14. fundur hverfisráðs Selfossi
Haldinn á Kaffi Krús, þriðjudaginn 15. október 2013.
Fundarboðari, Ingibjörg E.L Stefánsdóttir formaður ráðsins.
Fundurinn hófst kl. 17:00.
Mætt voru:
Helga R. Einarsdóttir, Eiríkur Sigurjónsson, S.Hafstein Jóhannesson, Katrín Klemenzardóttir og Ingibjörg E.L.Stefánsdóttir.
Boðuð forföll: Böðvar Jens Ragnarsson.
Fundarritari Helga R. Einarsdóttir.
Fundi lauk kl. 18:30.
Dagskrá:
1. Fundagerð fundar dags. 4. júní, samþykkt.
2. Vel gert.
3. Hundar.
4. Gróður, göngustígar o.fl.
5. Jólatorgið.
6. Hraðahindranir.
7. Lóðir í grónum hverfum.
8. Ábendingar vegna strætisvagna.
a. Við Olís.
b. Stoppistöð á Engjavegi.
9. Ábendingar.
10. Næsti fundur.
Eftirfarandi mál voru rædd á fundinum.
1. Fundargerð síðasta fundar samþykkt.
2. Ráðið vill þakka þá breyttu sjón sem orðin er á mörgum göngustígum á Selfossi og vonar að áfram verði haldið með gott verk. Einnig að niðurrif húsa í mjólkurbúshverfinu sé hafið og vonar að því verki verði framhaldið og vel gengið frá þar til fyrir liggur nýtt skipulag á hverfinu.
3. Þrátt fyrir að ný og breytt samþykkt um hundahald hafi tekið gildi í sveitarfélaginu virðist lausaganga hunda vera viðvarandi vandamál og hafa frekar aukist í sumar sérstaklega á nýrri gangastétt meðfram ánni. Það lítur helst út fyrir að einhverjir hundaeigendur telji gangstéttina tilheyra hundasleppisvæði. Verður að taka þessum málum verulegu taki, ganga í að hundasleppisvæði verði gert sem fyrst og að viðvera hundafangara verði aukin þannig að hægt sé að handsama lausa hunda alla daga vikunnar.
4. Undanfarið hafa birst auglýsingar um gróður sem nær út fyrir lóðamörk. Ekki er nóg að auglýsa heldur þarf að fylgja eftir að gróður sé fjarlægður og beitt til þess þeim ráðum sem hægt er s.s. sem kemur fram í auglýsingum „Sinni hann því ekki og þar sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðarmörk við götur, gangstíga eða opin svæði er veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur, á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun.“ Á sama hátt þarf sveitarfélagið að skoða vel þann gróður sem er á þeirra svæði og ganga fram í að hann sé fjarlægður og minnkaður s.s. að greinar séu klipptar af trjám í þeirri hæð að hjólreiðafólk komist undir greinarnar.
5. Hvað ræður opnunartíma á jólatorginu? Auglýst er að það verði opið frá kl. 14-18 á laugardögum frá 23. nóvember. Má ekki lengja þann opnunartíma t.d. á sunnudögum og þegar nær dregur jólum? Að opnunartími jólatorgsins verði í takt við opnunartíma á öðrum verslunum eins og í vikunni fyrir jólin þar sem flestar verslanir eru opnar lengur en venjulega.
6. Hvað líður uppsetningu á hraðahindrun eða hraðahindrunum á Engjaveg milli Tryggagötu og Eyravegar? Í 9. fundargerð ráðsins er bókað um ábendingu frá íbúa þar sem óskað var eftir hraðahindrun á Vesturhóla. Hvar er sú ábending stödd?
7. Í grónum, eldri hverfum eru nokkrar íbúðalóðir óbyggðar. Sérstaklega lóðir þar sem hús stóðu sem fjarlægð voru eftir jarðskjálftann 2009. Er á döfinni að útdeila þessum lóðum ef fólk óskar eftir?
8. a. Bent er á að þegar strætisvagninn kemur úr Reykjavík og stoppar við Olís (Arnberg) til að hleypa farþegum út þá gerist það á gangabrautinni. Ekki er nein breikkun á veginum þannig að vagninn stoppar aðra umferð á sömu leið.
b. Tekið var eftir því í sumar að ferðamenn sem komu til Selfoss með strætisvagni fóru sumir úr vagninum við Fossnesti og gengu síðan á tjaldstæðið. Yfirleitt keyrði vagninn síðan fram hjá þeim eftir Rauðholtinu til að fara inn á Engjaveg. Stoppistöðvar á Engjaveginum eru staðsettar við Tryggvagötu en engin nær tjaldstæðinu. Væri ekki athugandi að bæta við eða færa stoppistöð þannig að hún nýtist betur?
9.
a. Skilti vantar milli Austurveg 6 og 8 (Arion banki og Sparisjóðurinn) til að skerpa á að akstursleiðin meðfram húsunum er einstefna. Til vesturs fyrir framan húsin og til austurs fyrir aftan húsin. Ökumenn beygja oft á milli húsanna og í stað þess að beygja til austurs eins og einstefnan er beygja þeir til vesturs, hægri beygju, á móti umferð. Skilti sem bannar hægri beygju þyrfti að setja upp, annað hvort á húshornið á Austurvegi 6 (Sparisjóðinn) eða beint á móti ökumanni sem kemur á milli húsanna.
b. Óskað er eftir skilti í Dverghóla sem sýnir við hvora götu Dverghólana húsin standa. Sambærileg skilti hafa verið sett upp í Grundahverfinu.
c. Rusladalla vantar á marga staði á Selfossi. Er sérstaklega bent á staði þar sem fólk getur komið saman t.d.á leiksvæði sem afmarkast af Dverghólum og Grafhólum, á steyptu plani meðfram Tryggvagötu í Hólahverfinu og á flestum göngustígum.
d. Gatan Eyrarlækur er að öllu leyti ljóslaus gata þrátt fyrir að ljósastaurar standi við götuna. Vonar ráðið til að leyst verði úr því máli sem fyrst.
e. Eru skilti á Selfossi öll í löglegri hæð? Sum skilti eru svo lág að hætta stafar af fyrir gangandi og hjólandi umferð.
Næsti fundur: Annar þriðjudagur desember, 10. desember kl. 17.00.