Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


18.2.2010

25. fundur lista- og menningarnefndar

25. fundur lista- og menningarnefndar Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn miðvikudaginn 17. febrúar 2010 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 17:00

Mætt:Andrés Rúnar Ingason, Ingveldur Guðjónsdóttir, Kjartan Björnsson, Andrés Sigurvinsson.

Fundarmenn samþykktu samhljóða að taka inn á dagskrá með afbrigðum mál no:1002127, Lesið í lauginni.

Margrét I. Ásgeirsdóttir, fráfarandi forstöðukona Bókasafns Árborgar, kom á fundinn og gerði grein fyrir málum no: 1002127, 1002112 og 0812007. Að lokum þakkaði Margrét samvinnu og óskaði Bókasafni Árborgar, Selfossi, Stokkseyri og Eyrarbakka svo og öllum viðstöddum góðs gengis í framtíðinni.

Fundarmenn þökkuðu henni sömuleiðis skemmtilegt og gefandi samstarf í gegn um tíðina, en það eru rúm 14 ár sem Margrét hefur gengt starfi forstöðukonu og óskuðu henni velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi. Margét yfirgaf fundin að þessu öllu loknu.

Dagskrá:

1. 0912054 - Vor í Árborg 2010

LMÁ leggur til að Vor í Árborg 2010 fari fram dagana 13. - 16. maí nk., og verði aðaláherslan á helgina. Jafnframt felur nefndin verkefnisstjóra að auglýsa eftir hugmyndum að dagskrá hátíðarhaldanna frá íbúum sveitarfélags og að þau verði á svipuðum nótum varðandi uppbyggingu og verið hefur undanfarin ár. Lögð verði sérstök áhersla á þátttöku allrar fjölskyldunnar og þar verði "Gaman saman sem fjölskylda" fjölskylduleikurinn látinn spila stóra rullu og skipulagður sérstaklega með börn og ungmenni í huga.

2. 1001011 - Höggmyndin Grettir á stall

LMÁ hefur ekkert fyrir sitt leyti að athuga við þá hugmynd Óskars Magnússonar og nokkurra annarra íbúa á Eyrarbakka, að finna skúlptúrnum Gretti nýjan stað til að standa á til frambúðar. LMÁ leggur til, að áður en í framkvæmdir verði farið, verið í samráði við forstöðumann Byggðarsafns Árnesinga, haft samband og samráð við Birgittu Spur, ekkju listamannsins og forstöðumann Listasafns Sigurjóns Ólafssonar varðandi fyrirhugaðan flutning.

3. 1002103 - Menningarstyrkir LMÁ 2010

LMÁ leggur til að bæjaryfirvöld endurskoði ákvörðun sína varðandi styrkjafjármagn og setji kr. 500 þúsund til menningarstyrkja fyrir árið 2010, en skv. fjárhagsáætlun fyrir 2010 var ekki gert ráð fyrir neinu fjármagni til slíkra styrkja. Verði orðið við þessari beiðni er verkefnisstjóra falið að auglýsa eftir umsóknum sem fyrst. Samþykkt samhljóða.

4. 1002101 - Styrkjaumsóknir og úthlutanir Menningaráðs Suðurlands 2010

Eins og fram kemur í gögnum frá menningarfulltrúa Suðurlands, Dorothee Lubecki hefur menningarráð Suðurlands úthlutað rúmum 80 milljónum til ýmissa verkefna á Suðurlandi fyrir árin 2007, 2008 og 2009. Endanlega tölur eru væntanlegar og verða þá birtar á vef Menningarráðs Suðurlands sunnanmenning.is. Almennt eru menn sammála um, að þessar styrkveitingar hafa gert mikið gagn fyrir svæðið og örvað nýsköpun og aðkomu fleiri að menningarmálum en ella hefði orðið. Ekki liggur endanlega fyrir hve % tala hvers svæðis er. Sveitarfélagið Árborg greiddi árlega tæpar 3 milljónir til þessa sameiginlega verkefnis ríkis og sveitarfélaga á Suðurlandi skv. samningi þeirra á milli.

Nú hefur Menningarráðið auglýst eftir umsóknum til verkefna og rennur umsóknartíminn út 12. mars og mun aðeins verða úthlutað einu sinni þetta árið. Íbúar eru hvattir til að sækja um til sem flestra verkefna. Sjá nánar sunnanmenning.is

5. 1002079 - Skólasögusetur á Búðarstíg, Eyrarbakka

LMÁ þakkar Bergljótu Kjartansdóttur hugmynd um að nýta húsið Búðarstíg 12, 820 Eyrarbakka sem Skólasögusetur í framtíðinni. Þetta er góð viðbót í hugmyndavinnu og umræður um væntanlegt Skólasögusafn á Eyrarbakka og varðveislu sögunnar.

6. 1002105 - Menningarviðurkenning Árborgar 2010

Formaður greindi frá, að fljótlega verði haldinn fundur innan nefndarinnar og í framhaldi af honum verði tillögu skilað til bæjarstjórnar um hver skuli hljóta menningarviðurkenningu fyrir árið 2010, sem afhent verður á Vori í Árborg í maí nk.

7. 0912061 - Lista-og menningarstefna Sveitarfélagsins Árborgar, 2010-2013

LMÁ fagnar að bæjarstjórn Árborgar hafi samþykkt Lista- og menningarstefnu Sveitarfélagsins Árborgar 2010-2013 samhljóða í janúar sl. Jafnframt þakkar hún samstarfsaðilum endurskoðunarnefndarinnar, þeim Guðfinnu Gunnarsdóttur, Önnu Árnadóttur, Margréti I. Ásgeirsdóttur og Andrési Sigurvinssyni samstarfið. Stefnuna er hægt að skoða á heimasíðu sveitarfélagsins www.arborg.is Stjórnsýsla / stefnur og hún verður síðan kynnt íbúum nánar.

8. 1002102 - Þjónustu- og styrktarsamningar Sveitarfélagsins Árborgar

LMÁ þakkar upplýsingarnar og fagnar að það skuli vera búið að gera þessa þjónustusamninga þar sem kveðið er á um gagnkvæman rétt og skyldur samningsaðila og að samningarnir verði öllum aðgengilegir á heimasíðu sveitarfélagsins www.arborg.is innan tíðar.

9. 1002020 - Bæjar- og menningarhátíðir í Sveitarfélaginu Árborg 2010

Verkefnisstjóri upplýsti að búið væri að uppfæra lista yfir bæjar-og menningarhátíðir í Árborg 2010 og setja inn á heimasíðu www.arborg.is / undir þjónustusíður. Sömuleiðis að búið væri að senda þennan lista á Símaskrána og Samband ísl. sveitarfélaga og að sambærileg vinna hefði farið fram á vegum Bókasafns Árborgar. LMÁ þakkar upplýsingarnar.

10. 0810097 - Kynningarmyndbönd á heimasíðu Árborgar

Næstu daga afhendir Profilm þau kynningarmyndbönd sem eftir voru í vinnslu fyrir heimasíðuna og stofnanir sveitarfélagsins. Það eru fjögur myndbönd um Árborg á dönsku, þýsku, frönsku og sérstakt kynningarmyndband um Fuglafriðlandið í Flóagaflsmýrinni á íslensku, ensku, þýsku og frönsku. LMÁ þakkar öllum sem komu að þessari vinnu við gerð þessara myndbanda og fagnar framtakinu.

11. 0908130 - Ungmennaþing í Árborg

Þriðjudaginn 16.febrúar kynnti Ungmennaráð Árborgar, skýrslu um niðurstöður ungmennaþingsins sem haldið var í Pakkhúsinu sl. haust fyrir Bæjarstjórn Árborgar. Fulltrúar ungmennaráðs fóru yfir aðdraganda þingsins, hvernig hafði gengið á þinginu sjálfu og helstu niðurstöður. Almenn ánægja var með niðurstöðurnar hjá fulltrúum, en fram kemur í skýrslunni hvað megi betur fara í Sveitarfélaginu Árborg, hvað sé vel gert í dag og mikilvægt að halda í. Bæjarstjórn hrósaði þeim ungmennum sem mættu á þingið og ræddu mikilvæg málefni og settu fram sínar skoðanir. Niðurstöður væru mjög gagnlegar fyrir bæjarstjórn og leiðarljós inn í framtíðina. Við umræður á niðurstöðum þingsins kom síðan fram að nokkur atriði og mál úr skýrslunni séu þegar komin til framkvæmda. LMÁ tekur undir hrós bæjarstjórnar og þakkar fyrir að fá skýrsluna í hendur.

Skýrslan er nú aðgengileg á heimasíðu Árborgar undir þjónustusíðum í hægri dálknum.

12. 0902008 - Málþing - Almenningsfræðsla á íslandi.

Verkefnisstjóri greindi frá að á málþingið um Almenningsfræðsluna á Íslandi sem haldið var í Rauða húsinu á Eyrarbakka fyrir tilstuðlan Sveitarfélagsins Árborgar, Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Kennarasambands Íslands ofl., hefði tekist einkar vel. Það hafi verið bráðskemmtilegt og einkar fræðandi bæði með tilliti til skólasögunnar og þróunar hennar sem og varðveislu til framtíðar. Sérfræðingar, kennarar, fræðimenn og aðrir listamenn leiddu þarna saman hesta sína, má þar nefna Loft Guttormsson, Herdísi Egilsdóttur, Þorvald Þorsteinsson, Eirík Þorláksson og fleiri. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra heiðraði samkomuna með nærveru sinni. Fréttir af málþinginu voru birtar í bæjar- og landsfjölmiðlum í nóv. sl.

LMÁ þakkar öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd þessa málþings og sérstaklega þeim Ólafi Proppé fv. rektor Kennaraháskóla Íslands, Jóni Hjartarsyni bæjarfulltrúa og Andrési Sigurvinssyni, verkefnisstjóra.

13. 1002019 - Stofnfundur samtaka um heilsuferðaþjónustu

LMÁ fagnar þessu framtaki og þakkar upplýsingarnar.

14. 1002086 - Klasasprengja febrúar 2010

Verkefnisstjóri greindi frá að rúmlega 100 manns hefðu sóttu Klasasprengju á Hótel Selfossi þann 11. febrúar sl. Það var Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, Markaðsstofa Suðurlands og Ferðamálasamtök Suðurlands sem stóðu að þessari sprengju og þeir klasar sem Vaxtarsamningur Suðurlands og Vestmannaeyja hefur styrkt síðastliðin þrjú ár. Niðurstaðan var frábær skemmtun og fróðleikur í máli og myndum ásamt skemmtilegum uppákomum. Vaxtarsamningurinn hefur stutt við 42 verkefni á síðastiðnum þremur árum. Verkefnin eru af ólíkum toga og með ólíkar stefnur og markmið en það var einmitt það sem gerði þennan fund svo áhugaverðan. Klasarnir kynntu sig og sínar afurðir með fyrirlestrum og í þess til gerðum kynningarbásum og þátttakan fór fram úr öllum væntingum. Sjá nánar á www.vssv.is LMÁ þakkar upplýsingarnar og hvetur til að stefnt verði að nánari samstarfi við Markaðsstofu og sömuleiðis að leggja aukna áherslu á ferða-kynningar- og markaðsmál innan sveitarfélagsins sbr. ákvæði í nýrri Lista- og menningarstefnu S.Á.

15. 1002112 - Listagjáin í Bókasafni Árborgar, Selfossi

Eftirfarandi kom fram í kynningu og máli forstöðukonu Bókasafns Árborgar. Bókasafn Árborgar stendur að Listagjá en það nefndist rými við stigann og lesstofuna í kjallara safnsins þar sem haldnar eru ýmiskonar sýningar á handverki og listum. Árið 2009 voru 10 sýningar í Listagjánni og var sú sem stóð lengst sögusýning Bókasafns Árborgar sem sett var upp í tilefni af 100 ára afmæli bókasafnsins árið 2009. Nú þegar er búið að skipuleggja 7 sýningar á árinu 2010. Sýningarárið hófst með sýningu á teikningum úr þýskum myndasögum í samstarfi við Göthe Institut. Nú í febrúar sýnir Marius Borns líflegar og sterkar myndir málaðar með olíu. Í mars sýnir Gréta Berg andlitsmyndir gerðar með rauðkrít og kolum. Í apríl er ljósmyndasýning á vegum Héraðsskjalasafns Árnesinga og í maí og á Vori í Árborg sýnir Bragi Sverrisson magnaðar myndir af hestum. Ekki er búið að skipuleggja sumarið í Listagjánni. Júní er oft tileinkaður sumarlestrarnámskeiði barna sem nú er haldið í 18 skipti í bókasafninu og þemað er Mjólkin okkar í samstarfi við MS Selfossi. Tilvalið er að hafa sýningar í júlí og ágúst sem höfðuðu til ferðamann en um 5000 ferðamenn komu í bókasafnið og upplýsingamiðstöðina frá 15. maí til 30 ágúst árið 2009. Ólafur Th. Ólafsson verður með sýningu á verkum sínum í september og Dögg Finnsdóttir sýnir olíumálverk og teikningar í október.

Mánaðarlega er skipt um sýningar í útlánasal. Þar er sýnd ýmiskonar handverk, einkasöfn t.d. í febrúar eru fílar sem vekja mikla athygli og í mars taka kettir við. Einnig eru settar upp sýningar á t.d. gömlum bókum eða ákveðnu efni frá bókasafninu. Sýningar eru reglulega í sýningarskáp á Bókasafni Árborgar Eyrarbakka. Nú er þar sýning á höndum af öllum gerðum. LMÁ þakkar upplýsingarnar.

16. 0812007 - Ljósmyndir og listi yfir útilistaverk Sveitarfélags Árborgar

Þetta kom m.a. fram í máli forstöðukonu Bókasafns Árborgar varðandi málið. Hallur Karl Hinriksson listamaður og bókavörður við Bókasafn Árborgar, Selfossi hefur fengið það verkefni að ljósmynda og skrá útilistaverk í Sveitarfélaginu Árborg. Þessi listi og ljósmyndir yfir verkin verður settur á heimasíðu sveitarfélagsins og á síðu Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna í Árborg . Á heimasíðunni er nú þegar listi yfir lista- og handverksfólk í Sveitarfélaginu Árborg. LMÁ þakkar upplýsingarnar.

17. 1002111 - Upptökustúdíó í Pakkhúsinu

Verkefnisstjóri upplýsti að nú væri langt komið með að útbúa æfingaaðstöðu fyrir hljómsveitir í Pakkhúsinu, Ungmennahúsi Árborgar. Þar hefðu starfsmenn hússins undir stjórn Bassa/ Björn Ólafsson / haft mestan veg og vanda af framkvæmd með dyggum stuðningi Labba/ Ólafs Þórarinssonar. Þarna er ætlunin að einnig verði hægt að taka upp tónlist og leikið efni og útvarp Pakkhússins ætti að geta litið dagsins ljós er fram líða stundir. Allir á aldrinum 16 - 30 ára eiga möguleika á að fá inni í húsinu til æfinga í framtíðinni. Sömuleiðis er æfingaaðstaða fyrir hljómsveitir í félagsmiðstöð Zelsíuz fyrir yngri aldurshópa. LMÁ þakkar upplýsingarnar og lýsir yfir ánægju sinni með framkvæmd og dugnað ungmennanna í Pakkhúsinu.

18. 1002113 - Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum -janúar

LMÁ þakkar upplýsingarnar og finnst áhugavert að sjá hversu stór hluti landsmanna skuli hafa kosið að ferðast innan lands. Hvetur bæjaryfirvöld og íbúa til að vera vakandi fyrir öllum möguleikum varðandi menningartengda ferðaþjónustu og kynningu á Árborgarsvæðinu.

19. 1002104 - Listasafn Árnesinga 2010

Forstöðumaður Listasafns Árnesinga hefur boða komu sína á næsta fund Lista- og menningarnefndar, með kynningu á safninu og möguleikum á auknu samstarfi. LMÁ þakkar upplýsingarnar og hlakkar til að hitta hann.

20. 1002127 - Lesið í lauginni

Eftirfarandi kom m.a. fram í máli forstöðumanns Bókasafns Árborgar varðandi Lesið í lauginni.

Í janúarlok var birt fréttatilkynning í héraðsblöðum og á netsíðum og með tölvupósti þar sem óskað er eftir því að skáld og skúffuskáld sendi ljóð eða örsögur til Bókasafns Árborgar fyrir 15. mars til að nota í Lesið í lauginni eða ljóð lauginni. Það er samstarfsverkefni Bókasafns Árborgar, Selfossi og Stokkseyri og Sundhallar Selfoss og Sundlaugar Stokkseyrar. Tilgangur verkefnisins er að gestir sundlauga stundi jafnt heilaleikfimi og líkamlega hreyfingu þegar farið er í sund auk þess að gefa skáldum tækifæri til að kynna ljóð sín og örsögur eins og segir í Menningarstefnu Árborgar. Í menningarstefnu Sveitarfélagsins Árborgar segir undir kaflanum um ritlist: ,,Að örva og hvetja til meiri sýnileika á afrakstri þeirra sem iðka ritstörf, s.s. leikritun, sögur eða ljóð og einnig þeirra sem skila góðum árangri á því sviði í grunn- og framhaldsskóla, t.d. með upplestri eða birtingu." Í framhaldi af þessu má taka fram að Bókasafn Árborgar, Eyrarbakka stefnir á að vera með lesið á ljósastaura á Vori í Árborg á Eyrarbakka í vor. LMÁ þakkar upplýsingarnar.

Í lok fundar kom eftirfarandi fyrirspurn frá Kjartani Björnssyni D-lista:

Hvernig er samskiptum háttað hjá Sveitarfélaginu í menningarsamskiptum við vinabæi gömlu byggðarkjarnanna. Eyrarbakki átti vinabæi í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, sem hófst 1987. Mest voru samskipti við Kalundborg í Danmörku. Selfoss átti í vinabæjarsambandi við Fuglafjörð í Færeyjum og borgir á öllum Norðurlöndum. Sandvíkurhreppur átti ekki í formlegum samskiptum af þessu tagi. Á Stokkseyri voru ekki komin á slík samskipti en voru í bígerð rétt fyrir sameiningu.

Ég tel að menningarleg samskipti af þessu tagi þurfi ekki að kosta mikið heldur séu byggð á samskipum skóla, kóra og annarra menningartengdra aðila. Einnig gegnir internetið þarna miklu hlutverki. Séu samskiptin lítil eða engin vil ég hvetja menningarnefnd og bæjaryfirvöld til að efla og styrkja þessi tengsl. Fuglafjörður í Færeyjum hefur tekið á móti knattspyrnuliði og karlakór frá Selfossi eins og um tigna gesti væri að ræða.

Virðingarfyllst
Kjartan Björnsson.

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 18:50

Andrés Rúnar Ingason
Ingveldur Guðjónsdóttir
Kjartan Björnsson
Andrés Sigurvinsson


Þetta vefsvæði byggir á Eplica