Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


24.1.2006

25.fundur umhverfisnefndar

 

25. fundur Umhverfisnefndar Árborgar haldinn Austurvegi 67, fimmtudaginn 24.janúar 2006 kl. 17:15.

Mættir: Björn B. Jónsson, Ari Már Ólafsson, Siggeir Ingólfsson, Björg Ægisdóttir og Hreinn Óskarsson.

 

1. Efnistaka úr Ingólfsfjalli í Sveitarfélaginu Ölfusi. Mat á umhverfisáhrifum.

 

Umsögn um frummatsskýrslu vegna efnistöku úr Ingólfsfjalli í Sveitarfélaginu Ölfusi.

 

Álitið er gefið í samræmi við 22.gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum þar sem segir m.a. að umsagnaraðilar skulu fjalla um hvort á fullnægjandi hátt sé gerð grein fyrir eftirtöldum atriðum sem eru á starfssviði þeirra, í frummatsskýrslu, eftir því sem við á:

 

 

    1. fyrirhugaða framkvæmd,

 

    1. umhverfi,

 

    1. umhverfisáhrif,

 

    1. mótvægisaðgerðir,

 

    1. vöktun,

 

  1. þörf á að kanna tiltekin atriði frekar

 

Frummatsskýrsla vegna efnistöku úr Ingólfsfjalli, dagsett 5. janúar 2006,  tekur á flestum þáttum umhverfis- og efnahagsáhrifa malartökunnar úr fjallinu. Fram kemur í skýrslunni að fyrst og fremst er um að ræða neikvæða umhverfisþætti er lúta að “landslagi og sjónrænum áhrifum”.  Auk þess er rykmengun, áhrif á neysluvatn og gróður m.m. nefndir sem neikvæðir þættir, en ekki í sama mæli og fyrrgreindir þættir. Efnahagsáhrif malartöku í Ingólfsfjalli eru talin spara tvö til þrjú hundruð milljónir árlega, en ef taka ætti möl úr Lambafelli í stað Ingólfsfjalls.

 

Af framansögðu liggur ljóst fyrir að um verulegan ávinning er að ræða með áframhaldandi efnistöku úr Ingólfsfjalli, en sá ávinningur er á kostnað sjónrænna áhrifa. Það gæti m.a. haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu.

 

Umhverfisnefnd Árborgar telur að liðnum d. og liðnum f.,  í samræmi við 22.gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum, sé ekki gerð fullnægjandi skil í frummatsskýrslunni. Nefndin telur að ekki sé gerð grein fyrir leiðum sem færar eru til að koma í veg fyrir frekari sjónræna röskun á fjallsbrún Ingólfsfjalls, án þess þó að minnka efnistöku úr fjallinu.

 

Vill nefndin í þessu sambandi nefna hugmyndir unnar af Ara Guðmundssyni verkfræðingi á Verkfræðistofu VST á Selfossi. Í þeim hugmyndum er gert ráð fyrir lausn á neikvæðum umhverfisþáttum sem koma fram í frummatsskýrslunni, þ.e. landslags- og sjónrænum áhrifum, og draga jafnframt úr öðrum neikvæðum þáttum, s.s. rykmengun og mengun neysluvatns.  Gert er ráð fyrir að ekkert verði hróflað frekar við brún fjallsins og að kostnaðarauki verði aðeins hluti þess sem lokun námunnar hefði í för með sér. Gert er auk þess ráð fyrir jafnmikilli eða aukinni malartekju í tillögu VST.

 

Umhverfisnefnd leggur til að þessi hugmynd, sem og aðrar sambærilegar hugmyndir, sem lúta að sama efni, verði skoðaðar vel áður en til ákvörðunar kemur um frekari efnistöku.

 

Ásýnd Ingólfsfjalls er okkar ásýnd og því mikilsvert að ásættanlegar lausnir finnist til efnistöku þar sem röskun lands er lágmörkuð.

 

Niðurstaða:

 

Umhverfisnefnd Árborgar fellst á að um verulegan ávinning sé að ræða með áframhaldandi efnistöku úr Ingólfsfjalli. Nefndin getur fallist á áframhaldandi efnistöku úr fjallinu en sú samþykkt er þó háð því að allar leiðir til að koma í veg fyrir “neikvæð sjónræn áhrif” verði skoðaðar áður en til ákvörðunar kemur.

 

2. Skógrækt í aðalskipulagi.

 

Borist hefur erindi frá bæjarstjórn þar sem er fallist er á athugasemdir Umhverfisnefndar við drög að Aðalskipulagi.

 

3. Tillaga að grænum svæðum norðan Suðurbyggðar á Selfossi þar sem gert er ráð fyrir göngu og hjólreiðastígum.

 

Umhverfisnefnd fagnar hugmyndum um græn svæði norðan Suðurbyggðar á Selfossi. Nefndin leggur áherslu á að unnið verði eftir þeirri tillögu sem lögð var fram.

 

4. Stígar og græn svæði við ströndina.

 

Nefndin bendir á nauðsyn þess að hefjast handa nú þegar við gerð hjólreiða- og göngustíga á milli Eyrarbakka og Stokkseyri. Einnig að uppbyggingu grænna svæða við ströndina verði haldið áfram. Mikill fjöldi ferðamanna heimsækir svæðið, auk þess að örugga hjóla- og gönguleið vantar milli staðanna sem er mjög brýnt m.a. vegna sameiningar grunnskólanna á stöðunum. Bæta þarf einnig útivistarmöguleika íbúa við ströndina.

 

5. Önnur mál

 

Hafinn er undirbúningur fræðslufundar með eigendum iðnaðarlóða, auk þess að hafinn er undirbúningur hreinsunardags sem ber upp á 3. maí og kallaður verður dagur Umhverfisins í Árborg.

 

Lögð var fram á fundinum drög að dagskrá fræðslufundar um meðhöndlun og förgun heimilisúrgangs sem haldinn verður í Iðu Selfossi næstkomandi laugardag. Fundurinn er haldinn í samstarfi Sveitarfélagsins Árborgar og Fræðslunets Suðurlands.

 

Fundi slitið kl. 18:40

Björn B. Jónsson
Ari Már Ólafsson
Siggeir Ingólfsson
Björg Ægisdóttir
Hreinn Óskarsson

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica