Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


26.9.2012

21. fundur menningarnefndar

21. fundur menningarnefndar Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014, haldinn þriðjudaginn 25. september 2012  í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 06:45. 

Mætt: Kjartan Björnsson, formaður, D-lista, Björn Ingi Bjarnason, varaformaður, D-lista, Þorlákur H Helgason, nefndarmaður, S-lista, Bragi Bjarnason,  menningar- og frístundafulltrúi. 

Kristín Bára Gunnarsdóttir, verkefnastjóri sat einnig fundinn. 

Bragi Bjarnason ritaði fundargerð. 

Dagskrá: 

Almenn afgreiðslumál

1.

1204155 - Menningarmánuðurinn október 2012

 

Farið yfir dagskrá menningarmánaðarins október 2012. Dagskráin liggur að mestu fyrir en nokkur atriði skýrast endanlega á næstu dögum.

Dagskrárdrögin líta svona út í dag:

11. okt. - Kvæðamannakvöld í Litla leikhúsinu við Sigtún á Selfossi, 12.okt. - Styrktartónleikar Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri vegna flygils, 19.okt. - Októberfest í Gónhól á Eyrarbakka, 25.okt. - Afmælishátíð Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkeyri, 28.okt. - Byggðarhornsfjör - sögur og stemning úr sveitinni í Hvíta Húsinu á Selfossi. Fleiri dagskrárliðir gætu bæst við á næstu dögum.

Nefndin felur starfsmanni nefndarinnar að vinna dagskrána frekar og koma henni til kynningar og framkvæmda. Samþykkt samhljóða.  

 

   

2.

1201147 - Hátíðir í Sveitarfélaginu Árborg 2012

 

Farið yfir hátíðir sumarsins og þær upplýsingar sem hafa borist frá hátíðarhöldurum um framgang hátíðanna. Fram kemur að vel hafi tekist til með hátíðirnar og þakka þeir sem hafa sent skýrslu sveitarfélaginu fyrir þátt þess. Alltaf megi þó gera betur og verða allar ábendingar skoðaðar með það að leiðarljósi. Menningarnefnd þakkar þeim hátíðarhöldurum sem hafa sent inn yfirlit og öllum öðrum sem hafa komið að hátíðarhöldum í Sveitarfélaginu Árborg þetta árið.  

 

   

3.

1209161 - Vor í Árborg 2013

 

Málinu frestað til næsta fundar. Samþykkt samhljóða.

 

   

4.

1209165 - Fjárhagsáætlun 2013

 

Ákveðið að taka málið aftur upp á næsta fundi til frekari skoðunar og umræðu þegar meiri upplýsingar liggja fyrir. Samþykkt samhljóða. 

 

   

5.

1202261 - Söfnun upplýsinga um sögu húsa í Sveitarfélaginu Árborg

 

Formaður fer yfir þar að verkefnið verði sett af stað í samstarfi við Héraðsskjalasafn Árnesinga seinna í haust. Rætt um að fá forsvarsmenn héraðsskjalasafnsins inn á næsta fund nefndarinnar til að fara yfir þeirra hugmyndir að verkefninu. Samþykkt samhljóða.

 

   

6.

1209160 - Menningarráð Suðurlands

 

Málinu frestað til næsta fundar. Samþykkt samhljóða.

 

   

7.

1209163 - Fyrirspurn um Sandvíkurskóla

 

Þorlákur Helgi Helgason, nefndarmaður, S-lista, leggur fram eftirfarandi fyrirspurn:

"Ég óska eftir því að endurbætur á gamla Sandvíkurskóla verði á dagskrá. Það verði gerð grein fyrir hvað standi til, helstu breytingum og hvar fjallað hafi verið um endurnýjun húsnæðisins. Ég lít svo á að það sé eðlilegt að útlitsbreytingar og innri eigi m.a. að koma fyrir menningarnefnd. Um er að ræða hluta af sögu sveitarfélagsins, menningarlegri og byggingarsögulegri."

 

Þorlákur fylgdi fyrirspurn sinni úr hlaði. Sagði aðdraganda að breytingum hafa verið skamman og takmörkuð umræða í stjórnkerfinu um breytingarnar. Fyrir utan kirkjur væru fáar byggingar og önnur mannvirki á Suðurlandi friðaðar og tók dæmi af Melaskóla í Reykjavík sem væri byggður á sama tíma og Sandvíkurskóli og friðaður árið 1999.

 

Kjartan Sigurbjartsson, byggingafræðingur frá Proark, kom inn á fundinn til að fara yfir framkvæmdir og útlit hússins.

Kjartan fór yfir vinnuferlið sem hann hefur komið að. Skoðuð hafi verið framkvæmdasaga hússins og komið í ljós að þær breytingar sem hafa verið gerðar á því í gegnum tíðina séu ekki afturkræfar. Reynt hafi verið að hanna útlit hússins og innviði með það að leiðarljósi að nýta húsnæðið sem best til framtíðar sem og að minnka viðhald. Einnig kom fram að verið væri að hanna umhverfi Sandvíkurskóla með tillit til breyttrar notkunar sem og mögulegra framkvæmda við Sundhöll Selfoss.

 

Þorlákur Helgi Helgason, nefndarmaður, S-lista, leggur fram eftirfarandi bókun:

"Það á að vera hlutverk menningarnefndar Sveitarfélagsins Árborgar að gæta þess að minjar sem tákn og sögulegar minjar sem varpa ljósi á þróun byggðar í sveitarfélaginu séu varðveittar og skilað til komandi kynslóða með viðeigandi hætti. Sandvíkurskóli á Selfossi er hluti af órofa sögu fræðslustarfs í héraðinu og geymir minningar kynslóða sem hafa notið uppfræðslu og menntunar sl. 70 ár. Breytingar sem gerðar eru á húsnæði skólans hefðu átt að fara í nánari skoðun undir þessum formerkjum. Ég legg til að menningarnefnd verði framvegis falið að veita umsögn um þær byggingar og aðrar minjar áður en til breytinga eða endurbóta kemur."  Þorlákur Helgi Helgason    

 

   

Erindi til kynningar

8.

1209164 - Opin bókasöfn

 

Lagt fram til kynningar. Fram kom að haldin verði kynning á nýju aðgangskerfi fyrir bókasöfn á næstu dögum sem hafi reynst vel í Danmörku. Starfsmanni nefndarinnar falið að fara nánar yfir málið á næsta fundi nefndarinnar eftir að hafa séð kynninguna.

 

   

  

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 8:30 
  

Kjartan Björnsson

 

Björn Ingi Bjarnason

Þorlákur H Helgason

 

Bragi Bjarnason

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica