Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


21.9.2018

2. fundur íþrótta- og menningarnefndar

2. fundur íþrótta- og menningarnefndar Árborgar, kjörtímabilið 2018-2022, haldinn þriðjudaginn 11. september 2018 í Norðursal, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 17:00.  Mætt: Guðbjörg Jónsdóttir, formaður, B-lista Guðmundur Kr. Jónsson, nefndarmaður, M-lista Kjartan Björnsson, nefndarmaður, D-lista Karolina Zoch, nefndarmaður, D-lista Bragi Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúi  Jóna Sólveig Elínardóttir, Á-lista boðaði forföll sem og varamaður hennar, Viðar Arason. Formaður leitar afbrigða að taka inn mál nr. 1809115- Uppbygging menningarsalarins í Hótel Selfoss, og 1501110- Framtíðaruppbygging íþróttamannvirkja í Sv. Árborg, að ósk Kjartans Björnssonar, D-lista. Samþykkt samhljóða. Bragi Bjarnason ritaði fundagerð. Dagskrá: 
Almenn afgreiðslumál
1.   1808119 - Menningarmánuðurinn október 2018
  Farið yfir drög að dagskrá menningarmánaðarins. Flestir dagskrárliðir komnir með dagsetningu og er menningarmánuðurinn fjölbreyttur líkt og endranær. Boðið verður upp á sögukvöld, tónleika, listasmiðju fyrir börn, leiksýningar og fleira svo allir ættu að finna sér eitthvað við sitt hæfi. Stefnt er að útgáfu dagskrár mánaðarins fljótlega í næstu viku. Samþykkt samhljóða.
     
2.   1612036 - Endurskoðun íþrótta- og tómstundastefnu Árborgar
  Formaður leggur til að sérstök umræða verði um stefnuna á næsta fundi nefndarinnar og biður nefndarmenn að kynna sér hana vel fyrir þann tíma. Samþykkt samhljóða.
     
3.   1612037 - Endurskoðun menningarstefnu Árborgar
  Formaður leggur til að menningarstefnan verði unnin í framhaldi af íþrótta- og tómstundastefnunni. Samþykkt samhljóða.
     
4.   1809060 - Reglugerðir um afrekssjóði íþróttafélaga sem Sveitarfélagið Árborg styrkir
  Farið yfir verkferla í kringum afreks- og styrktarsjóði íþróttafélaganna og sveitarfélagsins. Lagt til að starfsmaður hafi samband við þau félög sem eru með samninga þess efnis og kalli eftir endurskoðun reglugerða sem veði síðan lagðar fyrir nefndina til staðfestingar. Samþykkt samhljóða.
     
5.   1808122 - Fjárhagsáætlun menningar- og frístundasviðs Árborgar 2019
  Rætt um áherslur nefndarinnar fyrir næstu fjárhagsáætlun og nokkur atriði nefnd sérstaklega. Frístundabíll: Nefndarmenn sammála um að halda þessu verkefni áfram í sveitarfélaginu og taka undir ábendingar frá foreldrum um að aksturinn ætti að vera til kl.16:00 á daginn. Frístundastyrkur: Umræða um styrki til barna og ungmenna sem eru í gildi í dag og leggur nefndin til að frístundastyrkurinn verði hækkaður upp í 35 þúsund á næsta ári. Útivistarsvæði: Rætt um æfingatæki við göngustíga og ný leiktæki líkt og ærslabelg. Nefndarmenn sammála um að leggja til uppbyggingu í þessum málum. Samþykkt að ræða betur á næsta fundi nefndarinnar. Samþykkt samhljóða
     
6.   1808129 - Íþróttavika Evrópu 23.-30. september 2018
  Lagt fram bréf frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Ísland um íþróttaviku í Evrópu 23-30. sept. Nefndin fagnar þessu verkefni hjá ÍSÍ og felur starfsmanni nefndarinnar að kynna það áfram á svæðinu. Samþykkt samhljóða.
     
7.   1809013 - Tillögur um aðgerðir gegn ofbeldishegðun í íþrótta- og æskulýðsstarfi
  Lögð fram skýrsla Mennta- og menningarmálaráðuneytisins um "Aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun í íþrótta- og æskulýðsstarfi". Góð umræða um skýrsluna og líst nefndinni vel á þessa vinnu sem ráðuneytið hefur lagt í mjög þarft verkefni. Lagt til að starfsmaður nefndarinnar vinni áfram þá þætti sem heyra undir sveitarfélagið. Samþykkt samhljóða.
     
8.   1809115 - Uppbygging menningarsalarins í Hótel Selfoss
  Kjartan Björnsson, nefndarmaður D-lista, leggur fram eftirfarandi fyrirspurn: "Undirbúningur að því að klára menningarsalinn okkar og koma honum í gagnið hefur staðið yfir á liðnum árum og hefur meirihluti fjárlaganefndar alþingis samþykkt fjárlagadrög að því að menningarsalur Suðurlands á Selfossi verði einn þriggja sem hljóti samning við ríkið um uppbyggingu þó ekki hafi menningar- og menntamálaráðherra enn skrifað undir samning við sveitarfélagið. Mikilvægt er að Sveitarfélagið Árborg haldi fast á spöðunum og haldi vinnu og undirbúningi áfram. Tillaga undirritaðs er sú að skipuð verði undirbúningsnefnd til þess að fylgja málinu áfram eftir fyrir hönd sveitarfélagsins og við sjáum salinn verða að veruleika á næstu tveimur til þremur árum með samstarfi eigenda Hótels Selfoss, sveitarfélagsins og ríkisins. Undirritaður er tilbúinn til þess að leiða nefndina ef áhugi er fyrir því og læt ég fylgja með gögnunum skýrslu sem Verkís lét vinna þar sem farið var yfir þá þætti sem vinna þarf við endurhönnun salarins og kostnað." Umræða um málið og lagt til að ræða málið betur á næsta fundi og fresta afgreiðslu til næsta fundar. Lagt fram til atkvæðagreiðslu og samþykkt með þremur atkvæðum B-, M- og D- lista að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar. Kjartan Björnsson, nefndarmaður D- lista, sat hjá við afgreiðslu málsins.
     
9.   1501110 - Framtíðaruppbygging íþróttamannvirkja í Sv. Árborg
  Kjartan Björnsson, D- lista, leggur fram eftirfarandi fyrirspurn: "Fregnir af stöðu knatthúss á Selfossvelli sem átti að bjóða út í sumar 2018 og er fjármagnað á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir þetta ár, hver er staða málsins og hver er ástæða fyrir drætti málsins? Knattspyrnuhreyfingin sem er sammála um þessa bættu aðstöðu sem skapast við knatthúsið bíður svara varðandi æfingaaðstöðu sinna iðkenda bæði yngri og eldri fyrir veturinn en gert hefur verið ráð fyrir aðstöðunni um og upp úr áramótum 2018-19. Einnig skapast aðstaða fyrir frjálsar íþróttir og ekki síst almenning til hreyfingar og hefur þá verið horft til eldri borgara." Málið rætt í nefndinni og starfsmaður fer yfir stöðu málsins. Fram kom að málið væri í farvegi hjá bæjarstjórn Árborgar og niðurstaða ætti að liggja fyrir undir lok mánaðarins. Samþykkt samhljóða.
     
Erindi til kynningar
10.   1809052 - Segulspjöld með útivistarreglunum
  Lagt fram til kynningar og kom fram að Sveitarfélagið Árborg hafi dreift inn á heimili segulspjöldum um útivistartíma og því yrði haldið áfram.
     
   Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 18:05
Guðbjörg Jónsdóttir   Guðmundur Kr. Jónsson
Kjartan Björnsson   Karolina Zoch
Bragi Bjarnason    

Þetta vefsvæði byggir á Eplica