Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


1.10.2019

25. fundargerð hverfisráðs Eyrarbakka

Fundargerð 25. fundar hverfisráðs Eyrarbakka
  1. mars 2019
Árið 2019, sunnudaginn 10. mars kl. 16:00 kom hverfisráð Eyrarbakka saman til fundar í samkomu-húsinu Stað á Eyrarbakka. Fundinn sátu Magnús Karel Hannesson, Drífa Pálín Geirs, Guðmundur Ármann Pétursson, Sigmar Ólafsson og Vigdís Sigurðardóttir, sem ritaði fundargerð. Að auki sátu fundinn bæjarfulltrúarnir Brynhildur Jónsdóttir og Eggert Valur Guðmundsson. Fundargerðin var færð í tölvu. Þetta var tekið fyrir:
  1. Skipan hverfisráðs Eyrarbakka
Lögð fram tilkynning ritara bæjarstjóra, dags. 24. janúar 2019, þar sem tilkynnt er kjör bæjarstjórnar á fundi 16. janúar 2016 á fjórum fulltrúum í hverfisráð Eyrarbakka. Einnig lagður fram tölvupóstur frá formanni bæjarráðs, dags. 7. mars 2019, um kjör fimmta manns í hverfisráð og eins til vara. Í Hverfisráði Eyrarbakka sitja eftirtaldir íbúar á Eyrarbakka: Magnús Karel Hannesson formaður, Drífa Pálín Geirs, Guðmundur Ármann Pétursson, Sigmar Ólafsson og Vigdís Sigurðardóttir. Varamaður er: Esther H. Guðmundsdóttir. Að auki hafa seturétt á fundum hverfisráðsins með málfrelsi bæjarfulltrúarnir Brynhildur Jónsdóttir og Eggert Valur Guðmundsson
  1. Kosning varaformanns og ritara
Lögð fram tillaga um varaformann og ritara hverfisráðs Eyrarbakka, sbr. 4. gr. samþykktar fyrir hverfisráð Sveitarfélagsins Árborgar frá 9. febrúar 2011. Kosin voru Guðmundur Ármann Pétursson varaformaður og Vigdís Sigurðardóttir ritari.
  1. Samþykkt fyrir hverfisráð í Sveitarfélaginu Árborg
Samkvæmt ósk, sem fram kom á sameiginlegum fundi hverfisráða í Sveitarfélaginu Árborg, bæjarfulltrúa og bæjarstjóra þann 25. febrúar 2019, var fjallað um samþykkt fyrir hverfisráð Sveitarfélagsins Árborgar frá 9. febrúar 2011 og hugsanlegar breytingar á samþykktinni. Formaður lagði fram tillögu að nýrri samþykkt fyrir hverfisráðin og gerði grein fyrir henni. Hver einstök grein var rædd og gerðar nokkrar breytingar á orðalagi tillögunnar, samkvæmt ábendingum og tillögum fundarmanna. Vigdís Sigurðardóttir ræddi um kjör í hverfisráð – hvort ætti að kjósa fulltrúa í þau beinni kosningu á íbúafundum, með hvaða hætti væri hægt að formgera þann vettvang og hvort kjósa ætti hluta fulltrúa árlega þó þannig að fulltrúar sætu að jafnaði tvö ár í hverfisráði. Að umræðum loknum var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða: Hverfisráð Eyrarbakka hefur á fundi sínum þann 10. mars 2019 fjallað um samþykkt fyrir Hverfisráð Sveitarfélagsins Árborgar frá 9. febrúar 2011, sbr. ósk sem fram kom á sameiginlegum fundi hverfisráðanna í Sveitarfélaginu Árborg, bæjarstjórnar og bæjarstjóra þann 25. febrúar 2019. Það er álit Hverfisráðs Eyrarbakka að taka þurfi samþykktina til gagngerrar endurskoðunar og skilgreina betur markmið og hlutverk hverfisráðanna. Í núgildandi samþykkt fyrir hverfisráðin er hlutverk og umboð hverfisráðanna óskýrt, þau eru ósýnileg og valdalaus. Efla þarf hverfisráðin og gera þau að virkum þátttakendum í stefnumótun hverfanna í Sveitarfélaginu Árborg. Þá þarf að gera ráð fyrir kosningu í hverfisráð í samþykktum um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins og draga upp stöðu þeirra í skipuriti sveitarfélagsins í samræmi við skýrt hlutverk þeirra og umboð. Þá er það skoðun Hverfisráðs Eyrarbakka, að sanngjarnt sé að fulltrúar í hverfisráðum Sveitarfélagsins Árborgar fái eðlilega þóknun fyrir framlag sitt, eins og fulltrúar í öðrum nefndum sveitarfélagsins. Hverfisráð Eyrarbakka samþykkir að senda bæjarstjórn tillögu þá, sem lögð var fram á fundi hverfisráðsins 10. mars 2019, að nýjum samþykktum fyrir hverfisráð sveitarfélagsins, með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum. Tillagan í endanlegri mynd er fylgiskjal með fundar-gerðinni. Hverfisráðið hvetur bæjarstjórn til þess að samþykkja tillöguna sem nýja samþykkt fyrir hverfisráð Sveitarfélagsins Árborgar sem allra fyrst. Hverfisráð Eyrarbakka leggur einnig til að bæjarstjórn skoði með hvaða hætti væri hægt að taka upp beina kosningu fulltrúa í hverfisráðin, t.d. á íbúafundum eða með öðrum hætti, og tengja hverfisráðin á þann hátt betur íbúunum í hverju hverfi fyrir sig. Formanni jafnframt falið að senda tillöguna og ályktunina formönnum í öðrum hverfisráðum sveitarfélagsins til upplýsingar.
  1. Næstu fundir
Rætt var um tímasetningu næstu funda, en engar ákvarðanir teknar. Formanni og ritara falið að ganga frá fundargerðinni. Fundi slitið kl. 17:25. Magnús Karel Hannesson                            Vigdís Sigurðardóttir

Þetta vefsvæði byggir á Eplica