20. fundur lista- og menningarnefndar
20. fundur lista- og menningarnefndar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn þriðjudaginn 17. febrúar 2009 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 17:00
Mætt:
Andrés Rúnar Ingason, formaður, V-lista (V)
Ingveldur Guðjónsdóttir, nefndarmaður B-lista (B)
Kjartan Björnsson, nefndarmaður D-lista (D)
Andrés Sigurvinsson, verkefnisstjóri íþrótta-, forvarna- og menningarmála
Fundarmenn samþykktu samhljóða að taka inn með afbrigðum mál no. 0902117 og má no.0902125 sem varamaður D- lista Björn Ingi Bjarnason lagði fram. Björn Ingi Bjarnason varamaður D - lista vék af fundi kl. 17:45 og aðalmaður D- listans Kjartan Björnsson tók sæti hans.
Margrét I. Ásgeirsdóttir, forstöðumaður mætti á fundinn og gerði grein fyrir störfum afmælisnefndar í tilefni 100 ára afmælis bókasafnsins sbr. 8. mál og aðkomu upplýsingarmiðstöðvar og starfsmanna stofnanna hennar að máli no. 7 og 12.
Dagskrá:
- 1. 0902125 - Yfirlýsing að harma samþykkt bæjarstjórnar frá 15. janúar sl.
Tillaga: Ályktun Lista- og menningarnefndar á fundi 17. febrúar 2009:Þann 12. janúar s.l. gáfu Kjartan Björnsson á Selfossi og Björn Ingi Bjarnason á Eyrarbakka, þáverandi aðalmenn í Lista- og menningarnefnd, frá sér eftirfarandi yfirlýsingu: YFIRLÝSING Við undirritaðir;Kjartan Björnsson á Selfossi og
Björn Ingi Bjarnason á Eyrarbakka,nefndarmenn í Lista- og menningarnefnd
Sveitarfélagsins Árborgar fyrir D - lista,óskum vinsamlegast eftir að sitja í nefndinni framvegis án þóknunar. Ósk þessi og boð er fram sett vegna tillögu í
Bæjarstjórn Árborgar um fækkun um tvo í Lista- og menningarnefnd til sparnaðar.
Viljum við með þessu tryggja sem fyrr lýðræðislega breidd og umræðu í nefndinni
samhliða boðuðum sparnaði. Selfossi og Eyrarbakka 12. janúar 2009. Kjartan Björnsson og Björn Ingi Bjarnason
Yfirlýsingin var tekin fyrir á fundi í bæjarstjórn Árborgar þann 15. janúar s.l. og var eftirfarandi bókað:
a) 0812134
Tillaga um breytingar á samþykkt um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Árborgar, seinni umræða.
Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls og lagði fram yfirlýsingu tveggja nefndarmanna lista- og menningarnefndar ásamt því sem hann lagði til að fallið verði frá fækkun í lista- og menningarnefnd úr fimm kjörnum fulltrúum í þrjá.
Gylfi Þorkelsson, S-lista, Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, Ari B. Thorarensen, D-lista, og Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, tóku til máls.
Tillagan var borin undir atkvæði og felld með fimm atkvæðum fulltrúa meirihlutans, gegn fjórum atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista.Lista- og menningarnefnd harmar þessa afstöðu meirihluta bæjarstjórnar Árborgar.
Björn Ingi Bjarnason varamaður D-lista.
Bókun fulltrúa B og V lista:
Tillaga frá fulltrúa D lista í lista- og menningarnefnd þess efnis að nefndin harmi samþykkt bæjarstjórnar Árborgar á breytingum á samþykkt um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Árborgar sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi 15. janúar sl.Tillaga var borin undir atkvæði og felld með tveimur atkvæðum gegn atkvæði fulltrúa D listans.
- 2. 0902008 - Almenningsfræðsla á Íslandi - Málþing - Eyrarbakki
LMÁ fagnar framtakinu og hlakkar til að taka þátt í störfum málþingsins og vill hvetja heimamenn til almennrar þátttöku. Málþingið verður haldið í Rauða húsinu Eyrarbakka þann 6. mars nk. og verður auglýst vel þegar dagskrá og listi yfir fyrirlesara og þátttakendur liggur endanlega fyrir. Ólafur Proppé fv. rektor KHÍ mun stjórna málþinginu. - 3. 0902064 - Vor í Árborg 2009
Verkefnisstjóri sendi f.h. LMÁ út fréttatilkynningu um Menningar- og bæjarhátíðina „Vor í Árborg 2009" sem verður haldin 21. - 24. maí næst komandi. Þar kemur eftirfarandi fram: "Skipulag er á undirbúningsstigi og hvers kyns tillögur að dagskráratriðum og/eða hugmyndum um menningarviðburði eru vel þegnar. Hér með er óskað eftir þátttöku félaga og samtaka, einstaklinga og áhugahópa, fyrirtækja og stofnanna.
Fjölskylduleikurinn, „Gaman- saman sem fjölskylda"- sem byrjaði í fyrra verður aftur hluti af hátíðarhöldunum í ár. Sértakt vegabréf verður gefið út sem stimplað verður í eftir þátttöku í atburðum og heimsóknum viðburða og þar með eignast möguleika á sérstökum vinningum, sem dregnir verða út að hátíðarhöldum loknum.
Vor í Árborg mun verða í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík 2009 með valda atburði svo og mun Sveitarfélagið Árborg verða gestasveitarfélag Reykjavíkurborgar á Menningarnótt í Reykjavík 2009.
Áhugasamir hafi samband við Andrés Sigurvinsson, verkefnisstjóra og /eða Braga Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúa í Fjölskyldumiðstöð Árborgar á netfangið vor@arborg.is eða í síma 480-1900.
Verkefnisstjóra falið að halda utan um málið áfram. - 4. 0901021 - Stofutónleikar Listahátíðar Rvk 2009 - Húsið og o.fl.
LMÁ fagnar og leggur til að boði Listahátíðar í Reykjavík 2009 um samstarf verði tekið. Húsið/ Byggðarsafn Árnesinga og fleiri stofnanir innan Sveitarfélagsins Árborgar munu taka þátt og standa fyrir stofutónleikum. Ákveðið hefur verið að halda tónleika í Húsinu á Eyrarbakka laugardaginn 23. maí og sunnudaginn 24 og væntanlega verða einir á Selfossi. Beðið er eftir endanlegri staðfestingu frá öllum listamönnunum. LMÁ þakkar öllum sem komið hafa að undirbúningi þessa samstarfs. - 5. 0902066 - Menningarnótt í Reykjavík 2009
LMÁ fagnar upplýsingar verkefnisstjóra um boð Borgarstjóra Reykjavíkur um samstarf og þátttöku á menningarnótt í Reykjavík 22. ágúst 2009 um leið og hún hvetur alla íbúa til að koma með hugmyndir að menningarviðburðum og kynningum sbr. mál no. 3. hér að framan. Upplagt að prufukeyra atriðin fyrst hér heima á Vori í Árborg 2009 og fara síðan með á höfuðborgarsvæðið. LMÁ hvetur íbúa að taka höndum saman alla sem einn og gera þessa heimsókn okkar sem veglegasta og á þann hátt að eftir verði tekið. LMÁ þakkar öllum sem komið hafa að undirbúningi þessa samstarfs. - 6. 0902062 - Menningarstyrkir LMÁ úthlutun 2009
LMÁ felur verkefnisstjóra að auglýsa eftir umsóknum um styrki og jafnframt samþykkir hún samhljóða að í ár skuli aðeins vera um eina úthlutun að ræða og fari hún fram í apríl komandi og er úthlutunarupphæðin kr. 1.000.0000. - 7. 0902096 - Styrkjaúthlutun Menningarráðs Suðurlands 2009
Um leið og LMÁ þakkar upplýsingarnar vill nefndin koma á framfæri þökkum til Menningarráðs Suðurlands fyrir þá styrki sem Sveitarfélagið Árborg og stofnanir innan þess hafa fengið til þessa. Leiklistarklúbbur Zelsíuzar er hafinn, Drepstokkur Ungmennahúss/Pakkhúss og Málþing um Alþýðufræðslu er og langt kominn í undirbúningi og Book Space verkefninu lokið hjá bókasafni og undirbúningur annarra þar hafinn. Verkefnisstjóra falið að athuga með verkefni sem hugsanlega mætti sækja um styrki til. - 8. 0902117 - Handverksfólk í Sveitarfélaginu Árborg
Forstöðumaður upplýsingarmiðstöðvar og bókasafna sveitarfélagsins og verkefnisstjóri leggja til að tekinn verði saman listi yfir handverksfólk í Sveitarfélaginu Árborg. Þetta verkefni verði tengt úrvinnslu máls no.1 hér fyrir neðan.
Tillagan gengur út á eftirfarandi verkferil; Upplýsingamiðstöð Árborgar í Bæjar- og héraðsbókasafninu á Selfossi mun sumarið 2009 sjá um að vinna lista um handverksfólk í Sveitarfélaginu Árborg. Þar kemur fram nafn handverksmanns, aðstaða, sími, tölvupóstur, heimasíða, kynning og lýsing á handverkinu o.fl. LMÁ er sammála að oft hefur skort upplýsingar um þann fjölda handverksfólks sem stundar handverk reglulega í Árborg. Þessar upplýsingar hefur skort fyrir heimamenn og ferðamenn og einnig á hátíðum þegar tækifæri eru til kynninga. Erfitt hefur verið að ná til þessa mikilvæga hóps. Með því að hafa lista yfir hópinn verður auðveldara að vísa á þá og það getur einnig skapað samvinnu innan hópsins til frekari starfa eða sýninga. Samþykkt samhljóðaEins og framkom á fundinum sbr. mál no. 5 mun Upplýsingamiðstöð Árborgar sækja um styrk til gerð þessara lista til Menningarráðs Suðurlands þar sem þetta fellur innan þess stefnuramma sem Menningarráðið hefur gefið sér að fara eftir að þessu sinni; að styðja menningartengda ferðaþjónustu.
Erindi til kynningar:
- 9. 0810132 - 100 ára afmæli Bókasafnsins
Fulltrúar V - lista og B - lista í LMÁ samþykkja tillögu afmælisnefndar Bæjar- og héraðsbókasafnsins á Selfossi að nýju nafni Bókasafnsins og um leið allra almenningsbókasafnanna í Árborg -nafnið verði í framtíðinni "Bókasafn Árborgar",og undirtitill Selfossi, Stokkseyri,Eyrarbakka" Fulltrúar D - lista greiðir atkvæði á móti og óskar bókað:Bókun minnihluta lista og menningarnefndar Árborgar þriðjudaginn 17 febrúar 2009. Breyting á nafni Bæjar og héraðsbókasafnsins á Selfossi
Til umræðu er breyting á nafni Bæjar og héraðsbókasafnsins á Selfossi og um leið umræða um breytingu á nöfnum bókasafnanna á Eyrarbakka og Stokkseyri. Afmælisnefnd bókasafnsins leggur fram tillögu um nafnabreytingu sem þau kalla lýsandi nafn?
Fyrst skal til taka svona til að halda hlutum til haga, að þegar til stóð að sameina sveitarfélögin, Selfoss, Stokkseyri, Eyrarbakka og Sandvíkurhrepp vorið 1998 þá kom það skýrt fram hjá undirbúningsnefndinni að verið væri sameina þau undir eina stjórnsýslu en ekki leggja staðar eða svæðisnöfn niður. Þetta hefur komið skýrt fram í viðtölum mínum við til að mynda Magnús Karel Hannesson þáverandi oddvita á Eyrarbakka, Pál heitinn Lýðsson þáverandi oddvita í Sandvíkurhreppi og þeir báðir algjörlega sammála þessari túlkun. En hægt og bítandi fennir yfir hluti og nýtt fólk kemur, sem ekki veit um hvernig upphaflega stóð til að hafa hlutina og hvernig íbúunum var lofað að þeir yrðu. Styr stóð um nafngiftina einnig og var nafnið sem kjörið var í almennri kosningu ( 4 vondir kostir) samþykkt með sárfáum atkvæðum eða um 600 manns sem var um 15% íbúanna þá. Félagsmálaráðuneytið samþykkti ekki nafngiftina þar sem fyrirtæki báru nafnið, nema að notað yrði fullt nafn á fyrirbærinu sem yrði þá Sveitarfélagið Árborg og aðeins þannig. Þess má einnig geta að þessi undarlega hugmynd að detta til hugar að ætla Sveitarfélaginu nýja, þetta nafn voru auðvitað viss landráð þar sem árborg er þekkt samheiti yfir annað svæði sem er allt frá rekstrarárum útgerðar Bjarna Herjólfssonar heiti yfir Stokkseyri, Eyrarbakka, Þorlákshöfn, Hveragerði og Selfoss.
Síðan koma margir embættismenn til starfa sem ekki taka tillit til þessa og leggja til breytingar á nöfnum og öðru því tengdu sem um áratugi hafa haft sitt upprunalega nafn og hafa verið lýsandi fyrir þær stofnanir sem um er rætt. Stjórnsýsluheiti sem ekki er að finna á landakorti og er ekki staðarheiti er í raun ekkert annað en heiti á stjórnsýslueiningu og er hreint alls ekki lýsandi fyrir tiltekna stofnun. Hvers á gestur í sumarhúsi í uppsveitum Árnessýslu að gjalda sem ætlar að skreppa og fá sér bók lánaða í bókasafni árborgar? Auðvitað veit hann ekkert hvað við hér "local" á svæðinu köllum stjórnsýslueininguna sem rukkar útsvarið, hann veit hins vegar hvar hann finnur Selfoss eða hvern þann annan stað sem hann stefnir á hér á suðurlandinu góða. Stjórnsýsluheitið sem okkur var fengið á sinni tíð hefur auk þess ekkert með tilgang eða þjónustu bókasafna að gera, kemur því bara hreint ekkert við. Bókasafnið á Selfossi eða Bæjarbókasafnið á Selfossi er alveg stórfín hugmynd hjá Gylfa Þorkelssyni bæjarfulltrúa sem ég styð heilshugar í máli þessu. Bókasafnið á Selfossi eða Bæjarbókasafnið á Selfossi er auðvitað eins lýsandi um þá stofnun er um ræðir og eins hægt er. Sama vil ég segja um Bókasafnið á Stokkseyri og Bókasafnið á Eyrarbakka þetta eru nöfn sem segja allt sem segja þarf, stjórnsýsluheitið í ráðhúsinu þarf ekkert að trufla bókasöfnin. Aukin heldur segir afmælisnefnd bókasafnsins að það sé stefna Sveitarfélagsins að hafa nafn Árborgar á sem flestum stofnunum, til hvers í ósköpunum og hvenær var það ákveðið og kynnt fyrir íbúum Sveitarfélagsins. Ég segi hættum þessari vitleysu og snúum til baka og vindum ofan af þessu, stjórnsýslan rukkar útsvarið og stofnanir Sveitarfélagsins halda áfram að nota lýsandi heiti um tilgang þeirra og STAÐSETNINGU þannig að málin séu ekki gerð flóknari. Glöggt dæmi um þetta í öðrum Sveitarfélögum í líkri stöðu og við er í Fjarðabyggð þar sem stjórnsýsluheitið treður bókasöfnunum ekki um tær enda óskylt mál, þar heita bókasöfnin, td Bókasafnið Reyðarfirði, Bókasafnið Eskifirði og svo koll af kolli.Bæjarbókasafnið á Selfossi, Bókasafnið á Stokkseyri og Bókasafnið á Eyrarbakka eru eins lýsandi um tilgang og staðsetningu þessara stofnana eins og hægt er,engar flækjur Kjartan Björnsson
- 10. 0902005 - Nýsköpunarsmiðja í Árborg
Sveitarfélagið Árborg heldur í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Atvinnuþróunarsjóð Suðurlands málþing á Hótel Selfoss föstudaginn 27. febrúar nk. Efni málþingsins verður Nýsköpunarsmiðja. Dagskráin er í vinnslu og verður auglýst í fjölmiðlum.Bæjarstjórn Árborgar samþykkir á 43. fundi sínum að opna þjónustumiðstöð og frumkvöðlasmiðju fyrir fólk í Árborg sem misst hefur atvinnu og fyrir fólk í atvinnuleit. Miðstöðin verði opnuð í framhaldi af Nýsköpunarsmiðju sem sveitarfélagið stendur fyrir í Hótel Selfoss þann 27. febrúar n.k. í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Suðurlands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Notað verði, a.m.k. fyrst um sinn, húsnæðið við Austurveg 36 á Selfossi. LMÁ þakkar upplýsingar.
- 11. 0811075 - Kynning á verkum Veraldarvina
Verkefnisstjóri greindi frá því að hann hefði átt tvo fundi með viðkomandi aðilum og væri í athugun hvort möguleiki verði á samstarfi í sumar komandi. LMÁ þakkar upplýsingarnar og hvetur verkefnisstjóra til að leita allra leiða til að tryggja að af samstarfi geti orðið. - 12. 0902009 - Sjálfboðaliðar á vegum SEEDS 2009
LMÁ þakkar upplýsingarnar. - 13. 0812007 - Útilistaverk Sveitarfélags Árborgar
Í framhaldi af máli no. 2. frá 19. fundi LMÁ upplýsti verkefnisstjóri eftirfarandi; Upplýsingamiðstöð Árborgar í Bæjar- og héraðsbókasafninu á Selfossi mun sumarið 2009 sjá um að vinna lista yfir útilistaverk í Sveitarfélaginu Árborg.
Á listann verða skráðar upplýsingar um staðsetningu, nafn verks, listamann, efni verks, tilefni, aldur verks og ástand. Við öflun upplýsinga verður haft samband við fagmenn og þá sem þekkja til verkanna m.a. á Byggðasafni Árnesinga og Listasafni Árnesinga og aðrar stofnarnir sveitarfélagsins. Hugmyndin er m.a.að fá ungmenni úr Pakkhúsi/Vinnuskóla til að sjá um það verkefni að ljósmynda útilistaverkin. Listinn yfir útilistaverkin ásamt ljósmynd af hverju verki verða sett á heimasíðu Árborgar. Tilgangurinn er að auðvelda íbúum og gestum að heimsækja útilistaverkin og njóta þeirra og einnig til að hægt verði að gera sér grein fyrir fjölda þeirra, staðsetningu og ástandi. Á síðari stigum verður farið að huga að frekari merkingum við verkin sem gefa upplýsingar á ísl. og ensku um verkin. LMÁ þakkar upplýsingarnar og fagnar að málið er komið í þennan ákveðna farveg. - 14. 0812019 - Úttekt listfræðslu á Íslandi
Verkefnisstjóri upplýsti í framhaldi af máli no. 14. frá 19. fundi LMÁ var haldinn sérstakur rýnifundur í Setri Egils í janúar þar sem fulltrúar menntamálaráðuneytisins Jón Hrólfur Sigurjónsson og Anne Bamford komu og ræddu við eftirfarandi; Stefán Þorleifsson tónlistarkennara, Árna Blandon, kennara frá FSU. ,Guðmund Karl Friðjónsson, deildarstjóra frá Sólheimum, Sigurð Bjarnason verkefnisstjóra fræðslumála Árborgar, Margréti I. Ásgeirsdóttur forstöðumann Bæjar- og héraðsbókasafnsins á Selfossi og Upplýsingamiðstöðvar Árborgar, Elfar Guðna Þórðarsonar listamanns og gallerýeiganda í Hólmaröstinni,Andrés Sigurvinsson verkefnisstjóra íþrótta, forvarna-tómstunda- og menningarmála Árborgar. Nokkrir sem boðaðir voru tilkynntu forföll og ætlaði Jón að hafa samband við þá símleiðis. Fyrr þennan dag höfðu fulltrúar heimsótt Grunnskólann í Þorlákshöfn, FSu, leikskólann Hulduheima og Tónlistarskóla Árnesinga. Niðurstöður verða senda bráðlega og þá kynntar fyrir nefndinni. LMÁ þakkar upplýsingarnar. - 15. 0902046 - Norræna Menningargáttin Norræna húsið Rvk
LMÁ þakkar upplýsingarnar og hvetur menn til að kynna sér eftirfarandi vef; www.kknord.org og www.info@kknord.org - varðvarðandi möguleika á styrkjum, samstarfi og skilyrðum styrkveitinga. - 16. 0902099 - Málþing um menningartengda ferðaþjónustu
LMá Þakkar upplýsingarnar og hvetur hlutaðeigendur til að fjölmenna á málþingið, sem haldið verður í Árnesi þann 12. mars nk. kl. 10:00-17:00.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 19:10
Andrés Rúnar Ingason
Ingveldur Guðjónsdóttir
Kjartan Björnsson
Andrés Sigurvinsson