13. fundur skólanefndar grunnskóla
13. fundur skólanefndar grunnskóla, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn fimmtudaginn 11. október 2007 í Norðursal, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 17:10
Þórir Haraldsson, varaformaður, B-lista (B)
Sandra D. Gunnarsdóttir, nefndarmaður S-lista (S)
Alma Lísa Jóhannsdóttir varamaður V-lista
Samúel Smári Hreggviðsson varamaður D-lista (D)
Kristín Traustadóttir, nefndarmaður, D-lista
Birgir Edwald, skólastjóri
Daði V Ingimundarson, fulltrúi skólastjóra
Elín Höskuldsdóttir, fulltrúi Flóahrepps
Sædís Ósk Harðardóttir, fulltrúi kennara
Guðbjörg Halldórsdóttir fulltrúi kennara
Sigurður Bjarnason verkefnisstjóri
Sigurður Bjarnason ritaði fundargerð
Í upphafi fundar voru fluttar hamingjuóskir til formanns skólanefndar með dóttur sem henni fæddist hinn 30. september sl. með ósk um að þeim mæðgum heilsist vel.
Formaður leitaði afbrigða til að taka trúnaðarmál á dagskrá. Var það samþykkt.
Dagskrá:
1. 0503003 Sunnulækjarskóli – 2. áfangi skólabyggingar, staða framkvæmda og ákvörðun um skólaheimsókn.
Birgir Edwald fór yfir stöðu framkvæmda við 2. áfanga Sunnulækjarskóla. Ennþá er verið er að ganga frá ýmsum verkþáttum innan - og utandyra og er verið smátt og smátt að taka húsnæðið í notkun. Áætlað er að hafa opið hús í Sunnulækjarskóla 3. nóvember kl. 10:00 – 12:00
Fulltrúar B- V- og S lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
Skólanefnd harmar þá seinkun sem orðið hefur á skilum verktaka á 2. áfanga Sunnulækjarskóla og þau óþægindi og truflanir sem það hefur valdið nemendum og starfsfólki. Jafnframt þakkar skólanefnd stjórnendum skólans, öllu starfsfólki og nemendum fyrir langlundargeð og útsjónarsemi við að halda uppi öflugu skólastarfi þrátt fyrir truflun vegna framkvæmda. Ánægjulegt er að nú sér loks fyrir endann á framkvæmdum við þennan áfanga og glæsilegur og vel búinn skóli er tilbúinn til að þjóna þörfum nemenda og starfsfólks um ókomin ár.
Skólanefnd lýsir áhyggjum sínum af því að framkvæmdir við íþróttahús Sunnulækjarskóla hafa tafist frá áætlun og nú lítur út fyrir að ekki verði unnt að taka húsið í notkun um næstu áramót eins og áætlað var. Skólanefnd skorar á verktaka að hraða vinnu við húsið eins og kostur er og beinir því til framkvæmda- og veitusviðs Árborgar að þrýsta eins og kostur er á um að verklok verði sem næst áætlun.
Fulltrúar D-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
Framkvæmdum við grunnskóla í Árborg átti að vera lokið fyrir skólabyrjun í haust. Fulltrúar D-lista harma að það hafi ekki gengið eftir því það er alvarlegt mál þegar nám og starf hundraða barna raskast svo vikum skiptir. Jafnframt þakka fulltrúarnir nemendum og starfsfólki í grunnskólunum skilning og þolinmæði.
Stefnt að skólaheimsókn í Sunnulækjarskóla miðvikudaginn 31. október kl. 8:30
2. 0701055 Fundargerðir skólanefndar 2007 - lögð fram svör við fyrirspurnum fulltrúa D-lista í skólanefnd frá skólanefndarfundi þann 13. september sl.
Svör meirihluta skólanefndar við spurningum sem eiga við fundarefni 0705025 Skólavist Sunnulækjarskóla
Hvers vegna ákvað formaður skólanefndar að fella niður fund nefndarinnar í ágúst þegar ljóst var að stefndi í alvarlegan vanda vegna biðlista eftir skólavistun á Bifröst; skólavistun Vallaskóla?
Áætlaður fundur skólanefndar þann 16. ágúst sl. var felldur niður vegna þess að ekki lágu fyrir erindi til umfjöllunar. Málefni skólavistunar voru á þeim tíma í vinnslu hjá verkefnisstjóra fræðslumála og framkvæmdastjóra í samráði við bæjarstjóra.
Við hverja hafði meirihluti skólanefndar samráð þegar hún ákvað að hafna tillögunni?
Engan, ákvörðun um afgreiðslu tillögunnar var tekin af meirihluta skólanefndar.
Finnst meirihluta skólanefndar ekki alvarlegt að taka hluta kennsluhúsnæðis Sunnulækjarskóla undir aðra starfsemi?
Skólavistun er hluti af grunnskólastarfi sveitarfélaga, skipulögð af skólayfirvöldum og á ábyrgð þeirra. Fráleitt er því að um sé að ræða starfsemi sem er óskyld skólastarfi eins og fyrirspyrjandi gefur í skyn.
Meirihluti skólanefndar tekur undir ákvörðun bæjarráðs um að taka tímabundið hluta kennsluhúsnæðis í Sunnulækjarskóla undir starfsemi skólavistunar. Verið er að nýta pláss sem er vannýtt eins og staðan er í dag. Starfsemi skólavistunar í húsnæði skóla er starfsemi sem getur farið saman og gerir það víða um land.. Skólastjóra Sunnulækjarskóla hefur verið falið að velja staðsetningu fyrir heimasvæði skólavistar í því rými skólans sem nú er tilbúið, þ.e. 1. eða 2. áfanga, og best þykir henta bæði m.t.t. til starfsemi skólans og skólavistar. Aðstaða í Sunnulækjarskóla bíður uppá möguleika á fjölbreyttu starfi með börnum sem eru í skólavistun s.s. íþróttasalur, tónmenntastofa og myndmenntastofa.
Og finnst meirihluta skólanefndar ekki ámælisvert að bæjarráð skuli ekki hafa samráð við skólanefnd þegar hluti skólahúsnæðis er lagður undir aðra starfsemi en kennslu?
Meirihluti skólanefndar lítur svo á að framangreind spurning sé góð ábending til bæjarráðs um að huga að því að hafa samráð við skólanefnd í þeim málum sem undir hana heyrir en ítrekar ábendingu til fyrirspyrjanda að ekki er um óskylda starfsemi að ræða.
Hverjar eru hugmyndir meirihluta skólanefndar um framtíðarhúsnæði skólavistunar við Sunnulækjarskóla?
Meirihluti skólanefndar lítur svo á að úrræði skólavistunar í Sunnulækjarskóla sé til bráðabirgða og hvetur bæjarstjórn til að vinna að framtíðarlausn skólavistunar í Sunnulækjarskóla sem allra fyrst í samráði við skólanefnd og aðra sem hlut eiga að máli.
Svör meirihluta skólanefndar við spurningum sem eiga við fundarefni 0504050 Framtíðaruppbygging Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri- Fundargerðir byggingarnefndar.
1. Í fundargerð skólanefndar frá því í febrúar kemur fram að þverfaglegur vinnuhópur Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri muni hittast tvisvar fram á vor vegna innra starfs skólans. Hvers vegna hefur það ekki gengið eftir?
Þverfaglegur vinnuhópur um uppbyggingu Barnaskólans á Eyrarbakka og á Stokkseyri skilaði skýrslu til skólanefndar 12. febrúar 2007. Þann 15. mars sl. var farið í skoðunarferð í Korpuskóla sem er litið á sem hluta af vinnu þverfaglega hópsins. Ekki gafst ráðrúm til að kalla þverfaglega vinnuhópinn saman aftur á vordögum eins og áformað var m.a. vegna undirbúnings náms og kynnisferðar starfsmanna skólans til Brusel í lok skóla í vor. Áformað er að kalla hópinn saman eigi síðar en þegar tillögur að hönnun liggja fyrir og vinna áfram með hópnum að framtíðarskipulagi skólastarfs í nýju og endurbættu húsnæði.
Enn er beðið niðurstöðu um hvort hægt er að byggja skólahúsnæði BES á Eyrarbakka norðan þorps. Við hverja var haft samráð um það?
Bæjarráð Árborgar taldi ástæðu til að láta kanna nýja staðsetningu fyrir skólahúsnæði BES á Eyrarbakka og byggja skólann upp frá grunni í stað þess að byggja viðbyggingu við eldra húsnæði. Bráðabirgðarannsóknir á svæðinu lofa góðu en ekki er enn ljóst hvort mögulegt sé að byggja skólahúsnæði þar. Bygginganefnd starfar í umboði bæjarráðs en skólanefnd mun fylgjast með framvindu þess í gegnum fulltrúa sinn í bygginganefnd. Meirihluti skólanefndar væntir þess að samráð verði haft við nefndina þegar niðurstöður þeirrar vinnu liggur fyrir.
Að sama skapi: Er ekki rétt að bæjarráð hafi samráð við skólanefnd um breytingar á áfangaskiptingu verksins? Við hverja var haft samráð um það?
Meirihluti skólanefndar lítur svo á að það sé á höndum byggingarnefndar, í umboði bæjarráðs, að sjá um byggingartæknileg atriði og skipulag framkvæmda við uppbyggingu BES. Fulltrúi skólanefndar í byggingarnefnd BES skapar þann samráðsvettvang og upplýsingaflæði sem þarf að vera.
3. 0703153 Skólaþróunarsjóður Árborgar- tilnefning í úthlutunarnefnd, auglýsing eftir umsóknum.
Skólanefnd samþykkir að tilnefna Sigrúnu Þorsteinsdóttur, formann skólanefndar, sem fulltrúa skólanefndar í úthlutunarnefnd Skólaþróunarsjóðs Árborgar og Þóri Haraldsson, varaformann sem varamann í forföllum hennar. Skólanefnd felur Sigurði Bjarnasyni, verkefnisstjóra fræðslumála að auglýsa eftir umsóknum í samræmi við reglur sjóðsins.
Samþykkt af fulltrúum S-V- og B lista. Fulltrúar D-lista sátu hjá
4. 0710025 Stefna Sambands íslenskra sveitarfélaga í skólamálum-umsögn.
Skólanefnd lýsir fyrir sitt leyti ánægju með stefnumótun Sambands íslenskra sveitarfélaga í skólamálum.
Skólanefnd leggur áherslu á að rekstur grunnskóla er stærsta einstaka verkefni sveitarfélaganna og kröfur á hendur sveitarfélaganna, grunnskólanna og starfsfólks þeirra aukast stöðugt. Skal þar m.a. bent á aukna þörf fyrir sérkennslu og stuðningsúrræði, úrræði fyrir einstaklinga sem hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli, aukin samskipti við foreldra og forráðamenn, nýjungar í kennsluháttum og örar tækniframfarir sem grunnskólar verða að geta tileinkað sér.
Grunnskólarnir eru stærstu vinnustaðirnir í hverju sveitarfélagi og því er afar mikilvægt að sveitarfélögum sé gert kleift að búa vel að starfsfólki og nemendum til þess að árangur starfsins verði sem bestur og hver einstaklingur fái tækifæri og stuðning til að þroskast og menntast í samræmi við hæfileika sína, samfélaginu öllu til hagsbóta.
Því telur skólanefndin mikilvægt að Samband íslenskra sveitarfélaga vinni náið með og standi þétt að baki sveitarfélögunum í málefnum grunnskólans. Að mati skólanefndar er afar mikilvægt að sambandið sinni vel hagsmunagæslu fyrir sveitarfélögin í landinu gagnvart ríkisvaldinu, gagnasöfnun, leiðbeiningum og aðstoð við sveitarfélög í málefnum grunnskólans með það að markmiði að styðja sveitarfélögin í að efla grunnskólann með menntun og mannrækt að leiðarljósi. Jafnframt verður að ætla sveitarfélögum eðlilegt svigrúm til að þróa skólastarf í takt við samfélagið og aðstæður á hverjum stað.
Skólanefndin vill sérstaklega benda á nauðsyn þess að Samband íslenskra sveitarfélaga beiti sér og styðji sveitarfélög gagnvart ríkisvaldinu til þess að tryggja nauðsynleg fjárframlög til sveitarfélaganna þannig að þau geti rekið grunnskólanna í landinu í samræmi við lögbundnar skyldur og stefnumörkun og telur eðlilegt að sérstaklega verði kveðið á um það í skólastefnu sambandsins.
Framangreind bókun samþykkt samhljóða
5. 0710024 Skólastefna Sveitarfélagsins Árborgar- yfirferð og umræður.
Skólanefnd samþykkir að taka skólastefnu Sveitarfélagsins Árborgar “grunnskólar” til endurskoðunar. Verkefnisstjóra fræðslumála er falið að senda skólastefnuna til umsagnar hagsmunaaðila, svo sem skólastjórnenda, kennarafélaga, félaga annars starfsfólks grunnskólanna, foreldraráða, foreldrafélaga og nemendafélaga með ósk um ábendingar um það sem betur má gera, markmið og leiðir til framtíðar. Skal við það miðað að athugasemdir hafi borist fyrir næstu mánaðamót þannig að skólanefnd geti farið yfir þær á næsta fundi sínum og tekið endurskoðaða skólastefnu til afgreiðslu af sinni hálfu á fundi sínum í desember nk.
Samþykkt samhljóða
6. 0710026 Skólanámsskrár grunnskóla.
Skólanefnd óskar eftir að skólanámsskrár grunnskóla berist nefndinni fyrir 1. nóvember nk.
7. Trúnaðarmál
Trúnaðarmál fært í trúnaðarbók
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:07
Þórir Haraldsson
Sandra D. Gunnarsdóttir
Alma Lísa Jóhannsdóttir
Samúel Smári Hreggviðsson
Kristín Traustadóttir
Birgir Edwald, skólastjóra
Daði V Ingimundarson
Elín Höskuldsdóttir
Sædís Ósk Harðardóttir
Guðbjörg Halldórsdóttir
Sigurður Bjarnason