Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


19.10.2006

15. fundur bæjarráðs

 

15. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn 19.10.2006 í Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10

 

Mætt:
Þórunn J Hauksdóttir, formaður
Margrét Katrín Erlingsdóttir, varaformaður
Gylfi Þorkelsson, bæjarfulltrúi
Jón Hjartarson, áheyrnarfulltrúi
Stefanía Katrín Karlsdóttir, bæjarstjóri
Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari

 

Formaður leitaði afbrigða til að taka af dagskrá mál í fundarboði, merkt a. undir 2. lið, fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 27.09.06, þar sem gögn fylgdu ekki fundarboði.

 

Var það samþykkt.

 

Dagskrá:

 

1. Fundargerðir til staðfestingar:

 

 

a.

0605148
Fundargerð þjónustuhóps aldraðra

frá 04.10.06

b.

0606088
Fundargerð félagsmálanefndar

frá 09.10.06

 

1b) -liður 2, bæjarráð leggur til að reglur um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur verði samþykktar.

 

Samþykkt með tveimur atkvæðum fulltrúa B- og D-lista, Gylfi Þorkelsson, S-lista, situr hjá.

 

Undirritaðir ítreka bókun Ölmu Lísu Jóhannsdóttur skv. 2. lið fundargerðar félagsmálanefndar  frá 9. okt. 2006 og leyfa sér jafnframt að koma með eftirfarandi bókun:

 

Ef brugðist er efnislega við þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki ákvörðun um að taka upp sérstakar húsaleigubætur er það efni í heila grein. En nokkur atriði er þó nauðsynlegt að tíunda.

 

1. Það er varhugavert að nota þær til þess að réttlæta fækkun félagslegra íbúða á leigumarkaði, en það er einmitt það sem meirihlutinn í Árborg er að gera, enda aflétt frestun á sölu félagslegra íbúða sbr. samþykkt bæjarráðs 14.09.06. Andstaða undirritaðra  gegn sérstökum húsaleigubótum byggist á þessari tengingu.

 

2. Í húsaleigubótum felst ekki lagalegur réttur þeirra sem þær kunna að fá.

 

3. Staða leigjenda sem þær fá er því mjög óviss, þar sem meirihluti getur breytt reglunum hvenær sem honum sýnist með einfaldri meirihluta samþykkt í bæjarstjórn.

 

Af ofansögðu er ljóst að hugmyndin um þessar húsaleigubætur er afar ófullnægjandi.

 

Jón Hjartarson,  V-lista og Gylfi Þorkelsson, S-lista.

 

Jafnframt leggja undirritaðir fram eftirfarandi bókun við sama lið:

 

Undirritaðir taka undir gagnrýni Þórunnar Elvu Bjarkadóttur á vinnubrögð meirihlutans. Ákvörðun um sölu félagslegra leiguíbúða er vanhugsuð því sérstakar húsaleigubætur geta ekki komið í stað þeirra. Aðgerðin í heild mun skapa margs konar vanda, bæði félagslegan og fjárhagslegan og bitna á þeim er síst skyldi.

 

Gylfi Þorkelsson, S-lista og Jón Hjartarson, V-lista.

 

Bókun fulltrúa B- og D-lista vegna sama liðar:

 

Ákvörðun um sérstakar húsaleigubætur er fyrst og fremst hugsuð til að leysa vanda þeirra sem eru í brýnustu þörfinni eftir félagslegu húsnæði. Þessir aðilar fengju að öllum líkindum ekki á næstunni lausn sinna mála þó að þessar 9 íbúðir yrðu ekki seldar á næstu árum, þar sem engin ákvörðun um fjölgun íbúða hefur verið tekin síðustu ár.

 

Fundargerðirnar staðfestar.

 

2.  Fundargerðir til kynningar:

 

 

a.

0601091
Fundargerð heilbrigðisnefndar Suðurlands

frá 03.10.06

b.

0601064
Fundargerð stjórnar SASS, 397. fundur,

frá 04.10.06

 

Lagðar fram.

 

3. 0602013
Lántökur hjá Lánasjóði sveitarfélaga árið 2006, heimild til að taka lán að fjárhæð 3.000.000 EUR. -

Bæjarráð Árborgar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 3.000.000 –þrjár milljónir- EUR til 10 ára, í samræmi við skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Er lánið tekið til byggingar skóla og íþróttamannvirkja og til þess að standa straum af kostnaði við gatnagerð sbr. 2. gr. laga um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 136/2004.

Jafnframt er Stefaníu Katrínu Karlsdóttur, bæjarstjóra, kt.: 280164-4109, Sléttuvegi 5, Selfossi, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Sveitarfélagsins Árborgar að undirrita lánssamning eða skuldabréf við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.

4. 0602013
Lántökur hjá Lánasjóði sveitarfélaga - heimild til að taka lán að fjárhæð 1.800.000 USD. -

Bæjarráð Árborgar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 1.800.000 –ein milljón og átta hundruð þúsund- USD til 10 ára, í samræmi við skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Er lánið tekið til byggingar skóla og íþróttamannvirkja og til þess að standa straum af kostnaði við gatnagerð sbr. 2. gr. laga um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 136/2004.

Jafnframt er Stefaníu Katrínu Karlsdóttur, bæjarstjóra, kt. 280164-4109, Sléttuvegi 5, Selfossi, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Sveitarfélagsins Árborgar að undirrita lánssamning eða skuldabréf við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.

5. 0504050
Húsnæðismál Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri - skipun bygginganefndar

Bæjarráð skipar framkvæmdastjóra framkvæmda- og veitusviðs formann bygginganefndar Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri, bæjarráð skipar einnig í nefndina formann skólanefndar og Samúel Smára Hreggviðsson. Bæjarráð óskar eftir að foreldraráð og starfsmenn Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri tilnefni sinn aðilann hvort til setu í nefndinni. Verkefnisstjóra fræðslumála er falið að starfa með bygginganefndinni.

 

Samþykkt með atkvæðum fulltrúa B- og D-lista. Fulltrúi S-lista sat hjá.

 

Bókun:
Undirritaðir gagnrýna að minnihlutanum sé haldið frá bygginganefnd BES. Í ljósi þess að um uppbyggingu skólans eru mjög skiptar skoðanir er nauðsynlegt að reyna að skapa sem víðtækasta sátt um fyrirhugaðar framkvæmdir.

 

Gylfi Þorkelsson, S-lista, og Jón Hjartarson, V-lista.

 

6. 0610025
Beiðni sýslumannsins á Selfossi um umsögn um veitingaleyfi - Sunnlenska bókakaffið -

Bæjarráð samþykkir að veita jákvæða umsögn um erindið.

7. 0610023
Svæði fyrir atvinnustarfsemi við Löngudæl á Stokkseyri - beiðni um afnot af svæði fyrir kajakaferðir

Bæjarráð samþykkir að leita umsagnar umhverfisnefndar og bygginga- og skipulagsnefndar um erindið.

 

8. 0609085
Leikskólagjöld í Árborg -  erindi vegna barnmargra fjölskyldna

Bæjarráð þakkar bréfritara fyrir bréfið og góðar ábendingar.  Bæjarráð bendir jafnframt á að í Sveitarfélaginu Árborg hefur íbúaþróun verið mjög ör síðustu ár og fjölgun barnafjölskyldna mikil, sem er mjög ánægjulegt fyrir sveitarfélagið.  En við svo mikla fjölgun eru ávallt miklir vaxtaverkir og hefur sveitarfélagið gert allt sem í þess valdi stendur til að koma til móts við þá.  Meðal annar með því að auka afslætti í dagvistun og því að tengja saman afslætti hvort sem barn er hjá dagforeldri, á leikskóla eða í skólavistun.

 

Í málefnasamningi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks kemur fram að á kjörtímabilinu á að tryggja öllum börnum 1½ árs – 6 ára vist á leikskóla. Með því verður tryggt að öll börn á þessum aldri njóti jafns réttar með aðgang að leikskóla. Einnig er ætlunin að lækka leikskólagjöld, t.d. með því að gjald fyrir 8 klst. vistun lækki í 20.000 kr. Samhliða lækka þá hlutfallslega gjöld fyrir systkini. Með þessum áætlunum er komið til móts við allar barnafjölskyldur í Árborg.

 

Einnig má benda á hátt þjónustustig leikskólanna í Árborg og  hve vel sveitarfélagið er sett með hlutfall menntaðra leikskólakennara og hve vel mannaðar stöður ófaglærðs starfsfólks eru. 

 

Afgreiðsla málsins samþykkt samhljóða.

 

Bókun:
Undirritaðir harma þá ákvörðun meirihluta bæjarráðs, á 13. fundi þess, að fella tillögu um lækkun leikskólagjalda í sveitarfélaginu Árborg í áföngum, til jafns við þau sveitarfélög sem bjóða ódýrustu þjónustuna á þessu sviði. Sú aðgerð myndi nýtast barnafjölskyldum mun betur en 20 þúsund króna valgreiðsla, ekki síst barnmörgum fjölskyldum.

 

Jafnframt óska undirritaðir eftir svörum við eftirfarandi spurningum varðandi leikskólamál:  

 

Í Morgunblaðinu sunnudaginn 15. október sl. auglýsti Framkvæmda- og veitusvið Árborgar alútboð á fyrirhugaðri byggingu sex deilda leikskóla við Leirkeldu, Selfossi. Hvar og hvenær var tekin ákvörðun um byggingu sex deilda leikskóla á þessum stað, hvar og hvenær var tekin ákvörðun um alútboð á þeim sama leikskóla, hver veitti heimild til að auglýsa útboðið og hvenær var sú heimild veitt?

 

Gylfi Þorkelsson, S-lista og Jón Hjartarson, V-lista

 

9. 0610027
Umhverfismat samgönguáætlunar 2007-2018  

Bæjarráð vísar málinu til umhverfisnefndar.

 

10. 0610028
Styrkbeiðni - nýsköpunarsjóður námsmanna 2006  

Bæjarráð sér sér ekki fært að verða við erindinu.

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 9:05

Þórunn J Hauksdóttir                          
Margrét Katrín Erlingsdóttir
Gylfi Þorkelsson                                 
Jón Hjartarson
Stefanía Katrín Karlsdóttir                  
Ásta Stefánsdóttir


 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica