15.9.2014
2. fundur skipulags- og byggingarnefndar
2. fundur skipulags- og byggingarnefndar Árborgar, kjörtímabilið 2014-2018, haldinn miðvikudaginn 3. september 2014 að Austurvegi 67, Selfossi, kl. 08:15.
Mætt:
Ásta Stefánsdóttir, formaður, D-lista,
Magnús Gíslason, nefndarmaður, D-lista,
Gísli Á. Jónsson, nefndarmaður, D-lista,
Guðlaug Einarsdóttir, nefndarmaður, S-lista,
Ragnar Geir Brynjólfsson, nefndarmaður, B-lista,
Bárður Guðmundsson, skipulags- og byggingarfulltrúi,
Ástgeir Rúnar Sigmarsson, aðstoðarbyggingarfulltrúi,
Ásdís Styrmisdóttir, starfsmaður,
Snorri Baldursson, f.h. slökkviliðsstjóra.
Leitað var afbrigða að taka á dagskrá matslýsingu vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi Víkurheiðar og umsögn um rekstrarleyfi að Ólafsvöllum 4, Stokkseyri, og var það samþykkt.
Dagskrá:
Samþykktir byggingarfulltrúa:
1.
1408105 - Endurnýjun á byggingarleyfi fyrir kvisti að Heiðarvegi 9, Selfossi.
Umsækjandi: Sigþór Þórarinsson og Jóna V. Evudóttir
Samþykkt.
2.
1408108 - Umsókn um byggingarleyfi fyrir parhúsi að Vallarlandi 6-8, Selfossi.
Umsækjandi: Hannes Þór ehf
Samþykkt
3.
1408150 - Umsókn um byggingarleyfi fyrir safnþró að Eyði-Sandvík 801 Selfossi.
Umsækjandi: Ólafur Ingi Sigurmundsson
Samþykkt.
Erindi til kynningar:
4.
1103050 - Miðbæjarskipulag Eyrarbakka
Svanhildur Gunnlaugsdóttir frá Landformi kynnti hugmyndir að skipulagi miðbæjar á Eyrarbakka. Nefndin óskar eftir að deiliskipulagstillaga verði unnin og kynningarfundur verði haldinn á Eyrarbakka.
Almenn afgreiðslumál:
5.
1402123 - Deiliskipulag - Lóð FSu
Lagt er til við bæjarráð að tillagan verði auglýst.
6.
1402124 - Tillaga að deiliskipulagi við Hraunlist (Kríuna)
Lagt til við bæjarráð að tillagan verði auglýst.
7.
1209098 - Tillaga að breytingu á aðalskipulagi vegna göngu- og hjólastígs milli Eyrarbakka og Stokkseyrar
Skipulagslýsing hefur verið auglýst og athugasemdir borist.
Nefndin samþykkir að aðalskipulagstillagan verði kynnt og lögð fyrir bæjarstjórn til afgreiðslu.
8.
1312089 - Deiliskipulagstillagaað fráveituhreinsistöð við Geitanes
Tillagan hefur verið auglýst og athugasemdir borist.
Sigurður Sigurjónsson hrl. og Steinunn Erla Kolbeinsdóttir hdl. fóru yfir drög að svörum við athugasemdum.
Sveitarfélaginu Árborg bárust alls fjögur erindi með athugasemdum við tillögu að deiliskipulagi fyrir hreinsistöð fráveitu við Sandvík í Árborg.
1) Athugasemd frá Jóni Árna Vignissyni, dags. 12. mars 2014, móttekin 20. mars 2014.
2) Athugasemd frá Magnúsi Jóhannssyni, Benedikt Jóhannssyni, Hannesi Jóhannssyni, Aldísi Pálsdóttur, Sigríði Kristínu Jóhannsdóttur og Hannesi Sigurðssyni, dags. 16. mars 2014, móttekin 20. mars 2014.
3) Athugasemd frá Veiðimálastofnun, dags. 17. mars 2014, móttekin 19. mars 2014.
4) Athugasemd frá stjórn Veiðifélags Árnesinga, dags. 19. mars 2014, móttekin 20. mars 2014.
Sérstaklega skal tekið fram að margt sem kom fram í ofangreindum athugasemdum varðar ekki deiliskipulagstillöguna með beinum hætti. Skipulags- og byggingarnefnd telur ekki þörf á að svara í bókun þessari þeim athugasemdum sem ekki varða deiliskipulagið með efnislegum hætti.
Þar sem athugasemdir aðila voru efnislega samhljóða er til einföldunar fjallað sameiginlega um þær athugasemdir.
Breytingar hafa verið gerðar á auglýstri deiliskipulagstillögu til samræmis við umsagnir umsagnaraðila og að hluta hefur verið komið á móts við þær athugasemdir sem bárust sveitarfélaginu vegna deiliskipulagstillögunnar. Deiliskipulagsreiturinn hefur verið stækkaður þannig að hann nær nú yfir það svæði sem fyrirhugað er að útrásarlögn liggi og yfirfallslögn auk þess sem vegstæði fyrir aðkomu að lóðinni er nú innan reitsins. Þá er fallið frá því að hafa aðstöðu fyrir þjónustuaðila innan deiliskipulagsreitsins.
Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt. Nefndin tekur eftirfarandi afstöðu til framkominna athugasemda.
1. Athugasemdir við gæði hreinsistöðvar m.t.t. viðtakans.
Aðilar sem gera athugasemdir: Jón Árni Vignisson, Veiðimálastofnun, Veiðifélag Árnesinga, Magnús Jóhannsson, Benedikt Jóhannsson, Hannes Jóhannsson, Aldís Pálsdóttir, Sigríður Kristín Jóhannsdóttir og Hannes Sigurðsson.
Samantekt athugasemda:
Í athugasemdum er byggt á því að gæði hreinsunar í fyrirhugaðri dælu- og hreinsistöð fullnægi ekki áskilnaði laga m.t.t. þess að útrás er fyrirhuguð í Ölfusá enda er áin skilgreind sem viðkvæmur viðtaki.
Umsögn skipulags- og byggingarnefndar:
Samkvæmt skilgreiningu í II. viðauka reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, er Ölfusá skilgreind sem viðkvæmt svæði og því liggur ljóst fyrir hvaða kröfur eru gerðar til umfangs hreinsunar. Fyrirhugaðar framkvæmdir, samkvæmt deiliskipulagstillögunni, eru liður í því að koma málefnum fráveitu í viðunandi horf en um er að ræða fyrsta áfanga framkvæmda eins og nú er skýrlega tekið fram í greinargerð með deiliskipulagstillögunni. Framkvæmdirnar eru nauðsynlegur undanfari frekari framkvæmda þannig að uppfylla megi kröfur laga og reglna um hreinsun. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvaða leiðir verða farnar í framhaldi svo uppfylla megi að fullu gildandi reglur en eins og staðan er í dag er að meginstefnu horft til tveggja leiða, þ.e. að leggja útrásarlögn niður að sjó eða að fara í frekari hreinsun fráveitu. Fyrirhugaðar framkvæmdir skv. deiliskipulagstillögunni eru nauðsynlegur undanfari þessara tveggja leiða.
Ljóst er að hingað til hefur fráveita runnið óhreinsuð út í Ölfusá. Leitað hefur verið leiða til þess að bæta úr þessu og er því fyrirhugað að byggja þennan fyrsta áfanga dælu- og hreinsistöðvar með síun og grjóthreinsun. Með þessum fyrsta áfanga er unnin mikil bragarbót frá núverandi ástandi og er það upphafið af þeirri vegferð að uppfylla að fullu gildandi lög og reglur. Þegar dælu- og hreinsistöðin hefur tekið til starfa er stefnt að því að utan þynningarsvæðis útrásar í Ölfusá muni áhrif fráveitu hafa lítil sem engin áhrif á Ölfusá. Þá er rétt að árétta að fyrirhuguð byggingaráform, skv. deiliskipulagstillögunni, eru liður í að koma málefnum fráveitu í viðunandi horf þannig að aðbúnaður fráveitu uppfylli kröfur laga og reglna.
2. Athugasemdir við afköst hreinsistöðvar miðað við magn í fráveitukerfi.
Aðilar sem gera athugasemdir: Jón Árni Vignisson, Veiðifélag Árnesinga, Magnús Jóhannsson, Benedikt Jóhannsson, Hannes Jóhannsson, Aldís Pálsdóttir, Sigríður Kristín Jóhannsdóttir og Hannes Sigurðsson
Samantekt athugasemda:
Í athugasemdum Jóns Árna Vignissonar og Veiðifélags Árnesinga er byggt á því að óljóst sé um magn í fráveitukerfi og dregið er í efa að fyrirhuguð hreinsistöð anni því magni sem frá kerfinu kemur.
Í athugasemdum Magnúsar Jóhannssonar, Benedikts Jóhannssonar, Hannesar Jóhannssonar, Aldísar Pálsdóttur, Sigríðar Kristínar Jóhannsdóttur og Hannesar Sigurðssonar kemur fram krafa um, ef nauðsynlegt er að frárennsli fari í Ölfusá, að hreinsun frárennslis verði með þeim hætti að ekki verði merkjanleg aukning á lífrænum efnum, næringarefnum eða öðrum mengandi efnum eða gerlum.
Umsögn skipulags- og byggingarnefndar:
Gert er ráð fyrir því að fyrirhuguð dælu- og hreinsistöð geti annað tvisvar sinnum því magni sem að jafnaði er í fráveitukerfinu sem er um 300-400 l/sek og er þá meðtalið regnvatn, jarðvatn og afrennsli af hitaveitu. Í greinargerð með deiliskipulagstillögunni kemur fram að afköst hreinsistöðvarinnar verði um 600 l/sek en hreinsibúnaður er stækkanlegur þannig að hann geti annað allt að 900 l/sek. Magn skólps í kerfinu, þ.e. þegar ekki er meðtalið regnvatn, jarðvatn og afrennsli af hitaveitu, er að jafnaði um 80 l/sek.
Hámarksrennsli í fráveitukerfinu er um 1200 l/sek þegar um er að ræða mikla ofankomu og leysingar. Það sem hreinsistöðin mun ekki anna fer í gegnum rist áður en það fer út á yfirfalli. Áætlað er að rennsli verði á yfirfalli í um 60 klst. á ári. Aukningin sem verður í kerfinu þegar hámarksrennsli næst, stafar af ofankomu og verður þynning skólps því talsvert mikil í kerfinu. Samkvæmt ákvæði 9.3 í reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp er heimilt að miða við að ofanvatn fari um yfirföll allt að 5% af tímanum eða þegar uppblandað skólp með hitaveitu- og/eða ofanvatni er í hlutföllunum 1:5. Það er því ljóst að afköst hreinsistöðvarinnar eru fullnægjandi miðað við gildandi reglur.
Rétt er að taka fram að upplýsingar um magn í fráveitukerfi byggjast á mælingum sérfræðinga hjá Eflu og Mannviti.
Reiknað er með því að nýta núverandi útrásarlögn sem yfirfallslögn eins og lýst er í greinargerð með deiliskipulagstillögunni og hefur sú lögn verið afmörkuð innan deiliskipulagsreitsins en úrbætur verða gerðar á henni þannig að hún uppfylli gildandi kröfur. Vatn sem fer um yfirfallslögn verður leitt undir vatnsborð Ölfusár.
3. Athugasemdir við að flokkun Ölfusár sem viðtaka hafi ekki farið fram. skv. reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns.
Aðilar sem gera athugasemdir: Veiðimálastofnun
Samantekt athugasemda:
Í athugasemdum er byggt á því að Ölfusá hafi enn ekki verið flokkuð sem viðtaki skv. reglugerð nr. 796/1999 og því sé ekki tímabært að taka ákvörðun um hvernig hreinsun skuli háttað. Bent er á að í fyrrgreindri reglugerð komi fram að upplýsingar um flokkun vatna skuli tilgreind á skýringaruppdráttum við gerð deiliskipulags.
Umsögn skipulags- og byggingarnefndar:
Í greinargerð með deiliskipulagstillögunni hefur verið bætt við upplýsingum um mengunarflokkun Ölfusár skv. reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns í samræmi við athugasemd Veiðimálastofnunar.
Í maí 2010 skilaði Tryggvi Þórðarson, vatnavistfræðingur, til Sveitarfélagsins Árborgar, skýrslu um mengunarflokkun Ölfusár í samræmi við þá flokkun sem gert er ráð fyrir í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Heilbrigðisnefnd sveitarfélagsins fékk skýrsluna hins vegar ekki til umfjöllunar þannig að nefndin gæti flokkað ána í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar reglugerðar. Nú hefur verið bætt úr þessu og heilbrigðisnefnd hefur fjallað um mengunarflokkun Ölfusár og flokkað ána í samræmi við reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Ölfusá fellur í A flokk fyrir alla flokkunarþætti nema ammoníak og saurkólíbakteríur sem flokkuðust í B-flokk, í samræmi við niðurstöður í skýrslu Tryggva Þórðarsonar, vatnavistfræðings. Langtímamarkmið fyrir mengunarástand árinnar er A fyrir alla flokka.
4. Athugasemd vegna útivistarsvæðis á bökkum Ölfusár.
Aðilar sem gera athugasemdir: Jón Árni Vignisson
Samantekt athugasemda:
Í athugasemdum er byggt á því að lóð fyrirhugaðrar dælu- og hreinsistöðvar leggist yfir og teppi göngustíg og græn svæði niður með Ölfusá þannig að árbakkinn verði ekki útivistarsvæði eins og gert er ráð fyrir í aðalskipulagi.
Umsögn skipulags- og byggingarnefndar:
Á aðalskipulagi er göngustíg á árbakka ekki gefin nákvæm staðsetning en þrátt fyrir að fyrirhugaður göngustígur á svæðinu sé utan deiliskiplagsreitsins hefur fyrirhuguð staðsetning hans verið færð inn á tillöguna þannig að hægt sé að sjá fyrirhugaða legu hans. Það skal því áréttað að engin breytt áform eru varðandi göngustíginn, hann er enn áformaður meðfram ánni framhjá dælu- og hreinsistöðinni.
Varðandi athugasemd um að svokölluð græn svæði séu teppt þá er vísað til þess sem fram kemur í aðalskipulagi þar sem segir að um iðnaðarsvæði sé að ræða þar sem fyrirhuguð sé bygging dælu- og hreinsistöðvar fyrir fráveitu. Svokölluð græn svæði eru því ekki fyrirhuguð á deiliskipulagsreitnum skv. samþykktu aðalskipulagi. Deiliskipulagstillagan hefur ekki áhrif á umferð eða veru útivistarfólks á svæðinu enda er fyrirhugað að svæðið verði opið, án girðinga og annarra takmarkana á aðgengi. Fyrirhugað er að umhverfi hreinsistöðvarinnar verði snyrtilegt og að þeir sem eigi leið um svæðið verði sem minnst varir við starfsemina sem fer fram í dælu- og hreinsistöðinni. Það skal jafnframt tekið fram að í greinargerð með deiliskipulagstillögunni er greint frá því að við lok framkvæmda verður svæðið sett gróðri sem hæfir umhverfinu til þess að bæta úr jarð- og gróðurraski sem verður á framkvæmdatímanum.
5. Athugasemd um staðsetningu hreinsistöðvar.
Aðilar sem gera athugasemdir: Jón Árni Vignisson, Veiðifélag Árnesinga og Magnús Jóhannsson, Benedikt Jóhannsson, Hannes Jóhannsson, Aldís Pálsdóttir, Sigríður Kristín Jóhannsdóttir og Hannes Sigurðsson.
Samantekt athugasemda:
Í athugasemdum er byggt á að dælu- og hreinsistöð sé fyrirhuguð nær Ölfusá en heimilt er skv. skipulagsreglugerð og aðalskipulagi. Þá er byggt á því að fyrirhuguð hreinsistöð sé í of mikilli nálægð við byggð og óskað eftir upplýsingum um hvaða aðrir kostir hafi verið skoðaðir, t.a.m. staðsetning hennar lengra frá byggð úti á Geitanesi og að leiða skólpið til sjávar.
Umsögn skipulags- og byggingarnefndar:
Á gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir dælu- og hreinsistöð fyrir fráveitu á því svæði sem deiliskipulagstillagan nær til. Það var hins vegar á eldra aðalskipulagi, sem nú hefur fallið úr gildi, sem dælu- og hreinsistöð fráveitu var áætluð nær núverandi byggð á Selfossi. Aðrir kostir sem hafa komið til skoðunar hafa verið metnir lakari en sú staðsetning sem nú er gert ráð fyrir skv. deiliskipulagstillögunni. Þegar aðalskipulag var samþykkt lá fyrir nálægð hreinsistöðvarinnar við byggðina og voru ekki gerðar athugasemdir við það. Þá má einnig benda á að ekkert athugavert er við staðsetningu hreinsistöðvarinnar nærri byggð enda eru hreinsistöðvar yfirleitt í nálægð við byggð án þess að það valdi nokkrum óþægindum. Dælu- og hreinsistöðvar eru starfræktar á höfuðborgarsvæðinu, í íbúabyggð, án þess að íbúar verði þess varir. Þá eru starfræktar, víða erlendis, sambærilegar dælu- og hreinsistöðvar inni í þéttbýliskjörnum borga, t.a.m. í Stokkhólmi, án þess að íbúar verði fyrir óþægindum af starfseminni. Fyrirhugað er að umhverfi fyrirhugaðrar dælu- og hreinsistöðvar, stöðin sjálf og öll starfsemi í tengslum við hana sé hreinleg og snyrtileg þannig að ónæði eða óþægindi skapist ekki fyrir nálæga byggð eða þá sem eiga þar leið hjá.
Ákvæði 5.3.2.14 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 fjallar um skipulag við vötn, ár og sjó. Í ákvæðinu segir eftirfarandi: „Í þéttbýli skal lögð áhersla á að almenningur geti komist að og meðfram vötnum, ám og sjó eftir því sem hægt er á viðkomandi svæði. Við afmörkun lóða á svæðum utan þéttbýlis skal þess gætt að rými sé fyrir aðkomu að og meðfram vötnum, ám og sjó. Utan þéttbýlis skal ekki reisa mannvirki nær vötnum, ám eða sjó en 50 m. Þó er heimilt að reisa samgöngumannvirki svo sem brýr og stíflur og fyrirhleðslur í tengslum við virkjanir fallvatna og varnir gegn ágangi sjávar og vatns nær vötnum, ám og sjó en 50 m.“
Eins og fram kemur á deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir því að svæðið verði ógirt og snyrtilegt þannig að umferð almennings um svæðið verði með sama hætti og hingað til. Í athugasemd við deiliskipulagstillöguna er sérstaklega tekið fram að óheimilt sé að reisa mannvirki nær árbakka en í 50 metra fjarlægð. Í fyrrgreindu ákvæði skipulagsreglugerðar kemur hins vegar fram að þetta gildi um mannvirki utan þéttbýlis. Fyrirhuguð dælu- og hreinsistöð er staðsett á aðalskipulagi innan þéttbýlisuppdráttar byggðar á Selfossi.
Ástæðurnar fyrir því að þessi staður var valinn undir dælu- og hreinsistöð eru margvíslegar. Í fyrsta lagi eru jarðvegsaðstæður á deiliskipulagsreitnum ákjósanlegar fyrir þá framkvæmd sem fyrirhuguð er skv. deiliskipulagstillögunni. Í öðru lagi er fráveitan sjálfrennandi inn í dælu- og hreinsistöðina frá byggð á Selfossi sem þýðir að ef það ætti að færa hreinsistöðina fjær byggðinni þá væri óhjákvæmilegt að byggja dælustöð á deiliskipulagsreitnum. Veldur það minni áhrifum á umhverfið auk þess sem það er hagkvæmara að sama mannvirki hýsi dælustöð og hreinsibúnað. Í þriðja lagi er staðsetning dælu- og hreinsistöðvar skv. deiliskipulagstillögunni ákjósanleg hvað varðar framhald framkvæmdanna þannig að uppfylla megi kröfur laga og reglugerða er varða fráveitu en verið er að skoða þá kosti sem koma til greina og má þar helst nefna að setja upp frekari hreinsibúnað á því svæði sem fyrirhugað er að byggja dælu- og hreinsistöð eða að leiða skólp til sjávar. Í fjórða lagi er staðsetning dælu- og hreinsistöðvar ákjósanleg þar sem hægt verður að staðsetja útrásarlögn út í Ölfusá á hagkvæmum stað þar sem áin er mjög straumhörð og veldur útrás þar sem minnstri röskun á lífríki árinnar. Í fimmta lagi er landsvæðið sem deiliskipulagstillagan nær til í eigu Sveitarfélagsins Árborgar en eins og gefur að skilja þurfa mjög ríkar ástæður að koma til svo það réttlæti að ganga inn á eignarrétt annarra til byggingar á fyrirhugaðri dælu- og hreinsistöð.
6. Athugasemdir er varða útlit hreinsistöðvar og frágang brunna og útrásarops í árfarvegi.
Aðilar sem gera athugasemdir: Jón Árni Vignisson, Veiðifélag Árnesinga og Veiðimálastofnun.
Samantekt athugasemda:
Í athugasemdum Jóns Árna Vignissonar og Veiðifélags Árnesinga er byggt á því að fyrirhuguð bygging sem hýsa á hreinsistöð falli ekki að umhverfinu á árbakkanum og að nákvæm lýsing á mannvirkjum og fyrirhugaðri starfsemi liggi ekki fyrir.
Í athugasemdum Jóns Árna Vignissonar er byggt á því að mikilvægt sé að í deiliskipulagstillögu sé lýsing á frágangi brunna og útrásarops í árfarvegi.
Í athugasemdum Veiðimálastofnunar er átalið að í deiliskipulagstillögunni komi ekki fram hversu langt útrásin fer í ána og að dreifing frárennslis frá útrás sé óljós.
Umsögn skipulags- og byggingarnefndar:
Komið hefur verið til móts við athugasemdir að hluta þar sem deiliskipulagsreiturinn hefur verið stækkaður þannig að deiliskipulagstillagan nær nú til útrásarlagnar.
Í tilefni af þeim athugasemdum er rétt að taka fram að samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 er ekki kveðið á um skyldu til þess að endanleg hönnun mannvirkja sé tilgreind með nákvæmum hætti í deiliskipulagi. Í 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir að í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á. Deiliskipulagstillagan skal þannig aðeins setja ákveðin mörk fyrir mannvirki innan deiliskipulagsreits. Í deiliskipulagstillögunni koma fram allar upplýsingar um bygginguna sem hýsa á dælu- og hreinsistöðina sem áskilið er í lögum og reglugerðum. Það sama gildir um brunna og útrásarop í árfarvegi en reiknað er með að frágangurinn verði með hefðbundnum hætti. Hvað varðar athugasemd um dreifingu frárennslis frá útrás þá hefur sveitarfélagið látið vinna skýrslu um dreifingu frárennslis án þess að það hafi áhrif á framsetningu deiliskipulagstillögunnar sérstaklega.
Í aðalskipulagi er svæðið sem deiliskipulagstillagan nær til skilgreint sem iðnaðarsvæði. Hæð og stærð byggingarinnar er ekki óeðlileg miðað við aðrar byggingar í sveitarfélaginu sem staðsettar eru á iðnaðarsvæðum. Rétt er þó að taka fram að við hönnun útlits hreinsistöðvarinnar verður að sjálfsögðu tekið tillit til þess að um er að ræða byggingu sem er nærri svæði þar sem margir njóta útivistar og verður gætt að því að byggingin falli að umhverfi sínu.
7. Athugasemdir við plan fyrir tengda starfsemi hreinsistöðvar.
Aðilar sem gera athugasemdir: Jón Árni Vignisson.
Samantekt athugasemda:
Í athugasemdum er byggt á því að ekki liggi fyrir nægar skýringar á því hvers konar starfsemi á að fara fram á plani sem er inni á lóð hreinsistöðvar.
Umsögn skipulags- og byggingarnefndar:
Fallið hefur verið frá því að hafa plan fyrir tengda starfsemi innan deiliskipulagsreitsins. Rétt er að árétta að allur úrgangur frá hreinsistöð verður inni í húsnæði dælu- og hreinsistöðvarinnar þar til hann er keyrður í burtu. Flutningur úrgangs verður í höndum aðila sem hefur starfsleyfi til flutninga á þessum tiltekna úrgangsflokki og verður þar farið að lögum og reglum sem um það gilda.
8. Athugasemdir við að deiliskipulagstillagan nái ekki til allrar framkvæmdarinnar þannig að útrásarlögn sé innan deiliskipulagsreits.
Aðilar sem gera athugasemdir: Jón Árni Vignisson, Veiðimálastofnun, Veiðifélag Árnesinga, Magnús Jóhannsson, Benedikt Jóhannsson, Hannes Jóhannsson, Aldís Pálsdóttir, Sigríður Kristín Jóhannsdóttir og Hannes Sigurðsson
Samantekt athugasemda:
Í athugasemdum er byggt á því að deiliskipulagstillaga nái ekki til allrar framkvæmdarinnar, t.a.m. þannig að útrásarlögn sé innan deiliskipulagsreitsins.
Umsögn skipulags- og byggingarnefndar:
Með breytingum á deiliskipulagstillögunni hefur verið tekið tillit til umsagna og athugasemda þannig að staðsetning útrásarlagnar og yfirfallslagnar er nú innan deiliskipulagsreitsins. Staðsetning útrásarlagnar var valin m.t.t. ýmissa atriða sem byggjast á rannsóknum sérfræðinga. Jarðvegsaðstæður á deiliskipulagsreitnum eru ákjósanlegar fyrir þá framkvæmd sem fyrirhuguð er skv. deiliskipulagstillögunni, bæði hvað varðar staðsetningu dælu- og hreinsistöðvarinnar sjálfrar og útrásarlagnarinnar. Þá er verður útrásarlögnin staðsett út í Ölfusá á hagkvæmum stað þar sem áin er mjög straumhörð og veldur útrás þar sem minnstri röskun á lífríki árinnar auk þess sem aðkoma að bökkum þynningarsvæðis er erfið.
9. Athugasemdir við málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar.
Aðilar sem gera athugasemdir: Jón Árni Vignisson, Veiðifélag Árnesinga, Magnús Jóhannsson, Benedikt Jóhannsson, Hannes Jóhannsson, Aldís Pálsdóttir, Sigríður Kristín Jóhannsdóttir og Hannes Sigurðsson
Samantekt athugasemda:
Í athugasemdum ofangreindra aðila eru gerðar athugasemdir við málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar hjá sveitarfélaginu. Til hagræðis er öllum athugasemdum er varða málsmeðferðina svarað saman.
Jón Árni Vignisson gerir athugasemd við málsmeðferðina og byggir á því að deiliskipulagstillagan hafi ekki verið auglýst á réttan hátt skv. áskilnaði skipulagslaga nr. 123/2010. Þá byggir Jón Árni á því að staða deiliskipulagstillögunnar sé óljós enda hafi Sveitarfélagið Árborg, sbr. fundargerð 72. fundar framkvæmda- og veitustjórnar þegar, afgreitt deiliskipulagstillöguna.
Magnús Jóhannsson, Benedikt Jóhannsson, Hannes Jóhannsson, Aldís Pálsdóttir, Sigríður Kristín Jóhannsdóttir og Hannes Sigurðsson gera athugasemd við að ekki hafi verið haft samráð við hagsmunaaðila í Sandvík við undirbúning deiliskipulagstillögunnar.
Veiðifélag Árnesinga gerir athugasemd við málsmeðferðina og byggir á því að ekki hafi verið gætt að því að gera lýsingu á skipulagsverkefninu skv. 40. gr. skipulagslaga þannig að almenningur og hagsmunaaðilar gætu komið að skipulagsferlinu á fyrstu stigum og af þeim sökum hafi ekkert komið fram um hvernig staðið hafi verið að umhverfismati skipulagsáætlunarinnar skv. 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga og 2. mgr. 6. gr. um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 og að ekki hafi verið gætt að því að kynna aðliggjandi sveitarfélagi, Sveitarfélaginu Ölfusi, deiliskipulagstillöguna eins og áskilið er í 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá bendir Veiðifélag Árnesinga á að samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. c-lið 11. gr. 2. viðauka laganna, hafi borið að tilkynna Skipulagsstofnun um framkvæmdina til að fá úr því skorið hvort umhverfismat væri nauðsynlegt.
Umsögn skipulags- og byggingarnefndar:
Varðandi athugasemdir um að deiliskipulagstillagan hafi ekki verið auglýst með réttum hætti þá er í 1. mgr. 41. gr. sbr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tilgreint með hvaða hætti skal haga auglýsingum deiliskipulagstillagna. Í lögunum er áskilið að auglýsa deiliskipulagstillögu með áberandi hætti, svo sem í dagblaði sem gefið er út á landsvísu og í Lögbirtingablaðinu. Þá skal tillagan liggja frammi hjá Skipulagsstofnun og á skrifstofu sveitarfélags eða öðrum opinberum stað og vera aðgengileg á netinu.
Deiliskipulagstillagan var auglýst í Fréttablaðinu sem gefið er út á landsvísu, í Dagskránni sem gefin er út á Suðurlandi og í Lögbirtingablaðinu. Allar auglýsingarnar birtust í blöðunum þann 6. febrúar 2014. Auk þess var deiliskipulagstillagan aðgengileg hjá Skipulagsstofnun, á skrifstofu skipulags- og byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar og á heimasíðu Sveitarfélagsins Árborgar.
Varðandi athugasemd um að deiliskipulagstillagan hafi þegar verið endanlega samþykkt, sbr. fundargerð 72. fundar framkvæmda- og veitustjórnar þar sem segir að deiliskipulag hafi verið samþykkt, þá er sú fullyrðing byggð á misskilningi. Hið rétta er að undirbúningsferli deiliskipulagstillögunnar er í gangi og er farið eftir þeim reglum sem skipulagslög áskilja. Það sem átt er við í fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar þar sem segir að deiliskipulagstillagan hafi verið samþykkt er að tillagan hafi verið fullunnin og þar með tilbúin til auglýsingar sbr. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Rétt er að taka fram að framkvæmda- og veitustjórn fer ekki með skipulagsmál og kemur ekki að afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar heldur er það í höndum skipulags- og byggingarnefndar.
Í tilefni af því að athugasemd var gerð um að ekki hafi verið haft samráð við hagsmunaaðila í Sandvík þá er bent á að deiliskipulagstillagan var auglýst, s.s. lög og reglur gera ráð fyrir. Í auglýsingunni var öllum gefinn kostur á því að gera athugasemdir við tillöguna.
Varðandi athugasemdir um að ekki hafi verið gerð lýsing á deiliskipulagsverkefninu eins og áskilið er í skipulagslögum þá skal tekið fram að allar meginforsendur deiliskipulagstillögunnar liggja fyrir í aðalskipulagi og með heimild í 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 var því fallið frá að gera lýsingu á skipulagsverkefninu.
Gerðar eru athugasemdir við að ekki hafi verið óskað umhverfismats vegna deiliskipulagstillögunnar. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 15. tölul. 1. viðauka laganna, þá er sú hreinsistöð sem fyrirhugað er að byggja skv. deiliskipulagstillögunni ekki með afkastagetu yfir 50.000 persónueiningum og þarf þess vegna ekki sérstakt umhverfismat sbr. ákvæði fyrrgreindra laga.
Í athugasemdum er byggt á því að deiliskipulagstillagan hafi ekki verið kynnt Sveitarfélaginu Ölfusi eins og áskilið er í lögum. Í 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir að ef deiliskipulagstillaga tekur til svæðis sem liggur að mörkum aðliggjandi sveitarfélags skal tillagan kynnt sveitarstjórn þess sveitarfélags. Deiliskipulagstillagan sem hér er til umfjöllunar var ekki kynnt Sveitarfélaginu Ölfusi sérstaklega þar sem tillagan nær ekki að sveitarfélagamörkum.
Veiðifélag Árnesinga gerir jafnframt athugasemd um að tilkynna hefði átt framkvæmdina til Skipulagsstofnunar sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum þar sem framkvæmdin falli undir c-lið 11. gr. 2. viðauka við lögin. Í 2. viðauka eru taldar upp framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og hefur Skipulagsstofnun mat um það í hverju tilviki hvort framkvæmdirnar sem taldar eru upp skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Í c-lið 11. gr. 2. viðauka kemur fram að framkvæmdir við skólphreinsistöðvar á verndarsvæðum og svæðum á náttúruminjaskrá séu háðar því að Skipulagsstofnun ákveði hvort umhverfismat sé nauðsynlegt. Fyrirhuguð dælu- og hreinsistöð er ekki á verndarsvæði eða svæði sem er á náttúruminjaskrá og því var tilkynning ekki send til Skipulagsstofnunar samkvæmt fyrrgreindu.
10. Athugasemdir um að viðhlítandi rannsóknir á umhverfi liggi ekki fyrir.
Aðilar sem gera athugasemdir: Jón Árni Vignisson, Veiðifélag Árnesinga, Veiðimálastofnun og Magnús Jóhannsson, Benedikt Jóhannsson, Hannes Jóhannsson, Aldís Pálsdóttir, Sigríður Kristín Jóhannsdóttir og Hannes Sigurðsson
Samantekt athugasemda:
Í athugasemdum er byggt á því að viðhlítandi rannsóknir á umhverfi liggi ekki fyrir.
Umsögn skipulags- og byggingarnefndar:
Samkvæmt ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 er ekki nauðsynlegt að fyrirhuguð dælu- og hreinsistöð fari í umhverfismat. Það hafa hins vegar verið gerðar nokkuð viðamiklar rannsóknir á umhverfi vegna deiliskipulagstillögunnar.
Í fyrsta lagi má nefna rannsóknir Verkfræðistofu Suðurlands og Línuhönnunar frá 1998-2005. Framkvæmdir við fráveitukerfið frá 1998 hafa að mestu byggst á niðurstöðum þessara rannsókna.
Í öðru lagi liggur fyrir skýrsla Tryggva Þórðarsonar, vatnavistfræðings, um mengunarflokkun Ölfusár þar sem fram kemur að hugsanleg merki mengunar hafi verið að litlu leyti sjáanleg í ánni. Ölfusá flokkaðist í mengunarflokk A fyrir alla þætti nema fyrir ammoníak og saurkólíbakteríur sem fóru í flokk B. Ástand vatns sem fer í mengunarflokk A er ósnortið vatn en það sem fer í flokk B er lítið snortið vatn sbr. 9. gr. reglugerðar um varnir gegn mengun vatns nr. 796/1999.
Í þriðja lagi liggur fyrir rannsókn Verkfræðistofunnar Vatnaskila sem gerði líkan af Ölfusá til samanburðar á staðsetningum fráveituútrásar. Í skýrslunni eru bornar saman fjórar mögulegar staðsetningar á útrás í Ölfusá m.t.t. þynningarsvæðis o.fl.
Í fjórða lagi liggja fyrir skýrslur um rannsóknir Mannvits á Ölfusá og fráveitukerfi á Selfossi frá 2008-2014, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að mengun frá fráveitukerfi hafi lítil áhrif á ástand Ölfusár miðað við rannsóknir.
11. Athugasemdir er varða ummæli í aðalskipulagi þar sem segir að reikna megi með sérstöku mati á umhverfisáhrifum á framkvæmdum matvælafyrirtækja og bæjarfélagsins á skolphreinsistöðvum.
Aðilar sem gera athugasemdir: Jón Árni Vignisson og Veiðifélag Árnesinga.
Samantekt athugasemda:
Í athugasemdum er bent á að í kafla 5.2 á bls. 62 í aðalskipulagi komi fram að reikna megi með sérstöku mati á umhverfisáhrifum á framkvæmdum matvælafyrirtækja og bæjarfélagsins á skolphreinsistöðvum.
Umsögn skipulags- og byggingarnefndar:
Í 5. kafla greinargerðar með aðalskipulagi Sveitarfélagsins Árborgar er fjallað um mat á umhverfisáhrifum aðalskipulagstillögu. Í kaflanum er vísað til þess að ákveðnar framkvæmdir sem aðalskipulagið gerir ráð fyrir, geti verið matsskyldar skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í undirkafla 5.2 í greinargerð með aðalskipulagi kemur fram að skólphreinsistöðvar með afkastagetu sem svarar til 50.000 persónueininga eða meira séu matsskyldar sbr. upptalningu í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í niðurlagi kafla 5.2 í greinargerð með aðalskipulagi, þegar lokið hefur verið við að greina frá framkvæmdum sem kunna að vera matsskyldar skv. fyrrnefndum lögum um mat á umhverfisáhrifum, segir: “Samkvæmt ofanskráðu má t.d. reikna með sérstöku mati á umhverfisáhrifum framkvæmda á nýjum Suðurlandsvegi, búgarðabyggðum samhliða deiliskipulagi, jarðefnislosunarsvæðum samhliða deiliskipulagi, skólphreinsistöðvum matvælafyrirtækja og bæjarfélagsins svo og stækkun sláturhúss og annars matvinnsluiðnaðar.” Að framangreindu virtu er því ljóst að aðalskipulag sveitarfélagsins gerir ekki strangari kröfur um að framkvæmdir séu matsskyldar en lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 gera ráð fyrir.
Allur úrgangur í fráveitukerfi byggðar á Selfossi sem fyrirhugað er að fari í gegnum dælu- og hreinsistöðina skv. deiliskipulagstillögunni nær ekki 50.000 persónueiningum. Mælingar í kerfinu sýna að magnið svarar til 38.000 persónueininga og er framkvæmdin því ekki umhverfismatsskyld skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.
12. Ábendingar um 33. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2006.
Aðilar sem gera athugasemdir: Veiðimálastofnun og Veiðifélag Árnesinga.
Samantekt athugasemda:
Í athugasemdum er bent á að framkvæmdin sé háð leyfi Fiskistofu sbr. 33. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2006.
Umsögn skipulags- og byggingarnefndar:
Varðandi ábendingar um að framkvæmdin sé leyfisskyld, skv. 33. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2006, þá skal það upplýst að sótt verður um leyfi Fiskistofu fyrir framkvæmdum sem falla undir ákvæðið en skv. orðalagi ákvæðisins þarf ekki að sækja um leyfi fyrir skipulagsáætlunum.
9.
1408056 - Fyrirspurn um breytingu á lóðum að Melhólum 2-6 og 8-12, Selfossi
Erindið verður grenndarkynnt við Melhóla 1-19 og Hraunhóla 1-7 og 9-13.
10.
1408171 - Óskað er umsagnar um leyfi til reksturs gististaðar í flokki I, heimagisting í Oders Ocean View, Íragerði 12, Stokkseyri
Nefndin veitir jákvæða umsögn.
11.
1408151 - Umsókn um stöðuleyfi fyrir sumarhús að Eyravegi 31, Selfossi.
Umsækjandi: Súperbygg ehf
Samþykkt.
12.
1408174 - Umsókn um stöðuleyfi fyrir hús til flutnings að Gagnheiði 5, Selfossi.
Umsækjandi: Vörðufell ehf
Samþykkt.
13.
1408172 - Umsókn um lóðina Heiðarvegi 5, Selfossi.
Umsækjandi:Jóhannes Hinriksson og Sigþrúður J Tómasdóttir
Frestað.
14.
1408152 - Umsókn um lóðina Akurhóla 4, Selfossi.
Umsækjandi: Súperbygg ehf
Frestað.
15.
1407041 - Óskað er umsagnar um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II íbúð í Garun apartments, Grafhólum 9, Selfossi.
Nefndin veitir jákvæða umsögn.
16.
1302008 - Aðalskipulagsbreyting - lagning jarðstrengs og ljósleiðara
Nefndin samþykkir matslýsingu og að farið verði með deiliskipulagsbreytinguna sem óverulega sbr. 2. mgr 43. gr skipulagslaga.
17.
1405257 - Óskað er umsagnar um rekstarleyfi fyrir gististað, íbúðir að Ólafsvöllum 4, Stokkseyri.
Nefndin veitir jákvæða umsögn.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 10,35
Ásta Stefánsdóttir
Magnús Gíslason
Gísli Á. Jónsson
Guðlaug Einarsdóttir
Ragnar Geir Brynjólfsson
Bárður Guðmundsson
Ástgeir Rúnar Sigmarsson
Ásdís Styrmisdóttir
Snorri Baldursson