Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


5.11.2008

18. fundur lista- og menningarnefndar

18. fundur lista- og menningarnefndar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn þriðjudaginn 4. nóvember 2008  í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 18:15

Mætt: 
Andrés Rúnar Ingason, formaður, V-lista (V)
Már Ingólfur Másson, nefndarmaður S-lista (S)
Ingveldur Guðjónsdóttir, nefndarmaður B-lista
Kjartan Björnsson, nefndarmaður D-lista (D)
Björn Ingi Bjarnason, nefndarmaður D-lista (D)
Andrés Sigurvinsson, verkefnisstjóri íþrótta-, forvarna- og menningarmála

Ingveldur Guðjónsdóttir nýr aðalfulltrúi B-lista var boðin velkomin og Sigrúnu Jónsdóttur fráfarandi aðalfulltrúa þökkuð velunnin störf og ánægjulegt samstarf.

Samþykkt samhljóða að taka mál 0811008 inn á dagskrá fundarins með afbrigðum - greinagerð til kynningar um framtíðarhugmyndir varðandi Gónhól á Eyrarbakka.

Kristinn Bárðarson, kom á fundinn vegna máls no. 0801184 og yfirgaf fundinn að erindi loknu.

Andrés Sigurvinsson, verkefnisstjóri ritaði fundargerð

Dagskrá:

  • 1. 0810039 - Menningarstyrkir 2008 seinni úthlutun

    LMÁ felur verkefnisstjóra að auglýsa eftir umsóknum og skal síðasti skiladagur vera 28. nóvember 2008. Fram kom að til úthlutunar nú væru kr. 500.000 og væru þar um 200 þúsund krónur eyrnamerktar til menningarviðurkenningar fyrir árið 2008.
  • 2. 0801097 - Vor í Árborg 2009

    LMÁ leggur til að hátíðin verði haldin dagana 21. - 24. maí 2009.
  • 3. 0809163 - Ölfusársetur

    LMÁ tilnefnir Ingveldi Guðjónsdóttur, nefndarmann LMÁ fyrir sína hönd.
  • 4. 0810132 - Afmælisár Bæjar- og héraðsbókasafnsins á Selfossi 2009

    LMÁ samþykkir samhljóða að Lýður Pálsson, forstöðumaður Byggðarsafns Árnesinga verði fulltrúi LMÁ í undirbúnings- og afmælisnefnd vegna aldarafmælis Bæjar-og héraðsbókasafnsins á Selfossi 2009.
  • 5. 0709111 - Skýrsla RHA - húsnæði og menningarstarfsemi í SÁ.

    LMÁ samþykkir fyrir sitt leyti tillögu verkefnisstjóra til bæjarráðs um frestun til 1. feb. 2009 á að skila inn tillögum, sem hann átti að vinna í samráði við bæjarstjóra og skila 1. nóv. 2008 „um framkvæmdaáætlun um uppbyggingu menningarhúsnæðis á grundvelli skýrslu RHA og í samræmi við menningarstefnu sveitarfélagsins" Samþykkt samhljóða.

    Bókun frá Birni Inga Bjarnasyni fulltrúa D-lista:

    Bókun vegna skýrslu Rannsóknardeildar Háskólans á Akureyri um þörf á húsnæði fyrir menningarstarfsemi í Sveitarfélaginu Árborg.
    Ég er algjörlega ósammála megintillögum í skýrslunni þar sem ofuráhersla er lögð á byggingu nýs menningarhúsnæðis í hinum nýja miðbæ á Selfossi og tel það glapræði.
    Þessi gríðarlega áhersla á nýbyggingu í miðbæ Selfoss kemur á óvart og hvernig færð eru rök að þessum tillögum sem ekki hafa raunveruleika í skoðunum mikils fjölda þess fólks sem rætt var við né stoð í menningarstefnu Árborgar þó svo sé sagt í tillögunum á köflum.

    Á Selfossi
    Það á alls ekki að byggja nýtt fjölnota menningarhús í miðbæ Selfoss. Það á að leggja allt kapp á að koma menningarsalnum í Hótel Selfossi í gagnið sem allra fyrst. Um þá framkvæmd og eignarhald eiga að sameinast um; núverandi eigendur salarins, bæjarfélagið og ríkið. Í menningarsalnum getur orðið glæsilegt tónleikahús fyrir hljómsveitir, kóra og fleira. Í hótelinu eru nú til staðar öll hin nauðsynlegu hliðarrými sem til þarf við stórar samkomur svo sem; græn herbergi, biðrými, snyrtingar, veitingaaðstaða og næg bílastæði og fl. Samhliða á að vinna enn frekar með hinu góða menningarstarfi sem er í miðbænum nú þegar:

    Stækka leikhúsið við Sigtún eins og leikhúsfólkið hefur lýst sem vænlegum kosti. Koma frekara starfi í Tryggvaskála svo sem með upplýsingamiðstöð og brúarsýningu t.d. Vera tilbúnir að vinna með Selfosskirkju í hugsanlegri stækkun. Efla bókasafnið þar sem það er í Ráðhúsinu við Austurveg. Hlúa að tónlistarskólanum við Eyraveg og tengja starfi í menningarsalnum eins og hægt er. Koma upp útisviði norðan við hótelið og m.a. blása til tónleika síðdegis á helgidögum þegar hundruð áheyrenda eru á Ölfusárbrú og næstu vegum.

    Á Eyrarbakka og Stokkseyri
    Við ströndina á að styðja og efla hin glæsilegu söfn og setur sem þar eru og bæta sýningaraðstöðu í báðum þorpunum. Von bráðar losnar góður sýningarsalur á Stokkseyri er bókasafnið flytur úr Gimli í nýja skólann. Það hús er hlaðið menningarsögu í þessum dúr. Staldra við áður en gamli skólinn á Stokkseyri verður rifinn því þar eru góðar aðstæður til menningarstarfsemi og þá sér í lagi fyrir ungt fólk. Ekki skemmir fyrir að húsið er teikning Guðjóns Samúelssonar frá Eyrarbakka og menn þurfa að hugsa sig um tvisvar áður en hans verk eru rifin. Vinna með athafnafólkinu í Gónhól á Eyrarbakka í því mikla starfi sem þar er komið í gang á árinu og er í frekari mótun. Gera minningu Eyrbekkingana; Sigurjóns Ólafssonar, Ragnars Jónssonar og Guðjóns Samúelssonar sýnilega með viðeigandi hætti.
    Fara strax í framkvæmdir í miðbæjum Eyrarbakka og Stokkseyrar við götur og gangstéttir þannig að sómi verði að fyrir bæjarfélagið um þau glæsilegu menningarhús og menningarstarfsemi sem er í þorpunum báðum og dregur að marga tugi þúsunda gesti á ári hverju.

 

Erindi til kynningar:

  • 6. 0801184 - Styrkir- Þakkir Minjaverndarsjóðs UMFS.

    LMÁ þakka Kristni Bárðarsyni kærlega fyrir heimsóknina, greinargerð og afhendingu myndarinnar
  • 7. 0809037 - Nótt safnanna á Suðurlandi 2008

    Verkefnisstjóri gerði grein fyrir málinu og kom m.a.fram að Sveitarfélagið Árborg yrði gestgjafinn að formlegri opnun á Safnahelgi á Suðurlandi 2008 nk. fimmtudag og þar myndi bæjarstjóri Árborgar Ragnheiður Hergeirsdóttir opna hátíðina formlega. Svo og að Menningarráð Suðurlands yrði í samstarfi við sveitarfélagið og myndi afhenda styrki frá seinni úthlutun ársins 2008 við sama tækifæri. Athafnirnar fara fram í Veiðisafninu á Stokkseyri fimmtudaginn 6. nóvember.
  • 8. 0806045 - Jarðskjálftar 2008 - endurreisn velferðar

    LMÁ þakkar upplýsingarnar og sömuleiðis öllum þeim fjölmörgu aðilum sem komið hafa að endurreisn safnamannvirkja í Sveitarfélaginu Árborg eftir jarðskjálftana í maí sl.
  • 9. 0806055 - Styrktarsjóður EBÍ 2008

    Sveitarfélagið fékk synjun á umsókn sinni að þessu sinni. LMÁ þakkar upplýsingarnar
  • 10. 0809080 - Picasso á Íslandi - málþing um Sigurjón Ólafsson í nóvember

    Fram kom að málþingið verður haldið 16. nóvember í tilefni aldarafmælis listamannsins. Listfræðingarnir Aðalsteinn Ingólfsson og Æsa Sigurjónsdóttir fjalla um verk Sigurjóns og áhrif. Nánar auglýst á heimasíðu safnsins. www. listasafnarnesinga.is
  • 11. 0809128 - Ársskýrsla Listasafns Árnesinga 2007

    Fram kom að hægt væri að nálgast skýrsluna á Listasafninu sjálfu og að safnstjórinn, Inga Jónsdóttir ætlaði að heiðra LMÁ með nærveru sinni í desember komandi og fræða nánar um starfsemi safnsins. LMÁ þakkar upplýsingarnar og hlakkar til heimsóknarinnar
  • 12. 0810114 - Tónleikar á landsbyggðinni 2008

    Verkefnisstjóri gerði grein fyrir málinu. LMÁ þakkar upplýsingarnar
  • 13. 0810080 - Dagur íslenskrar tungu 16. nóv. 2008

    LMÁ þakkar upplýsingarnar
  • 14. 0810032 - Fyrirspurn um að setja upp minjagrip - Hafnargata 9

    LMÁ þakkar upplýsingarnar
  • 15. 0810111 - Aldarafmæli Sigurjóns Ólafssonar

    Kennarar og nemendur í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri ásamt fleirum, alls um 200 manns, heiðruðu minningu listamannsins með 100 kyndla blysför frá Eyrabakkaskóla að listaverkinu Kríunni eftir Sigurjón í Hraunprýði austan við Litla-Hraun.
    LMÁ þakkar eftirtöldum aðilum sem stóðu fyrir blysförinni til heiðurs Sigurjóni Ólafssyni: Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri, Umhverfisdeild Sveitarfélagsins Árborgar, Björgunarsveitin Björg á Eyrarbakka, Shell-skálinn Stokkseyri,Fangelsið Litla-Hrauni og Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi og öðrum sem að málinu komu.
  • 16. 0809049 - Styrkjaúthlutun Menningarráðs Suðurlands haustið 2008

    Verkefnisstjóri upplýsti að tilkynningar hafi borist þess efnis að stofnanir innan Sveitarfélagsins Árborgar eigi von á einhverjum glaðningi í þessari seinni styrkjaúthlutun Menningarráðs Suðurlands 2008. LMÁ þakkar upplýsingarnar.
    LMÁ felur verkefnistjóra að kalla eftir upplýsingum um eftirtalin atriði hjá Menningarráði Suðurlands;
    a. Hvert var heildarframlag ríkisins til Menningaráðs Suðurlands á árinu 2007 og 2008 ?
    b. Hvert var heildarframlag sveitarfélaga til Menningarráðs Suðurlands á árinu 2007 og 2008?
    c.Hver var kostnaður af rekstri ráðsins á árinu 2007 og hvað er hann áætlaður fyrir 2008 ?
    d.Hvernig hafa styrkveitingar skipst milli sveitarfélaga á árinu 2007 og 2008 (tilgreina krónutölu og/eða %) ?
    e.Stendur til að endurskoða lög/reglur Menningarráðs Suðurlands ?
  • 17. 0811008 - Gónhóll - framtíðarplan

    LMÁ þakkar greinagerð og upplýsingar og hlakkar til að fylgjast með framvindu mála.

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 19:15

Andrés Rúnar Ingason                        
Már Ingólfur Másson
Ingveldur Guðjónsdóttir                                   
Kjartan Björnsson
Björn Ingi Bjarnason                                        
Andrés Sigurvinsson


Þetta vefsvæði byggir á Eplica