15. fundur fræðslunefndar
15. fundur fræðslunefndar Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014 haldinn fimmtudaginn 24. nóvember 2011 í Norðursal, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 17:15
Mætt:
Sandra Dís Hafþórsdóttir, formaður, D-lista,
Brynhildur Jónsdóttir, nefndarmaður, D-lista,
Grímur Arnarson, nefndarmaður, D-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir, nefndarmaður, S-lista,
Andrés Rúnar Ingason, nefndarmaður, V-lista,
Magnús Jóhannes Magnússon, fulltrúi skólastjóra,
Gunnhildur Gestsdóttir, fulltrúi kennara,
Helga Geirmundsdóttir, fulltrúi leikskólastjóra,
Málfríður Garðarsdóttir, fulltrúi foreldra grunnskólabarna,
Linda Rut Ragnarsdóttir, fulltrúi foreldra leikskólabarna,
Þorsteinn G Hjartarson, fræðslustjóri,
Ingibjörg Garðarsdóttir, fjármálastjóri.
Dagskrá:
1. 1102074 - Skólavogin - lykiltölur um skólahald
Skólavogin og skólapúls.
Foreldrakönnun í grunnskólum - hluti af ytra mati.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ákveðið að hefja samstarf við Skólapúlsinn vegna verkefnis sem nefnt hefur verið Skólavogin en þegar hafa margir skólar góða reynslu af Skólapúlsinum í framkvæmd, fyrirlögn og úrvinnslu viðhorfakannana til nemenda. Hér í Árborg hefur Sunnulækjarskóli notað Skólapúlsinn í innra mati. Með samstarfi Sambands íslenskra sveitarfélaga við Skólapúlsinn munu afurðir Skólapúlsins nýtast bæði í innra og ytra mati og felur fræðslunefnd fræðslustjóra að huga að innleiðingu kerfisins í öllum grunnskólum sveitarfélagsins. Fræðslustjóri upplýsti að unnið er að því að leggja foreldrakönnun fyrir í grunnskólunum þremur í janúar en náðst hefur samkomulag við deildarstjóra tölfræði- og rannsóknarþjónustu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um undirbúning, framkvæmd og úrvinnslu. Foreldrakönnunin verður hluti ytra mati í grunnskólum sem er eitt af lögbundnum hlutverkum sveitarfélaga. Þá vill fræðslunefnd skoða að foreldrakönnun verði einnig lögð fyrir í leikskólum á næsta ári.
2. 1106093 - Fjárhagsáætlun 2012
Kynning á fjárhagsáætlunarvinnu fjármálastjóra og fræðslustjóra með skólastjórnendum.
Fjármálastjóri og fræðslustjóri kynntu vinnu við fjárhagsætlun 2012 en þau hafa að undanförnu haldið fundi með öllum stjórnendum í leikskólum og grunnskólum þar sem farið var í rekstur hvers skóla á árinu 2011 og mögulega hagræðingu í rekstri á árinu 2012.
Ingibjörg Garðarsdóttir, fjármálastjóri, fór af fundi kl. 17:45.
3. 1111067 - Samræmd próf skólaárið 2011-2012
Niðurstöður haustið 2011.
Meðaltöl eftir sveitarfélögum lögð fram til kynningar en þar eru niðurstöður birtar á normaldreifðum einkunnastiga sem er kallaður grunnskólaeinkunn, ávallt með meðaltalið 30 í hverri námsgrein sem segir til um árangur nemenda miðað við alla nemendur á landinu. Í Árborg er árangur hlutfallslega bestur hjá nemendum í 4. bekk en þar er meðaltalið í íslensku 29,9 og 30,6 í stærðfræði sem er yfir landsviðmiðinu. Einnig lögð fram samantekt sem sýnir meðaleinkunnir hvers skóla í 4., 7. og 10. bekk. Í kynningu fræðslustjóra kom fram að grunnskólaeinkunn í 10. bekk Vallaskóla hefur verið að færast í rétta átt síðastliðin fimm ár, þ.e.a.s. frekar verið að færast nær landsmeðaltali í stærðfræði og ensku en er nokkuð sveiflukenndari í íslensku. Umræddar upplýsingar lágu bara fyrir frá Vallaskóla. Nánari kynning á samræmdum prófum í fræðslunefnd verður síðar þegar skýrslur hafa borist um framfarastuðla hvers nemendahóps. Fræðslunefnd hvetur grunnskólana til aukins faglegs samstarfs innan sveitarfélagsins, við nágrannaskóla og við FSU með það að meginmarkmiði að ná enn betri árangri.
4. 1111039 - Reglugerð - ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum
Í reglugerðinni (nr. 1040 frá 21. okt. 2011) er m.a. fjallað um ábyrgð, réttindi og skyldur starfsfólks skóla, nemenda og foreldra. Einnig tekur reglugerðin til skólabrags, starfs grunnskóla gegn einelti, skólareglna, viðbragða við brotum á skólareglum, málsmeðferðar vegna brota á skólareglum og brottvísunar nemenda úr skóla. Fram kom í kynningu fræðslustjóra að á samráðsfundum hans með skólastjórum er þegar er farið að huga að sameiginlegum verklagsreglum skólanna vegna þjónustu við nemendur með fjölþættan vanda. Verklagsreglurnar munu meðal annars taka mið af reglugerðinni og verða þær fljótlega lagðar fyrir fræðslunefnd til skoðunar og afgreiðslu.
5. 1111069 - Ársskýrslur leikskóla í Árborg 2010-2011
Ársskýrsla Leikskólans Jötunheima 2010-2011 lögð fram til kynningar. Þar eru ýmsar gagnlegar upplýsingar um leikskólastarfið, helstu áherslur, innra mat, starfsmannahald, fjölda barna, foreldrasamstarf, upplýsingastreymi, samstarf og ráðgjöf.
6. 1110100 - Skólanámskrár grunnskóla 2011-2012
Skólanámskrá Vallaskóla 2011-2012 lögð fram til kynningar.
Skólanámskrá Vallaskóla 2011-2012 lögð fram til kynningar. Einkunnarorð skólans eru virðing - þekking - lífsgleði. Í námskránni er meðal annars fjallað um meginmarkmið í námi og kennslu, leiðir að settum markmiðum, námstilhögun, námsmat, námsgögn og valgreinar. Skólanámskráin er aðgengileg á vef skólans þar sem einnig eru fréttir úr skólastarfinu, eineltisáætlun, upplýsingar um mötuneyti, skóladagatal, skólareglur og aðrar hagnýtar upplýsingar.
7. 1101166 - Fundargerðir leikskólastjóra og sérkennslufulltrúa 2011
Fundargerð leikskólastjóra, sérkennslufulltrúa og fræðslustjóra (17. fundur).
Fundargerðir nr. 16, 17 og 18 lagðar fram til kynningar. Fræðslunefnd frestar afgreiðslu á tillögu um sumarlokanir leikskóla til næsta fundar.
8. 1101097 - Fundargerðir Skólaskrifstofu Suðurlands 2011
Í fundargerðinni frá 17. nóvember kemur fram að enginn skóli á Suðurlandi varð fyrir valinu í þátttöku í tilraunaverkefni um ytra mat sem er hluti af tilraunaverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Stjórn Skólaskrifstofu Suðurlands lýsir undrun sinni á valinu og óskar eftir skýringum. Fræðslunefnd tekur undir bókun stjórnarinnar og felur fræðslustjóra að ganga frá umsókn til ráðuneytisins í samráði við skólastjóra Vallaskóla en nýlega auglýsti það eftir sveitarfélögum sem hafa áhuga á að fram fari stofnanaúttekt á starfi leik- og/eða grunnskóla innan þeirra. Þessar úttektir eru væntanlega til viðbótar við umrætt tilraunaverkefni. Fræðslunefndin telur vel við hæfi að næsta úttekt verði gerð á Vallaskóla, sem er fjölmennasti grunnskólinn í Árborg, en á síðasta skólaári var gerð viðamikil úttekt á Sunnulækjarskóla sem nýlega var kynnt á fundi nefndarinnar ásamt sjálfmatsskýrslu og umbótaáætlun.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 18:55
Sandra Dís Hafþórsdóttir Brynhildur Jónsdóttir
Grímur Arnarson Arna Ír Gunnarsdóttir
Andrés Rúnar Ingason Magnús J. Magnússon
Gunnhildur Gestsdóttir Helga Geirmundsdóttir
Málfríður Garðarsdóttir Linda Rut Ragnarsdóttir
Þorsteinn G Hjartarson Ingibjörg Garðarsdóttir