125. fundur bæjarráðs
125. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn fimmtudaginn 22. janúar 2009 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10
Mætt:
Jón Hjartarson, formaður, V-lista
Þorvaldur Guðmundsson, bæjarfulltrúi, B-lista
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi, D-lista
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri
Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari
Formaður leitaði afbrigða til að taka á dagskrá umsögn um áform um sameiningu heilbrigðisstofnana. Var það samþykkt samhljóða.
Dagskrá:
Fundargerðir til staðfestingar:
1. 0901024 - Fundargerð félagsmálanefndar
36.fundur haldinn 12.janúar
Fundargerðin staðfest.
2. 0901040 - Fundargerð þjónustuhóps aldraðra
163.fundur haldinn 7.janúar
Fundargerðin staðfest.
Fundargerðir til kynningar:
3. 0801091 - Fundargerð stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands
110.fundur frá 19.nóvember
Lagt fram.
4. 0901067 - Fundargerð stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands
111.fundur haldinn 12.janúar
Lagt fram.
5. 0901052 - Fundargerð stjórnar SASS
421.fundur haldinn 9.janúar
Fundargerðin var lögð fram.
-liður 6, sameining heilbrigðisstofnana, Eyþór Arnalds, D-lista, óskaði eftir að bóka:
Á stjórnarfundi SASS segir í bókun: "Þá leggur stjórn SASS áherslu á að sveitarfélög hafi eftir sem áður möguleika á að yfirtaka rekstur heilbrigðisstofnana með þjónustusamningum við yfirvöld sbr. þann samning sem verið hefur í gildi við Sveitarfélagið Hornafjörð" Eins og kunnugt er gerði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið þjónustusamning við Sveitarfélagið Hornafjörð um Heilbrigðisstofnun Suðausturlands árið 2003. Nú lögðu fulltrúar D-lista fram tillögu um að könnuð yrði yfirtaka Sveitarfélagsins Árborgar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á síðasta bæjarstjórnarfundi. Sú tillaga var felld af meirihluta V, S og B lista án rökstuðnings þrátt fyrir að fyrir liggi ályktun stjórnar SASS fimm dögum fyrr um sama efni. Fjölmörg sveitarfélög skoða nú kosti þess að yfirtaka heilbrigðisstofnanir að hluta eða heild og skýtur því skökku við að meirihluti V, S og B lista skuli ekki vilja skoða þetta mál.
Þorvaldur Guðmundsson, B-lista, óskaði eftir að bóka:
Meirihluti B-, S- og V-lista telur að nærþjónusta við íbúana sé best komin á hendi sveitarfélaganna í landinu. Fyrir þurfa þó að liggja ákveðnar forsendur, s.s. eins og trygging fyrir nægu fjármagni frá ríkinu til að halda úti góðri þjónustu og heildstæð stefna um skipulag og framkvæmd velferðarþjónustu á hverju svæði. Tillaga D lista um að kanna yfirtöku Árborgar á HSu var felld með þeim rökstuðningi að hugmyndir um yfirfærslu á þjónustu heilbrigðisstofnunarinnar muni ekki leysa þann vanda sem við blasir í rekstri stofnunarinnar. Í kjölfar fram kominna niðurskurðartillagna heilbrigðisráðherra verður þjónusta í heilbrigðiskerfinu skert verulega en að öðrum kosti taprekstur aukast mjög. Þjónustusamningur milli Árborgar og ríkisins um ákveðna afmarkaða þætti heilbrigðisþjónustu kemur vel til greina við aðrar kringumstæður en nú eru.
6. 0802080 - Fundargerðir stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands
162.fundur haldinn 21.október
163.fundur haldinn 28.október
164.fundur haldinn 5.desember
Lagt fram.
Almenn erindi
7. 0808032 - Samkomulag Sveitarfélagsins Árborgar og Hveragerðisbæjar um kostnaðarskiptingu vegna almenningssamgangna milli Selfoss-Reykjavíkur
Lagt var til að samningurinn yrði staðfestur. Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum, Eyþór Arnalds, D-lista, sat hjá og óskaði eftir að bóka:
Enn sem fyrr er kostnaður Árborgar af þessu verkefni óljós en í upphafi var heildarkostnaður sveitarfélaganna talinn verða milli 15-30 milljónir, sbr. fund bæjarráð 8. maí 2008.
8. 0901075 - Beiðni Flóahrepps um fund vegna deiliskipulags í landi Laugardæla
Bæjarstjóra er falið að hafa samband við sveitarstjóra Flóahrepps vegna málsins.
9. 0504045 - Suðurlandsvegur tvöföldun - drög Vegagerðarinnar að tillögu að matsáætlun
Bæjarráð felur sérfræðingi umhverfismála og skipulags- og byggingafulltrúa að vinna sameiginlega tillögu að umsögn fyrir 29. janúar n.k. og leggja fyrir bæjarráð.
Bæjarráð skorar á samgönguráðherra, ríkisstjórn og alþingi að standa við fyrri fyrirheit um tvöfaldaðan Suðurlandsveg.
10. 0901031 - Umsögn um áform um sameiningu heilbrigðisstofnana
Á 124. fundi fól bæjarráð bæjarstjóra að láta vinna umsögn um málið og leggja fyrir bæjarráð.
Bæjarráð Árborgar gerir ekki athugasemdir við fyrirhugaða sameiningu Heilbrigðisstofnana Suðurlands, Vestmannaeyja og Suðausturlands sem slíka. Bæjarráð bendir þó á að verði tillögur ráðherra að veruleika nær starfsemin til 15 sveitarfélaga og er lengsta vegalengd notenda þjónustunnar að sjúkrahúsi a.m.k. 400 km.. Bæjaráð gagnrýnir að ekki skuli hafa verið haft samráð við sveitarfélögin og heimamenn í aðdraganda þessara ákvarðana auk þess sem þær eru fyrirhugaðar í skugga þjónustuskerðingar við íbúa á Suðurlandi og niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu.
Auk þess bendir bæjarráð á að stjórn Samtaka Sunnlenskra sveitarfélaga hefur lýst yfir mikilli óánægju með þá ákvörðun að færa yfirráð Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja frá Vestmannaeyjum. Jafnframt telur stjórn SASS einsýnt að vegna landfræðilegrar sérstöðu Vestmannaeyja og Hornafjarðar geti ekki orðið um samrekstrarmöguleika að ræða milli þessara stofnana.
Þá leggur stjórn SASS áherslu á að sveitarfélög hafi eftir sem áður möguleika á að yfirtaka rekstur heilbrigðisstofnana með þjónustusamningum við yfirvöld sbr. þann samning sem verið hefur í gildi við Sveitarfélagið Hornafjörð.
Eftirfarandi ályktun var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn Árborgar þann 14. janúar s.l.:
"Bæjarstjórn Árborgar mótmælir harðlega þeirri þjónustuskerðingu sem fyrirhuguð er á Heilbrigðisstofnun Suðurlands samkvæmt tillögum heilbrigðisráðherra. Verði vaktir skurðlæknis, fæðingarlæknis og svæfingarlæknis lagðar af og skurðstofu HSu lokað utan dagvinnutíma og um helgar er verið að færa heilbrigðisþjónustu við Sunnlendinga marga áratugi aftur í tímann.
Með þessari ákvörðun er í raun verið að leggja niður fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands þar sem óhugsandi er að starfrækja fæðingardeild sem ekki er studd af fæðingarlækni á vakt. Fæðingar á HSu voru um 200 árið 2008 auk allrar annarrar þjónustu sem fæðingardeildin veitir. Það er með öllu óásættanlegt að þessa þjónusta verði færð til Landspítala Háskólasjúkrahúss í Reykjavík með öllu því óhagræði sem því fylgir fyrir notendur þjónustunnar og vandséð að sparnaður nást við slíka ráðstöfun.
Til þess ber einnig að líta að Hellisheiðin getur verið erfiður farartálmi að vetrum og ekki sjálfgefið að samgöngur séu ávallt eins og best verður á kosið. Notendur þjónustu fæðingardeildar við HSu koma af öllu Suðurlandi og er ekki til bóta að auka enn frekar á ferðalög fæðandi móður með því að flytja fæðingarþjónustuna alfarið til Reykjavíkur. Mikill mannauður og reynsla er fólginn í þeim störfum sem munu tapast af svæðinu ef ákvörðuninni verður haldið til streitu og skerðing á heilbrigðisþjónustu hefur varanleg neikvæð áhrif á búsetugæði og byggðaþróun.
Aðgerðir í þágu sparnaðar mega ekki tefla öryggi íbúa í tvísýnu og mikilvægt er að framtíðarsýn sé skýr þegar lagt er upp með breytingar og tilfærslu á þjónustu.
Bæjarstjórn gagnrýnir að ekki skuli hafa verið haft samráð við sveitarfélögin og heimamenn í aðdraganda þessara ákvarðana og skorar á heilbrigðisráðherra að endurskoða ákvörðun sína með öryggi og heill Sunnlendinga að leiðarljósi."
Bæjarráð samþykkir umsögnina.
Erindi til kynningar
11. 0901060 - Ályktun félags tónlistarskólakennara um stöðu tónlistarskólanna í landinu
Lagt fram.
12. 0901057 - Vegaskrá frá Vegagerð
Minnisblað fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga um fund með samgönguráðuneyti og Vegagerðinni um vegaskrá 8. janúar 2009
Bæjarráð tekur undir afstöðu fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fram kemur á minnisblaðinu. Það er algjörlega óásættanlegt að ríkið ákveði einhliða og fyrirvaralaust að færa sveitarfélögum aukin verkefni án þess að kostnaðarmat liggi fyrir og tekjustofnar fylgi. Sveitarfélögin eru annað tveggja opinberra stjórnkerfa í landinu og nauðsynlegt er að náið samráð sé við þau haft um undirbúning, skipulag og framkvæmd tilflutnings á verkefnum.
13. 0901050 - Bréf Samgönguráðuneytisins um upplýsingar um reglur um afslátt af fasteignaskatti, ásamt úrskurði samgönguráðuneytisins í máli nr. 11/2008
Lagt fram.
Jón Hjartarson, V-lista, lagði fram bókun:
Með bréfi þessu er staðfest að margítrekaðar tillögur frá D-listanum í Árborg um niðurfellingu fasteignagjalda hjá 70 ára og eldri stangast á við lög. Samkvæmt lögum er óheimilt að veita afslátt á fasteignagjöldum án þess að taka tillit til tekna þeirra sem um ræðir og tekið er skýrt fram að afsláttarheimild á einungis við um tekjulitla einstaklinga.
B og V listi.
Eyþór Arnalds, D-lista, lagði fram bókun:
Heimilt er að fella niður fasteignaskatta að fullu á eldri borgara með reglum sem sveitarfélög setja hverju sinni. Ljóst er af þessum úrskurði að ekki er hægt að víkja frá tekjuviðmiði en það má þó vera mjög rúmt sbr. þær tillögur sem D-listinn hefur lagt fram á kjörtímabilinu. Fulltrúar D-listans munu hér eftir sem hingað til beita sér fyrir lækkun álaga á eldri borgara.
14. 0901106 - Kynning á svæðisáætlun sorpsamlaga
Bæjarráð vísar áætluninni til umhverfis- og skipulagsnefndar til umfjöllunar. Frestur til að gera athugasemdir er til 1. mars.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 09:05.
Jón Hjartarson
Þorvaldur Guðmundsson
Eyþór Arnalds
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Ásta Stefánsdóttir