24. fundur íþrótta- og tómstundanefndar
24. fundur íþrótta- og tómstundanefndar Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn miðvikudaginn 7. apríl 2010 í Norðursal, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 17:15
Mætt:
Gylfi Þorkelsson, formaður, S-lista,
Helgi Sigurður Haraldsson, nefndarmaður B-lista,
Bragi Bjarnason. íþrótta- og tómstundafulltrúi,
Bragi Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi ritaði fundagerð.
Óskar Sigurðsson, nefndarmaður D-lista boðaði forföll sem og Einar Guðmundsson varamaður D-lista.
Dagskrá:
1. 1003184 - Heildræn skóla- og frístundastefna
ÍTÁ leggur til að hafinn verði undirbúningur að gerð sameiginlegrar skóla- og frístundastefnu fyrir sveitarfélagið, með það að markmiði að samhæfa áherslur og leiðir í skólagöngu og frístundum barna, skapa samfellu í daglegu starfi þeirra og fjölga samverustundum fjölskyldna. Með endurskoðun gildandi skipulags og vinnuferla gefast jafnframt tækifæri til hagræðingar, skilvirkari nýtingar fjármuna og ný sóknarfæri til að bæta góða þjónustu.
Greinargerð:
Börn og ungmenni eru helstu auðlindir hvers samfélags. Breytilegt er hvernig haldið er utan um þessa auðlind og hún virkjuð til góðra verka, en það sem skiptir höfuðmáli er að hvert samfélag sé sér meðvitað um stöðu sína hvað gæði og framsetningu málaflokkanna varðar m.t.t. annarra sambærilegra sveitarfélaga. Sveitarfélög þurfa ávallt að vera tilbúin að endurskoða opinberar stefnur og áætlanir og svara kalli tímans hvað breytingar og þróun varðar.
Ekkert samfélag má né getur staðið í stað, sagt sem svo að svona hafi þetta alltaf verið, á sama tíma og þjóðfélagið allt er á fleygiferð. Slíkur hugsanaháttur býður aðeins upp á stöðnun og afturför.
Eitt helsta markmiðið með sameiginlegri skóla- og frístundastefnu er að sem flest börn og ungmenni hafi samfellu í skóla- og frístundastarfi, þ.e, ljúki skóla-, íþrótta-, list- og öðru tómstundastarfi á sama tíma og foreldrar ljúka sínum vinnudegi. Þannig fær fjölskyldan meiri tíma til samveru sem er grunnatriði í gæðasamfélagi.
Tilgangur heildrænnar skóla- og frístundastefnu fyrir sveitarfélagið er fyrst og fremst sá, að samhæfa áherslur og leiðir, renna styrkari stoðum undir skóla- og frístundastarf og koma í veg fyrir hver konar mismunun þannig að öll börn og ungmenni sveitarfélagsins fái notið sem bestra uppeldisskilyrða og menntunar. Þannig mótist þau sem ánægðir, ábyrgir og virkir þjóðfélagsþegnar.
Á krepputímum, þegar nauðsynlegt er að spara fé og draga saman útgjöld, gefst einnig gott tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt, leita nýrra leiða í stað hinna gömlu, samhæfa og samræma starf mismunandi aðila sem vinna hver í sínu lagi að sömu markmiðunum, og sækja þannig fram til betri árangurs en fyrr.
Leitað verði eftir víðtæku samstarfi við hagsmunaaðila innan sem utan sveitarfélagsins við gerð stefnunnar til að endurspegla sem best vilja samfélagsins varðandi þessi mál, svo og yrði haft náið samstarf við mennta- og menningarmálaráðuneytið varðandi þessa stefnumótun.
Samþykkt samhljóða.
ÍTÁ mælir með við bæjarráð að hefjast handa við undirbúning málsins að fenginni umsögn fræðslunefndar.
2. 1003195 - Gjaldskrá íþróttahúsa í Árborg
Farið var yfir tillögur að gjaldskrá íþróttahúsa Árborgar og þær ræddar. ÍTÁ leggur til við bæjarráð að þær verði samþykktar og íþrótta- og tómstundafulltrúa falið að koma nýrri gjaldskrá til framkvæmda frá og með 1.maí 2010.
3. 1001181 - Ungmennalandsmót UMFÍ sumarið 2012
ÍTÁ fagnar því að Sveitarfélagið Árborg ætli í samstarfi við HSK að sækja um að halda unglingalandsmót UMFÍ sumarið 2012. Það er til marks um þann mikla metnað sem sveitarfélagið hefur í málaflokknum, en Sveitarfélagið Árborg verður sem kunnugt er gestgjafi Landsmóts UMFÍ árið 2013.
4. 1002189 - Endurskoðuð forvarnarstefna S.Á. 2010-2013 og aðgerðaráætlun
Fram kom að forvarnarstefna og aðgerðaáætlun Sveitarfélagsins Árborgar 2010 - 2013 sé tilbúin og muni verða dreift inn á öll heimili í Árborg á næstu dögum. ÍTÁ þakkar báðum forvarnarhópunum fyrir þeirra vinnu, Andrési Sigurvinssyni, verkefnisstjóra íþrótta-, forvarna- og menningarmála sem stýrði endurskoðuninni, fulltrúum Rannsóknar og greiningar, sem og öðrum sem komu að gerð stefnunnar og aðgerðaáætlunarinnar.
5. 0912054 - Vor í Árborg 2010
Fram kom að ákveðið hefur verið í bæjarráði að Vor í Árborg 2010 fari fram dagana 13. - 16. maí nk. ÍTÁ hvetur íbúa í Árborg til að taka þátt í hátíðarhöldunum, og sérstaklega fjölskyldum að taka þátt í Gaman Saman fjölskylduleiknum sem fer fram samhliða Vori í Árborg.
6. 1003093 - Ráðstefna - ungt fólk og lýðræði 2010
Fram kom að tveir fulltrúar úr ungmennaráði Árborgar sæki ráðstefnuna ásamt forstöðumanni tómstundahúsa Árborgar. Mikilvægt er að halda tengslum við önnur ungmennaráð í landinu en markmið ráðstefnunnar er að skapa umræðuvettvang fyrir ungmenni sem starfa í ungmennaráðum um land allt. Þema ráðstefnunnar er lýðræði og mannréttindi.
7. 1003202 - Æskan - rödd framtíðarinnar
Boð um þátttöku í ráðstefnunni: Æskan - rödd framtíðarinnar sem fer fram 20. - 21.maí nk. Lagt fram. ÍTÁ leggur til að fulltrúar frá sveitarfélaginu fari á ráðstefnuna enda mikilvægt að starfsmenn sveitarfélagsins taki þátt í umræðum um málefni ungs fólks.
8. 1002111 - Upptökustúdíó í Pakkhúsinu
Íþrótta- og tómstundafulltrúi upplýsir að búið sé að setja upp upptökustúdíó og aðstöðu fyrir fatahönnun í Pakkhúsinu fyrir ungmenni. Aðstaðan hefur verið gerð af notendum hússins í samstarfi við starfsmenn og undir leiðsögn fagmanna í tónlistargeiranum. Aðstaðan verður vígð formlega á Drepstokk sem er menningarhátíð ungs fólks á Suðurlandi en hún verður haldin í Pakkhúsinu dagana 15. - 18. apríl nk.
9. 1003054 - Rekstrarsamningur íþróttavallasvæðis við Engjaveg árið 2010
Íþrótta- og tómstundafulltrúi upplýsir að Sveitarfélagið Árborg hafi samið við Umf. Selfoss um áframhaldandi rekstur á íþróttasvæðinu við Engjaveg. Samningurinn er til eins árs en miklar framkvæmdir standa nú yfir á svæðinu og því var ákveðið að semja aðeins til eins árs í þetta sinn.
10. 1003149 - Ályktun á aðalfundi Frjálsíþróttadeildar UMF.Selfoss
Ályktun frá aðalfundi frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss sem haldinn var í Tíbrá, 21.mars sl. lögð fram. ÍTÁ tekur undir að mjög mikilvægt sé að framkvæmdir við íþróttasvæðið haldi áfram svo notendur geti byrjað að nýta það sem fyrst og telur að umsókn sveitarfélagsins um að halda unglingalandsmót UMFÍ árið 2012 undirstriki þann ásetning að ljúka uppbyggingunni á næstu árum og fullklára vallarsvæðið.
11. 1003052 - Smiðjan-nýtt hlutverk
Íþrótta- og tómstundafulltrúi upplýsir að hópur einstaklinga í atvinnuleit hafi fengið samþykki fyrir því að nýta smiðjuna, sem staðsett er að Austurvegi 36. Aðstöðuna á að nýta t.d. til að skapa ný atvinnutækifæri. ÍTÁ þakkar upplýsingarnar og óskar þessum einstaklingum til hamingju með aðstöðuna sem vonandi nýtist sem best.
12. 0912097 - Skólahreysti 2009
Íþrótta- og tómstundafulltrúi fjallar um þátttöku grunnskóla Árborgar í Skólahreysti 2010. Fram kom að Vallaskóli og Sunnulækjarskóli hafi tekið þátt og staðið sig með miklum sóma, t.a.m endaði Sunnulækjarskóli í fjórða sæti í Suðurlandsriðlinum. Fjölmennt stuðningslið nemenda úr skólunum fór til að hvetja sín lið en félagsmiðstöðin Zelísuz sá um að skipuleggja ferð stuðningsliðsins.
13. 1003046 - Vefurinn ganga.is um ferðamennsku og útivist
Kynningarbréf frá Ungmennafélag Íslands lagt fram. Fram kom að UMFÍ ætli að gefa verkefnum á sviði almenningsíþrótta enn meira vægi í starfsemi félagsins með það að markmiði að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi hreyfingar og hollra lifnaðarhátta. ÍTÁ tekur undir þessi orð og hvetur íbúa Árborgar til að kynna sér verkefni UMFÍ á heimasíðu þess www.umfi.is
14. 1003024 - Forvarnardagurinn 2010
Skýrsla um niðurstöður forvarnardagsins 2009 lögð fram. ÍTÁ tekur undir mikilvægi þess að sveitarfélög séu vakandi fyrir jákvæðum hugmyndum sem létt geta fjölskyldum dægurþrasið án mikils tilkostnaðar. ÍTÁ hvetur alla til að kynna sér niðurstöður forvarnardagsins á www.forvarnardagur.is.
15. 1002185 - Lýðheilsuverkefnið öruggt samfélag
Kynningarbæklingur um verkefnið Öruggt samfélag lagður fram. Fram kom að alþjóðleg ráðstefna um öruggt samfélag verður haldin í Reykjavík dagana 19. - 20. maí nk. ÍTÁ þakkar upplýsingarnar.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 18:00
Gylfi Þorkelsson
Helgi Sigurður Haraldsson
Bragi Bjarnason