18. fundur umhverfisnefndar
18. fundur umhverfisnefndar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn miðvikudaginn 21. maí 2008 að Austurvegi 67, Selfossi, kl. 17:15
Mætt:
Jóhann Óli Hilmarsson, varaformaður (V)
Soffía Sigurðardóttir, nefndarmaður S-lista (S)
Björn Harðarson, varamaður B-lista
Siggeir Ingólfsson, starfsmaður
Katrín Georgsdóttir, sérfræðingur umhverfismála
Dagskrá:
•1. 0711011 - Athugun á rekstri og uppsetningu netþjónabúa í Árborg
Nefndinni þykir þetta áhugaverður kostur en minnir á að þetta ferli fari í heldstætt umhverfismat.
•2. 0804107 - Lóðauppdráttur - Tryggvaskáli
Nefndinni þykir ofaukið að setja inn 24 ný bílastæði við Tryggvaskála. Núverandi bílastæði eru 22 innan lóðarmarka. Samkvæmt upplýsingum frá Páli Björnssyni arkitekt er gert ráð fyrir 132 manns í sæti og þá nægja 22 stæði samkvæmt lögum. Samkvæmt nýju skipulagi miðbæjar eru yfir 500 bílastæði samtals ca. 7000 fm í 200m radíus frá Tryggvaskála. Gott væri að skipuleggja 2 - 4 stæði nær skálanum fyrir hreyfihamlaða. Nefndin vill gjarnan sjá yfirbyggt hjólastæði fyrir ca 20 hjól nálægt skálanum. Tröppur niður frá Ölfusbrú eru ekki teiknaðar með rennu fyrir barnavagna og hjól. Gott væri að gera ráð fyrir að flólk geti reitt hjól niður og upp tröppurnar og eins barnvagna.
•3. 0804126 - Deiliskipulagstillaga Byggðarhorn (breyting)
Hefndinni þætti gott að sjá göngu og hjólreiðastíga í deiliskipulaginu og betur skilgreint landslagsskipulag. Nefndin telur þörf á að ákvæði séu um umfang dýrahalds í búgarðabyggðinni.
•4. 0710085 - Deiliskipulagstillaga - Eystra - Stokkseyrasel
Umhverfisnefnd gerir eftirfarandi bókun vegna tillögu til deiliskipulags við Eystra Stokkseyrarsel.
Í aðalskipulagi 2005-2025 stendur eftirfarandi:
„Deiliskipulagning búgarðabyggðar er nauðsynleg í náinni samvinnu sveitarstjórnar og eigenda jarðanna, en eigendur munu sjá um og kosta deiliskipulagsgerð. Í deiliskipulagi búgarðabyggðar komi fram stærð lóða og fyrirhugaðra bygginga, fyrirhuguð starfsemi og notkun lóðar og bygginga, samgöngumannvirki og umferðarkerfi, veitur, kvaðir og annað það sem taka þarf fram í deiliskipulagi og bæjaryfirvöld kunna að óska eftir. Gera ætti heildar deiliskipulag af hverju
búgarðasvæði fyrir sig, þar sem greinilega komi fram áfangaskipting uppbyggingar. Í deiliskipulagi skal leitast við að spilla sem minnst votlendi svæðanna, en þegar er hafin endurheimt votlendis innan fuglafriðlands í Flóa og skal gert ráð fyrir endurheimt votlendis til samræmis við það votlendi sem tapast undir fyrirhugaða búgarðabyggð."
Ekkert votlendi hefur verið endurheimt vegna Tjarnarbyggðar eða Byggðarhorns. Það hefur því verið farið á skjön við þetta ákvæði Aðalskipulagsins. Fyrir sveitarfélag sem gefur sig út fyrir að vera vistvænt og styðst við stefnu Staðardagskrár 21, er þetta alvarleg handvömm. Benda má á, að það er orðin algild regla hjá Vegagerðinni að endurheimta votlendi í stað þess sem spillt er við framkvæmdir. Af nógu er að taka í Flóanum.
Í grein Tómasar Grétars Gunnarssonar í Glugganum, 9. febrúar 2006, stendur eftirfarandi um mikilvægi svæðisins fyrir fugla:
„Tjarnirnar í Flóanum
Tjarnirnar í Flóanum skipta þúsundum og óvíst er að margir sem ferðast um þetta flata land hafi gert sér grein fyrir hversu gríðarleg landslagsáhrif tjarnirnar hafa . Tjarnirnar standa á grunni Þjórsárhrauns sem rann fyrir um 8000 árum og er stærsta hraun sem runnið hefur á jörðinni eftir ísöld. Þéttleiki tjarna í vestanverðum Flóa er sums staðar vel yfir hundrað á ferkílómetra! Tjarnirnar standa undir gríðarlega auðugu fuglalífi og smádýralífið er einstakt. Þá finnast sjaldgæfar plöntur á svæðinu. Einn af einkennisfuglum Flóans er jaðrakan en á honum hafa farið fram ítarlegar rannsóknir síðustu ár. Þær sýna m.a. að varpárangur jaðrakans stendur í mjög beinu sambandi við þéttleika tjarna. Þetta samband gildir út fyrir Flóann en óvenju hár þéttleiki tjarna í Flóanum ræður því að svæðið er lykilsvæði á Íslandi, og jafnvel á heimsmælikvarða, fyrir sumar tegundir votlendisfugla. Undirstaða fuglalífsins á svæðinu er fæðan sem fuglarnir hafa greiðan aðgang að í tjörnunum. Mikið af smádýrum þrífst í tjörnunum en á þeim lifa flestir votlendisfuglarnir að meira eða minna leiti. Í rannsóknum á 33 tjörnum í vestanverðum Flóa fundust hvorki fleiri né færri en 56 hópar lífvera. Seltuáhrifa gætir langt inn í land í vestanverðum Flóa vegna nálægðar við sjó sem aftur hefur áhrif á vatnsleiðni og smádýrasamfélög. Af þessum sökum finnast t.d. marflær í tjörnum sem standa nálægt neðanverðri Ölfusá.
Hvaða svæði eru mikilvægust?
Almennt má segja að þeim mun hærri sem þéttleiki tjarna er og þeim mun meira flatarmál sem vatnið þekur, þeim mun meira verði náttúruverndargildi landsins m.t.t. votlendis. Vestanverður og neðanverður Flóinn, frá Straumnesi í landi Kaldaðarness austur fyrir Holt, norðan Stokkseyrar, er nær allur með mjög háum þéttleika tjarna. Þá er mikið af tjörnum austur og norður allan Flóa sem eru mikilvægar fyrir fugla og gróður. Friðland fugla við Ölfusá í Flóagafli er með mjög háum þéttleika tjarna en er aðeins lítill blettur af stóru samhangandi neti tjarna og vatnsvega. Kerfi stærri tjarna og vatna við Eyrarbakka, Stokkseyri og austur um Flóa gegna afar mikilvægu hlutverki, einkum fyrir andfugla og vaðfugla á fartímum og á varptíma. Á nýju skipulagi er gert ráð fyrir vernd strandlengjunnar, frá Ölfusárósi til Stokkseyrar, auk nokkurra vatna á Eyrum. Þetta er afar mikilvægt skref í átt að því að gera náttúruvernd hærra undir höfði á svæðinu.
Hvernig er best að vernda þessar votlendisperlur Flóans?
Öll landnotkun felur í sér málamiðlanir - það verður ekki bæði sleppt og haldið. Þegar ákvarðanir eru teknar um að nota meira af þessu landi hefur það í för með sér breytingar á náttúrufari frá því sem nú er. Spurning er hversu miklar breytingar eru ásættanlegar. Sitt sýnist hverjum. Þegar hugað er að skipulagsmálum er hægt að laga uppbyggingu að sérkennum landslags. Best er að halda stærri svæðum eins ósnortnum og hægt er og að huga vel að því hvernig umferð um þau er háttað. Jafnvel þó ýmsar framkvæmdir séu áformaðar á hinu lífríka tjarnasvæði Flóans er vel hægt að vernda tjarnirnar og það líf sem þeim er háð, að nokkru leiti. Það er hægt að byggja og rækta land í kringum þær svo lengi sem ekki er þörf á mjög aukinni framræslu og ekki er farið alveg að bakka tjarnanna. Mörg dæmi eru t.d. um fallegar tjarnir í Flóanum sem standa inni í túnum bænda og eru mikið notaðar af fuglum. Þetta mynstur landnotkunar þekkist einnig vel á Stokkseyri þar sem að lítt spilltar tjarnir eru víða milli húsa og fólk nýtur þess að fylgjast með fuglunum út um eldhúsgluggann.
Sem heild eru tjarnirnar í Flóanum náttúruperla á alþjóðlegan mælikvarða og íbúar hans bera ábyrgð. Ég skora á þá sem hafa áhrif á landnotkun á svæðinu að hugsa til tjarnanna og náttúrufarslegrar sérstöðu svæðisins þegar ákvarðanir eru teknar."
Nefndin hvetur til þess að gerð verði hið allra fyrsta úttekt á náttúrufari sveitarfélagsins, eins og ætlast er til að gert sé samhliða aðalskipulagsvinnu. Engin slík úttekt er til frá því að unnin var greinargerð um votlendi og fuglsvæði fyrir svæðisskipulag í Flóa árið 1991. Þar verði skilgreind nákvæmlega nýting lands á landbúnaðarsvæðum og merktir þeir skikar sem eru hentugir eru fyrir þaulræktun (intensive agriculture) og hvar lífrænn landbúnaður hentar best. Hvar eru bestu beitilöndin og hvar er ofbeit. Ef þessi hlutir eru ekki settir inn í Aðalskiplagið strax er hætta á því að sveitarfélagið endi uppi með náttúrleg svæði sem hnignað hafa það mikið að gildi þeirra er lítið sem ekkert og líffræðileg fjölbreytni í takt við það.
Ennfremur hvetur nefndin til þess að nú þegar verði farið að kanna hvar og hvernig verði hægt verði að vernda einhvern hluta Flóaáveitunnar. Einn merkilegasti hluti hennar, Síbería, sem grafin var í atvinnubótavinnu á kreppuárunum, er nú farin undir s.n. Tjarnarbyggð.
Málið er þríþætt:
1. Sú stefna sveitarfélaga - og þá sérstaklega okkar - að bjóða upp á þetta óvistvæna búsetumynstur.
2. Að taka frjósamt votlendi undir byggð eða aðra starfsemi með þessum hætti.
3. Hugsanlegar mótvægisaðgerðir, t.d. endurheimt votlendis.
Það verður að vinda ofan af þessari „búgarða" þróun - til lengri tíma er þetta líka mjög dýrt fyrir sveitarfélög.
Niðurstaða Umhverfisnefndar er því sú, að við skipulagningu búgarðabyggða verði leitast eftir því að fella skipulag að votlendi svæðanna og á þann hátt raska votlendi sem allra minnst. Ennfremur gerir nefndin þá kröfu að farið verði eftir ákvæði Aðalskipulags og gerð verði krafa á hendur skipuleggjenda búgarðabyggðar, að þeir endurheimti eða verndi votlendi til mótvægis við það sem spillt er. Jafnframt ættu þessar reglur að gilda um allar framkvæmdir í sveitarfélaginu og sú kvöð ætti að vera á öllum framkvæmdaaðilum, að þeir endurheimti votlendi í stað þess sem er raskað.
Erindi til kynningar:
•5. 0804030 - Ársfundur náttúruverndarnefnda 2008
Formaður Jóhann Óli Hilmarsson og Katrín Georgsdóttir sérfræðingur umhverfismála fóru á ráðstefnuna og sagði nefndarmönnum frá því helsta sem tekið var fyrir.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 18.45
Jóhann Óli Hilmarsson
Soffía Sigurðardóttir
Björn Harðarson
Siggeir Ingólfsson
Katrín Georgsdóttir