20. fundur bæjarstjórnar
20. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010, haldinn miðvikudaginn 13. júní 2007 kl. 17:00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi.
Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir:
Þorvaldur Guðmundsson, forseti, B listi,
Margrét K. Erlingsdóttir B listi,
Ragnheiður Hergeirsdóttir S listi,
Gylfi Þorkelsson S listi,
Jón Hjartarson, V listi,
Eyþór Arnalds D listi
Snorri Finnlaugsson D listi,
Ari B. Thorarensen D listi, varamaður Þórunnar Jónu Hauksdóttur
Elfa Dögg Þórðardóttir D listi
Auk þess situr fundinnÁsta Stefánsdóttir, bæjarritari, sem ritar fundargerð.
Dagskrá:
I. Fundargerðir:
1. a) 0701118
Íþrótta- og tómstundanefnd frá 02.05.07
b) 43. fundur bæjarráðs - 0701016 frá 10.05.07
2. a) 0701067
Skipulags- og byggingarnefnd frá 10.05.07
b) 0701055
Skólanefnd frá 10.05.07
c) 0701016
44. fundur bæjarráðs frá 18.05.07
3. a)0701012
Félagsmálanefnd frá 14.05.07
b) 0701062
Leikskólanefnd frá 16.05.07
c)45. fundur bæjarráðs frá 24.05.07
4. a) 0702011
Umhverfisnefnd frá 23.05.07
b) 0702072
Atvinnuþróunarnefnd frá 23.05.07
c) 0701068
Skipulags- og byggingarnefnd frá 24.05.07
d) 0701016
46. fundur bæjarráðs frá 31.05.07
5. a) 0703038
Framkvæmda- og veitustjórn frá 30.05.07
b) 0701016
47. fundur bæjarráðs frá 07.06.07
-liður 1b), 070118, fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar, Ari B. Thorarensen, D-lista tók til máls.
-liður 1b), 43. fundur bæjarráðs, 4. mál, 0704146, Snorri Finnlaugsson, D-lista, tók til máls.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tók til máls.
-liður 2c), 44. fundur bæjarráðs, 6. mál, 0504050 tillaga um að byggingarnefnd Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri verði falið að kanna möguleika á að framtíðarhúsnæði BES rísi á svæðinu norðan við þorpið, sunnan þjóðvegar.
Tillagan var borin sérstaklega undir atkvæði þar sem mótatkvæði kom fram við afgreiðslu í bæjarráði.
Tillagan var samþykkt með fimm atkvæðum, fulltrúar D-lista greiddu atkvæði á móti.
-liður 2c) 44. fundur bæjarráðs, liður 2a, 0702029, Jón Hjartarson, V-lista tók til máls og lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans, B, S og V lista, fagna afgreiðslu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga á tillögu meirihlutans í Árborg um að setja á fót nefnd á vegum Sambandsins til að kostnaðarmeta lög og reglugerðir sem sett hafa verið frá árinu 1996 til 2007 og varða sveitarfélögin í landinu. Um er að ræða mikið hagsmunamál sveitarfélaga sem styrkja mun stöðu þeirra í samskiptum við ríkisvaldið.
-liður 4c) 0702011, fundargerð umhverfisnefndar,Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, tók til máls.
-liður 4c), skipulags- og byggingarnefnd, 25. mál, 0608006 úthlutun lóðar til Mest ehf. og afgreiðsla málsins á 46. fundi bæjarráðs. Snorri Finnlaugsson, D-lista, vék af fundi við afgreiðslu málsins sökum vanhæfis.
Lagt var til að bæjastjórn staðfesti þessa liði fundargerðanna. Var það samþykkt samhljóða.
Snorri Finnlaugsson kom inn á fundinn að afgreiðslu lokinni.
-liður 4c) skipulags- og byggingarnefnd, 20. mál, 0604059 tillaga að deiliskipulagi við Kaðlastaði.Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, tók til máls og lagði fram svohljóðandi bókun:
Í landi Kaðlastaða hafa nokkrir aðilar komið með hugmyndir að nýbyggingum. Má þar nefna sívalninga við Löngudæl og íbúðir fyrir eldri borgara. Þessi mál hafa nú sum hver tekið nokkur á í vinnslu frá því að fyrstu drög voru lögð fram. Fulltrúar D-lista fagna slíku framtaki og leggja áherslu á að þessi mál verði afgreidd hvert um sig í samvinnu við þá aðila sem hér um ræðir.
Afgreiðsla skipulagsmála í Árborg hefur oft á tíðum verið bæði sein og óskilvirk og hefur oft tekið áraraðir að fá mál afgreidd hjá sveitarfélaginu. Á þessu verður að gera bragarbót því slík vinnubrögð meirihlutans hafa ekki hvetjandi áhrif á innkomu nýrra fyrirtækja og verkefna.
-liður 4c) skipulags- og byggingarnefnd, 23. mál, 0611068 tillaga að deiliskipulagi lands norðan og austan sjúkrahúss í landi Laugardæla.Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, tók til máls og lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar D-lista leggja áherslu á að vinna þarf að öllum þáttum skipulags áður en það er samþykkt til að koma í veg fyrir tafir á afgreiðslu mála eins og stefnan virðist vera í þessu máli. Leysa hefði þurft umferðarmál á faglegan hátt og í samvinnu við Flóahrepp þar sem vegtenging við hverfið liggur þar um. Engin fagleg forsenda er gefin fyrir breytingu á vegtengingu né því hvort ein tenging inn á Árveg dugi til að anna umferð frá nýju þessu nýja skipulagi. Gera hefði þurft umferðargreiningu í samvinnu við deiliskipulagshöfund og vinna svo málið með Flóahreppi.
Ari B. Thorarensen og Snorri Finnlaugsson, D-lista tóku til máls.
Gert var fundarhlé.
Jón Hjartarson, V-lista, tók til máls og lagði fram svohljóðandi bókun:
Málið er í vinnslu og fer fyrir bæjarráð í næstu viku. Fundað hefur verið með landeiganda og er hann í samvinnu við Vegagerð og Flóahrepp.
Snorri Finnlaugsson, D-lista, tók til máls.
-liður 4d) 46. fundur bæjarráðs,Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls.
Margrét K. Erlingsdóttir, B-lista tók til máls. Óskaði hún eftir að bókað yrði að það væri m.a. vegna heildarhagsmuna í skipulagsmálum sem óskað hefði verið eftir sameiningarviðræðum við Flóahrepp um sameiningarviðræður.
Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls.
Fundargerðirnar voru bornar undir atkvæði, að undanskildum þeim liðum sem sérstaklega höfðu verið afgreiddir, og staðfestar samhljóða.
II. 0706033
Kosningar í embætti innan bæjarstjórnar til eins árs
1. Kosning forseta til eins árs.
Jón Hjartarson, kjörinn með 5 atkvæðum fulltrúar D lista sátu hjá.
Nýkjörinn forseti bæjarstjórnar tók við stjórn fundarins.
2. Kosning 1. varaforseta til eins árs.
Þorvaldur Guðmundsson, kjörinn með 5 atkvæðum fulltrúar D lista sátu hjá.
3. Kosning 2. varaforseta til eins árs.
Margrét K. Erlingsdóttir , kjörin með 5 atkvæðum, fulltrúar D lista sátu hjá.
4. Kosning tveggja skrifara til eins árs.
Elfa Dögg Þórðardóttir ogGylfi Þorkelsson, kjörin með 9 atkvæðum.
5. Kosning tveggja varaskrifara til eins árs.
Snorri Finnlaugsson ogÞorvaldur Guðmundsson, kjörnir með 9 atkvæðum.
III. 0706031
Kosning þriggja fulltrúa í bæjarráð til eins árs og þriggja til vara
Aðalmenn: Varamenn:
Jón Hjartarson Sigrún Þorsteinsdóttir
Margrét K. Erlingsdóttir, til 22. ágúst Þorvaldur Guðmundsson
Eyþór Arnalds Þórunn Jóna Hauksdóttir
Samþykkt samhljóða.
IV. 0702062
Kosning í kjörstjórnir til eins árs
1. Yfirkjörstjórn, þrír fulltrúar og þrír til vara.
Aðalmenn: Varamenn:
Ingimundur Sigurmundsson Hróðný Hauksdóttir
Bogi Karlsson Guðrún Edda Haraldsdóttir
Steinunn Fjóla Sigurðardóttir Sigurbjörg Gísladóttir
2. Undirkjörstjórn 1, þrír fulltrúar og þrír til vara.
Aðalmenn: Varamenn:
Erlendur Daníelsson Ása Líney Sigurðardóttir
Ingunn Sigurjónsdóttir Gunnar Gunnarsson
Valey Guðmundsdóttir Ólafur Bachmann Haraldsson
3. Undirkjörstjórn 2, þrír fulltrúar og þrír til vara.
Aðalmenn: Varamenn:
Margrét Ingþórsdóttir Björg Þ. Sörensen
Ingibjörg Jóhannesdóttir Sigríður Ólafsdóttir
Ingvar Jónsson Ólafur H. Jónsson
4. Undirkjörstjórn 3, þrír fulltrúar og þrír til vara
Aðalmenn: Varamenn:
Kristín Björnsdóttir Kristinn Ásmundsson
Magnús Gunnarsson Gunnar Þórðarson
Valgerður Gísladóttir Ragnhildur Benediktsdóttir
5. Undirkjörstjórn 4, (Stokkseyri), þrír fulltrúar og þrír til vara
Aðalmenn: Varamenn:
Ingibjörg Ársælsdóttir Helga Björg Magnúsdóttir
Einar Sveinbjörnsson Guðrún J. Valdimarsdóttir
Ragnhildur Jónsdóttir Guðni Kristjánsson
6. Undirkjörstjórn 5, (Eyrarbakki), þrír fulltrúar og þrír til vara
Aðalmenn: Varamenn:
Lýður Pálsson Sverrir Geirmundsson
María Gestsdóttir Anna María Tómasdóttir
Svanborg Oddsdóttir Birgir Edwald
Kjör í kjörstjórnir var samþykkt samhljóða.
V. 0706034
Breyting á setu fulltrúa V-lista í nefndum
Lögð var fram tillaga um eftirfarandi breytingar á nefndaskipan:
Í félagsmálanefnd verður Alma Lísa Jóhannsdóttir aðalmaður, Olga Sveinbjörnsdóttir verður varamaður
Í skólanefnd verður Alma Lísa Jóhannsdóttir varamaður.
Samþykkt með 5 atkvæðum. fulltrúar D-lista sátu hjá.
VI. Önnur mál:
1. 0704030
Samþykkt um búfjárhald – síðari umræða
Bæjarstjórn samþykkir tillögu landbúnaðarnefndar um samþykkt um búfjárhald fyrir Sveitarfélagið Árborg.
2. 0508068
Tillaga bæjarfulltrúa D-lista um íbúakosningu vegna miðbæjarskipulags
Eyþór ArnaldsD-lista, tók til máls og fylgdi tillögunni úr hlaði:
Íbúakosning um miðsvæði Selfoss
Bæjarstjórn Árborgar samþykkir að fram fari íbúakosning um fram komnar hugmyndir af miðsvæði Selfoss; deiliskipulag að Austurvegi 51-59 og miðbæ Selfoss. Stefnt verði að því að kosningin fari fram svo fljótt sem verða má.
Greinargerð:
Ljóst er að framkomnar tillögur um miðsvæði Selfoss og Austurveg 51-59 eru afar umdeildar meðal íbúanna. Selfoss á einstakt tækifæri til að gera fyrsta flokks miðbæ sem verður að nýta af kostgæfni. Um er að ræða tvö aðskilin mál sem þó bera keim af sömu vinnubrögðum meirihlutans.
a) Miðsvæði Selfoss. Stofnað var til verðlaunasamkeppni á síðasta ári um miðbæ Selfoss og aðliggjandi svæði. Samkeppnin var bundin þröngum skilyrðum í samningi Miðjunnar ehf. og Sveitarfélagsins Árborgar dagsettum 5. apríl 2006. Í samningum er kveðið á um samkeppni sem Sveitarfélagið bar kostnað af. Verðlaunatillagan hefur verið í frekari vinnslu frá febrúar og hefur tekið verulegum og sífelldum breytingum. Kynningu hefur verið ábótavant, en á þeim fundum þar sem málið hefur verið kynnt hafa viðbrögð verið á einn veg: Neikvæð.
Veruleg verðmæti í eigu bæjarins eru bundin í lóðum í eigu hans á skipulagssvæðinu. Óvíst er hvernig þeir fjármunir nýtast í þeirri útfærslu sem liggur nú fyrir. Ráðstöfun á bæjargarðinum undir íbúðablokkir virðist grundvallast á því að uppfylla væntingar verktaka um aukið byggingarmagn. Þá hafa kaup bæjarins á „Pakkhúsinu" vakið undrun og spurningar sem enn er ósvarað.
Full ástæða er því til að leggja málið í dóm kjósenda.
b) Skipulagstillögur við Austurveg 51-59 voru keyrðar í gegn með flýtimeðferð rétt fyrir kosningarnar 2006. Verulegar athugasemdir bárust frá íbúum Mjólkurbúshverfisins vegna hæðar og hönnunar húsanna, auk þess sem arkitektar bentu á galla á skipulaginu. Þá gerði Skipulagsstofnun verulegar athugasemdir við skipulagið. Breytt tillaga var svo keyrð í gegn á bæjarstjórnarfundi í maí síðastliðnum án kynningar. Þá hafa íbúar falið lögmönnum að skoða réttarstöðu sína.
Málin eru um margt skyld bæði hvað varðar staðsetningu, nýtingarhlutfall og málsmeðferð. Ljóst er að veruleg andmæli íbúa hafa verið frá upphafi. Miðbær Selfoss og aðliggjandi svæði bjóða upp á gríðlegt tækifæri til framtíðar fyrir Sveitarfélagið Árborg. Mikilvægt er að vanda vinnu við skipulag miðsvæðis, taka tillit til sjónarmiða íbúa og hafa hagsmuni bæjarfélagins í fyrirrúmi. Með því að leggja framkomnar tillögur um skipulag til synjunar eða samþykktar svo fljótt sem verða má er verið að tryggja að ekki verði hér stórfellt skipulagsslys í andstöðu við íbúa.
Gert var fundarhlé.
Snorri Finnlaugsson, D-lista,Þorvaldur Guðmundsson, B-lista,Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista,Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, ogEyþór Arnalds, D-lista, tóku til máls.
Tillagan var borin undir atkvæði og felld með fimm atkvæðum gegn fjórum atkvæðum fulltrúa D-lista.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tók til máls og gerði grein fyrir atkvæði meirihlutans:
Bæjarstjórn Árborgar samþykkti vorið 2006 að haldin skyldi samkeppni um hönnun og deiliskipulag fyrir miðbæ Selfoss. Fulltrúar allra stjórnmálaflokka í síðustu bæjarstjórn voru sammála um að slík samkeppni væri besti kosturinn í málefnum miðbæjarins. Skipuð var sérstök dómnefnd sem m.a. vann greinargerð um forsendur sem liggja skyldu að baki tillögum þátttakenda í samkeppninni. Fulltrúar úr hópi bæjarfulltrúa voru þauÞorvaldur GuðmundssonB lista ogElfa Dögg ÞórðardóttirD lista.
Bæjarráð Árborgar staðfesti samhljóða niðurstöðu dómnefndarinnar í febrúar s.l. og fól bæjarstjóra að ganga til viðræðna við höfunda verðlaunatillögu, ASK arkitekta, um áframhaldandi vinnu við deiliskipulag á umræddu svæði. Jafnframt samþykkti bæjarráð samhljóða að skipa vinnuhóp til að vinna að deiliskipulagstillögu að svæðinu sem byggði á verðlaunatillögunni. Í vinnuhópnum áttu sæti fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn og hafa fulltrúar haft gott tækifæri til að koma sínum athugasemdum á framfæri á fundum og í fundargerðum vinnuhópsins.
Í vinnuferli vegna miðbæjarskipulags hafa ekki komið fram tillögur frá fulltrúum D lista um íbúakosningu og því vekur það ýmsar spurningar að nú á lokastigi hönnunarferilsins skuli þessi tillaga lögð fram og málefni Austurvegar 51-59 hafa þegar verið afgreidd á fundi bæjarstjórnar.
Meirihluti B, S og V lista telur íbúakosningu í stórum málum almennt vera góðan kost en í þessu umrædda máli var valin sú leið að þróa áfram verðlaunatillöguna sem meginhugmynd í nýjum miðbæ. Hefðu menn talið að kjósa ætti um mismunandi tillögur um skipulag miðbæjarins, hefði sú ákvörðun þurft að fylgja forsendum samkeppninnar ásamt reglum um hvernig kosningu skyldi hagað og með niðurstöðu hennar farið. Þetta var ekki gert heldur valin sú leið sem lýst hefur verið hér að framan og því tillaga um íbúakosningu á þessu stigi tímaskekkja. Bent er á að leitað var samráðs við fjölmarga aðila og athugasemdir skoðaðar með það í huga að skapa sem mesta sátt og besta niðurstöðu til framtíðar fyrir íbúa á Selfossi. Fulltrúar B, S og V lista.
Gert var fundarhlé.
Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls og gerði grein fyrir atkvæði bæjarfulltrúa D-lista:
Sveitarfélagið Árborg á einstakt tækifæri til að skipuleggja miðbæ og miðsvæði Selfoss. Þetta tækifæri gefst aðeins einu sinni. Þær hugmyndir sem liggja fyrir varðandi skipulagið eru það umdeildar að vart verður hjá því komist að staldra við. Sú leið að kanna afstöðu íbúa með kosningu er lýðræðisleg og mörg rök skipulagsleg, félagsleg og fjárhagsleg eru fyrir slíkri kosningu. Nú fyrst liggja fyrir endanlegar tillögur og því er fyrst nú unnt að leggja tillögurnar undir íbúa. Þá verður einfaldlega of seint að breyta því skipulagi sem nú liggur fyrir þegar byggingarleyfi hefur verið gefið út. Skipulag miðbæjarins getur lifað tugi ef ekki hundruði ára. Skipulag miðbæjar lifir oft lengur en einstök hús og í vaxandi bæ er rétt að staldra við áður en mistök eiga sér stað.
Ljóst er að forsendur samkeppni um miðbæ Selfoss hefur frá upphafi verið bundin þröngum skilyrðum samnings sveitarfélagsins við Miðjuna ehf. frá 5. apríl 2006. Meirihluti Samfylkingar og Framsóknarflokks sem stóðu að samningum mynda nú meirihluta með Vinstri grænum.
Vert er að vekja athygli á eftirfarandi í þessu sambandi:
Í 2. grein Miðjusamningsins segir: „Sveitarfélagið Árborg mun standa fyrir samkeppninni, bera ábyrgð á framkvæmd hennar og greiða kostnað sem af henni hlýst". Enn er óljóst hver heildarkostnaður vegna þessarar vinnu er, enda er enn unnið að breytingum á tillögunni.
Í 3. grein Miðjusamningsins segir: „..að leyft heildarbyggingarmagn/byggingarréttur á eignar- og leigulandi Miðjunnar ehf. sbr. 1gr. samkomulags þessa skuli vera sem næst 16.000m2 sem er hámarksnýtingarhlutfall þó ekki lægra nýtingarhlutfall en 1,9."
Það er með ólíkindum að sveitarfélag byndi hendur sínar með því að skilgreina lágmarksnýtingarhlutfall. Ekki síst svona hátt eins og um ræðir hér. Nær væri að geta um hámark eins og gert er í aðalskipulagi.
Þá segir: „Að auki skuldbindur Miðjan ehf. sig til að kaupa af Sveitarfélaginu Árborg byggingarrétt fyrir 8.800m2 húsnæði á lóð á miðsvæði innan deiliskipulagsreitsins sem nemur allt að 5.000m2."
Rétt er að vekja athygli á því að sveitarfélagið virðist ekki vera skuldbundið til að selja. Í 4. grein er fjallað um verð fyrir byggingarréttinn og er ljóst að hann er langt undir markaðsvirði.
Í 4. grein Miðjusamning