Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


12.4.2012

15. fundur menningarnefndar

15. fundur menningarnefndar Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014, haldinn mánudaginn 2. apríl 2012  í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 18:30.

Mætt:
Kjartan Björnsson, formaður, D-lista, 
Björn Ingi Bjarnason, varaformaður, D-lista, 
Þorlákur H. Helgason, nefndarmaður, S-lista, 
Bragi Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúi.

Nefndarmaður S-lista óskar eftir að mál nr.1204007 verði tekið inn á fundinn með afbrigðum. Samþykkt samhljóða.

Bragi Bjarnason ritar fundagerð.

Dagskrá:

1.  1201146 - Vor í Árborg 2012
 Kristín Bára Gunnarsdóttir, nemi í viðburðastjórnun kemur, inn á fundinn en hún vinnur að hátíðinni ásamt Braga Bjarnasyni, menningar- og frístundafulltrúa. Rætt um dagskrárliði og ýmsar hugmyndir lagðar fram. T.d. að hafa ákveðið þema fyrir hvern dag, sérstakt hátíðarkvöld á laugardeginum þar sem menningarviðurkenning Árborgar er afhent og fjölskylduleikinn "Gaman saman sem fjölskylda". Allir sem vilja koma að hátíðinni með einum eða öðrum hætti eru hvattir til að hafa samband við Braga eða Kristínu Báru í netfangið vor@arborg.is eða í síma 480-1900.  Samþykkt samhljóð. 
   
2.  1201147 - Hátíðir í Sveitarfélaginu Árborg 2012
 Viðburða- og menningardagskrá fyrir Sveitarfélagið Árborg 2012 lögð fram. Rætt um dreifingu dagskrárinnar og lagt til að henni verði dreift inn á heimili á Suðurlandi sem og í sem flestar sjoppur og upplýsingamiðstöðvar. Ef hægt er að dreifa dagskránni markvisst til sumarbústaðaeigenda leggur nefndin til að það verði gert. Menningar- og frístundafulltrúa falið að koma dagskránni í dreifingu. Samþykkt samhljóða.
   
3.  1203223 - Styrkumsókn vegna tónleikaferðar The Wicked Strangers
 Menningarnefndin þakkar hljómsveitinni The Wicked Strangers fyrir greinargóða umsókn. Fram kom í umsókninni að hljómsveitin væri á leið í tónleikaferð til Bandaríkjanna eftir gott gengi á síðasta ári. Nefndin tekur jákvætt í erindið en tekur fram að hún hafi ekki úr neinum fjármunum að spila en vísar þessari beiðni til bæjarráðs. Menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar óskar hljómsveitinni velfarnaðar. 
Gróskan í tónlistarlífinu er greinilega mikil í sveitarfélaginu en fjórar hljómsveitir úr sveitarfélaginu tóku þátt í Músíktilraunum 2012 í sl. viku. Þrjár þeirra komust í úrslit og ein þeirra, RetRoBot, vann að lokum keppnina. Það er því björt framtíð fyrir hljómsveitir í sveitarfélaginu enda aðstaða til æfinga og upptöku til fyrirmyndar í ungmennahúsinu, Pakkhúsinu en allar hljómsveitirnar hafa nýtt sér þá aðstöðu frá því að hún opnaði fyrir tveimur árum. Menningarnefnd óskar RetRoBot innilega til hamingju með sigurinn í Músíktilraunum 2012. 
   
4.  1204007 - Ósk um almennt yfirlit yfir kennslu í listsköpun í leik- og grunnskólum Árborgar.
 Þorlákur Helgi Helgason, nefndarmaður s-lista leggur fram eftirfarandi tillögu: 
Menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar samþykkir að óska eftir almennu yfirliti frá leik- og grunnskólum um kennslu í listsköpun og yfir áherslur viðkomandi skóla og stefnu í listmenntun.
 
Greinargerð:
Meðal sex grunnþátta í aðalnámskrá leik- grunn- og framhaldsskóla eru sköpun og læsi, þar sem listmenntun gegnir mikilvægu hlutverki. Í listsköpun fléttast frumleiki, ögun og frumkvæði og mörg börn uppgötva leynda hæfileika og eykur það sjálfstraust þeirra. Listfræði og listsköpun er aðferð til að lesa betur í umhverfi og skilja þá arfleifð sem þjóðin býr að.
Skapandi greinar skila æ meiri arði í þjóðarbúið og auka möguleika fólks á að sinna starfi sem veitir ánægju og gleði. Kennsla í list- og menningarfræðum veitir undirstöðu sem börn og unglingar búa að. Menningarnefnd Árborgar hvetur skólayfirvöld til að veita nemendum fjölbreytt tækifæri til listsköpunar.

Þorlákur H. Helgason
 
Samþykkt samhljóða. Starfsmanni nefndarinnar falið að koma þessari tillögu áfram til fræðslustjóra.
   
5.  1203153 - Drepstokkur 2012
 Dagskrá hátíðarinnar lögð fram til kynningar. 
   
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 20:25

Kjartan Björnsson  
Björn Ingi Bjarnason
Þorlákur H Helgason  
Bragi Bjarnason


Þetta vefsvæði byggir á Eplica