Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


12.6.2009

22. fundur lista- og menningarnefndar

22. fundur lista- og menningarnefndar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn þriðjudaginn 9. júní 2009 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 17:00

Mætt:
Andrés Rúnar Ingason, formaður, V-lista,
Ingveldur Guðjónsdóttir, nefndarmaður B-lista,
Kjartan Björnsson, nefndarmaður D-lista,
Andrés Sigurvinsson, verkefnisstjóri íþrótta-, forvarna- og menningarmála,

Margrét I. Ásgeirsdóttir forstöðumaður Bókasafns Árborgar mætti á fundinn og gerði grein fyrir máli no. 5 og yfirgaf fundinn að máli loknu.

Dagskrá:

1. 0902064 - Vor í Árborg 2009
Verkefnisstjóri rakti gang mála, hvernig til hefði tekist með framkvæmd hinna fjölmörgu atriða sem voru á dagskrá menningarhátíðarinnar í maí sl. Almennt gengu hlutirnir mjög vel fyrir sig, jöfn og góð þátttaka var á flesta atburðina. Alltaf má þó gera betur og ætla skipuleggjendur að boða tll fundar 11. júní nk. í Ráðhúsi Árborgar kl. 20:00 með öllum þeim er komu að dagskrá Vorsins. Fara yfir málin, ræða þau atriði sem betur hefðu mátt fara varðandi undirbúning og framkvæmd og færa til betri vegar fyrir Vor í Árborg 2010.
LMÁ vill þakka öllum sem sendu inn hugmyndir/ tillögur og/ eða komu að undirbúningi og/eða framkvæmd dagskráratriða á Vori í Árborg dagana 21. - 24. maí sl., og hvetur hlutaðeigendur til að mæta á fyrirhugaðan fund þann 11. júní nk í Ráðhúsinu.
Bókun frá fulltrúa D-lista:
Er það stefna meirihluta menningarnefndar og þar með stjórnar Sveitarfélagsins Árborgar að menningarnefnd sitji hjá og fylgist með úr fjarlægð þegar stærsta menningarhátíð ársins í sveitarfélagsins fer fram? Framkvæmd og ákvarðanataka sé í höndum hvers og á ábyrgð hvers? Hvert er þá hlutverk menningarnefndar, ef ekki á strærsta menningarviðburði ársins í sveitarfélagsins?
Meirihluti V- lista og B- lista bókaði
Það var frá upphafi ljóst á hvern hátt þessi hátíð yrði undirbúin, skipulögð og framkvæmd. Ákveðið var að fela verkefnisstjóra að auglýsa eftir hugmyndum og/eða tillögum að dagskráratriðum frá íbúum sveitarfélagsins eins og tíðkast hefur undanfarin ár. Nefndarmenn fóru síðan yfir þær tillögur í megindráttum og fólu verkefnisstjóra í framhaldi af því að vinna þær áfram í samráði við hlutaðeigandi aðila. Meirihlutinn telur sig hafa verið upplýstan allan tímann og ekki á neinn hátt verið settan hjá. Meirihlutinn vill sérstaklega þakka verkefnisstjóra og Braga Bjarnasyni íþrótta-og tómstundafulltrúa velunnin störf varðandi hátíðarhöldin.
Fyrirspurn frá fulltrúa D-lista:
Hver var kostnaður sveitarfélagsins vegna Vors í Árborg 2009? Var kostnaður tekinn af kostnaði og/eða rekstri menningarnefndar. Hver var kostnaður sveitafélagsins af uppákomum á stóra sviðinu í Iðu á vorinu 2008? Og á Vorinu 2009? Gott væri að fá skiptingu kostnaðar vegna þeirrar hátíðar?
Bókun meirihluta, V-lista og B-lista vegna fyrirspurnar.
Meirihlutinn felur verkefnisstjóra að svara þessum fyrirspurnum þegar endanleg gögn fyrir hátíðarhöldin 2009 liggja fyrir.



2. 0902066 - Menningarnótt í Reykjavík 2009
Sveitarfélagið Árborg verður gestasveitarfélag á Menningarnótt í Reykjavík 22. ágúst næstkomandi. Verkefnisstjóri upplýsti að þegar hefðu borist nokkrar beiðnir um þátttöku í þeim viðburði frá nokkrum aðilum. Á fundi þeim sem haldinn verður 11. júní nk. sbr. mál no. 1, verður kannaður áhugi þeirra, sem tóku þátt í Vorinu í maí að koma með atriði sín og flytja /sýna á menningarnótt í Reykjavík. Verkefnisstjóri telur nauðsynlegt að fá sérstaka faglega aðstoð við að hanna og skipuleggja væntanlegar sýningar og dagskráratriði inn í salarrýmið í Ráðhúsi Reykjavíkur og leggur LMÁ til að það verði gert. LMÁ hvetur sömuleiðis íbúa til að taka þátt í mótun sýningar- og dagskráratriða sveitarfélagsins á Menningarnótt og undirstrikar mikilvægi þessa viðburðar til víðtækar kynningar á Sveitarfélaginu Árborg og listamönnum sem þar starfa.

3. 0906034 - Samráðsfundur Samtaka verslunar og þjónustu í Árborg
Verkefnisstjóri upplýsti að 25 manns hefðu mætt á fyrsta samráðsfund SVÞÁ, sem haldinn var í Ráðhúsi Árborgar 19. maí í framhaldi af samþykkt bæjarstjórnar frá 15. apríl sl. Að tillögu bæjarstjóra var samþykkt að stofna sérstakan stýrihóp sem héldi utan um málin í framtíðinni og kæmi þeim í farveg hverju sinni. Eftirtaldir voru kosnir í stýrihópinn á fundinum: Bjarni Kristinsson, frá Samtökum verslunar og þjónustu í Árborg og fer hann fyrir hópnum, Ásbjörn Jónsson, hótelstjóri, Hótel Selfossi, Anna S. Árnadóttir, Gallerí Gónhól, Eyrarbakka, Andrés Sigurvinsson, verkefnisstjóri íþrótta-, forvarna- og menningarmála hjá Sv.Árborg og enn á eftir að skipa fulltrúa frá Stokkseyri og verður það gert næstu daga.
Fyrsti fundur stýrihópsins verður núna á næstu dögum að sögn Bjarna Kristinssonar formanns SVÞ í Árborg.
LMÁ fagnar framtakinu og þakkar upplýsingarnar og hvetur jafnframt alla þá sem áhuga hafa á að koma að og taka virkan þátt í störfum samráðshópsins að hafa samband við einhvern meðlima stýrihópsins.

4. 0905164 - Þjónustubæklingur fyrir Árborgarsvæðið
Formaður Samtaka verslunar og þjónustu í Árborg, Bjarni Kristinsson upplýsti verkefnisstjóra, að þjónustubæklingurinn væri væntanlegur úr prentun og tilbúinn til dreifingar næstu daga. LMÁ þakkar upplýsingarnar og fagnar framtakinu.




5. 0810132 - Hundrað ára afmæli Bókasafns Árborgar 2009
Margrét I. Ásgeirsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Árborgar fór yfir helstu atriði varðandi afmælishaldið sem tókst með miklum ágætum. Bókasafninu voru færða góðar gjafir í tilefni afmælisins. Sömuleiðis gerði forstöðumaður grein fyrir sumarlestrarnámskeiði barna núna í júní og er það í 17. skiptið í ár sem það er haldið. Hún afhenti fundarmönnum greinagerð um 100 ára afmælishátíð Bókasafns Árborgar og fleiri gögn. LMÁ þakkar forstöðumanni komuna og greinagóðar upplýsingarnar.

6. 0903053 - Samstarf- Ísl. dansflokkurinn og Sveitarfélagið Árborg
Eins og fram hefur komið í fréttamiðlum sýndi stór hópur unglingsstráka í Árborg samnemendum sínum í Vallaskóla og BES nútímadans á dögunum við mikinn fögnuð viðstaddra. Íslenska dansflokkurinn með Peter Andersson, aðalkennara í fararbroddi þjálfaði. Sömuleiðis voru námskeið fyrir nemendur í Sunnulækjarskóla. ID sýndi síðan tvo dansverk í Iðu á Vori í Árborg. LMÁ fagnar framtakinu og vonar að framhald verði á samstarfi I.D og grunnskólanna í Sveitarfélaginu Árborg.


7. 0905130 - Sprell ehf - leiktæki ofl fyrir börn - fyrirspurn um aðstöðu
Verkefnisstjóri upplýsti að fyrirtækið hefði aðallega verið að kanna hvaða opin svæði væru hugsanlega fáanleg til afnota fyrir tæki og tól sín í stuttan tíma núna í sumar. Sprell er sama fyrirtæki og var með leiktækin fyrir utan Vallaskóla á sýningunni Árborg 2007. LMÁ þakkar upplýsingarnar.


8. 0902008 - Alþýðufræðsla á Íslandi, málþing í haust
Verkefnisstjóri upplýsti að fyrirhugað væri að halda málþingið um Alþýðufræðslu á Íslandi um mánaðarmótin september / október næst komandi. Eins og fram hefur komið þurfti að fresta því síðast liðið vor vegna ýmissa ófyrirséðra atvika. LMÁ þakkar upplýsingarnar.


9. 0906007 - Styrktarsjóður EBÍ 2009
LMÁ felur verkefnisstjóra að sækja um styrk úr Styrktarsjóði EBÍ til málþingsins um Almenningsfræðslu sem halda á í haust sbr. mál no. 8 og tengist á ákveðinn hátt vinnu að undirbúningi að stofnun Skólasöguseturs á Eyrarbakka.


10. 0906005 - Fjölskylduskemmtanir Kraðaks sumarið 2009
LMÁ þakkar upplýsingarnar og vonar að Leikhópurinn Lotta sem er meðlimur Kraðaks láti sjá sig á Árborgarsvæðinu í sumar.


11. 0904202 - Kynning á KLÁR Ráðgjöf - þjónusta á sviði ferðamála
LMÁ þakkar Kjartani Lárussyni upplýsingarnar og kynningarerindi.

12. 0906013 - Aðstaða fyrir hljómsveitir í Pakkhúsi-ungmennahúsi
Verkefnisstjóri upplýsti að verið væri að kanna möguleika á að auka við rými í kjallara Pakkhússins í vestur, sem notað yrði undir aðstöðu fyrir hljómsveitir, listasmiðjur, netkaffihús og aðra starfsemi sem tengdust aldrinum 16 - 25 ára + LMÁ þakkar upplýsingarnar og hvetur til að allra leiða verði leitað til að af stækkun geti orðið á aðstöðu ungmenna í Pakkhúsinu.


13. 0906023 - Veraldavinir, erlendir sjálfboðaliðar í ágúst í S.Á.
Tuttugu manna hópur sjálfboðaliða frá Suður Evrópu og víðar / Salsahópurinn, sem kemur á vegum Veraldavina munu heimsækja okkur hér í sveitarfélaginu í ágúst komandi. Þau munu dvelja hérna frá 4. - 18. ágúst og hafa aðsetur sitt að Stað Eyrarbakka. Hópurinn mun m.a. taka þátt í að hreinsa ströndina við Eyrarbakka og Stokkseyri, vinna með Jóhanni Óla og fleirum við uppbyggingu í friðlandinu við Eyrarbakka, heimsækja og kynna menningu sína fyrir leikskólabörnum, eldri borgurum og almenningi. Einnig munu þeir taka virkan þátt í hátíðarhöldunum á Sumri á Selfossi. Katrín Georgsdóttir, sérfræðingur umhverfismála í Árborg verður aðal tengiliður hópsins ásamt Andrési Sigurvinssyni, verkefnisstjóra og Guðmundi Karli Sigurdórssyni, forsvarsmanni Sumars á Selfossi. Verkefnið er styrkt af utanaðkomandi aðilum. LMÁ þakkar upplýsingarnar og fagnar komu hópsins.


14. 0906035 - Hreinsun og uppsetning á skúlptúrnum Gretti e. Sigurjón Ólafsson og styttan af Jakobínu Jakobsdóttur,kennara.
Eins og fram hefur komið hefur skúlptúrinn Grettir e. Sigurjón Ólafsson gert víðreist eftir að hann féll af stalli sínum í jarðskjálftanum stóra á síðasta ári. Listasafn Árnesinga fékk hann lánaðan í tilefni samsýningar á verkum kennd við Picasso, síðan fór hann að bókasafninu á Stokkseyri í tilefni sýningar á verkum Sigurjóns á Vori í Árborg. Verkefnisstjóri hefur verið í sambandi við Birgittu Spur, forstöðumanns Listasafns Sigurjóns í Reykjavík varðandi fyrirhugaða hreinsun á verkinu um hvaða leið væri best að fara varðandi þá aðgerð. Nú er komin niðurstaða og mun Listasafn Sigurjóns í Reykjavík senda sérfræðing hingað austur og vinna verkið við Þjónustuhús Byggðarsafns Árnesinga. Á sama tíma verður stöpullinn sem verkið stóð á lagfærður. Þess verður væntanlega ekki langt að bíða að skúlptúrinn Grettir, öðru nafni Dauði Grettis, sem gerður er úr grásteini og gefinn var á Eyrarbakka 1970 tróni fljótlega á stalli sínum aftur í Einarshöfn.
Sömuleiðis kom fram að styttan af Jakobínu Jakobsdóttur, kennara, sem staðsett var í BES var send í lagfæringu og hreinsun til Danmerkur á síðasta ári og í framhaldi af því á samsýningu í Fedriksborgarhöll í Kaupmannahöfn. Styttan er nú komin aftur til landsins og mun á næstu dögum verða vistuð fyrst um sinn hjá Byggðasafni Árnesinga. Birgitta Spur, forstöðumaður sá um alla framkvæmd varðandi utanlandsför Jakobínu og eru henni og Listasafni Sigurjóns færðar bestu þakkir sem og fyrir ráðgjöf og hjálp varðandi skúlptúrinn Gretti. Sömuleiðis vill Listasafn Árnesinga koma á framfæri þakklæti fyrir lánið á Gretti svo og Bókasafn Árborgar. LMÁ tekur undir þakkir til Birgittu og þakkar upplýsingarnar.


15. 0906038 - Hvatning vegna samstarfsverkefna við Sv.Árborgar
LMÁ vill hvetja alla þá, sem þiggja fjárstyrki eða eru styrktir á annan hátt af sveitafélaginu í gegn um gagnkvæma þjónustusamninga, að halda þau ákvæði samninganna, að geta þess ávallt bæði í ræðu og riti að verkefnið/in séu styrkt af Sveitarfélaginu Árborg.


16. 0904218 - Sumarblað Íþrótta- og tómstundamála í Árborg 2009
LMÁ fagnar útkomu þessa upplýsingarits og færir þeim er komu að undirbúningi og framkvæmd bestu þakkir.







Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 18:30

Ingveldur Guðjónsdóttir Andrés Rúnar Ingason
Andrés Sigurvinsson Kjartan Björnsson
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica