Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


18.4.2013

12. fundur Hverfisráðs Selfossi

Haldinn á Kaffi Krús, fimmtudaginn 4. apríl  2013.
Fundarboðari, Ingibjörg E.L Stefánsdóttir formaður ráðsins.

Fundurinn hófst kl. 18:00.

Mætt voru:
Helga R. Einarsdóttir, 
Eiríkur Sigurjónsson,
Ingibjörg E.L.Stefánsdóttir,
S.Hafsteinn Jóhannesson.

Fundarritari,  Helga R. Einarsdóttir.

Fundi lauk kl. 19:00. 

Dagskrá:

1.      Fundagerð fundar dags. 31. janúar, samþykkt.

2.      Lausaganga katta.

3.      Lausaganga hunda.

4.      Akstur strætisvagna.

5.      Gróður.

6.      Úr Dagskrá 2012.

7.      Önnur mál.
a.      Svör til ráðsins frá öðrum.
b.      Skýringarmynd af umhirðustigi.
c.      Kanínur.

8.      Næstu fundir. 

Eftirfarandi mál voru rædd á fundinum. 

1.    Fundargerð síðasta fundar samþykkt. 

2.   Fjöldi ábendinga hefur borist ráðinu vegna lausagöngu katta á Selfossi. Íbúar eru orðnir langþreyttir á að ekki virðist á neinn hátt tekið á málinu. Í samþykkt um kattahald í Árborg sem nú er í gildi (samþ. 18. júní 2009)  stendur í 5. gr. „Lausagangur, ónæði og óþrif af völdum katta. Kettir skulu ekki vera lausir úti við í þéttbýli og ber eigendum og/eða forráðamönnum að gæta þess að kötturinn valdi ekki tjóni, hættu, óþægindum, óþrifum eða raski ró manna. Kattareiganda ber að greiða allan kostnað við að fjarlægja dýrið gerist þess þörf.“  Í fundargerð 51. fundar framkvæmda- og veitustjórnar kemur fram að framkvæmda- og veitustjóra sé falið að koma með nánari útfærslur á framkvæmd hunda- og kattaeftirlits. Gerir hverfisráðið þá kröfu að málinu verði flýtt og komið með úrlausnir sem  raunverulega breyta þeirri stöðu sem er uppi.  

3.   Í framhaldi af síðasta lið. Enn og aftur hefur ráðinu borist fjöldi ábendinga vegna lausagöngu hunda. Á sama hátt og fyrr er getið, gerir ráðið þá kröfu að útfærslur á framkvæmd hunda- og kattaeftirlits verði flýtt og sveitarfélagið komi með raunverulegar úrlausnir. Finnst ráðinu vinna við nýja hundasamþykkt ganga  hægt þar sem hún var samþykkt hjá bæjarstjórn sl. haust og í febrúar sl. var beðið staðfestingar umhverfisráðuneytisins.  

4.   Í síðustu fundargerð ráðsins var óskað svara við þeirri leið sem strætisvagnar aka í gegnum Rauðholt út á Engjaveg. Þeirri fyrirspurn var vísað til SASS sem ekki hefur svarað ráðinu. Því er vakið máls á þessu atriði aftur. Íbúar götunnar eru verulega óánægðir með óhóflega umferð vagnanna í fyrrum rólegu íbúðarhverfi og vilja sjá að hætt verði að keyra í gegnum íbúðagötuna. En ráðið spyr ráðamenn sveitarfélagsins hvort þetta leiðarkerfi hafi verið sett upp án vitneskju þeirra?  

5.  Í Dagskránni 20. september sl., auglýsti sveitarfélagið þess efnis að íbúar væru hvattir til að skoða eignir sínar og klippa þann gróður sem er út fyrir lóðamörk. Í auglýsingunni er vísað í grein 68.4 byggingareglugerðar en í þeirri grein segir að „þar sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðamörk við götur, gangstíga eða opin svæði er veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur á, á kostnað lóðarhafa.“ Ný spyr ráðið hvort ekki eigi að taka þessu taki þar sem styttist í vorið og að gróður taki við sér? Eftir að auglýsingin var birt hefur vissulega verði gerð bragabót á mörgum stöðum en alls ekki öllum. Gróður standi enn út á götu og hindri eðlilega umferð um gangstéttir, göngustíga og jafnvel skyggi á umferð svo hætta er á slysum. Er um sé að ræða eignir sem eru í eigu sveitarfélagsins, stofnana, í einkaeigu og eigu banka og sjóða.  

6.    Í Dagskránni 26. janúar 2012 var upptalning á verkefnum sem sveitarfélög á Suðurlandi lögðu á mesta áherslu að framkvæmd yrðu á árinu 2012. Í þeirri upptalningu er það einkum tvennt sem ráðið spyr hvernig standi, að laga tjaldsvæðið við Gesthús og lagfæring lóðar Vallaskóla. Ráðið hefur bent á hve lóð Vallaskóla hefur fengið að drabbast niður, áður verðlaunalóð með sjaldgæfum gróðri.  

7.   
a. Ráðið þakkar svar Braga Bjarnasonar menningar- og frístundafulltrúa varðandi spurningu ráðsins í fundargerð 31. janúar sl. um áramótabrennu á Selfossi. Og vill bæta því við að þrátt fyrir að bæjarstjórn hafi vísað spurningum ráðsins til annarra sviða og stofnana frá upphafi starfsemi ráðsins, er Bragi sá eini sem enn hefur svarað ráðinu.

b.   Í fundargerð 51. fundar framkvæmda- og veitustjórnar kemur frá að ákveðið sé að setja skýringarmynd af fyrirkomulagi á hirðingu og slætti á opnum svæðum til upplýsinga fyrir íbúa sumarið 2013, á vefsvæði sveitarfélagsins. Ráðið vill benda á að ekki eru allir íbúar nettengdir þannig að eðlilegast væri að skýringarmyndin yrði líka auglýst í héraðsblöðum og/eða borin í hús.

c.  Nokkrar ábendingar hafa borist ráðinu um að kanínur séu að gera íbúum lífið leitt. Virðist þær vera farnar að gera sig heimakomnar í flestum íbúðahverfum Selfoss og spurning hvort ekki þurfi, með einhverjum sýnilegum ráðum, að taka á þeim vanda sem fyrst.  

8.   Búið er að skipa nýtt fólk inn í hverfisráðið og verður það boðað til næsta fundar. Ákveðið var að ráðið myndi hittast næst annan þriðjudag í júní og eftir það annan þriðjudag í  október, í desember og  í febrúar. Ef einhver sérstök mál koma til ráðsins frá íbúum verður boðað til fundar utan þessa fasta fundartíma.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica