Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


2.10.2008

110. fundur bæjarráðs

110. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn fimmtudaginn 2. október 2008 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10

Mætt: 
Jón Hjartarson, formaður, V-lista (V)
Þorvaldur Guðmundsson, bæjarfulltrúi, B-lista (B)
Þórunn Jóna Hauksdóttir, bæjarfulltrúi, D-lista (D)
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri (S)
Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari

Dagskrá:

Fundargerðir til staðfestingar:

1. 0801040 - Fundargerðir landbúnaðarnefndar Árborgar 2008
12.fundur haldinn 22.september


-liður 1, 0805099, landskipting á landspildu úr Hólum, bæjarráð gerir ekki athugasemd við skipti á spildunni Hólar lóð 1, landnr. 216-306, út úr jörðinni Hólum, landnr. 165-547.
Fundargerðin staðfest.

2. 0801042 - Fundargerðir leikskólanefndar Árborgar 2008
30.fundur haldinn 24.september


-liður 2, 0809109, stefnumótun um framtíðaruppbyggingu leikskólamannvirkja í Árborg, bæjarráð felur leikskólafulltrúa og formanni leikskólanefndar, í samráði við bæjarritara, að gera tillögu að skipan í hópinn og drög að erindisbréfi fyrir hópinn.
Fundargerðin staðfest.

3. 0801021 - Fundargerðir skipulags- og byggingarnefndar 2008
57.fundur haldinn 25.september


-liður 9, 0805011, breyting á deiliskipulagi á E-reit í Hagalandi, bæjarráð samþykkir tillögu nefndarinnar um að skipulagið verði auglýst.
-liður 11, 0807052, tillaga að deiliskipulagi Nýju-Jórvíkur, bæjarráð samþykkir tillöguna.
-liður 12, 0809121, tillaga að breyttu deiliskipulagi við Suðurhóla, bæjarráð samþykkir að auglýsa tillöguna.
Fundargerðin samþykkt.

Almenn erindi

4. 0809155 - Ósk um landskipti. Beiðni frá Halldóri Forna um skipti á landspildu við Eyrarbakkaveg.

Bæjarráð samþykkir erindið og felur bæjarritara að ganga frá makaskiptaafsali.

5. 0703033 - Ráðning staðgengils regluvarðar.

Lögð var fram svohljóðandi tillaga:
Lagt er til að Ásbjörn Sigurðsson fjármálastjóri Selfossveitna verði staðgengill regluvarðar í stað Þuríðar Óskar Gunnarsdóttur.
Samþykkt samhljóða.

6. 0808060 - Lögð var fram tillaga bæjarfulltrúa D-lista, um að sveitarfélagið kaupi þjónustukönnun Gallup sem gerð var á 15 stærstu sveitarfélögum landsins.

Lögð var fram svohljóðandi tillaga:
Sveitarfélagið tryggi sér eintak af þjónustukönnun Gallup sem gerð var fyrir 15 stærstu sveitarfélögin síðastliðið sumar.

Greinargerð:
Ítarleg könnun Cacapent Gallup á þjónustustigi sveitarfélaganna hefur vakið athygli. Í könnuninni eru sértæk atriði sem varða sveitarfélögin sem gagnlegt væri fyrir bæjarstjórn og starfsmenn að nýta sér til að bæta þjónustu í Árborg.

Tillagan var borin undir atkvæði og felld með tveimur atkvæðum gegn atkvæði bæjarfulltrúa D-lista.

Þorvaldur Guðmundsson, B-lista, gerði grein fyrir atkvæði meirihlutans:
Mikilvægt er fyrir sveitarfélög að leita reglulega eftir viðhorfum og mati íbúa á þjónustu sem sveitarfélagið er að veita. Megintilgangur slíkra kannana er að fá fram og greina þá þjónustuþætti sem betur mega fara og vinna að úrbótum í framhaldi af því. Einnig er mikilsvert að fá fram upplýsingar um þá þjónustuþætti sem íbúar eru ánægðir með og gefur það til kynna að sveitarfélagið sé að veita þjónustu sem mætir þörfum íbúanna. Til þess að þjónustukönnun og niðurstöður hennar nýtist til raunverulegra og markvissra úrbóta þarf að leggja ítarlegan spurningalista fyrir nokkuð stóran hóp íbúa. Fyrir Árborg væri æskilegt að hópurinn væri í kringum 1000 manns. Þá þarf slík könnun líka að gefa góðar bakgrunnsupplýsingar s.s. eins og um aldur og kyn svarenda og hvort þeir noti þá þjónustu sem spurt er um. Sé spurt t.d. um hvort fólk sé ánægt eða ekki ánægt með þjónustu grunnskóla í sveitarfélaginu þá er mikilvægt fyrir sveitarfélagið að vita hvaða þætti skólaþjónustu um er að ræða ( kennslu, máltíðir, húsnæði, starfsfólk, skólaakstur, sérfræðiþjónustu o.s.frv.) og miklu skiptir auðvitað hvort viðkomandi svarandi á börn í grunnskóla. Að öðrum kosti verða niðurstöðurnar ekki það tæki sem þær þurfa að verða til að bæta þjónustuna.
Bæjarstjóri hefur þegar skoðað möguleika á að unnin verði ítarlega þjónustukönnun fyrir Sveitarfélagið Árborg enda er það eðlilegur hluti af starfsemi nútíma sveitarfélags. Þar er hins vegar um að ræða stærri og ítarlegri þjónustukönnun en tillaga D listans fjallar um. Stærri könnun felur í sér mun fleiri spurningar og fer undirbúningsvinna fyrir könnunina fram í samvinnu þess fyrirtækis sem framkvæmir könnunina og sveitarfélagsins. Niðurstöður slíkrar þjónustukönnunar munu veita upplýsingar sem nýtast munu bæjarfulltrúum, embættismönnum og starfsfólki sveitarfélagsins til að vinna að frekari þróun og úrbótum á þjónustu við íbúana.
Könnun sú sem tillaga D listans fjallar um felur í sér 12 staðlaðar spurningar sem lagðar voru fyrir íbúa 15 stærstu sveitarfélaga landsins á tímabilinu 12. Júní til 14. Júlí s.l.. Eftir því sem næst verður komist þá voru svarendur í Árborg um eitt hundrað talsins, eða tæpleg 1,5 % íbúa sveitarfélagsins. Í öllum spurningum nema einni voru gefnir fimm svarmöguleikar þegar spurt var um hversu ánægðir/óánægðir íbúar væru með þjónustuna, þ.e. mjög ánægður, frekar ánægður, hvorki né, frekar óánægður og mjög óánægður. Dæmi um spurningu er „Hversu ánægður eða óánægður ert þú með þjónustu grunnskóla þíns sveitarfélags ?" Engar bakgrunnsupplýsingar eru til staðar nema þess hafi verið óskað sérstaklega áður en könnunin var framkvæmd og niðurstöðurnar geta aldrei gefið meira en vísbendingu um hversu ánægt eða óánægt fólk er með ákveðna þjónustuflokka. Það getur vissulega verið ágætt en getur aldrei orðið almennilegt tæki til að vinna að úrbótum. Því er tæplega hægt að tala um ítarlega könnun, eða að í henni séu sértæk atriði sem varði sveitarfélagið og gagnlegt væri fyrir bæjarstjórn og starfsmenn að nýta sér til að bæta þjónustuna.
Verð skýrslunnar er rúmar 360 þúsund krónur, en sé jafnframt keypt ítarlegri könnun þá kostar hún tæplega 200 þúsund, en ítarlegri könnun kostar um 1,5 m.kr.

Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, gerði grein fyrir atkvæði sínu:
Meirihlutinn hefur keypt skýrslur fyrir milljónir um margvísleg málefni, hér er tillaga um kaup á niðurstöðum þjónustukönnunar fyrir Sveitarfélagið Árborg sem myndi nýtast til frekari skoðunar svo bæta megi þjónustu við íbúa Árborgar. Ekki veitir af því samkvæmt könnuninni fær Árborg falleinkunn er í 14. sæti af 15.


Erindi til kynningar

7. 0809128 - Ársskýrsla Listasafns Árnesinga 2007

Skýrslan liggur frammi.

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 08:37.

Jón Hjartarson                        
Þorvaldur Guðmundsson
Þórunn Jóna Hauksdóttir                     
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Ásta Stefánsdóttir


Þetta vefsvæði byggir á Eplica