Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


24.1.2007

11. fundur bæjarstjórnar

 

11. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010, - aukafundur haldinn miðvikudaginn 24. janúar 2007 kl. 17.00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi.

 

Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir:

 

Þorvaldur Guðmundsson, forseti          B listi
Margrét Katrín Erlingsdóttir                  B listi
Ragnheiður Hergeirsdóttir                    S listi,
Gylfi Þorkelsson                                    S listi, 
Jón Hjartarson                                     V listi
Þórunn Jóna Hauksdóttir                      D listi
Grímur Arnarson                                   D listi, varamaður Eyþórs Arnalds
Elfa D. Þórðardóttir                              D listi
Ari B. Thorarensen                               D listi, varamaður Snorra Finnlaugssonar

 

Auk þess situr fundinn Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari, sem ritar fundargerð ogGuðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

 

Dagskrá:

 

I. Fundargerðir:

 

Engar.

 

II.  Önnur mál:

 

1. 0608004
Frumvarp að fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar 2007 A og B hluti – fyrri umræða

 

Bæjarstjóri, Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista,  fylgdi frumvarpinu úr hlaði og lagði fram svohljóðandi greinargerð með fjárhagsáætlun:

 

Greinargerð bæjarstjóra:

 

I. Almennt
Hér er lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn fjárhagsáætlun vegna ársins 2007.  Að jafnaði skal fjárhagsáætlun lögð fram og afgreidd fyrir áramót en vegna breytinga sem urðu á meirihlutasamstarfi í sveitarfélaginu í desember s.l. þá er hún nú seinna á ferðinni.  Vinna við gerð fjárhagsáætlunar hófst upp úr miðju síðasta ári og í nóvember s.l. lá fyrir frumvarp fyrri meirihluta að fjárhagsáætlun.  Það var lagt fram á 21. fundi bæjarráðs þann 30. nóvember s.l. og vísað til afgreiðslu í bæjarstjórn, án umræðu í bæjarráði.  Frumvarpið náði ekki í umræðu í bæjarstjórn áður en upp úr samstarfi slitnaði þann 1. desember s.l.. 

Nýr meirihluti Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur á undanförnum vikum unnið, ásamt framkvæmdastjórum sviða, að því að koma rekstrar- og fjárfestingaáætlunum inn í þann fjárhagsramma sem við nú búum við og mótast af þeim tekjum sem sveitarfélagið hefur úr að spila. 

Rekstrarumhverfi sveitarfélaga í landinu er almennt erfitt.  Verkefnum sveitarfélaga hefur mörg undanfarin ár farið ört fjölgandi og þau verkefni sem fyrir voru hafa orðið umfangsmeiri. Þjónustustig sveitarfélaga hefur á flestum stöðum hækkað og almennt ríkir mikill  metnaður til að veita íbúunum góða og fjölbreytta þjónustu.  Starfsemi sveitarfélaga lýtur sérstakri löggjöf
og má skipta lagaramma þeirra í tvennt.

 

Annars vegar er um að ræða lög sem setja almennan ramma utan um starfsemi sveitarfélaga. Nefna má hér sem dæmi stjórnarskrá, sveitarstjórnarlög, lög um tekjustofna sveitarfélaga, stjórnsýslulög og upplýsingalög.

 

Hins vegar eru sérlög á ýmsum valdsviðum sveitarfélaga. Þar má nefna sem dæmi grunnskólalög, skipulags- og byggingarlög og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga.

 

Tekjustofnar sveitarfélaga eru útsvör, fasteignaskattur og framlög úr JöfnunarsjóðiAuk þessa hafa sveitarfélög tekjur af eignum sínum, eigin atvinnurekstri og stofnunum sem reknar eru í almenningsþágu.  Einnig hafa þau tekjur vegna þjónustugjalda, svo sem leikskólagjöld, sorphirðugjald, leyfisgjöld o.fl., allt eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um.

 

Sveitarfélögum er skylt að annast þau verkefni sem þeim eru falin skv. lögum og þau setja sér gjaldskrá vegna þjónustu sem þau veita í gegnum eigin fyrirtæki og stofnanir til að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast.  Ekki er þó um að ræða heimild til gjaldtöku á öllum sviðum og sá málaflokkur sem tekur til sín stærst hlutfall af skatttekjum, grunnskólinn, er gjaldfrjáls enda um að ræða grundvallarþátt velferðarsamfélagsins sem allir íbúar eiga jafnan aðgang að. 

 

Sveitarfélög hafa sem sagt ákveðin lögbundin verkefni sem þeim ber að sinna og nýta tekjur sínar í, t.a.m. rekstur grunnskóla.  Rétt er að vekja athygli á því að meðal verkefna sem almennt er ríkur vilji til að sveitarfélög leggi lið, en eru að takmörkuðu leyti lögbundin, má nefna uppbyggingu íþróttamannavirkja og stuðning við íþróttastarf.  Skv. lögum er bygging íþróttamannvirkja í þágu skóla og til almenningsnota í verkahring sveitarfélaga nema öðruvísi sé fyrir mælt í lögum.  Sveitarstjórnir veita svo styrki til íþróttafélaga og íþróttasamtaka eftir því sem ákveðið er í fjárhagsáætlun sveitarfélags og fer í fyrsta lagi eftir fjárhagslegri stöðu sveitarfélagsins á hverjum tíma og síðan eftir forgangsröðun stjórnvaldsins á hverjum tíma.

 

II. Megináherslur

 

Í málefnasamningi meirihlutans kemur fram að ætlunarverkið er að treysta fjölskylduvænt velferðarsamfélag í Árborg og sjá til þess að íbúar njóti jafnræðis og góðrar þjónustu. Lögð er áhersla á örugga og ábyrga fjármálastjórnun, áætlanagerð og forgangsröðun verkefna. Leiðarljósin verði félagslegt réttlæti, skilvirk stjórnsýsla og samráð við íbúana.

 

Til að veita góða þjónustu þarf að hafa skýr markmið og framtíðarsýn, þekkja þær leiðir sem færar eru að markmiðunum og hafa yfir að ráða þeirri þekkingu og þeim tækjum sem nauðsynleg eru til að ná markmiðunum.  Möguleikar sveitarfélaga til uppbyggingar og veitingar þjónustu markast að miklu leyti af þeim tekjum sem þau hafa úr að spila hverju sinni, en þó skal hugmyndaauðgi, útsjónarsemi, áræði og þor ekki vanmetið. 

 

Það er skylda bæjarfulltrúa að halda vel á fjármálum, jafnt í rekstri sem fjárfestingum. Það þarf að gera áætlanir til lengri tíma þar sem stuðst er við traustar og raunhæfar upplýsingar og framtíðarspár.

 

Sveitarfélagið Árborg hefur verið í gríðarlegum vexti á undanförnum árum, íbúafjölgun með því sem mest gerist í landinu og uppbygging þjónustu því reynt mjög á þanþol sveitarsjóðs.

 

Uppbygging grunnþjónustu eins og t.d. á sviði leik- og grunnskóla, gatnagerðar og fráveitu þarf að vera í sem bestum takti við íbúafjölgunina, hvorki of né van. 

 

Til að mæta þeirri fjölgun sem hér hefur verið hafa stórtækar framkvæmdir reynst nauðsynlegar á sviði skólamála og gatna- og holræsagerðar svo kostnaðarsömustu liðir séu nefndir.  En það þarf einnig að huga að viðhaldi og endurbótum á því sem fyrir er hvort sem um er að ræða húsnæði eða götur og umhverfi. 

 

Sveitarfélagið Árborg með rúmlega 7000 íbúa stendur nú í gríðarlegri uppbyggingu á flestum sviðum.  Uppbygging þessi er að stærstum hluta byggð á lánsfé til þess að hraðinn sé í einhverju samræmi við þarfirnar á þessum mikla vaxtartíma sem verið hefur og búast má við á næstu árum.  Uppbygging nýrra íbúða- og iðnaðarhverfa skilar fljótt beinum tekjum á móti kostnaði inn í sveitarsjóð.  Uppbygging skólahúsnæðis, íþróttamannvirkja og fráveitu gerir það ekki á sama hátt.

 

Ávinningurinn er engu að síður ótvíræður og sýnir sig í betri og eftirsóknarverði búsetuskilyrðum, sem með tímanum ættu að skila sér m.a. í bættri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. 

 

Sem fyrr sagði þá eru stærstu framkvæmdir hér í Árborg fjármagnaðar með lánum.  Greiðslur vaxta af lánum hefjast strax á lántökuári og endurgreiðslur lána ári síðar.   Niðurstaða rekstrar sveitarfélagsins á hverju ári þarf vera þannig að handbært fé frá rekstri dugi til að greiða afborganir lána. 

 

Það er sem fyrr segir hlutverk sveitarstjórnarmanna að forgangsraða framkvæmdum og verkefnum á hverjum tíma.  Það er jafnframt hlutverk þeirra að framfylgja af festu og ábyrgð þeim ákvörðunum sem teknar eru til þess að fjármagn sé sem best nýtt og uppbygging sé í þágu heildarinnar.

 

Sveitarfélagið Árborg er stór vinnuveitandi og sú þjónusta sem veitt er byggist að langmestu leyti á færu og öflugu starfsfólki.  Það er nauðsynlegt að saman fari fagleg og rekstrarleg “gæði” í öllu starfi á vegum sveitarfélagsins. Til þess að hafa efni á að veita bestu hugsanlegu þjónustu, eins og t.d. á sviði skóla- og velferðarmála, þá verðum við að nýta það fjármagn sem úr er að spila af skynsemi og ráðdeild.  Á komandi mánuðum mun fara fram markviss vinna við að skoða vinnuferla og útgjaldaliði hjá sveitarfélaginu í þeim tilgangi að ná betri árangri í rekstri.  Á það jafnt við á öllum sviðum starfseminnar.  Skoðuð verða útgjöld vegna launa, innkaupa og aðkeyptrar þjónustu samhliða því sem leitað verður bestu leiða við áætlanagerð á sviði þjónustu og uppbyggingar.  Mikil áhersla verður lögð á gæði þjónustu og þróun og nýsköpun á öllum sviðum í sveitarfélaginu.

 

III. Helstu atriði fjárhagsáætlunar 2007   

 

Markmið meirihlutans við gerð fjárhagsáætlunar eru skýr og miðast að því að efla og styrkja sveitarfélagið á alla lund.  Til að ná þeim markmiðum þarf að treysta enn frekar rekstrarafkomu sveitarfélagsins.  Saman þurfa að fara staðfastur vilji allra til að nýta rekstrarfjármagn enn betur í þágu íbúanna og vel ígrundaðar og skynsamlegar fjárfestingar sem skila okkur bættum aðstæðum og nýjum sóknarfærum í framtíðinni. 

 

Rekstur

 

Fjárhagsáætlun sem nú liggur fyrir til fyrri umræðu gerir ráð fyrir að samanlagðar tekjur A og B hluta verði 3.654,440 m.kr. á árinu 2007 sem er 11,6% hækkun frá fyrra ári.  Hlutur skattatekna af heildartekjum er 71,8%.   Skatttekjur hækkuðu um 12,6% frá árinu 2006.

 

Heildarniðurstaða samstæðunnar er 75,6 m.kr. og handbært fé frá rekstri 375,5 m.kr.  Heildarlaunakostnaður er áætlaður 1.884,0 millj.kr. sem er 51,6 % af heildartekjum eða um 72 % af skatttekjum.  Annar kostnaður 1.232,2 millj.kr., afskriftir 240,7 millj.kr. og fjármagnskostnaður nettó 221,8 millj.kr.

 

Í samanburði við endurskoðaða áætlun fyrir árið 2006 munu rekstarútgjöld án launa aukast um 1,4%, áætluð hækkun launakostnaðar er 14,3 % milli ára en heildartekjur hækka sem fyrr segir um 11,6%.  Sveitarfélagið er stór vinnuveitandi með um 550 starfsmenn í rúmlega 400 stöðugildum og heildarlaunagreiðslur sem fyrr segir áætlaðar að fjárhæð 1.884,0 m.kr.

 

Fjárfestingar

 

Fjárfestingar ársins eru áætlaðar 1.472,4 m.kr. en á móti eru áætuð sala eigna sem nemur 109,5 m.kr.  Afborganir lána 365,3 m.kr. Þá eru lántökur ársins áætlaðar 1.370,0 m.kr. Meirihlutinn leggur áherslu á að halda lántökum til framkvæmda á árinu 2007 í lágmarki án þess þó að hefta eðlilega þróun og uppbyggingu þjónustu í sveitarfélaginu.

 


Stærstu framkvæmdir og fjárfestingar sem áætlaðar eru á árinu 2007 
                                                                                    Nettó kostnaður
Endurbætur og nýframkvæmdir við BES                      161.500.000  kr.
Gatna- og stígagerð (að frádr. gatnag.gjöldum)           44.500.000  kr.
Sunnulækjarskóli          - 2. áfangi ásamt íþr.álmu        610.942.000  kr.
Fráveita                                                                                      165.450.000  kr.
Vatnsveita                                                                                    94.800.000  kr.
Selfossveitur v. hitaveita                                              301.500.000  kr.
Aðrar fjárfestingar og endurbætur                                 93.760.000  kr.
Samtals                                                                       1.472.452.000  kr.                          

 

·     Uppbygging BES.  Tekin hefur verið ákvörðun um að áfangaskipta uppbyggingu á Eyrarbakka svipað og gert hefur verið í Sunnulækjarskóla.  Framkvæmdir vegna uppbyggingar á Eyrarbakka hefjast á þessu ári og er gert ráð fyrir að fyrsti hluti verði tekinn í notkun haustið 2008.
·      Á árinu 2007 lýkur seinni áfanga á byggingu Sunnulækjarskóla á Selfossi, en hluti þess áfanga er íþróttaálma
·      Áætlun um viðbyggingu við Æskukot á Stokkseyri er frestað en ákveðið hefur verið að fara í framkvæmdir á lóð á þessu ári. 
·      Bygging leikskóla við Leirkeldu á Selfossi er í undirbúningi.  Á árinu 2006 voru tekin í notkun 193 ný leikskólapláss og nú eru samtals 505 pláss í leikskólum Árborgar.  Eftir athugun á fyrirliggjandi umsóknum um leikskólapláss nú í upphafi ársins 2007, að teknu tilliti til þess hversu mörg börn hefja grunnskólagöngu næsta haust, fjölda barna fæddra 2005 (2ja ára árið 2007) og áframhaldandi íbúafjölgunar, þá er gert ráð fyrir að hægt sé að anna eftirspurn fram eftir árinu 2008.  Ráðgert er að eigi síðar en haustið 2008 verði nýr 6 deilda leikskóli tekinn i notkun.  ·      Endurbætur fasteigna Unnið er að endurbótum fasteigna samkvæmt tillögum frá framkvæmdasviði.  Ákveðið hefur verið að gera heildarúttekt á ástandi Sundhallar Selfoss varðandi endurbætur húsnæðis og uppbyggingu. Nokkrar hugmyndir hafa verið í umræðunni um uppbyggingu en ekki hefur verið framkvæmt nákvæmt mat á því hvert ástand húsnæðisins er með tilliti til þess hvort raunhæft sé að leggja fjármagn í endurbætur og eða viðbyggingu.  Meirihlutinn telur nauðsynlegt að fá faglegt mat á því hvort og þá hvernig skynsamlegt sé að haga þessu máli.  Enginn ágreiningur er um nauðsyn þess að stórbæta aðstöðu við Sundhöllina á Selfossi.
·      Framkvæmdir vegna fráveitu eru áætlaðar fyrir rúmar 160 m.kr. Frá árinu 1995 nemur fjárfesting í fráveitu, að frádregnum stuðningi ríkisins, um 740 m.kr..  Bæjarráð hefur sent Sambandi íslenskra sveitarfélaga erindi þess efnis að Sambandið hafi forgöngu í því að óska eftir framlengingu frests, sem nú er áætlað að renni út við árslok 2008, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna þessara framkvæmda.  Um er að ræða afar stóra framkvæmd fyrir mörg sveitarfélög í landinu og hafa þessar framkvæmdir haft mikil áhrif varðandi forgangsröðun verkefna hér í Árborg.

 

Ýmsar aðgerðir og áætlanir sem miða að því að auka hagkvæmni í rekstri.

 

Unnið verður að innleiðingu rammafjárhagsáætlunar fyrir stofnanir sveitarfélagsins vegna fjárhagsáætlunar fyrir árið 2008.  Innkaupamál eru til sérstakrar skoðunar og verður leitað allra leiða til að ná sem mestu hagræði við innkaup í þágu stofnana sveitarfélagsins.  Sömuleiðis er hafin skoðun á ferlum og samningum vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu með það í huga að auka hagræði án þess að það komi niður á gæðum þjónustunnar. Á árinu 2007 verður áfram lögð áhersla á vandlega skoðun á öllum ráðningum, bæði nýráðningum og endurráðningu í störf.  Í síbreytilegu samfélagi er mikilvægt að meta þörfina fyrir mannafla á hverjum tíma til að áherslan sé á það sem er mikilvægast á hverjum tíma.

 

Meirihluti Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs leggur hér fram frumvarp að fyrstu fjárhagsáætlun yfirstandandi kjörtímabils.  Áætlunin ber þess merki að stórkostleg uppbygging er í gangi í sveitarfélaginu og mikill hugur í íbúum á svæðinu.  Hún ber þess jafnframt merki að sveitarfélaginu er sniðinn þröngur stakkur til að sinna öllum þeim mikilsverðu verkefnum, lögbundnum sem öðrum æskilegum.  Það er ætlan núverandi meirihluta að halda vel á málum hvort sem horft er til reksturs eða þjónustu og uppbyggingar.  Á næstunni verður lögð fram til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn 3ja ára áætlun sveitarfélagsins.  Á grunni þessara tveggja áætlana mun meirihlutinn síðan kynna starfsáætlun sína til loka kjörtímabilsins.  

 

Ég vil að lokum fyrir hönd bæjarstjórnar færa öllu starfsfólki sem komið hefur að gerð fjárhagsáætlunar bestu þakkir fyrir lipurð og góða vinnu við þær óvenjulegu aðstæður sem ég rakti hér í upphafi máls míns.  Framkvæmdastjórum sviða eru færðar sérstakar þakkir fyrir þeirra mikilsverða framlag við gerð þessa frumvarps sem hér er lagt fram.

 

Ragnheiður Hergeirsdóttir
bæjarstjóri

 

Jón Hjartarson, V-lista, tók til máls og lagði fram svohljóðandi bókun:
Tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga er með þeim hætti að sveitarfélög geta ekki með eðlilegu móti uppfyllt lagabundnar skyldur gagnvart íbúunum og eiga þar af leiðandi einnig í stórum vandræðum að veita nauðsynlega þjónustu á sviði valkvæðra viðfangsefna svo sem íþrótta- og æskulýðsmála, menningarmála o.fl. Það er því eðlileg krafa að á næstu vikum og misserum verði gerð gangskör að því að breyta því laga- og regluumhverfi sem markar tekjustofna sveitarfélaga og færa það í það horf að það  endurspegli á eðlilegan hátt þær skyldur sem sveitarfélögunum er ætlað að veita skv. landsins lögum. Samtímis verði tekið til endurskoðunar vinnulag við lagasetningu sem veldur sveitarfélögunum útgjöldum á þann hátt að í hvert eitt sinn sem Alþingi samþykki lög sem valdi auknum útgjöldum sveitarfélaga þá fari fram kostnaðargreining og sveitarfélögunum ætlaðar auknar tekjur í samræmi við hana. Sveitarstjórnarstigið er mikilvægasta stjórnsýslustigið í landinu þar sem  viðfangsefni þess snúa beint að nærsamfélaginu og lífsafkomu og aðstæðum íbúanna og því nauðsynlegt að þeim séu ætlaðir tekjustofnar til að rækja  stjórnsýsluna í anda þess sem löggjafinn hefur ætlað.

 

Fulltrúar meirihlutans í bæjarstjórn  Sveitarfélaginu Árborg

 

Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, tók til máls og lagði fram svohljóðandi breytingartillögu:

 

Breytingartillaga um að taka til umræðu og afgreiðslu frumvarp að fjárhagsáætlun sem gert var í nóvember 2006

 

Í nóvember sl. unnu bæjarfulltrúar D- og B- lista, ásamt fyrrverandi bæjarstjóra, frumvarp að fjárhagsáætlun fyrir árið 2007. Frumvarpið var lagt fram í bæjarráði 30.11, þar sköpuðust hvorki umræður um vinnuferli þess né innihald. Frumvarpið var á fundarboði bæjarstjórnar 6. des. en þar sem bæjarfulltrúar B-lista slitu meirihlutasamstarfi við D-lista 1. des., kom þetta góða frumvarp að fjárhagsáætlun ekki til umræðu og afgreiðslu. Vel má vera að bæjarfulltrúar S- og V-lista hefðu komið með ábyrgar og skynsamar tillögur að breytingum en á það reyndi aldrei. Á bæjarstjórnarfundinum 6. des. samþykktu B-, S- og V-listi að fresta umræðu um frumvarpið og legg ég því til að ræða og afgreiða umrætt frumvarp, sem unnið var í nóvember.

 

Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tók til máls.

 

Breytingartillagan var borin undir atkvæði og felld með fimm atkvæðum meirihluta bæjarstjórnar, gegn fjórum atkvæðum fulltrúa D-lista.

 

Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi breytingartillögu:

 

Breytingatillögur bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við tillögu að fjárhagsáætlun 2007, í Sveitarfélaginu Árborg.

 

1. Afsláttur til elli- og örorkulífeyrisþega verði aukinn um 5.000.000,-
Lagt er til að einfalda mjög reglur um afslátt á fasteignaskatti elli- og örorkulífeyrisþega og auka hann um leið og láta hann ná til fleiri einstaklinga.

 

Reglurnar verði eftirfarandi: 

 

 



Afsláttur af fasteignagjöldum eldri borgara og öryrkja á árinu 2007.


Allir elli- og örorkulífeyrisþegar fá fastan afslátt af fasteignaskatti, óháð tekjum, sem nemur 45.000 krónum á eigin íbúðarhúsnæði þar sem viðkomandi á lögheimili.


 Allir elli- og örorkulífeyrisþegar sem verða 70 ára á almanaksárinu og eldri fá auk þess fastan afslátt af fasteignaskatti, óháð tekjum, sem nemur 45.000 krónum á eigin íbúðarhúsnæði þar sem viðkomandi á lögheimili.


Jafnframt er veittur tekjutengdur afsláttur, sem felur í sér að fasteignaskattur elli- og örorkulífeyrisþega fellur niður hjá þeim sem höfðu heildartekjur á árinu 2006 innan eftirfarandi marka:

Hjá hjónum             2.500.000 krónur 
Hjá einstaklingum   1.630.000 krónur. 


Viðmiðunartekjur eru heildartekjur umsækjanda, þ.e. tekjur sem mynda álagningarstofn tekjuskatts-, útsvars og fjármagnstekjuskatts, eins og þessar tekjur voru á næsta ári á undan álagningarári. Viðmiðunarfjárhæðirnar skulu framreiknaðar árlega með tilliti til breytinga á launavísitölu frá upphafi til loka þess tekjuárs sem miðað er við hverju sinni. 


 

 

2. Húsnæði fyrir dagdeild FAAS, kostnaður 2.800.000,- á árinu 2007
Lagt er til að Sveitarfélagið Áborg útvegi húsnæði fyrir dagdeild Alzheimersjúklinga. Gerður verði samningur við FAAS (Félag aðstandenda alzheimersjúklinga) um rekstur deildarinnar, en þeir hafa leitað til bæjaryfirvalda um samvinnu. 

 

3. Menningar- og ferðamálafulltrúi, kostnaður 5.200.000,- á ári.
Lagt er til að Sveitarfélagið Árborg ráði menningar- og ferðamálafulltrúa til þess að efla menningarlíf og menningartengda ferðaþjónustu. Markmiðið er að draga að fleiri ferðamenn og gera Árborg að eftirsóknarverðari búsetukosti.

 

4. Styrkir til íþrótta- og tómstundastarfs barna, kostnaður 6.000.000,- á ári.
Til að hvetja börn til frekari þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi og létta undir með barnafjölskyldum er lagt að veittir verði styrkir til að taka þátt í greiðslu gjalda.

 

5.  Afreksmannasjóður ÍTÁ, aukning á framlagi 1.000.000,-.
Lagt er til að afreksmannasjóður verði efldur, enda var samstaða í ÍTÁ um að tvöfalda framlög í hann. Öllum sveitarfélögum er nauðsynlegt að eiga öflugt afreksfólk, ekki síst þegar það þarf að leita sér aðstöðu og reynslu annars staðar.    

 

6.  Söluhagnaður Tryggvagötu 36, áætlun 12.100.000,-
Lagt er til að haldið verði í þau áform að byggja nýjan leikskóla og börnum á leikskólanum Glaðheimum boðin vist á nýjum leikskóla. Húsnæðið við Tryggvagötu 36 selt.

 

7.  Hækkun vaxta og verðbóta, áætluð aukning um 10.300.000,-
Lagt er til að farið verði í þær framkvæmdir sem ráðgerðar voru og leiðir það af sér hækkun á vöxtum og verðbótum.

 

8. Óreglulegir liðir, lækkun um 5.900.000,-
Lagt er til að þessari fjárhæð af óreglulegum liðum verði varið í styrki til íþrótta- og tómstundastarfs barna.

 

9.  Stjórnunarkostnaður og aðkeypt sérfræðiaðstoð, lækkun 6.200.000,-
Lagt er til að dregið verði úr stjórnunarkostnaði sveitarfélagsins og aðkeyptri sérfræðiaðstoð.

 

10.  Sala byggingaréttar, áætlaður söluhagnaður 6.100.000,-
Lagt er til að tekin verði upp sú stefna að sveitarfélagið hafi tekjur af sölu byggingaréttar.

 

11.  BES framkvæmdir aukning um 192.000.000,-
Lagt er til að haldið verði við áður útgefna tímaáætlun um framkvæmdir við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri og þá þannig að íþróttahús og sundlaug á Eyrarbakka verði í fyrri áfanga.

 

12. Æskukot, viðbygging 40.000.000,-
Lagt er til að haldið verði við fyrri áætlun um að byggja nauðsynlega viðbyggingu við leikskólann Æskukot á Stokkseyri.

 

13. Leirkelda, framkvæmdir og lausafjármunir 206.100.000,-
Lagt er til að leikskólinn við Leirkeldu í Suðurbyggð á Selfossi verði byggður á árinu 2007 eins og áður var ákveðið og hann tekinn í notkun í ársbyrjun 2008. Með þessari byggingu er hægt að standa við það loforð sem gefið hefur verið að taka inn 18 mánaða börn á leikskóla í Árborg. Ef ekki er farið í þessa framkvæmd myndast biðlisti á árinu 2008 sem ef til vill þarf að mæta með dýrum bráðabirgðalausnum.

 

14. Lántaka vegna framkvæmda við grunn- og leikskóla 360.000.000,-
Lagt er til að til að mæta nauðsynlegri þörf við uppbyggingu grunn- og leikskóla í sveitarfélaginu verði lántaka á árinu 2007 aukin um 360 milljónir.

 

15. Endurbætur á Sundhöll Selfoss 82.000.000,-
Lagt er til að farið verði á árinu 2007 í fyrsta áfanga á algjörlega nauðsynlegum endurbótum á Sundhöll Selfoss þar sem áhersla verði lögð á að gera endurbætur á búningsaðstöðu.

 

16. Aukin gatnagerðargjöld / sala á lóðum og byggingarétti 160.100.000,-
Lagt er til að á árinu verði lögð áhersla á að ná inn gatnagerðargjöldum af stórum framkvæmdum sem skili sveitarfélaginu tekjum, auk þess sem sölulegar lóðir í sveitarfélaginu verði seldar og tekin verði upp sú stefna að sveitarfélagið hafi tekjur af sölu byggingaréttar.

 

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Árborg  

 

 


 


 


Breytingartillögur við fjárhagsáætlun


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


Nr.


Liður:


Rekstur:


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


 


1


00-0-06


Afsláttur elli og örorkulífeyrisþega:


 


5.000.000


 


 


 


 


 


 


 


 


 

 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica