23. fundur framkvæmda- og veitustjórnar
23. fundur framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014 haldinn miðvikudaginn 26. október 2011 að Austurvegi 67, Selfossi, kl. 08:10
Mætt:
Elfa Dögg Þórðardóttir, formaður, D-lista,
Ingvi Rafn Sigurðsson, nefndarmaður, D-lista,
Tómas Ellert Tómasson, nefndarmaður, D-lista,
Eggert Valur Guðmundsson, nefndarmaður, S-lista,
Bjarni Harðarson, nefndarmaður, V-lista,
Jón Tryggvi Guðmundsson, tækni- og veitustjóri.
Dagskrá:
1. 1006066 - Mögulegir virkjanakostir í Sveitarfélaginu Árborg
Páll Bjarnason tæknifræðingur kom á fundinn og kynnti hugmyndir að rennslisvirkjun allt að 10 MW.
Stjórnin ákvað að óska eftir minnisblaði um hagkvæmni og ásýnd árinnar og umhverfis. Kostnaðaráætlun vegna minnisblaðsins verður lögð fram áður en verkið hefst.
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, sat hjá við afgreiðslu málsins og lagði fram eftirfarandi bókun:
Í framhaldi kynningu um hugsanlegar minni útfærslu á virkjun í Ölfusá vill undirritaður ítreka þá skoðun sína að hætt verði við allar hugmyndir um virkjun í Ölfusá við Selfoss.
Það er einnig umhugsunarefni fyrir meirihlutann hvort eðlilegt sé að eyða almannafé í vinnu við margvíslegar útfærslur virkjanakosta, áður en samkomulag liggur fyrir við veiðiréttareigendur og vatnsréttarhafa um framkvæmdina.
Veiðifélag Árnesinga hefur fyrir hönd veiðiréttareigenda eindregið mótmælt virkjanahugmyndum meirihluta bæjarstjórnar Árborgar.
Veiðiréttareigendur hafa bent á að ein af verðmætustu hlunnindum jarða í dag eru lax- og silungsveiði.
Einnig hefur komið fram hjá landeigendum að verði röskun á fiskgengd og/eða netalögnum, munu þeir láta reyna á hvers virði stjórnarskrárvarinn eignaréttur þeirra er á hlunnindum sem fylgt hafa jörðum þeirra um aldir.
Bjarni Harðarson lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi V-lista í veitustjórn hefur áður lagt fram tillögu um að gerð sé almenn og fagleg úttekt á umhverfis- og ásýndaráhrifum virkjunar í bæjarlandinu. Sú tillaga sem nú liggur frammi er viðleitni í þá veru og skref í þá átt að firra vatnasvæði Ölfusár raski.
Fulltrúar D-lista tóku undir bókun V-lista.
2. 1110113 - Fjárfestingaráætlun 2012
Fyrstu drög að fjárfestingaráætlun lögð fram til kynningar. Afgreiðslu frestað til næsta fundar.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 10:00
Elfa Dögg Þórðardóttir
Ingvi Rafn Sigurðsson
Tómas Ellert Tómasson
Eggert Valur Guðmundsson
Bjarni Harðarson
Jón Tryggvi Guðmundsson