostnaður vegna snjómoksturs 39 milljónir króna fram úr áætlun en erfitt er að sjá fyrir um slíkan kostnað í upphafi vetrar, og setur það deild umferðar- og samgöngumála yfir áætlun.
Rekstrarumhverfi sveitarfélaga hefur sjaldan verið erfiðara en nú er og búast má við að áhrifa gæti enn frekar þegar líður á árið. Lýst er yfir þungum áhyggjum af stöðu efnahagsmála í landinu og sífellt erfiðara rekstrarumhverfi sveitarfélaga í landinu. Ef svo heldur fram sem horfir þá stefnir í allveruleg frávik frá áætlunum við árslok, sem að stærstum hluta orsakast vegna verulega aukins fjármagnskostnaðar og mikillar verðbólgu.
Hafinn er undirbúningur að endurskoðun ákveðinna þátta í fjárhagsáætlun og verður endurskoðuð áætlun lögð fyrir bæjarráð.Eyþór Arnalds, D-lista, óskaði eftir að bókað yrði:
Bæjarstjórnarmeirihlutinn naut þess á fyrsta heila rekstrarári sínu að hlutabréf í Hitaveitu Suðurnesja seldust fyrir sjöhundruð og þrjátíu milljónir. Nú þegar engri slíkri sölu er til að dreifa er útlit fyrir að verulegur viðsnúningur sé orðinn á rekstrinum. Áætlun fyrir árið 2008 frá desember sl fyrir fyrstu 6 mánuði ársins er með frávik upp á 406 milljónir eða 2 milljónir og tvöhundruð þúsund dag hvern frá áramótum. Rekstur bæjarsjóðs er neikvæður og því ljóst að aftur sækir í fyrra horf skuldasöfnunar og taprekstrar.
Erindi til kynningar
•10. 0802058 - Tillögur að stefnumótun Sambands íslenskra sveitarfélaga í málefnum innflytjenda
Lagt fram til kynningar.
- 11. 0806121 - Kveðja frá Þórði Skúlasyni, fv. framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga
Bæjarráð Árborgar þakkar Þórði Skúlasyni, fv. framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, gott samstarf og vinnu í þágu sveitarfélaga og óskar honum velfarnaðar. - 12. 0808129 - Yfirlýsing og bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga
Bæjarráð Árborgar tekur undir yfirlýsingu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og leggur áherslu á að árangur náist um þau mál sem fjallað er um í yfirlýsingunni.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 09:38.
Jón Hjartarson
Þorvaldur Guðmundsson
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Eyþór Arnalds
Ásta Stefánsdóttir