137. fundur bæjarráðs
137. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn föstudaginn 24. apríl 2009 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10
Mætt: Jón Hjartarson, formaður, V-lista Þorvaldur Guðmundsson, bæjarfulltrúi, B-lista Elfa Dögg Þórðardóttir, varamaður D-lista
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari
Formaður leitaði afbrigða til að taka á dagskrá erindi sýslumannsins á Selfossi varðandi beiðni um lengdan opnunartíma Hvíta hússins vegna kosningavöku. Var það samþykkt samhljóða.
Dagskrá:
Almenn erindi
•1. 0904030 - Erindi Blindrafélagsins um ferðaþjónustu lögblindra í Árborg Bæjarráð vísar erindinu til umsagnar Fjölskyldumiðstöðvar. Umsögnin liggi fyrir fyrir 139. fund.
- 2. 0904136 - Áskorun til bæjaryfirvalda vegna niðurskurðar í skólamálum Formaður bæjarráðs lagði fram svohljóðandi tillögu að afgreiðslu: Ekki er unnt að verða við ósk um sérstakt aukafjármagn til skólaferðalaga. Fjárhagsstaða sveitarfélaga á Íslandi er erfið vegna bankahrunsins og alþjóðlegrar efnahagskreppu. Sveitarfélög um allt land leita nú leiða til þess að hagræða í rekstri og endurmeta áherslur og forgangsröðun í starfsemi sinni og er Sveitarfélagið Árborg þar ekki undan skilið. Bæjarstjórn Árborgar hefur lýst því yfir að hún muni gera allt sem í hennar valdi stendur til að verja grunnþjónustu í sveitarfélaginu, styrkja félagslega þjónustu til að mæta vaxandi þörf íbúa fyrir aðstoð vegna afleiðinga efnahagshrunsins og standa fyrir framkvæmdum eins og mögulegt er við þessar aðstæður. Til þess að ná þessum markmiðum hefur sveitarfélagið þegar leitað fjölmargra leiða til lækkunar útgjalda t.d. hefur verið samið um tímabundna launalækkun í ákveðnum hópum stjórnenda, yfirvinna verið felld niður eða minnkuð, innkaupum hagrætt og margt fleira í því skyni að lækka kostnað og verja ofangreind markmið. Af þessu leiðir að margvísleg starfsemi og þjónusta, sem áður var tíðkuð hefur ýmist þegar verið, eða verður, minnkuð eða felld niður. Reikna má með því að botni ástandsins sé ekki náð enn og því blasir við að lengra þarf að ganga í hagræðingu og skerðingu á þjónustu en fjárhagsáætlun yfirstandandi árs er nú í endurskoðun og verður afgreidd í bæjarstjórn fyrir lok maí n.k.. Bæjaryfirvöld eru þakklát þeim góða skilningi sem starfsfólk hefur almennt sýnt aðstæðunum og vonast til að gott samstarf verði áfram við það viðamikla verkefni að standa vörð um grunnþjónustu sveitarfélagsins. Skólarnir hafa ekki farið varhluta af ástandinu frekar en aðrir. Þar er reynt að verja lögbundna þjónustu, en hagræða og draga saman þar sem þess er nokkur kostur. Það er ljóst að ríkjandi ástand bitnar á öllum og allri starfsemi og mikilvægt er að gæta varúðar þar sem börn og unglingar eru annars vegar. Skólastjórar grunnskólanna hafa með höndum það vandasama verkefni að hagræða í rekstri skólanna eins og kostur og velja þá þætti þar sem unnt er að spara. Skólastjórar og kennarar hafa skipulagt skólahald við ríkjandi aðstæður eins og fjárhagsáætlun leyfir og hafa leyst það vel af hendi. Í þeirri vinnu hefur reynst nauðsynlegt að horfa til þess hvaða þjónusta er óumdeilanlega á hendi skólanna og hvaða þarf að víkja þegar illa árar. Hér í sveit eins og víða í nágrannasveitarfélögum hefur m.a. verið gripið til þeirra ráðstafana að draga verulega úr kostnaði vegna rútuferða og hefur það í för með sér að skólaferðalög í þeirri mynd sem þau hafa verið eru nú lögð af, a.m.k. tímabundið, og skólunum falið að leita annarra ódýrari leiða í nágrenni skólans eftir því sem aðstæður leyfa.
Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, lagði fram svohljóðandi breytingatillögu: Lagt er til að tillögur kennara í erindi verði samþykktar og 7. og 10. bekkur fái að fara í skólaferðalög með þeim hætti sem greinir í erindi.
Tillagan var borin undir atkvæði og felld með tveimur atkvæðum gegn atkvæðum bæjarfulltrúa B- og V-lista.
Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, gerði grein fyrir atkvæði sínu: Bæjaryfirvöld hafa lagt á það ríka áherslu að niðurskurður megi ekki koma illa við börnin í skólanum og m.a. hafa verið rituð bréf til kennara varðandi þessi mál. Það skýtur því skökku við þegar ekki eru veittir fjármunir í heilsueflandi uppákomur eins og Skólahreysti og skólahlaupið að Laugarvatni sem þó hefði aðeins kostað rútu fram og til baka. Nú má aðeins halda eitt bekkjarkvöld á ári og búið er að slá öll skólaferðalög af. Það verður því að segjast sem er að niðurskurðurinn bitnar hart á börnum skólans á meðan keypt eru tölvuforrit fyrir þrjár milljónir króna til að hefta aðgang starfsmanna Árborgar að facebook. Framvegis mætti gera samning við nemendur líkt og gerist í grunnskólanum í Hveragerði, en þar sjá krakkar í ákveðnum bekkjum um umhverfishreinsun og fá greitt fyrir frá bæjarfélaginu. Þeim pening geta krakkarnir t.d. ráðstafað í skólaferðalög eða sambærilegt.
Þorvaldur Guðmundsson, B-lista, gerði grein fyrir atkvæði meirihlutans: Það er eitt af megin verkefnum bæjaryfirvalda að standa vörð um velferð barna og ungmenna og ekki minnkar þörfin á þeim erfiðu tímum sem nú eru. Dæmi eru um fjölmörg tilvik þar sem börn og ungmenni hafa lent í vafasömum samskiptum í gegnum internetið og eru dæmi þess að það hafi gerst í gegnum skólatölvur. Það er mikilvægt að nýta þau úrræði sem til eru til að takmarka slík atvik.
Tillaga að afgreiðslu bæjarráðs var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum gegn atkvæði Elfu Daggar Þórðardóttur, bæjarfulltrúa D-lista.
- 3. 0902030 - Tillaga um byggingu útiklefa við Sundhöll Selfoss Lögð var fram svohljóðandi tillaga: Lagt er til að byggðir verði nýir útiklefar við Sundhöll Selfoss. Verkið verði boðið út hið fyrsta með það að markmiði að unnt verið að taka aðstöðuna í notkun upp úr miðju sumri 2009. Framkvæmda- og veitusviði í samvinnu við bæjarritara verði falið að vinna útboðsgögn vegna verksins á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.
Greinargerð Á fundi bæjarstjórnar þann 11. febrúar s.l. var samþykkt að fela Framkvæmda- og veitusviði að gera kostnaðar- og framkvæmdaáætlun um endurbyggingu útiklefa við Sundhöll Selfoss vorið 2009. Niðurstöður þeirrar vinnu liggja nú fyrir. Á grundvelli þeirra upplýsinga telur bæjarráð að rétt sé að ráðast í verkefnið hið fyrsta. Ný aðstaða af þessu tagi mun stórbæta aðbúnað sundlaugargesta stóran hluta ársins. Staðsetning klefanna yrði sunnan við núverandi Sundhöll, meðfram Bankavegi og með því fyrirkomulagi munu þessir útiklefar nýtast að fullu þegar til framkvæmda kemur við framtíðar þjónustuhús sem áætlað er að rísi á norðurhluta lóðarinnar, þar sem núverandi útiklefar eru. Fyrirliggjandi áætlanir um byggingu þjónustuhúsnæðis við Sundhöll Selfoss munu ekki geta gengið eftir á næstunni vegna efnahagsástandsins. Ekki er gert ráð fyrir að þær aðstæður skapist næstu árin að unnt verði að fylgja eftir framtíðaráformum. Því er hér lagt til að farið verði í mun kostnaðarminni aðgerðir sem þó munu bæta aðstöðuna til mikilla muna og gætu þjónað sundlaugargestum a.m.k. í nokkur ár, þar til hægt verður að ráðast í stærri framkvæmdir. Bæjarfulltrúar B, S og V lista.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum, Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, gerði grein fyrir atkvæði sínu: Mun meiri þörf er á að bæta aðstöðu í inniklefum og því telur undirrituð óeðlilegt að eyða tugum milljóna í byggingu útiklefa nú.
- 4. 0706077 - Áætlun Framkvæmda- og veitusviðs um endurbætur göngustíga vegna aðgengismála fatlaðra í Sveitarfélaginu Árborg. Á 132. fundi bæjarráðs 12. mars s.l. var Framkvæmda og veitusviði falið að gera sérstaka áætlun fyrir yfirstandandi ár um viðhald og endurbætur á göngustígum, gangstéttum og opnum svæðum í Árborg með aðgengi allra að leiðarljósi. Áætlunin er svohljóðandi:
Verkáætlun vegna göngustíga og gangstétta
Undirrituðum hefur verið falið að gera áætlun um bætt aðgengi í Sveitarfélaginu Árborg í samvinnu við Umhverfis- og skipulagsdeild, Svæðisskrifstofu málefna og fatlaðra og Sjálfsbjörg. Þann 19-03-09 var haldinn fundur og kom fram að mest þörf er á að bæta aðgengi kringum aðstöðu í Gagnheiði.
Í fjárfestingaáætlun 2009 er gert ráð fyrir 2.500.000 kr. í göngustíga og í rekstraráætlun er gert ráð fyrir 33.887.000 kr. í viðhald gatna en þar undir er einnig viðhald göngustíga og gangstétta.
Eftir jarðskjálftann 2008 var sótt um styrk frá Bjargráðasjóði vegna skemmda á gangstéttum í sveitarfélaginu og fengust 30 milljónir þaðan. Í meðfylgjandi áætlun reikna ég með þeim í viðhald göngustíga og gangstétta auk þess sem hluti fer í nýframkvæmdir.
2009 Stígur með Eyravegi - frá Húsasmiðju að Hagalandi/Suðurhólum Engjastígur (jarðvegsskipti og malbikun) Fjörustígur (milli Eyrarbakka og Stokkseyri) 1. áfangi Ölfusárstígur (tenging við Lækjarbakka) Malbikun á stíg meðfram Gagnheiði Gangstéttaviðgerðir meðfram aðalgötum í byggðarkjörnunum Samtals 31.540.000 kr.
2010 Rimastígur (viðgerðir) Fjörustígur (milli Eyrarbakka og Stokkseyri) 2. áfangi Gangstéttaviðgerðir Samtals 13.500.000 kr.
2011 - xx Arnbergsstígur Fjörustígur (milli Eyrarbakka og Stokkseyri) rest Gangstéttaviðgerðir
Samtals 49.000.000 kr.
Bæjarráð þakkar þeim aðilum sem tóku þátt í undirbúningi að gerð áætlunarinnar fyrir þeirra framlag.
Lagt var til að áætluninni verði vísað til framkvæmda- og veitunefndar til umsagnar. Samþykkt samhljóða.
- 5. 0904160 - Beiðni skólastjóra Tónlistarskóla Árnesinga um lækkun húsaleigu Bæjarráð vísar erindinu til fjármála- og stjórnsýslusviðs til umsagnar. Umsögn liggi fyrir fyrir 139. fund.
- 6. 0903040 - Uppbygging náms í hestaíþróttum í grunnskólum, umsögn Fjölskyldumiðstöðvar í tilefni af áskorun Hestamannafélagsins Sleipnis um aðkomu sveitarfélagsins að uppbyggingu grunnskólanáms í hestaíþróttum Lögð var fram svohljóðandi tillaga að afgreiðslu: Í málinu liggur fyrir minnisblað frá Fjölskyldumiðstöð Árborgar. Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla getur nám í hestaíþróttum aðeins farið fram sem valfag í 9. og 10. bekk. Það er hlutverk grunnskólans að skilgreina og skýra markmið valgreina, leggja fram kennsluáætlanir, yfirlit yfir námsefni og ákvarðanir um námsmat. Það skal tekið fram að skipulagningu valáfanga skólaárið 2009-2010 er að mestu lokið í grunnskólum Árborgar. Ekkert fjárhagslegt svigrúm er til að fjölga valáföngum vegna hagræðingar sem skólarnir hafa gripið til í kjölfar erfiðrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Óski Hestamannafélagið Sleipnir eftir viðræðum um þessa þætti fyrir skólaárið 2010 - 2011 skal því vísað til Fjölskyldumiðstöðvar Árborgar.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða, Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, situr hjá. Elfa Dögg gerði grein fyrir atkvæði sínu: Undirrituð telur eðlilegt að koma á fundi með forsvarsmönnum Sleipnis og unnin verði kostnaðaráætlun vegna erindisins.
- 7. 0812104 - Innritunarreglur í leikskóla, umsögn Fjölskyldumiðstöðvar Bæjarráð tekur undir umsögnina og samþykkir að ekki verði hafin vinna við endurskoðun innritunarreglna í leikskóla.
- 8. 0903078 - Breyting á kjörskrá - Alþingiskosningar 2009 Bæjarráð samþykkir að fella af kjörskrá tvo einstaklinga sem látist hafa frá því að kjörskrá var samþykkt, skv. fyrirliggjandi upplýsingum Þjóðskrár um andlát og dánardag.
- 9. 0904181 - Beiðni Sýslumannsins á Selfossi um umsögn um beiðni um rýmri opnunartíma - Hvíta húsið Bæjarráð veitir jákvæða umsögn um erindið.
Erindi til kynningar
•10. 0904141 - Fjallskil - skýrsla búnaðarþings um fjallskil Bæjarráð felur landbúnaðarfulltrúa að fara yfir fjallskilasamþykkt út frá sjónarmiðum Árborgar og gera tillögu að breytingum til Héraðsnefndar Árnesinga.
- 11. 0904162 - Aðalfundur Umf. Selfoss 2009 Lagt fram.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 9:16.
Jón Hjartarson Þorvaldur Guðmundsson Ragnheiður Hergeirsdóttir Elfa Dögg Þórðardóttir Ásta Stefánsdóttir