Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


16.11.2006

19. fundur bæjarráðs

 

19. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn 16.11.2006 í Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10

 

Mætt:
Þórunn J Hauksdóttir, formaður
Margrét Katrín Erlingsdóttir, varaformaður
Gylfi Þorkelsson, bæjarfulltrúi
Jón Hjartarson, áheyrnarfulltrúi
Stefanía Katrín Karlsdóttir, bæjarstjóri
Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari

 

Dagskrá:

 

1. Fundargerðir til staðfestingar:

 

 

a.

0607075
Fundargerð umhverfisnefndar Árborgar

frá 08.11.06

 

1a) -liður 1

 

Jón Hjartarson, V-lista, lagði fram svofellda tillögu:
Bæjarráð samþykkir að Kajakaferðir leiti álits Skipulagsstofnunar hvort fyrirhugaðar framkvæmda við Löngudæl á Stokkseyri séu háðar mati á umhverfisáhrifum og leggi álitið fram ásamt öðrum umbeðnum gögnum.
Greinargerð:
Á fræðslufundi sem skipulagsstofnun hélt í október sl. um kynningu á lögum um mat áætlana kemur m.a. fram, að eðlilegt sé að vinna við mat á umhverfisáhrifum fari fram samhliða gerð áætlunar. Einnig kemur fram að leiki vafi á hvort framkvæmd sé háð umhverfismati skeri Skipulagsstofnun úr. Nú er það svo að fyrirhugaðar framkvæmdir Kajakaferða við Löngudæl, sem eru friðlýst svæði, gera ráð fyrir miklum fjölda gesta og ört vaxandi starfsemi og því mikilvægt að þær standist kröfur um umgengni við svæðið í heild. Því telur undirritaður nauðsynlegt að samhliða hönnun sé leitað álits Skipulagsstofnunar um hvort fyrirhugaðar framkvæmdir og starfsemi séu háðar mati á umhverfisáhrifum.
Jón Hjartarson, V-lista.

Bæjarráð vísar tillögunni til umhverfisnefndar sem er með málið til umfjöllunar.

-liður 3, bæjarráð samþykkir afgreiðslu umhverfisnefndar og felur bæjarritara að koma henni áleiðis.

 

Fundargerðirnar staðfestar.

 

2. Fundargerðir til kynningar:

 

 

a.

0603022
Fundargerð Héraðsnefndar Árnesinga

frá 20.10.06

 

Lagðar fram.

 

3. 0601015
Umsókn Íslandspósts um lóð - Langholt austan spennistöðvar -

Bæjarráð veitir vilyrði til Íslandspósts um lóðina Larsenstræti 1,stærð 4.177,1 fermetrar, með vísan til 8. gr. reglna um úthlutun lóða og felur skipulags og bygginganefnd að afmarka lóðina og úthluta henni til deiliskipulagningar.

Gylfi Þorkelsson, S-lista, lagði fram svofellda bókun:
Undirritaður minnir á fyrri bókanir um meðferð og notkun 8. gr. úthlutunarreglna.

4. 0611045
Verksamningur um ræstingar í Hulduheimum -

Bæjarráð samþykkir samninginn eins og hann liggur fyrir.

5. 0610022
Svör við fyrirspurnum - Svar við fyrirspurn Gylfa Þorkelssonar, S-lista, og Jóns Hjartarsonar, V-lista, frá 26. október 2006 um afgreiðslu bæjarráðs á styrkbeiðnum frjálsíþróttaráðs HSK og frjálsíþróttadeildar UMFS

Það er eðlileg stjórnsýsla að bæjarráð vísi beiðnum sem því berast - og varða deildir Ungmennafélags Selfoss - til íþrótta- og tómstundanefndar Árborgar. Það er vegna þess að UMFS gætir hagsmuna iðkenda innan sveitarfélagsins en Héraðssambandið Skarphéðinn gætir hagsmuna iðkenda í Árnes- og Rangárvallasýslum. Af þeim orsökum er eðlilegt að afgreiða beiðnir HSK á vettvangi bæjarráðs, beiðnir er varða samvinnu sveitarfélaga. Það á sérstaklega við um beiðni eins og þessa þar sem samlegðaráhrif eru ótvíræð. Það að fjárfesta sameiginlega með nágrannasveitarfélögunum í svona tækjum er mjög hagstætt. Tækið mun nýtast öllum sem taka þátt í keppni á aðalleikvangi í sveitarfélaginu; jafnt iðkendum úr röðum UMFS og HSK sem og iðkendum annarra íþróttafélaga.
Meirihluti B- og D-lista.


6. Erindi til kynningar:

 

a) 0607041
Skýrsla starfshóps til að gera tillögur að endurbótum á Sundhöll Selfoss -

Jón Hjartarson, V-lista, lagði fram svo hljóðandi bókun:
Undirritaður tekur undir álit minni hluta starfshóps sem fjallaði um tillögur að endurbótum á Sundhöll Selfoss sbr. bls. 11 í skýrslunni "Tillögur um endurbætur á Sundhöll Selfoss". Tillaga minnihlutans felur í sér eðlilegar endurbætur þar sem m.a. bent er á mikilvægi þess að byggja sem fyrst upp innisundlaug við Sunnulækjarskóla , sem verði fullkomin kennslulaug með heitum pottum, ungbarnasundi, sjúkraþjálfun og annarri starfsemi. Þar með yrði leyst mikil og brýn þörf fyrir nýja kennslulaug við Sunnulækjarskóla og unnt að leggja niður akstur nemenda í sund. Eins felur tillagan í sér framtíðarsýn á uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu þar sem sundlaugarsvæði yrði ætlað veglegt rými.
Undirritaður tekur undir það álit í tillögu minnihlutans að tillögur meirihlutans séu óraunhæfar af ýmsum ástæðum sem raktar eru í skýrslunni sbr. bls. 12 kaflann "Látum skynsemina ráða". Nauðsynlegt er að hafa í huga heildarsýn á uppbyggingu íþróttamannvirkja í Árborg áður en lagt er í framkvæmdir við Sundhöll Selfoss fram yfir það sem nauðsynlegt er svo hún verði samfélaginu til sóma og þjóni þeim tilgangi sem henni er ætlað.
Jón Hjartarson, V-lista.

Gylfi Þorkelsson, S-lista, lagði fram svo hljóðandi bókun:
Undirritaður þakkar fyrir þá skýrslu sem starfshópur um endurbætur á Sundhöll Selfoss hefur nú skilað en undrast jafnframt hversu seint hún kemur fyrir augu bæjarráðs, en skýrslan er dagsett 7. október sl. Þegar hún loks kemur inn á fund er hún til kynningar en ekki umfjöllunar og afgreiðslu.

Skýrslan staðfestir að ekki er ágreiningur um stöðu mála né hvaða úrbóta er þörf. Á síðasta kjörtímabili vann starfshópur að sama máli og komst að sömu niðurstöðum, þ.e. að við Sundhöll Selfoss þurfi að
a) bæta aðstöðu fyrir fatlaða
b) bæta búningsaðstöðu
c) bæta starfsmannaaðstöðu
d) bæta afgreiðslu og þjónusturými

Vegna gríðarlegrar fólksfjölgunar í sveitarfélaginu var starfshópurinn sammála því að Sundhöll Selfoss myndi ekki til langs tíma litið geta annað því hlutverki sem nútímaleg almenningssundlaug þarf að gera í stóru sveitarfélagi eða geta tekið á móti þeim sífellt aukna straumi ferðamanna sem æskilegt væri fyrir atvinnulífið að sækti þjónustu þangað. Samstaða var um það að í tengslum við slíka þjónustustofnun þyrfti að geta þróast fjölbreytileg hliðarstarfsemi sem einkaaðilar hefðu tækifæri til að byggja upp, m.a. svo tryggari stoðum mætti skjóta undir allan reksturinn. Því væri lífsspursmál að nægt landrými væri til staðar svo það hamlaði ekki æskilegri útvíkkun. Auk þessa höfðu menn í huga þá uppbyggingu sem nauðsynlegt er að ráðast í á öðrum sviðum íþrótta og tómstunda í sveitarfélaginu. Með því að hanna nýtt svæði frá grunni, með sameiginlegum þjónustukjarna, taldi hópurinn að sveitarfélagið Árborg gæti tekið forystu á landsvísu og skapað ótæmandi möguleika fyrir uppbyggingu atvinnu og þjónustustarfsemi, sem myndi í senn auka lífsgæði íbúanna og fjölga ferðamönnum.

Grundvallarágreiningur er nú um það hvernig þessum markmiðum verði náð. Núverandi meirihluti telur að þeim verði náð með því að byggja stórhýsi á takmarkaðri lóð Sundhallar Selfoss og stefna stóraukinni bílaumferð inn í mitt skóla- og íbúðahverfi. Hann hafnar einnig því hagræði sem af því hlýst að byggja á sama svæði sundlaugar og önnur íþrótta- og tómstundamannvirki. Sú fjárfesting sem 1000 fermetra bygging á tveimur hæðum við Sundhöll Selfoss, sem meirihluti starfshóps leggur til, mun ekki skila þeim ávinningi til framtíðar sem best verði á kosið. Undirritaður hafnar því tillögum meirihluta starfshópsins en tekur undir álit minnihlutafulltrúans, enda er það vel rökstutt, meðal annars með vísun í væntanlega sundlaug við Sunnulækjarskóla.
Gylfi Þorkelsson, S-lista.

Meirihlutinn leggur fram svo hljóðandi bókun:
Meirihluti bæjarráðs fagnar því hversu álit starfshóps um endurbætur á Sundhöll Selfoss eru í meginatriðum samhljóða. Meirihluti bendir jafnframt á að undirbúningur að uppbyggingu íþróttamannvirkja er í fullum gangi, m.a. með tilliti til samþykktar bæjarstjórnar um landsmót UMFÍ 2012. Vönduð vinnubrögð eru höfð að leiðarljósi við þessa miklu uppbyggingu íþróttamannvirkja sem verða má Árborg til framdráttar á landsvísu.
Meirihluti B- og D-lista.

b) 0607041
Bréf Sjálfsbjargar á Suðurlandi vegna aðgengis fatlaðra að Sundhöll Selfoss -

Bæjarráð þakkar bréfritara fyrir bréfið og hlakkar til góðs samstarfs við uppbyggingu íþróttamannvirkja.

c) 0611007
Landbúnaðarsýning 2008 - svar Búnaðarsambands Suðurlands

Lagt fram til kynningar.

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 08:45.

Þórunn J Hauksdóttir                          
Margrét K. Erlingsdóttir
Gylfi Þorkelsson                                 
Jón Hjartarson
Stefanía Katrín Karlsdóttir                  
Ásta Stefánsdóttir


 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica