Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


7.12.2009

23. fundur íþrótta- og tómstundanefndar

23. fundur íþrótta- og tómstundanefndar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn fimmtudaginn 3. desember 2009 í Norðursal, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 17:15

Mætt:
Gylfi Þorkelsson, formaður, S-lista,
Helgi Sigurður Haraldsson, nefndarmaður B-lista,
Óskar Sigurðsson, nefndarmaður D-lista,
Bragi Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi,

Dagskrá:

1. 0911287 - Kjör íþróttakonu og karls Árborgar 2009

Íþrótta- og tómstundafulltrúi lagði fram tillögu að breytingum á reglugerð um kjör íþróttakonu og íþróttakarls Árborgar. ÍTÁ samþykkti breytingar á 5.gr. reglugerðarinnar á þann veg að þar sem nefndarmönnum í ÍTÁ hefur verið fækkað úr fimm í þrjá að atkvæði ÍTÁ fækki um sömu tölu. ÍTÁ felur íþrótta- og tómstundafulltrúa að sjá um framkvæmd kjörsins samkvæmt reglugerð þar um. ÍTÁ leggur til að formaður, varaformaður og íþrótta- og tómstundafulltrúi skipi undirbúningsnefnd fyrir Uppskeruhátíð ÍTÁ sem verði haldinn 29.desember nk. í sal FSu og hefjist kl.20:00. Samþykkt samhljóða.

2. 0904183 - Útiklefar við Sundhöll Selfoss

Íþrótta- og tómstundafulltrúi upplýsti að búið sé að opna nýju útiklefana við Sundhöll Selfoss og almenn ánægja sé með tilkomu þeirra. Fram kom að mannvirkið sé 153 fm. að stærð og hver klefi taki um 60 sundlaugargesti sem er tvöföldun miðað við gömlu útiklefana. 8 sturtur eru í hverjum klefa, þar af ein köld. Aðstaða fyrir fatlaða hefur bæst til muna en séraðstaða er fyrir fatlaða sem og aðstoðarmann. Heildarkostnaður við verkið er um 34 milljónir króna en verkið var unnið af Vörðufelli ehf og Ræktunarsambandi flóa og skeiða. Verkfræðistofan Verkís sá um hönnunina. ÍTÁ þakkar upplýsingarnar og fagnar opnun nýju útiklefanna, að aðstaða sundlaugargesta hafi batnað og þá sérstaklega aðstaða fatlaðra.

3. 0910065 - Fræðslu- og forvarnarstefna Umf. Selfoss

Fræðslu- og forvarnarstefna Umf. Selfoss var lögð fram til kynningar. Fram kom ánægja nefndarmanna með stefnuna og hvetur ÍTÁ félaga í Umf. Selfoss til að fylgja stefnunni vel eftir þannig að hún skili tilætluðum árangri. Framkvæmdastjóri Umf. Selfoss hefur t.a.m. tekið sæti í aðgerðahópi um forvarnarmál í Sveitarfélaginu Árborg sem fundar einu sinni í mánuði. Auk framkvæmdastjóra Umf. Selfoss eiga fulltrúar Fjölskyldumiðstöðvar Árborgar, félagsmálanefndar Árborgar, lögreglunnar, heilbrigðistofnunar og skólanna sæti í aðgerðahópnum. Vel hefur verið staðið að forvarnarmálum í sveitarfélaginu en til stendur að gefa út endurbætta forvarnarstefnu sem og aðgerðaáætlun í byrjun nýs árs.

4. 0908130 - Ungmennaþing í Árborg

Íþrótta- og tómstundafulltrúi upplýsti um nýafstaðið ungmennaþing sem haldið var 8.nóvember sl. Fjöldi ungmenna kom saman í Pakkhúsinu, skipti sér í fimm mismunandi málefnahópa og ræddi hver hópur um sérstök málefni innan Sveitarfélagsins Árborgar. Verið er að vinna úr niðurstöðum þingsins og verður skýrsla afhent bæjarstjórn Árborgar. Fulltrúar í ungmennaráði Árborgar, UNGSÁ sáu um skipulagningu þingsins í samráði við íþrótta- og tómstundafulltrúa og starfsmenn Pakkhússins. ÍTÁ þakkar ungmennaráði, íþrótta- og tómstundafulltrúa og starfsmönnum Pakkhússins fyrir þetta metnaðarfulla framlag. Einnig vill ÍTÁ koma þökkum til þeirra fjölmörgu ungmenna sem að sóttu þingið og lögðu sín lóð á vogarskálarnar til betra samfélags.

5. 0911298 - Skipulagsbreytingar í íþrótta- og tómstundamannvirkjum

Íþrótta- og tómstundafulltrúi upplýsti um þær skipulagsbreytingar sem hafa átt sér stað í íþrótta- og tómstundamannvirkjum Árborgar. Fram kom að vegna hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins hafi verkefnisstjóri íþrótta-, forvarna- og menningarmála og íþrótta- og tómstundafulltrúi lagt fram eftirfarandi tillögur um skipulagsbreytingar í íþrótta- og tómstundamannvirkjum en þær hafa þegar komið til framkvæmda. Breytingarnar voru: Starf forstöðumanns sundlaugarinnar á Stokkseyri og Sundhallar Selfoss var sameinað og gegnir Þórdís Eygló Sigurðardóttir því starfi forstöðumanns sundlauga Árborgar. Starf umsjónarmanns félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuzar og Ungmennahússins, Pakkhússins var einnig sameinað og gegnir Anna Þorsteinsdóttir starfi forstöðumanns tómstundahúsa Árborgar. Bergur Tómas Sigurjónsson, forstöðumaður íþróttahúss Vallskóla hefur verið settur yfir íþróttahúsið Stað á Eyrarbakka og íþróttahúsið á Stokkseyri. ÍTÁ þakkar upplýsingarnar og tekur undir mikilvægi þess að hagrætt sé í rekstri Sveitarfélagsins Árborgar eins og kostur er án þess að ganga nærri þjónustu við íbúa og þá sérstaklega börn og ungmenni.

6. 0607065 - Landsmót UMFÍ 2013

Íþrótta- og tómstundafulltrúi upplýsti um kynnisferð sem hann og framkvæmdastjóri framkvæmda og veitusviðs fóru til Akureyrar 6.nóvember sl. Fram kom að þeir hefðu hitt starfsmenn Akureyrarbæjar sem komu að undirbúningi Landsmóts UMFÍ sem haldið var á Akureyri sl. sumar. Ferðin var mjög gagnleg og nýtist Sveitarfélaginu Árborg vel við undirbúning Landsmóts UMFÍ sem haldið verður á Selfossi 2013. Farið var yfir aðkomu Akureyrarbæjar að Landsmótinu og samvinnu við UMFÍ. Kynningarmál rædd og samvinna íþróttasviðs Akureyrarbæjar og Akureyrarstofu sem sér um markaðs- og kynningarmál Akureyrarbæjar. Einnig voru skoðuð íþróttamannvirki Akureyrarbæjar en nýr íþróttavöllur, stúka og æfingasvæði voru tekin í notkun á Akureyri sl. sumar. Auk þess voru akstursíþróttasvæði Akureyrarbæjar skoðuð og aflað upplýsinga um urðunarmál. ÍTÁ þakkar upplýsingarnar og ítrekar mikilvægi þess að undirbúningur Sveitarfélagsins Árborgar fyrir Landsmótið 2013 sé góður.

7. 0911299 - Íþróttaakademíur FSu

Íþrótta- og tómstundafulltrúi fjallaði um þau mál sem komið hafa upp hjá íþróttaakademíum FSu í haust og niðurstöður þeirra. ÍTÁ þakkar upplýsingarnar og vill hrósa forsvarsmönnum þeirra akademía sem hafa tekið af festu á agabrotum sem teljast að jafnaði til undantekninga. Miklu máli skiptir að allar akademíurnar séu samstíga enda eru forvarnir og barátta gegn vímuefnaneyslu ein mikilvægasta forsendan fyrir stuðningi sveitarfélagsins við rekstur akademíanna.

8. 0911300 - Peningaspil í grunnskólum og félagsmiðstöð

Íþrótta- og tómstundafulltrúi fór yfir málið. Fram kom að send hefði verið tilynning um málið til foreldra í 8. - 10.bekk í gegnum mentor frá grunnskólunum. ÍTÁ tekur undir efni tilkynningarinnar og hvetur foreldra til að upplýsa unglingana sína um hættur fjárhættuspila og mögulegar afleiðingar þeirra.

9. 0909051 - Hagir og líðan ungs fólks í Árborg 2009

Rætt var um skýrslur Rannsóknar og greiningar um hagi og líðan ungs fólk. Fram kom að Álfgeir Logi Kristjánsson frá Rannsókn og greiningu hafi komið á fund stóra forvarnarhóps Árborgar 10.nóvember sl. og ræddi um skýrslurnar sem og stöðu mála í Árborg, sem er góð miðað við landið. Fram kom að almennt er aukning áfengisdrykkju á Íslandi milli 10.bekkjar grunnskóla og 1. árs í framhaldsskóla um 160% sem er ekki gott. ÍTÁ hvetur foreldra og aðra sem koma að forvörnum í Árborg til dáða en vel hefur gengið í forvarnarmálum í Árborg sl. ár þó alltaf megi gera betur.

10. 0911001 - Safnahelgi á Suðurlandi 2009

Íþrótta- og tómstundafulltrúi upplýsti um þátttöku íþrótta- og tómstundamannvirkja Árborgar í Safnahelgi á Suðurlandi 2009. Félagsmiðstöðin Zelsíuz í samstarfi við leikfélag NFSu, Byggðasafn Árnesinga og Menningarráð Suðurlands stóð fyrir verkefninu Leikið á safninu en ungmenni úr Zelsíuz stóðu þá fyrir lifandi leik í Húsinu á Eyrarbakka um Safnahelgina. Sundhöll Selfoss tók einnig þátt í helginni og var með uppskriftir að gómsætum réttum í heitum pottum sundlaugarinnar. Ungmennahúsið, Pakkhúsið var síðan í samstarfi við Reykjavík international film festival (RIFF) og Menningarráð Suðurlands en kvikmyndahátíðin RIFF var haldin í Pakkhúsinu þessa helgi. ÍTÁ þakkar öllum þeim starfsmönnum sem komu að þessum verkefnum og þá sérstaklega Þórdísi Eygló Sigurðardóttur, forstöðumanni sundlauga Árborgar og Önnu Þorsteinsdóttur, forstöðumanni tómstundahúsa Árborgar.

11. 0910059 - Karlakóramót í íþróttahúsi Vallaskóla

Íþrótta- og tómstundafulltrúi upplýsti að Karlakór Selfoss hafi nýtt íþróttahús Vallaskóla undir stórt karlakóramót 31. október sl. Allt hafi gengið vel og tónleikarnir verið hin mesta skemmtun. ÍTÁ þakkar upplýsingarnar.

12. 0909112 - Ályktun - forvarnir og lýðheilsa

Ályktun frá 35.landsþingi Kvenfélagasambands Íslands lögð fram til kynningar. ÍTÁ tekur undir efni bréfsins og bendir á að unnið sé hörðum höndum að því í sveitarfélaginu að standa vörð um hag barna og ungmenna.

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 18:15

Gylfi Þorkelsson
Helgi Sigurður Haraldsson
Óskar Sigurðsson
Bragi Bjarnason


Þetta vefsvæði byggir á Eplica