14. fundur menningarnefndar
14. fundur menningarnefndar Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014, haldinn þriðjudaginn 14. febrúar 2012 í Norðursal, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 18:15
Mætt:
Kjartan Björnsson, formaður, D-lista,
Björn Ingi Bjarnason, varaformaður, D-lista,
Þorlákur H Helgason, nefndarmaður, S-lista,
Bragi Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúi.
Bragi Bjarnason ritaði fundagerð.
Dagskrá:
1. 1201144 - Menningarstúkur á Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfossi
Björn Ingi Bjarnason leggur fram eftirfarandi tillögu:
Menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar samþykkir að beina því til bæjarráðs og bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar að ganga til samninga við Litla-Hraun um smíði á þremur fjölnota menningarstúkum.
Greinargerð:
Menningarstúkur.
Um er að ræða 3 sinnum 33 bekki af hinum traustu og vönduðu trébekkjum sem trésmíðadeild Litla-Hrauns hefur smíðað á undanförnum árum.
Verða með þessu til 3 sett, hvert sett með 99 sætum, samtals 297 sæti. Verði hvert sett staðsett í byggðakjörnunum þremur; Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfossi en hægt að færa á milli staða eftir því sem þörf er á. Hægt er að nota menningarstúkurnar við hinar ýmsu útisamkomur og mannamót; svo sem við íþróttavellina við Ströndina, keppnis- /æfingavelli á Selfossi og á hinum fjölmörgu hverfa- og bæjarhátíðum sem eru í Sveitarfélaginu Árborg. Þá eru ýmsir möguleikar á að nota menningarstúkurnar á samkomum sem eru innandyra.
Björn Ingi Bjarnason
Rætt um ýmsar útfærslur, hvernig ætti að standa að byggingu stúkanna og hvernig þær myndu nýtast samfélaginu. Nefndin samþykkir tillöguna og leggur til við bæjarstjórn að hafist verði handa við fyrsta hluta af þremur í byggingu menningarstúka fyrir sveitarfélagið. Samþykkt samhljóða.
2. 1202261 - Söfnun upplýsinga um sögu húsa í Sveitarfélaginu Árborg
Formaður nefndarinnar leggur fram eftirfarandi tillögu:
Söfnun upplýsinga um híbýli í Sveitarfélaginu Árborg.
Greinargerð:
Menningarnefnd leggur til að hafin verði söfnun upplýsinga um híbýli í Sveitarfélaginu Árborg. Íbúar búandi og brottfluttir, eru hvattir til samstarfs við söfnun mynda af viðkomandi eign ásamt upplýsingum um byggingarár, hugsanlegt nafn á eigninni ef það er til, íbúasögu og í stuttu máli, söguna á bak við húsið eða annað sem tengist tilurð hússins. Menningarnefnd og þar með sveitarfélagið vilji leita samstarfs við Héraðsskjalasafn Árnesinga um samstarf á vistun þessara gagna og er ætlast til þess að gögnum sé skilað rafrænt. Það er skoðun menningarnefndar að til þess að varðveita söguna sé nauðsynlegt að hefja þetta stórátak sem gæti tekið nokkur ár, því kynslóðir koma og fara og því hætta á að mikilvæg vitneskja tapist. Menningarnefnd í samvinnu við Héraðsskjalasafnið gæti svo leitað styrkja í verkefnið til Menningarráðs Suðurlands auk þess sem Sveitarfélagið kæmi að einhverju leyti með framlag í verkefnið. Að lokum mætti sjá það fyrir sér að upplýsingar þessar myndu verða aðgengilegar á vef sveitarfélagsins og víðar, komandi kynslóðum til fróðleiks og upplýsinga. Samantekt þessara upplýsinga hefur að litlu eða engu leyti farið fram á Selfossi í gegnum árin, en talsverðar upplýsingar eru til á Eyrarbakka og Stokkseyri og líka í Sandvíkurhreppi. Óskað er samvinnu og samstarfs við íbúana í sveitarfélaginu og þannig mun kostnaður verða í algjöru lágmarki en mestur kostnaður gæti legið í öflun og vörslu gagna.
Menningarnefnd leggur til að farið verði í söfnun upplýsinga um híbýli í Sveitarfélaginu Árborg. Fram kom að Héraðsskjalasafn Árnesinga sé tilbúið til samstarfs um verkefnið og búið væri að sækja um styrk til Menningarráðs Suðurlands. Samþykkt samhljóða.
3. 1201086 - Íslensku Hálandaleikarnir 2012
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að íslensku Hálandaleikarnir fái sambærilega styrksupphæð miðað við dagshátíðir á síðasta ári. Samþykkt samhljóða.
4. 1201147 - Hátíðir í Sveitarfélaginu Árborg 2012
Rætt var um fyrirkomulag hátíðarhalda í Sveitarfélaginu Árborg. Haldinn var opinn fundur með talsmönnum viðburða og hátíða í tvo tíma sem var gagnlegur og báru menn saman bækur sínar fyrir komandi vertíð. Þeir sem komust ekki til fundarins eru hvattir til að hafa samband við starfsmann nefndarinnar, Braga Bjarnason ef þeir hafa ábendingar eða nýjar hugmyndir um viðburði eða hátíðir í sveitarfélaginu.
Eftirfarandi drög að viðburða- og menningardagskrá voru lögð fyrir fundinn:
Viðburða- og menningardagskrá í Sveitarfélaginu Árborg 2012
Drög 14.feb.
MARS
3.mars ? Íslandsmótið í skák haldið á Selfossi.
29. mars ? 1.apríl - Drepstokkur - menningarhátíð ungs fólks á Suðurlandi
verður haldin í ungmennahúsi Árborgar, Pakkhúsinu, á Selfossi. Ungir listamenn sýna og koma fram. Í boði verða tískusýningar og tónleikar auk útvarpssendinga yfir helgina. Nánar á www.pakkhusid.is
APRÍL
2. ? 9. apríl 2012 - Lesið í lauginni
Yfir páskahátíðina vinna bókasöfnin og sundlaugarnar saman að verkefninu ,,Lesið í lauginni" eða ,, Ljóð í lauginni". Það er Bókasafn Árborgar á Selfossi og Sundhöll Selfoss og Bókasafn Árborgar á Stokkseyri og Sundlaug Stokkseyrar sem bjóða sundlaugargestum upp á ljóð og lesmál. Upplýsingar á www.arborg.is og www.stokkseyri.is.
MAÍ
1.maí- Verkalýðsdagurinn
Fjölbreytt fjölskyldudagskrá að Austurvegi 56. Dagskráin hefst kl.11:00.
5. maí 2012 - Sunnlenski sveitadagurinn
Jötunn vélar á Selfossi halda Sunnlenska sveitadaginn í fjórða sinn. Kynning á búvélum og matarframleiðslu í sveitum. Hægt að kynnast dýrunum í sveitinni og sjá fjölda skemmtilegra viðburða sem henta allri fjölskyldunni.
maí 2012 - Dagur tónlistarinnar
Barnakórar í umsjón Edit Molnár með dagskrá í Selfosskirkju.
17. ? 20. maí - Vor í Árborg
Vor í Árborg er menningarhátíð sem haldin er af Sveitarfélaginu Árborg. Fjöldi viðburða verða í gangi alla helgina ásamt fjölskylduleiknum ”Gaman saman sem fjölskylda". Nánari upplýsingar um dagskrá og viðburði er að finna á www.arborg.is en dagskrá verður einnig borin í hús.
JÚNÍ
3. júní - Sjómannadagurinn
Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur á Eyrarbakka og Stokkseyri. Fjölmargir skemmtilegir viðburðir verða á dagskrá. Nánari upplýsingar eru á www.arborg.is, www.stokkseyri.is og á www.eyrarbakki.is.
8. ? 10. júní - Kótelettan 2012
Bæjar-, fjölskyldu- og tónlistarhátíð sem haldin er af EB kerfum. Barnadagskrá, tónleikar og kynning frá sunnlenskum framleiðslufyrirtækjum. Nánari upplýsingar á www.kotelettan.is.
9. júní ? Hálandaleikar á Selfossi
Hálandaleikar haldnir í miðbæjargarðinum á Selfossi laugardaginn 9.júní. Komdu og upplifðu einstaka skoska stemningu. Nánar á www.arborg.is.
17. júní í Árborg 2012
17. júní er haldinn hátíðlegur í Árborg. Skipulagðar skemmtanir eru á Selfossi og á Eyrarbakka. Nánari upplýsingar á www.arborg.is, www.stokkseyri.is og www.eyrarbakki.is.
23. júní - Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka
Jónsmessuhátíðin er haldin á Eyrarbakka í kringum Jónsmessuna ár hvert. Fjölbreytt dagskrá í gangi, varðeldur, söngur og fl. Nánari upplýsingar á www.arborg.is og www.eyrarbakki.is.
22. ? 24. júní - Landsmót fornbílaklúbbs Íslands
Landsmót Fornbílaklúbbs Íslands verður nú haldið í níunda sinn á Gesthúsasvæðinu, Selfossi. Bílasýning á laugardeginum 23. júní (ókeypis inn á svæðið), bílaleikir og fl. á sunnudeginum. Allir velkomnir að mæta með sína eldri bíla/tæki og taka þátt í skemmtilegu móti. Nánar á www.fornbill.is.
29. júní ? 1.júlí ? Sumarmót hvítasunnumanna 2012
Glæsileg kristileg fjölskyldudagskrá fyrir alla aldurshópa. Hátíðin er haldin á Selfossi við hvítasunnukirkjuna.
JÚLÍ
8. júlí - Safnadagurinn
Íslenski safnadagurinn haldinn hátíðlegur í sveitarfélaginu. Nánari dagskrá á www.arborg.is
20. ? 22. júlí - Bryggjuhátíðin á Stokkseyri
Bryggjuhátíðin “brú til brottfluttra” er haldin á Stokkseyri. Varðeldur og bryggjusöngur ásamt fjölbreyttri fjölskyldudagskrá. Nánari upplýsingar um hátíðina eru á www.arborg.is og www.stokkseyri.is.
ÁGÚST
3. - 6. ágúst - Fjölskyldudagar á Stokkseyri
Færeyskir fjölskyldudagar verða haldnir á Stokkseyri um verslunarmannahelgina. Fjölmargir listamenn munu skemmta svo öll fjölskyldan ætti að finna eitthvað við sitt hæfi. Nánari upplýsingar eru á www.stokkseyri.is og www.arborg.is
3. ? 5. ágúst ? - Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi
15. Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Selfossi um verslunarmannahelgina. Fjölbreytt afþreyingardagskrá fyrir alla fjölskylduna samhliða skemmtilegri keppni.
10. ? 12. ágúst - Meistaradeild Olís á Selfossi
Knattspyrnudeild Selfoss heldur knattspyrnumótið Meistaradeild Olís í áttunda skipti í sumar á nýju glæsilegu vallarsvæði. Mótið fer fram á Selfossi og er ætlað fyrir stráka í 5. flokki. www.olismot.is.
11. ágúst - Sumar á Selfossi og bíladelludagur
Sumar á Selfossi er rótgróinn bæjar- og fjölskylduhátíð. Morgunverður, varðeldur og sléttusöngur ásamt fjölda viðburða og skemmtilegra leikja. Bærinn skreyttur hátt og lágt en hverfunum á Selfossi er skipt eftir litum. Bifreiðaklúbbur Suðurlands verður í samstarfi við Sumar á Selfossi þessa helgi og stendur fyrir skemmtilegum bíladelludegi. Allar upplýsingar um dagskrá hátíðanna verða á www.arborg.is.
18. - 19. ágúst - Aldamótahátíð á Eyrarbakka
Hestar, kindur, geitur og hænur, menn, konur og börn bjóða ykkur velkomin á hina árlegu þorpshátíð sem haldin verður á Eyrarbakka. Íbúar og gestir klæða sig upp á í anda aldamótanna 1900. Allar nánari upplýsingar um hátíðina verða á www.arborg.is og á www.eyrarbakki.is.
SEPTEMBER
1. september - Brúarhlaupið á Selfossi
Brúarhlaupið verður haldið laugardaginn 1. september. Frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss heldur hlaupið og er hægt að nálgast allar frekari upplýsingar á www.umfs.is og www.hlaup.is.
OKTÓBER
Menningarmánuðurinn október haldinn hátíðlegur í Árborg
Fjölbreyttir menningarviðburðir haldnir allan mánuðinn. Nánari upplýsingar verða á www.arborg.is
NÓVEMBER
2. ? 4. nóvember - Safnahelgi á Suðurlandi
Fjölbreyttir menningarviðburðir í gangi um allt Suðurland.
22. nóvember - Jólaljósin kveikt í Árborg
Yngsta afmælisbarn dagsins í Árborg kveikir á jólaljósunum fyrir framan Bókasafn Árborgar á Selfossi. Skátafélagið Fossbúar býður upp á heitt kakó.
DESEMBER
8. desember ? Jólatorgið opnar og jólasveinarnir koma úr Ingólfsfjalli
Jólatorgið opnar í miðbæjargarðinum á Selfossi um leið og jólasveinarnir koma úr Ingólfsfjalli kl. 16:00. Á jólatorginu er markaðs- og fjölskyldustemning en boðið er upp á fjölbreytta viðburði á opnunartímum. Nánari upplýsingar á www.umfs.is og www.arborg.is.
5. 1202260 - Umsóknir í Menningarráð Suðurlands 2012
Menningar- og frístundafulltrúi leggur fram lista yfir þær umsóknir sem fóru frá Sveitarfélaginu Árborg í menningarráð Suðurlands fyrir árið 2012. Nefndin þakkar upplýsingarnar.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 21:10
Kjartan Björnsson
Björn Ingi Bjarnason
Þorlákur H Helgason
Bragi Bjarnason