Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


25.2.2016

24. fundur framkvæmda- og veitustjórnar

24. fundur framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2014-2018, haldinn miðvikudaginn 10. febrúar 2016 að Austurvegi 67, Selfossi, kl. 08:10.  Mætt: Gunnar Egilsson, formaður, D-lista, Ragnheiður Guðmundsdóttir, nefndarmaður, D-lista, Viktor Pálsson, nefndarmaður, S-lista, Helgi Sigurður Haraldsson, nefndarmaður, B-lista, Jón Tryggvi Guðmundsson, framkvæmda- og veitustjóri, Guðjón Guðmundsson, varamaður, D-lista.  Helgi S. Haraldsson var tímabundinn og fór af fundi eftir afgreiðslu á lið nr.3. Dagskrá: 
Almenn afgreiðslumál
1. 1512037 - Tillaga UNGSÁ um samgöngumál
Stjórnin þakkar ungmennaráði Árborgar fyrir ábendingar og áhuga á sínu umhverfi. Liður 1. Ávallt er reynt að sinna vetrarþjónustu eins og aðstæður leyfa. Unnið er eftir skipulagi þar sem þjónusta við öldrunarheimili, skóla og stofnleiðir eru í forgangi. Liður 2. Umræddur stígur er ekki inni á skipulögðu heilsárs göngustígakerfi sveitarfélagsins og því er ekki áætlað að lýsa stíginn. Liður 3. Ekki er gert ráð fyrir kaupum og uppsetningu á strætóskýlum í fjárfestingaráætlun ársins 2016. Stjórnin leggur til að málið verði skoðað við fjárfestingaráætlun næsta árs.
2. 1512038 - Tillaga UNGSÁ um útivistarsvæði í Árborg
Liður 1. Skógræktarfélag Selfoss annast umsjón og umhirðu með Hellisskógi. Ábendingum verður komið á framfæri við fulltrúa félagsins. Liður 2. Tillaga um merkingar á hlaupa- og hjólaleiðum er í afgreiðslu hjá íþrótta- og menningarnefnd Árborgar.
3. 1510214 - Breyting á gjaldtöku í Tjarnabyggðk
Framkvæmdastjóri kynnti vinnu við breytingar á gjaldtöku hitaveitu í Tjarnabyggð. Í máli hans kom fram að óháður aðili hefur verið fenginn til að gera athuganir á inntakshitastigi og -þrýstingi í Tjarnabyggð ásamt því að gera stöðuúttekt á hitakerfum og greiningu á hugsanlegum bilunum í hitakerfum húsa og tillögur að úrbótum. Þessi þjónusta stendur öllum íbúum Tjarnabyggðar til boða. Fram kom á fundinum að inntakshitastig og -þrýstingur er áþekkur og hjá öðrum íbúum í dreifbýli og hjá íbúum á Stokkseyri og Eyrarbakka. Í þau hús sem eru fjærst stofnlögnum er ákveðið að setja upp hemil á húshitun og mæli á aðra notkun. Þetta er gert til að tryggja hitastig á stofnlögnum í Tjarnabyggð. Bókun frá Helga S. Haraldssyni, fulltrúa B-lista: Undirritaður gerir athugasemdir við ákvarðanatöku, undirbúning og framkvæmd breytinga á sölu á heitu vatni í Tjarnabyggð. Þrátt fyrir að rökstyðja megi að sú breyting hafi verið heimil samkvæmt samningum sem gerðir voru á sínum tíma um sölu á heitu vatni í hverfið, var illa að þessum breytingum staðið og hefðu þær þurft mun meiri undirbúning. Samráð við íbúa vantaði algjörlega, athugun á hitastigi vatns í hverfinu, áhrif breytinganna á húshita o.s.frv. Er það skoðun undirritaðs að málið verði skoðað upp á nýtt og betri rannsókn fari fram á þeim breytingum sem þetta hefur í för með sér fyrir íbúa og kostnað sem þessu fylgir. Fulltrúar D-lista bóka eftirfarandi: Íbúar í Tjarnabyggð hafa haft ótakmarkað heitt vatn. Við lítum svo á að með þessum aðgerðum sé verið að jafna stöðu íbúa í sveitarfélaginu. Fulltrúa B-lista var fullkunnugt um framkvæmd þessa máls. Á fundum stjórnar þann 28. október 2015 var tekin sú ákvörðun um að breyta notkunargjöldum í Tjarnabyggð. Ákvörðunin var samþykkt samhljóða. Þann 20. janúar 2016 var málið tekið aftur fyrir á fundi og engar athugasemdir gerðar af hálfu fulltrúa B-lista.
4. 1507013 - Rannsóknir og jarðhitaleit í nágrenni við Selfosskirkju og Ölfusárbrú
Framkvæmda- og veitustjóri fór yfir framkvæmd borana við Ölfusá. Beðið er eftir skýrslu frá ÍSOR um niðurstöður verksins.
5. 1507014 - Rannsóknir og jarðhitaleit í Laugardælum
Framkvæmda- og veitustjóri lagði fram skýrslu frá ÍSOR varðandi frekari möguleika á jarðhitavinnslu í Laugardælum og Þorleifskoti.
6. 1602064 - Aðalskipulag Flóahrepps 2016- lagnaleiðir veitna við nýja brú yfir Ölfusá
Stjórnin felur framkvæmda- og veitustjóra að koma á framfæri hugmyndum um lagnaleiðir veitna í tengslum við aðalskipulagsvinnu Flóahrepps.
7. 1602065 - Ráðning - staða verkstjóra þjónustumiðstöðvar Árborgar
Framkvæmda- og veitustjóra falið að auglýsa eftir verkstjóra í þjónustumiðstöð Árborgar.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 10:50 Gunnar Egilsson Ragnheiður Guðmundsdóttir Viktor Pálsson Helgi Sigurður Haraldsson Jón Tryggvi Guðmundsson Guðjón Guðmundsson  

Þetta vefsvæði byggir á Eplica