Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


16.10.2008

113. fundur bæjarráðs

113. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn fimmtudaginn 16. október 2008 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10

Mætt:
Jón Hjartarson, formaður, V-lista
Þorvaldur Guðmundsson, bæjarfulltrúi, B-lista
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi, D-lista
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri
Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari

 

Dagskrá:

Fundargerðir til staðfestingar:

•1.            0801021 - Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar
58.fundur haldinn 9.október


Fundargerðin staðfest.

  • 2. 0801026 - Fundargerð skólanefndar grunnskóla
    27.fundur haldinn 9.október


    -liður 1, 0810046, opnir fundir um málefni grunnskólanna í Sveitarfélaginu Árborg, bæjarráð felur verkefnisstjóra fræðslumála og formanni skólanefndar, í samráði við bæjarstjóra, að undirbúa fundina.
    -liður 2, 0810047, nýting skólahúsnæðis í Sunnulækjarskóla, bæjarráð tekur undir orð skólanefndar um að leita þurfi allra leiða til að leysa húsnæðisvanda skólans. Þegar er unnið að málinu innan Fjölskyldumiðstöðvar.
    Fundargerðin staðfest.
  • 3. 0801044 - Fundargerð umhverfisnefndar Árborgar
    20.fundur haldinn 9.október


    -liður 3, 0312038, Beluga umhverfisvottun, bæjarráð samþykkir að hætta þátttöku í Beluga.
    -liður 7, 0810019, Suðurlandsvegur, nýtt vegstæði, ekki liggja fyrir nægilegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun í þessu máli, en afstaða nefndarinnar hefur komið fram.
    -liður 9, 0810017, jarðvegstippir, bæjarráð þakkar nefndinni fyrir ágæta vinnu og vísar niðurstöðum nefndarinnar til aðalskipulagshóps. Bæjarráð felur sérfræðingi umhverfismála og skipulags- og byggingafulltrúa að gera tillögu að frágangi Lækjarmótatipps. Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að ræða við landeigendur og sveitarstjórn Flóahrepps vegna náma í Súluholti og Önundarholti. Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við landeiganda að Lækjarmótatipp.
    Fundargerðin staðfest.

Fundargerðir til kynningar:

•4.            0802080 - Fundargerð stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands
161.stjórnarfundur haldinn 16.september


-liður 1, söfnun pappírs og endurvinnanlegra efna, bæjarráð felur framkvæmdastjóra Framkvæmda- og veitusviðs í samráði við bæjarstjóra að leggja fram drög að tillögu um næstu skref.
Fundargerðin lögð fram.

  • 5. 0802080 - Aukaaðalfundur Sorpstöðvar Suðurlands bs. haldinn 16. september

    Fundargerðin lögð fram.
  • 6. 0801155 - Fundargerð heilbrigðisnefndar Suðurlands
    112.fundur haldinn 30.september


    Fundargerðin lögð fram.

     

Almenn erindi

•7.            0405030 - Krafa um að fallið verði frá dagsektum á Eyrarbraut 21-23, Stokkseyri.

Tekið er fyrir erindi Baldvins Hafsteinssonar hrl. f.h. eiganda eignarinnar að Eyrarbraut 21, Stokkseyri varðandi dagsektir.

Dagsektir voru lagðar á á fundi bæjarráðs 25. apríl s.l. vegna vanefnda á skilum uppdrátta og staðfestinga iðnmeistara v. verksins. Dagsektir að fjárhæð kr. 50.000 á dag voru lagðar á frá og með 12. maí s.l. Þar sem fullnægjandi uppdrættir áritaðir um ábyrgð hönnuðar hafa ekki ennþá borist, verður innheimtu dagsekta ekki breytt. Bæjarlögmanni er falið að svara erindi lögmanns eiganda eignarinnar.

  • 8. 0809109 - Tillaga að skipan í starfshóp um stefnumótun um framtíðaruppbyggingu leikskólamannvirkja

    Lögð var fram svohljóðandi tillaga um skipan í hópinn:
    Formaður leikskólanefndar, einn fulltrúi frá meirihluta, einn frá minnihluta, tveir frá Fjölskyldumiðstöð, einn fulltrúi foreldra leikskólabarna, einn fulltrúi starfsfólks leikskóla.

    Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

    Lagt var fram erindisbréf fyrir starfshópinn. Erindisbréfið var samþykkt samhljóða.

    Meirihluti bæjarráðs tilnefnir Örnu Ýr Gunnarsdóttur til setu í hópnum.
    Minnihluti bæjarráðs tilnefnir Ara B. Thorarensen.
    Bæjarráð óskar eftir að framkvæmdastjóri Fjölskyldumiðstöðvar tilnefni tvo aðila úr Fjölskyldumiðstöð í starfshópinn, fulltrúar foreldra í leikskólanefnd tilnefni fulltrúa foreldra og fulltrúar starfsmanna í leikskólanefnd skipi fulltrúa starfsmanna.
    Bæjarráð felur formanni leikskólanefndar formennsku í hópnum og að kalla hópinn saman til fyrsta fundar í samráði við fulltrúa Fjölskyldumiðstöðvar og í samræmi við erindisbréf.

  • 9. 0808021 - Tillag að skipan í starfshóp um stefnumótun um framtíðaruppbyggingu skólamannvirkja

    Lögð var fram svohljóðandi tillaga um skipan í hópinn:
    Formaður skólanefndar, einn fulltrúi frá meirihluta, einn frá minnihluta, tveir frá Fjölskyldumiðstöð, einn fulltrúi foreldra grunnskólabarna, einn fulltrúi starfsfólks grunnskóla.

    Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

    Lagt var fram erindisbréf starfshópsins. Erindisbréfið var samþykkt samhljóða.

    Meirihluti bæjarráðs tilnefnir Söndru Gunnarsdóttur til setu í hópnum.
    Minnihluti bæjarráðs tilnefnir Eyþór Arnalds til setu í hópnum.

    Bæjarráð óskar eftir að framkvæmdastjóri Fjölskyldumiðstöðvar tilnefni tvo aðila úr Fjölskyldumiðstöð í starfshópinn, fulltrúar foreldra í skólanefnd tilnefni fulltrúa foreldra og fulltrúar starfsmanna í skólanefnd skipi fulltrúa foreldra.
    Bæjarráð felur formanni skólanefndar formennsku í hópnum og að kalla hópinn saman til fyrsta fundar í samráði við fulltrúa Fjölskyldumiðstöðvar í samræmi við erindisbréf.

 

  • 10. 0810033 - Staða efnahagsmála

    Bæjarstjóri fór yfir stöðu mála.
    Lögð var fram svohljóðandi tillaga:
    Bæjarráð Árborgar beinir þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnar Íslands og Sambands Íslenskra sveitarfélaga að í þeirri vinnu sem nú fer fram á vegum þessara aðila verði sérstaklega hugað að fjármagni til sveitarfélaga til að standa fyrir og styðja við framkvæmdir sem tryggt geta stöðu fyrirtækja og atvinnu íbúa í byggðarlögum. Sveitarfélögin í landinu eru stór atvinnurekandi og framkvæmdir þeirra hafa úrslitaáhrif á atvinnustigið þegar horft er til atvinnuhorfa á næstu vikum og mánuðum. Hafi sveitarfélögin tækifæri til þess að halda áfram með áætlaðar framkvæmdir og um leið ljúka undirbúningi í skipulagsmálum til að greiða fyrir framkvæmdum opinberra aðila og einkaaðila, verður hægt að draga sem mest úr mögulegu og sársaukafullu atvinnuleysi fjölmennra starfsstétta og gjaldþrotum stórra framkvæmdaaðila. Því leggur bæjarráð Árborgar áherslu á að gerðar verði sérstakar ráðstafanir með nýjum tekjustofnum/framlögum og/eða aðgengi að ódýru framkvæmdafé í þessu skyni.

    Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

    Bæjarráð skorar á ríkisvaldið að flýta áformum um tvöföldun Suðurlandsvegar og gerð nýrrar brúar á Ölfusá. Sveitarfélagið mun gera það sem í þess valdi stendur til að greiða fyrir framkvæmd verksins.

    Þorvaldur Guðmundsson, B-lista, lagði fram svohljóðandi bókun:
    Í ljósi þess sem haft er eftir oddvita minnihlutans í Sunnlenska fréttablaðinu í dag um peningamarkaðsbréf sem sveitarfélagið á í LÍ, vilja fulltrúar meirihluta bæjarráðs að eftirfarandi komi fram. Í umræðum um fjárhagsáætlun Árborgar 2008 s.l. vetur og ársreikning 2007 s.l. vor var m.a. umræða um ávöxtun þessa sjóðs. Auk þess hefur verið rætt um peningamarkaðsbréfin á öðrum fundum sem oddviti minnihlutans hefur setið með fulltrúum meirihlutans. Því vekur það undrun að hann skuli ekki kannast við að sveitarfélagið eigi peningamarkaðsbréf í LÍ.
    Á tímum sem þessum er mikilvægt að traust ríki innan bæjarstjórnar og bæjarfulltrúar fjalli á uppbyggilegan og sanngjarnan hátt um málefni sveitarfélagsins. Sveitarstjórnir um allt land leggja nú kapp á að vinna sameiginlega að hagsmunum íbúa í sínum sveitarfélögum óháð stjórnmálaflokkum og meiri- og minnihlutapólitík. Í yfirlýsingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um aukið samstarf vegna stöðu efnahagsmála er sérstaklega talað um að nú ríði á að innan sveitarstjórna ríki einhugur og samheldni. Hagsmunir og framtíð íbúa og atvinnuvega í Árborg verða ekki tryggðir með upphrópunum sem ætlað er það eitt að skapa tortryggni í garð stjórnkerfis og þjónustu sveitarfélagsins. Það hlýtur að vera siðferðileg skylda kjörinna fulltrúa að fjalla um málefni sveitarfélagsins á heiðarlegan og uppbyggilegan hátt og leggja samfélaginu þannig lið á erfiðum tímum.
    Bæjarfulltrúar B- og V-lista.

    Eyþór Arnalds, D-lista, lagði fram svohljóðandi bókun:
    Á bæjarráðsfundi 29. júní 2007 var samþykkt að selja allan hlut sveitarfélagsins í Hitaveitu Suðurnesja.

    Þá var samþykkt samhljóða:

    "Bæjarráð samþykkir að andvirði sölu hlutabréfa í Hitaveitu Suðurnesja verði varið til uppbyggingar í þágu íbúa sveitarfélagsins. Jafnframt samþykkir Bæjarráð að andvirðinu verði varið til greiðslu og lágmörkun skulda sveitarfélagsins."

    Sú ákvörðun að festa fé bæjarsjóðs í peningamarkaðsbréfum í Landsbanka Íslands fer gegn þessari sameiginlegu ákvörðun. Þá hafa bæjarfulltrúar D-listans furðað sig á skuldsetningu bæjarsjóðs og óskað eftir því að skuldir væru greiddar niður. Rétt er að benda á tveir fjármálastjórar hafa sagt upp störfum á síðustu 12 mánuðum og enginn fjármálastjóri hefur verið ráðinn enn.

    Á fundi bæjarstjórnar 21. maí sl. bókuðu Sjálfstæðismenn sérstaklega um skuldsetningu sveitarfélagsins og tekjur vegna sölu á hlutabréfum í Hitaveitu Suðurnesja þar sem ítrekað var að stemma stigu við skuldsetningu á samdráttartímum. Þar vakti það furðu bæjarfulltrúa D-listans að áfram væri haldið í lán og þau ekki greidd niður.

    "Afkoma sveitarfélagsins er vel viðunandi en þess ber að geta að þyngst vegur sala á hlutabréfum til Geysir Green Energy ehf. sem átti sér stað þegar einkavæðing Hitaveitu Suðurnesja fór fram. Samstaða var um einkavæðinguna og sölu bréfanna í bæjarstjórn og stóðu allir flokkar að þeirri ákvörðun.

    Í fréttatilkynningu frá meirihluta bæjarstjórnar um afkomu sveitarfélagsins sem send var út í síðustu viku hefur gleymst að geta þess mikilvæga þáttar sem salan hefur á niðurstöðu ársreikningsins. Hér er um að ræða sölu á öllum eignarhlut Árborgar í Hitaveitu Suðurnesja sem seld voru með einkavæðingu til Geysir Green Energy á síðasta ári fyrir 730 milljónir. Munar um minna. Ekki má búast við sambærilegri sölu eigna á kjörtímabilinu og hefur þetta veruleg áhrif á niðurstöðu reikningsins á síðasta ári og getur seint talist til reglulegra tekna. Þrátt fyrir þessa sölu jukust skuldir á íbúa um 75 þúsund krónur á síðasta ári, eða úr 400 þúsundum í 475 þúsund eða um 18%.

    Fram kemur í ársreikningi að Selfossveitur eru fjármagnaðar með skammtímaláni upp á 126,6 milljónir króna. Þá fara skuldir sveitarfélagsins ört hækkandi á yfirstandandi ári. Á samdráttartímum er brýnt að gæta að skuldsetningu enn frekar en áður og ekki má búast við hvalreka á borð við þann sem salan á bréfum Hitaveitunnar var á síðasta ári." - Bæjarfulltrúar D-lista.

    Sú ákvörðun að greiða ekki niður skuldir en halda eftir fjármunum að upphæð 350 milljónir inn á peningamarkaðsbréfum gengur gegn samhljóða samþykkt bæjarráðs. Þetta er einfaldlega staðreynd. Það er vonandi fyrir íbúa sveitarfélagsins að sem mest af þessum fjármunum endurheimtist.

     

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 9:45

Jón Hjartarson
Þorvaldur Guðmundsson
Eyþór Arnalds
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Ásta Stefánsdóttir


Þetta vefsvæði byggir á Eplica