22. fundur bæjarstjórnar
22. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010, haldinn miðvikudaginn 29. ágúst 2007 kl. 17:00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi.
Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir:
Jón Hjartarson, forseti, V listi,
Margrét K. Erlingsdóttir B listi,
Ragnheiður Hergeirsdóttir S listi,
Gylfi Þorkelsson S listi,
Þorvaldur Guðmundsson B listi,
Eyþór Arnalds D listi
Grímur Arnarson D listi, varamaður Elfu Daggar
Þórunn Jóna Hauksdóttir D listi,
Elfa Dögg Þórðardóttir D listi
Auk þess situr fundinnÁsta Stefánsdóttir, bæjarritari, sem ritar fundargerð.
Dagskrá:
I. Fundargerðir til kynningar:
1. a) 0701035
Landbúnaðarnefnd frá 30.05.07
b) 0606112
Skipulags- og byggingarnefnd frá 07.06.07
c) 0504050
Byggingarnefnd Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri frá 04.06.07
b) 48. fundur bæjarráðs - 0701016 frá 14.06.07
2.a) 0701012
Félagsmálanefnd frá 11.06.07
b) 0701117
Menningarnefnd frá 13.06.07
c) 0701055
Skólanefnd frá 14.06.07
d) 0702011
Umhverfisnefnd frá 14.06.07
e) 0701068
Skipulags- og byggingarnefnd frá 14.06.07
f) 49. fundur bæjarráðs 0701016 frá 21.06.07
3. a)0701062
Leikskólanefnd frá 20.06.07
b)
Íþrótta- og tómstundanefnd frá 21.06.07
c) 0702011
Umhverfisnefnd frá 28.06.07
d) 0606112
Skipulags- og byggingarnefnd frá 29.06.07
e) 52. fundur bæjarráðs 0701016 frá 05.07.07
4. a) 0701068
Skipulags- og byggingarnefnd frá 12.07.07
b) 53. fundur bæjarráðs 0701016 frá 19.07.07
5. a) 0701068
Skipulags- og byggingarnefnd frá 26.07.07
b) 54. fundur bæjarráðs 0701016 frá 02.08.07
6. a) 55. fundur bæjarráðs 0701016 frá 02.08.07
7. a) 0703038
Framkvæmda- og veitustjórn frá 31.07.07
b) 0701068
Skipulags- og byggingarnefnd frá 09.08.07
c) 56. fundur bæjarráðs 0701016 frá 16.08.07
1c) Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, tók til máls um fundargerð byggingarnefndar Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri frá 04.06.07, 0504050:
Þegar sjálfstæðismenn voru í meirihluta var gerð áætlun um uppbyggingu húsnæðis fyrir Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þar kom fram að framkvæmdaútboð átti að fara fram 15. mars 2007 og uppbyggingu átti að vera lokið á Eyrarbakka 2008 og á Stokkseyri 2010. Þær tímaáætlanir sem núverandi meirihluti hefur gefið út hafa ekki staðist og breytingatillögur hafa verið margar frá upphaflegum hugmyndum. Nú er mál að komast af umræðustigi yfir á framkvæmdastig.
Bæjarfulltrúar D-lista.
2b) Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista tók til máls um fundargerð lista- og menningarnefndar frá 13.06.07, 0701117:
Vil að bókað sé að bæjarfulltrúi D-lista vekur athygli á því að þegar 8 mánuðir eru liðnir af árinu hefur nefndin komið saman 4 sinnum.
2e) Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, tók til máls um fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 14.06.07.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista tók til máls.
2.f) Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista tók til máls um 49. fund bæjarráðs 21.06.07, mál 3, 0706066:
Við gerum athugasemdir við að bæjarstjóri sé aðalmaður og fari með atkvæðisrétt á félagsfundi Sorpstöðvar Suðurlands vegna náinna fjölskyldutengsla við framkvæmdastjóra Förgunar ehf. og veltum því upp hvort bæjarstjórinn sé vanhæfur vegna þessa.
Bæjarfulltrúar D-lista
2e) Grímur Arnarson, D-lista tók til máls um fundargerð skipulags- og byggingarnefndar, mál 1-5, 0706047 og 0706051, og óskaði eftir að bókað yrði:
Fulltrúar sjálfstæðisflokksins fordæma yfirgang meirihluta bæjarstjórnar Árborgar gagnvart íbúum Mjólkurbúshverfisins Nær væri að vinna málið í sátt við íbúana.
2.f) Grímur Arnarson, D-lista tók til máls um 49. fund bæjarráðs, mál 5, 0611106:
Við gerum athugasemdir við aðÞorvaldur Guðmundsson ogGylfi Þorkelsson séu aðal- og varamaður Árborgar í bygginganefnd viðbyggingar við verknámshúsið Hamar við Fjölbrautaskóla Suðurlands, þar sem báðir eru starfsmenn skólans. Við veltum því upp hvort þeir séu vanhæfir vegna þessa.
Bæjarfulltrúar D-lista
Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista tók til máls.
2f) Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista tók til máls um fundargerð 49. fundar bæjarráðs, mál 10 0704141, og lagði fram svohljóðandi bókun:
Bæjarfulltrúar D-lista lýsa undrun sinni á og mótmæla jafnframt kaupum sveitarfélagsins á Pakkhúsinu. Starfsemi eina skemmtistaðarins á Selfossi hefur í framhaldinu verið lokað og einnig pizzastað sem í húsinu var og hlýtur það að teljast einsdæmi að sveitarfélag geri slíkt. Örlög hússins eru enn óljós og teljum við það skyldu meirihlutans að upplýsa bæjarbúa um framtíð þessa sögufræga húss.
Margrét K. Erlingsdóttir, B-lista, tók til máls.
2.f) Grímur Arnarson, D-lista tók til máls um 49. fund bæjarráðs, mál 10, 0704141.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tók til máls.
3b) Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista tók til máls um fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar frá 21.06.07 og lagði fram svohljóðandi bókun:
Vil að bókað sé að bæjarfulltrúi D-lista vekur athygli á því að þegar 8 mánuðir eru liðnir af árinu hefur nefndin komið saman 4 sinnum.
3e) Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls um fundargerð 52. fundar bæjarráðs, 4. mál, 0706080.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tók til máls.
Eyþór Arnalds,Elfa Dögg Þórðardóttir, ogÞórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista tóku til máls.
7a) Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista tók til máls um fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar frá 31.07.07 0703038.
II. Fundargerðir til staðfestingar:
a) 0701012
Félagsmálanefnd frá 13.08.07
b) 0701062
Leikskólanefnd frá 15.08.07
c) 57. fundur bæjarráðs 0701016 frá 23.08.07
-liður II. c) 57. fundur bæjarráðs, liður 4, 0602089, samstarfsnefnd um fuglafriðland og endurnýjun samnings um fuglafriðlandið. Mótatkvæði kom fram við afgreiðslu bæjarráðs og var skipan Maríu Hauksdóttur í samráðshóp um fuglafriðland borin undir atkvæði og samþykkt með fimm atkvæðum gegn atkvæðum fulltrúa D-lista.
Elfa Dögg Þórðardóttir,Eyþór Arnalds, D-lista,Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista,Þorvaldur Guðmundsson, B-lista, Jón Hjartarson, V-lista ogÞórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, tóku til máls.
Fundargerðin var borin upp til staðfestingar, að undanskildum þeim lið sem þegar hafði verið borinn undir atkvæði. Fundargerðin var staðfest samhljóða.
III. 0706031
Kosning varamanns fulltrúa D-lista í bæjarráð
Svo hljóðandi tillaga var lögð fram:
Bæjarstjórn samþykkir kosningu Snorra Finnlaugssonar sem varamanns Eyþórs Arnalds í bæjarráð.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa D-lista, fulltrúar B, S og V-lista sátu hjá.
IV. Önnur mál:
1. 0704031
Gjaldskrá fyrir búfjáreftirlit – síðari umræða
Gjaldskráin var samþykkt með sjö atkvæðum,Eyþór Arnalds, D-lista, ogGrímur Arnarson, D-lista, sátu hjá.
2. 0708111
Tillaga bæjarfulltrúa D-lista um byggingu fjölnota íþróttahúss.
Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls og lagði fram svohljóðandi tillögu bæjarfulltrúa D-lista:
"Bæjarstjórn Árborgar samþykkir að hefja þegar í stað undirbúning að byggingu fjölnota íþróttahúss við Engjaveg. Húsið verði 13.000 m2 að stærð hið minnsta og verði tekið í notkun fyrir árslok 2008. Farið verði þegar í stað í að finna samstarfsaðila sem áhuga hafa á að byggja húsið í einkaframkvæmd. Framkvæmdastjóra framkvæmda- og veitusviðs er falið að hefja undirbúning verksins og skila framkvæmda- og veitustjórn og bæjarráði fyrstu áfangaskýrslu um verkið eigi síðar en 15. október 2007."
Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Árborgar vilja tafarlausa uppbyggingu á fjölnota íþróttahúsi við Engjaveg. Íbúafjölgun kallar á framtíðaraðstöðu fyrir ört vaxandi íþróttastarf í Árborg. Einkaframkvæmd verkefnisins er hagkvæmur kostur fyrir stækkandi sveitarfélag.
Greinargerð
Rétt staðsetning
Staðsetning fjölnotaíþróttahúss við Engjaveg hefur marga kosti, enda hefur ÍSÍ ályktað um mikilvægi staðsetningar miðsvæðis, auk þess sem þetta kom fram á héraðsþingi HSK og í faglegu áliti KAÍS. Engjavegur er og verður mikilvægasti staður íþróttaiðkunar á Selfossi og hafa Sjálfstæðismenn verið á þeirri skoðun frá upphafi. Staðsetning íþróttahúss í nálægð við FSu hentar vel gagnvart umferð og íbúðabyggð.
Aðstaða í fremstu röð
Íþróttaaðstaða á Engjavegi þarf að vera í allra fremstu röð, hvort sem miðað er við Ísland eða nágrannalöndin. Hugmyndir Sjálfstæðismanna eru um 13.000m2 hús með möguleika á 4.000m2 viðbótarhúsnæði. Gert er ráð fyrir keppnisaðstöðu í knattspyrnu með viðeigandi ljósa og loftræstibúnaði, búningsaðstöðu og áhorfendasvæði. Ennfremur verði öðrum íþróttagreinum tryggð framtíðaraðstaða í húsinu auk þess sem útiaðstaða verði endurbætt. Óhagkvæmt er að fara út í bráðabirgðalausn sem síðar þarf að stækka með ærnum aukakostnaði. Hentugt er að nýta einkafjármögnun til að ljúka framtíðarlausn strax í upphafi.
Tími til kominn
Mikill stuðningur við fjölnotaíþróttahús við Engjaveg er meðal íbúa eins og fram hefur komið í könnunum Gallups, auk þess sem málið var áberandi í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Sambærileg uppbygging á sér stað í smærri sveitarfélögum og er kominn tími til að metnaðarfull aðstaða rísi í Árborg. Sjálfstæðismenn telja rétt að setja hönnun þegar af stað svo húsið geti verið risið í árslok 2008.
Þórunn Jóna Hauksdóttir,Eyþór Arnalds,Grímur Arnarson, D-lista,Gylfi Þorkelsson, S-lista, og Margrét K. Erlingsdóttir, B-lista, tóku til máls.
Tillagan var borin undir atkvæði og felld með fimm atkvæðum fulltrúa meirihluta bæjarstjórnar, gegn atkvæðum fulltrúa D-lista.
Gylfi Þorkelsson, S-lista, tók til máls og gerði grein fyrir atkvæði fulltrúa meirihlutans: Vinnuhópur sem ætlað er að fjalla um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Árborg mun skila áliti á næstu vikum. Minnihlutinn á fulltrúa í hópnum. Þar hefur m.a. verið rætt um byggingu fjölnota íþróttahúss á Selfossi. Meirihlutinn leggur áherslu á að við uppbyggingu íþróttamannvirkja sé unnið út frá heildstæðri framtíðarsýn. Því mun meirihlutinn ekki standa að samþykktum í þessum málaflokki fyrr en vinnuhópurinn hefur lokið störfum. Meirihlutinn lýsir yfir undrun sinni á því að minnihlutinn vilji samþykkja framkvæmd af þessari stærðargráðu án þess að með fylgi upplýsingar um kostnað og tillögur um fjármögnun. Einnig eru það undarleg vinnubrögð af flokki sem óskar eftir samstarfi að senda greinargerð og útskýringar með tillögum sínum 25 mínútum fyrir fund. Þá ítrekar meirihluti B, S og V lista þær fyrirætlanir sínar að halda áfram metnaðarfullri uppbyggingu íþrótta- og útivistarsvæða í sveitarfélaginu á yfirstandandi kjörtímabili.
Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, óskaði eftir fundarhléi, var það veitt.
Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls og gerði grein fyrir atkvæði bæjarfulltrúa D-lista með svohljóðandi bókun:
Fulltrúar D-lista lýsa yfir undrun með metnaðarlaus vinnubrögð meirihlutans. Vinnuhópur um íþróttamannvirki hefur ekki komið saman svo mánuðum skiptir og ekkert liggur fyrir um stefnu meirihlutans. Tillagan er hnitmiðuð og er ljóst að meirihlutinn greiðir hér atkvæði gegn fjölnotaíþróttahúsi við Engjaveg án þess að hreyfa við breytingartillögu. Málið á að vera hafið yfir pólitískar þrætur og ætti að nást full samstaða um það í bæjarstjórn.
3. 0708076
Tillaga bæjarfulltrúa D-lista um styrk vegna 60 ára afmælis Selfoss
Eyþór Arnalds tók til máls og lagði fram svohljóðandi tillögu bæjarfulltrúa D-lista:
Bæjarstjórn samþykkir að veita 700.000 í styrk til hátíðarhalda vegna 60 ára afmælis Selfoss.
Greinargerð:
Þéttbýliskjarnar Árborgar eiga sér allir merka sögu sem bæjaryfirvöld eiga að halda á lofti. Sveitarfélagið ætti því að marka sér þá stefnu að halda upp á stórafmæli líkt og Selfoss á nú og íbúar hafa tekið sig saman um að fagna með viðeigandi hátíðarhöldum að eigin frumkvæði. Slík hátíðarhöld eru sveitarfélaginu til framdráttar út á við og auka samkennd íbúa.
Grímur Arnarson, D-lista, tók til máls.
Tillagan var borin undir atkvæði og felld með fimm atkvæðum gegn atkvæðum fulltrúa D-lista.
Þorvaldur Guðmundsson, B-lista, gerði grein fyrir atkvæði fulltrúa B-, S- og V-lista
Meirihlutinn greiðir atkvæði gegn þessari tillögu enda er erindi frá forsvarsmanni hátíðarinnar til afgreiðslu í bæjarráði í fyrramálið, 30. ágúst.
Eyþór Arnalds, D-lista, gerði grein fyrir atkvæði fulltrúa D-lista:
Vonast er til að vel verði tekið í erindið sem liggur fyrir bæjarráði á morgun og fremur verði gert betur en gert er ráð fyrir í tillögu okkar, fremur en van.
Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, gerði athugasemdir við fundarsköp, að tillögu sé hafnað á þeirri forsendu að hún sé í bæjarráði. Bæjarstjórn er æðra vald en bæjarráð og ber því að afgreiða tillögur efnislega.
Forseti bæjarráðs tók umræðu um fundarsköp á dagskrá.
Gylfi Þorkelsson, S-lista,Eyþór Arnalds, D-lista,Þorvaldur Guðmundsson, B-lista,Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, og Margrét K. Erlingsdóttir, B-lista, tóku til máls.
4. 0708112
Tillaga bæjarfulltrúa D-lista um úttekt félagsþjónustu Grænumarkar frá 2003-2007.
Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, tók til máls og lagði fram svohljóðandi tillögu:
Bæjarstjórn samþykkir að gera úttekt á starfsmannaveltu og á meðalstarfsaldri í félagsþjónustu Grænumarkar frá 2003-2007. Úttektin taki til vaktfólks og starfsmanna heimaþjónustu. Bæjarstjórn felur bæjarráði að ráða viðurkenndan utanaðkomandi aðila til verksins.
Greinargerð:
Mikill órói hefur viðgengist í starfsmannamálum í Grænumörk í langan tíma og meðal annars hefur þurft að halda námskeið í mannlegum samskiptum. Starfsmannaskipti hafa verið ör og ekki hefur tekist að manna stöður eins og auglýsing um störf í Grænumörk, frá því í apríl, ber með sér. Íbúar Grænumarkar hafa ekki farið varhluta af ástandinu og því er það á ábyrgð bæjarstjórnar að láta óháðan utanaðkomandi aðila gera úttekt á starfsmannamálum.
Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, tók til máls.
Tillagan var borin undir atkvæði og felld með fimm atkvæðum fulltrúa meirihlutans, gegn atkvæðum fulltrúa D lista.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, gerði grein fyrir atkvæði meirihlutans:
Sérstök félagsleg þjónustu fyrir íbúa í Grænumörk 1, 3 og 5 hefur verið rekin af sveitarfélaginu í tæp fjögur ár. Framkvæmd hennar og útfærsla hefur breyst frá einum tíma til annars. Markmiðið hefur ávallt verið að veita góða þjónustu í samræmi við þörfina á hverjum tíma. Á tímum hefur reynst erfitt að fá fólk til starfa í allar stöður, sérstaklega í sumarafleysingar. Flestar þjónustustofnanir á sviði félags- og heilbrigðisþjónustu glíma við þetta sama vandamál ekki síst nú síðustu misseri þegar mikil þensla er á vinnumarkaði. Fjölskyldumiðstöð Árborgar hefur undanfarna mánuði lagt sérstaka áherslu á eflingu og styrkingu þessarar starfsemi m.a. með endurskoðun verkferla, starfslýsinga og reglna sveitarfélagsins um félagslega heimaþjónustu. Þá hefur fræðsla til starfsmanna og stjórnenda verið aukin. Meirihlutinn sér ekki tilgang þess að láta gera úttekt á starfsmannaveltu og meðalstarfsaldri starfsmanna Grænumarkar, enda vandséð að niðurstaða slíkrar úttektar varpi nýju ljósi á málin.
5. 0708113
Tillaga bæjarfulltrúa D-lista um skólavistun fyrir öll börn í 1. til 4. bekk á Selfossi
Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, tók til máls og lagði fram svohljóðandi tillögu:
Bæjarstjórn samþykkir að finna varanlega lausn á biðlista eftir vistunarplássum á Skólavistun Vallaskóla, Bifröst. Framkvæmdastjóra fjölskyldudeildar og verkefnisstjóra fræðslumála er falið að leggja tillögu fyrir bæjarráð.
Greinargerð:
Nú eru 56 börn á biðlista eftir vist á Bifröst, skólavistun Vallaskóla. Á Bifröst eru börn bæði úr Vallaskóla og Sunnulækjarskóla en framtíðinni liggur beint við að skólavist Sunnulækjarskóla verði í viðbyggingu austan megin við skólann. Þrátt fyrir fólksfjölgun undanfarinna ára á Selfossi hefur vistunarplássum ekki fjölgað og síðasta vetur var viðvarandi biðlisti eftir plássum. Nauðsynlegt er að finna strax varanlega lausn á þessum vaxandi vanda svo biðlisti eftir vistunarplássum á skólavistun heyri sögunni til.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, óskaði eftir fundarhléi. Var það veitt.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tók til máls og lagði fram breytingartillögu:
Bæjarstjórn samþykkir að finna varanlega lausn á málefnum skólavistunar á Selfossi. Málið er þegar í vinnslu hjá framkvæmdastjóra Fjölskyldumiðstöðvar, verkefnistjóra fræðslumála og skólastjórum. Bæjarstjórn leggur þunga áherslu á að niðurstaða fáist í málið sem allra fyrst.
Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, óskaði eftir fundarhléi. Var það veitt.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tók til máls og dró breytingartillöguna til baka.
Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls.
Tillagan var borin undir atkvæði og felld með fimm atkvæðum fulltrúa meirihlutans gegn fjórum atkvæðum fulltrúa D-lista.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, gerði grein fyrir atkvæði meirihlutans:
Málefni skólavistunar á Selfossi eru þegar í vinnslu hjá framkvæmdastjóra Fjölskyldumiðstöðvar, verkefnisstjóra fræðslumála og skólastjórum, með það að markmiði að öll börn í 1.- 4. bekk eigi kost á skólavistun. Meirihluti bæjarstjórnar leggur þunga áherslu á að niðurstaða fáist í málið sem allra fyrst og harmar að ekki skuli nást samstaða með minnihlutanum.
Eyþór Arnalds, D-lista gerði grein fyrir atkvæði minnihlutans:
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma það að ekki skuli nást samstaða um tillögur um varanlega lausn. Meirihlutinn kom ekki með raunverulega breytingartillögu um málið og hér kemur það fyrst fram að eitthvað sé unnið í þessu máli enda hefur málið ekki verið rætt í skólanefnd. Þung áhersla ein og sér dugar börnunum lítið og hefðu verið hæg heimantökin að samþykkja tillögu okkar enda eru það frumskilyrði til að takast á við vanda að horfast í augu við hann og viðurkenna hann. Það á við um biðlistana eins og annan vanda.
Margrét K. Erlingsdóttir, B-lista, gerði athugasemd við að greinargerðir með tillögum bæjarfulltrúa D-lista, hafi verið færðar til bókar í fundargerðinni þar sem þær hafi ekki fylgt fundarboði og ekki verið óskað eftir að þær væru bókaðar.
Forseti bæjarstjórnar úrskurðaði að greinargerðirnar skyldu standa í fundargerð og athugasemd Margrétar færð til bókar.
Þórunn Jóna Hauksdóttir, undirritar fundargerð með fyrirvara um fundarsköp.
Fleira ekki gert. Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl. 20:15.
Jón Hjartarson
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Gylfi Þorkelsson