Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


10.5.2012

21. fundur fræðslunefndar

21. fundur fræðslunefndar Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014, haldinn fimmtudaginn 3. maí 2012  í Norðursal, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 17:15 

Mætt: Sandra Dís Hafþórsdóttir, formaður, D-lista, Brynhildur Jónsdóttir, nefndarmaður, D-lista, Þorsteinn G. Þorsteinsson, varamaður, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, nefndarmaður, S-lista, Andrés Rúnar Ingason, nefndarmaður, V-lista, Magnús Jóhannes Magnússon, fulltrúi skólastjóra, Helga Geirmundsdóttir, fulltrúi leikskólastjóra, Guðrún Thorsteinsson, fulltrúi kennara, Málfríður Garðarsdóttir, fulltrúi foreldra grunnskóla, Linda Rut Ragnarsdóttir, fulltrúi foreldra leikskóla, Hanna Rut Samúelsdóttir, fulltrúi starfsmanna, Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri.  

Dagskrá: 

1.

1204011 - Skipulagsbreytingar á fræðslusviði

 

Tillaga að nýju skipulagi tekin fyrir að nýju en hún snýr að því að sviðið sinni sjálft verkefnum og áherslum sem kveðið er á um í reglugerð um sérfræðiþjónustu nr. 584/2010 frá og með 1. janúar 2013 og að samningi við Skólaskrifstofu Suðurlands verði sagt upp fyrir 1. júlí. Ný gögn lögð fram, þ.e. yfirlýsing félagsmálastjóra, kynningarefni frá samráðsfundum, lausleg þýðing fræðslustjóra á nokkrum atriðum úr Ofsted skýrslu frá Englandi. Tillagan er samþykkt með þremur atkvæðum D-listans með bókun. Fulltrúi S-lista og V-lista greiddu atkvæði gegn tillögunni með bókun. 

Kjörnir fulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi bókun:  

˶Við undirrituð lýsum yfir fullum stuðningi við þær tillögur sem fræðslustjóri hefur lagt fram. Málið hefur verið unnið af heilindum og fagleg rök hafa verið færð fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til. Nýtt skipulag hefur marga kosti, m.a. þá að samþætta betur mismunandi þjónustuþætti sem snúa að börnunum, fjölskyldum þeirra og starfsfólki skólanna. Þá miðar skipulagið einnig að því að styðja enn betur við forvarnarstarf og efla snemmtækt mat og íhlutun þar sem horft er til margra þátta, svo sem námsvanda, félagslegs vanda og sálræns vanda. Vegna gagnrýni á félagsþjónustu er rétt að koma því á framfæri að unnið er að því að styrkja hana og efla. Mikilvægt er að það komi fram að ekki er um gagnrýni á vinnu skólanna eða Skólaskrifstofu Suðurlands að ræða. Þá viljum við leggja áherslu á að vilji er til áframhaldandi samstarfs í skólamálum við sunnlensk sveitarfélög en undir nýjum formerkjum. Málið var unnið í samstarfi við alla kjörna bæjarfulltrúa og fulltrúa flokkanna í fræðslunefnd.” 

Sandra Dís Hafþórsdóttir, Brynhildur Jónsdóttir og Þorsteinn G. Þorsteinsson, fulltrúar D-lista. 

Bókun frá fulltrúa S-lista í fræðslunefnd vegna skipulagsbreytinga  á fræðslusviði:

˶Undirrituð vill byrja á að þakka fræðslustjóra fyrir hans mikla vinnu­framlag í tengslum við undirbúning þeirrar tillögu sem hér er til umfjöllunar. Undirrituð getur ekki stutt fyrirliggjandi tillögu um breytingar á fræðslusviði með tilheyrandi úrsögn Sveitarfélagsins Árborgar úr Skóla­skrifstofu Suðurlands.  Þrátt fyrir að ágætir kynningarfundir hafi farið fram í kjölfar breytingartillögu fulltrúa S- og V-lista hefur í raun ekki verið kallað eftir sjónarmiðum lykilaðila þessa máls, kennara og sérkennara í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins, sem er algert grundvallaratriði þegar á að ráðast í svo umfangsmiklar breytingar. Undirrituð hefði viljað fara þá leið að umræddir aðilar ásamt fræðslustjóra og fulltrúum skólaskrifstofu hefðu í sameiningu skoðað hvernig við gerum góða sérfræðiþjónustu betri og unnið í framhaldinu þarfagreiningu og framtíðarsýn í sérfræðiþjónustu leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu.

Undirritaðri þykir ekki hafa verið lagðar fram upplýsingar sem sýna fram á nauðsyn þess að ákvörðun verði tekin  með þeim hraða sem einkennt hefur málið.  Meðal þeirra raka, sem sett hafa verið fram með umræddum skipulagsbreytingunum, eru að þjónusta við íbúa sveitarfélagsins verði betri því auka eigi samstarf og samræmingu innan velferðarþjónustu Árborgar. Í félagsþjónustu Árborgar ríkir nú mikil óvissa í starfsmannamálum sem gerir það að verkum að mjög óskynsamlegt væri að fara í svo stórar skipulagsbreytingar á þessum tímapunkti. Auk þessa ríkir mikil óvissa um fjármögnun  ART-verkefnisins en mikilvæg rök fyrir áframhaldandi fjárframlögum frá ríkinu í það verkefni hefur einmitt verið að það veitir þjónustu á Suðurlandi öllu.  

Með úrsögn úr Skólaskrifstofunni er Sveitarfélagið Árborg að tefla farsælu samstarfi sveitarfélaganna á Suðurlandi í tvísýnu og bregðast sínu hlutverki sem stærsta sveitarfélagið á Suðurlandi. Það skýtur skökku við að nú þegar formaður SASS er bæjarfulltrúi úr Árborg, skuli verið vegið á þennan hátt að dýrmætu samstarfi og möguleikum á enn frekari samvinnu og sameiningu sveitarfélaga með eflingu þeirra að leiðarljósi.

Í ljósi alls þessa telur undirrituð ekki  tímabært að gera umræddar skipulagsbreytingar á fræðslusviði og greiðir því atkvæði gegn tillögunni.” 

Arna Ír Gunnarsdóttir, fulltrúa S-lista. 

Fulltrúi V-listans gerði grein fyrir atkvæði sínu og tók undir bókun fulltrúa S-listans:

˶Ég þakka fræðslustjóra fyrir metnaðarfulla og vel unna skýrslu sem dregur saman þau markmið og vinnubrögð sem við viljum viðhafa í rekstri skóla okkar. Stóran hluta af því sem þar er lögð áhersla á erum við nú þegar að fá með þjónustu Skólaskrifstofu Suðurlands. Með úrsögn úr Skólaskrifstofunni kunna að opnast ný tækifæri, en ég tel að í málflutningi fulltrúa meirihluta bæjarstjórnar sé bæði vanmetið hvað tapast og ofmetið hvað menn halda að ávinnist í bættri þjónustu og ódýrari rekstri. Ég óttast að ef haldið verði í áformin um sparnaðinn, muni þjónustan skerðast en ekki batna.

Fyrir mér er ljóst að með úrsögn Árborgar úr Skólaskrifstofu Suðurlands mun skrifstofan leggjast af og þjónusta hennar dreifast á smærri byggðarsamlög auk fræðsluskrifstofu okkar. Með því verður ekki unnt að halda uppi jafn góðri þjónustu fyrir öll þau skólabörn sem þurfa á henni að halda og hætta á að sérþekking og reynsla tapist úr héraðinu.

Ég lýsi ánægju minni með að gefinn var tími til að kynna þetta mál aðeins betur fyrir hlutaðeigandi aðilum. Að vandlega íhugðu máli tel ég æskilegasta lausn þessa máls vera að vinna að þessum markmiðum í áframhaldandi samstarfi innan Skólaskrifstofu Suðurlands.

Því miður hafa umræður um fyrirkomulag skólaþjónustunnar hér í Árborg valdið tortryggni og ýms vanhugsuð orð fallið. Hvet ég því alla til að leggja sig fram um að þessi skilnaðaráform milli Árborgar og Skólaskrifstofu Suðurlands bitni ekki á börnunum.”

Andrés Rúnar Ingason, fulltrúi V-lista.

 

   

2.

1204029 - Foreldrakönnun í grunnskólum

 

Seinni umræða um niðurstöður foreldrakönnunar grunnskólabarna í Sveitarfélaginu Árborg (apríl 2012). Viðhorfskönnunin, sem er hluti af ytra mati sveitarfélagsins á starfi grunnskólanna, nýtist skólunum sem viðbótargagn í sjálfsmatsvinnu þeirra sem og í umbóta- og þróunarstarfi næstu mánaða. Unnið verður með niðurstöðurnar nú í vor og næsta haust. Þá nýtast niðurstöðurnar einnig í stefnumótunarvinnu sveitarfélagsins og fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2013. Fáum frekari kynningu frá skólunum í haust. 

Linda Rut Ragnarsdóttir yfirgaf fundinn kl. 18:26.

 

   

3.

1204181 - Álit - grunnskólar

 

Álit mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá 20. apríl 2012 lagt fram til kynningar. Það tekur til skiptingar skóladaga í grunnskólum milli kennsludaga og annarra daga. Í ljósi álitsins er skólastjóri BES beðinn um að lagfæra lítillega skóladagatal 2012-2013 að höfðu samráði við fræðslustjóra á þann hátt að dagatalið falli að túlkun ráðuneytisins.

 

   

4.

1101166 - Fundir leikskólastjóra, sérkennslufulltrúa. og fræðslustj.

 

Fundargerð frá 17. apríl 2012 til kynningar.

 

   

5.

1204180 - Álfheimafréttir 2012

 

Álheimafréttir í apríl 2012 til kynningar en þar er einnig fundargerð foreldraráðs frá 13. apríl sl. 

 

   

6.

1203083 - Foreldrafélag Sunnulækjarskóla

 

Fréttabréf í apríl 2012 til kynningar.

 

   

 Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 18:45

 

Sandra Dís Hafþórsdóttir

 

Brynhildur Jónsdóttir

Þorsteinn G. Þorsteinsson

 

Arna Ír Gunnarsdóttir

Andrés Rúnar Ingason

 

Magnús J. Magnússon

Helga Geirmundsdóttir

 

Guðrún Thorsteinsson

Málfríður Garðarsdóttir

 

Linda Rut Ragnarsdóttir

Hanna Rut Samúelsdóttir

 

Þorsteinn  Hjartarson


Þetta vefsvæði byggir á Eplica