Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


12.12.2007

26. fundur bæjarstjórnar

26. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010, haldinn miðvikudaginn 12. desember  2007 kl. 17:00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi.

Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir:
Jón Hjartarson, forseti,               V listi,
Þorvaldur Guðmundsson             B listi,
Margrétar K. Erlingsdóttur           B listi
Ragnheiður Hergeirsdóttir           S listi,
Böðvar Bjarki Þorsteinsson          S listi,  varamaður Gylfa Þorkelssonar
Eyþór Arnalds                            D listi, 
Grímur Arnarson                         D listi varamaður Þórunnar Jónu Hauksdóttur
Ari Thorarensen                         D listi, varamaður Snorra Finnlaugssonar
Elfa Dögg Þórðardóttir                 D listi

Auk þess situr fundinn Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari, sem ritar fundargerð.

Forseti bauð Böðvar Bjarka Þorsteinsson velkominn á sinn fyrsta fund sem bæjarfulltrúi.

Forseti leitaði afbrigða til að taka á dagskrá beiðni Kristínar Eiríksdóttur, B-lista, um lausn frá störfum á vettvangi bæjarstjórnar og í nefndum, og kjör í nefndir í hennar stað. Var það samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

I.  Fundargerðir til staðfestingar:

1.  
a) 0701055
Skólanefnd grunnskóla                                         frá 31.10.07 - 08.11.07 

b)071068
Skipulag- og byggingarnefnd                                 frá 08.11.07

c)0703038
Framkvæmda- og veitustjórn                                 frá 08.11.07

d)071117
Menningarnefnd Árborgar                                      frá 08.11.07
e) 68. fundur bæjarráðs 0701016                           frá 15.11.07

 

2.
a) 0702011
Umhverfisnefnd                                              frá 15.11.07,

b)0701012 
 Félagsmálanefnd                                           frá 12.11.07

c)0701013    
Þjónustuhópur aldraðra                                   frá24.10.07                                                          

d) 69. fundur bæjarráðs 0701016                      frá 22.11.07

3.
a) 0701062
Leikskólanefnd                                                  frá 21.11.07

b)0703019
Fagráð sérdeildar Vallaskóla                                frá 17.10.07

c)0701068
Skipulags- og byggingarnefnd                             frá 22.11.07                                                                                                   

d) 70. fundur bæjarráðs 0701016                         frá 29.11.07

 

4.
a) 0701012
Félagsmálanefnd                                               frá 26.11.07

b)0701062
Leikskólanefnd                                                  frá 28.11.07

c) 71. fundur bæjarráðs 0701016                          frá 06.12.07

 

Fundargerðirnar voru bornar undir atkvæði og staðfestar samhljóða.

II. Önnur mál:

i. Gjaldskrá byggingarleyfis- og þjónustugjalda - fyrri umræða
Lagt var til að bæjarstjórn vísi tillögunni til skipulags- og byggingarnefndar til umsagnar.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

ii. Samþykkt um gatnagerðargjald - fyrri umræða
Lagt var til að bæjarstjórn vísi tillögunni til framkvæmda- og veitustjórnar til umsagnar.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

iii. Gjaldskrá fráveitugjalda - fyrri umræða
Lagt var til að bæjarstjórn vísi gjaldskránni til umsagnar heilbrigðisnefndar og framkvæmda- og veitustjórnar.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

iv. Gjaldskrá vatnsveitu - fyrri umræða
Lagt var til að bæjarstjórn vísi gjaldskránni til umsagnar framkvæmda- og veitustjórnar.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

v. Samþykkt um hundahald - síðari umræða
Samþykktin var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

vi. Fjárhagsáætlun 2008, A og B hluti - fyrri umræða
Bæjarstjóri tók til máls og lagði fram svohljóðandi greinargerð með tillögunni:

GREINARGERÐ MEÐ FJÁRHAGSÁÆTLUN ÁRSINS 2008

I.  Inngangur
Hér er lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn fjárhagsáætlun vegna ársins 2008.  Fjárhagsáætlun  er nú í fyrsta sinn sett fram sem rammaáætlun með skilgreindum hætti.  Skilgreindir eru bundnir og óbundnir liðir og flutningur á milli liða. Markmið með rammafjárhagsáætlun er:

  • 1. Að útgjöld sveitarfélagsins séu áætlun á grundvelli þeirra tekna sem sveitarfélagið hefur til umráða. Settur er rammi fyrir málaflokka og stofnanir.
  • 2. Ábyrgð stjórnenda sé vel skilgreind og skýrar kröfur settar um að þeir haldi sig innan fyrirfram skilgreinds ramma.
  • 3. Að gefa meira svigrún samkvæmt fyrirfram ákveðnum leikreglum varðandi flutning á milli liða, ákvarðanir varðandi starfsmannhald og hagræðingu í rekstri.
  • 4. Að frávik frá fjárhagsáætlun séu lágmörkuð.

Vinna við undirbúning að gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2008 hófst upp úr miðju síðasta ári og var frumvarp lagt fram í bæjarráði þann 6. desember s.l. þar sem því var vísað til afgreiðslu í bæjarstjórn.  Rammaáætlanagerð krefst nokkuð annars vinnulags en tíðkast hefur hjá sveitarfélaginu.  Lögð var rík áhersla á að stjórnendur fengju skýrar leiðbeiningar í hendur og hafði framkvæmdastjóri Fjármála- og stjórnsýslusviðs yfirumsjón með innleiðingu vinnuaðferðarinnar.

Forsendur rammans sem stofnunum er gefinn í þessari fjárhagsáætlun byggja á eftirfarandi: Niðurstöðu ársreiknings 2006, áætlun ársins 2007 og rekstrarniðurstöðu fyrstu sex mánaða ársins 2007.  Gert er ráð fyrir 2 % verðlagshækkun á rekstrarliði, 4 % hækkun á tekjuliðum og að meðaltali 3,5 % launahækkunum. 

II. Almennt um rekstrarumhverfi sveitarfélaga.
Starfsemi sveitarfélaga lýtur sérstakri löggjöf og má skipta lagaramma þeirra í tvennt.

Annars vegar er um að ræða lög sem setja almennan ramma utan um starfsemi sveitarfélaga. Nefna má hér sem dæmi stjórnarskrá, sveitarstjórnarlög, lög um tekjustofna sveitarfélaga, stjórnsýslulög og upplýsingalög.

Hins vegar eru sérlög á ýmsum valdsviðum sveitarfélaga. Þar má nefna sem dæmi grunnskólalög, skipulags- og byggingarlög og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Tekjustofnar sveitarfélaga eru útsvar, fasteignaskattur og framlög úr JöfnunarsjóðiAuk þessa hafa sveitarfélög tekjur af eignum sínum, eigin atvinnurekstri og stofnunum sem reknar eru í almenningsþágu.  Einnig hafa þau tekjur vegna þjónustugjalda, svo sem leikskólagjalda, sorphirðugjalda, leyfisgjalda o.fl., allt eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um.

Sveitarfélögum er skylt að annast þau verkefni sem þeim eru falin skv. lögum og þau setja sér gjaldskrá vegna þjónustu sem þau veita í gegnum eigin fyrirtæki og stofnanir til að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast.  Ekki er þó um að ræða heimild til gjaldtöku á öllum sviðum og sá málaflokkur sem tekur til sín stærst hlutfall af skatttekjum, grunnskólinn, er gjaldfrjáls enda um að ræða grundvallarþátt velferðarsamfélagsins sem allir íbúar eiga jafnan aðgang að. 

Meðal verkefna sem almennt er ríkur vilji til að sveitarfélög leggi lið, en eru einungis að takmörkuðu leyti lögbundin, má nefna uppbyggingu íþróttamannavirkja og stuðning við íþróttastarf.  Skv. lögum er bygging íþróttamannvirkja í þágu skóla og til almenningsnota í verkahring sveitarfélaga nema með öðrum hætti sé fyrir mælt í lögum.  Sveitarstjórnir veita svo styrki til íþróttafélaga og íþróttasamtaka eftir því sem ákveðið er í fjárhagsáætlun sveitarfélags og fer í fyrsta lagi eftir fjárhagslegri stöðu sveitarfélagsins á hverjum tíma og síðan eftir forgangsröðun stjórnvaldsins á hverjum tíma.

III. Megináherslur í fjárhagsáætlun 2008

Í málefnasamningi meirihluta bæjarstjórnar Árborgar kemur fram að markmiðið er að treysta fjölskylduvænt velferðarsamfélag í Árborg og sjá til þess að íbúar njóti jafnræðis og góðrar þjónustu. Lögð er áhersla á örugga og ábyrga fjármálastjórnun, áætlanagerð og forgangsröðun verkefna. Mikilsvert er að atvinnutækifæri séu næg og fjölbreytt og aðstæður séu góðar fyrir öflugt atvinnulíf. Meirihlutinn leggur áherslu á gott samstarf og samráð við starfsfólk sveitarfélagsins og að hlúa vel að þeim mannauði sem í því býr.  Félagslegt réttlæti, skilvirk stjórnsýsla og samráð við íbúana verða leiðarljósin í okkar vinnu. 

Uppbygging grunnþjónustu eins og t.d. á sviði leik- og grunnskóla, gatnagerðar og fráveitu þarf að vera í sem bestum takti við íbúafjölgunina, hvorki of né van. 

Til að mæta þeirri fjölgun sem hér hefur verið síðustu árin hafa stórtækar framkvæmdir reynst nauðsynlegar á sviði skólamála og gatna- og holræsagerðar svo kostnaðarsömustu liðir séu nefndir.  En það þarf einnig að huga að viðhaldi og endurbótum á því sem fyrir er hvort sem um er að ræða húsnæði eða götur og umhverfi. 

Sveitarfélagið Árborg hefur verið í gríðarlegum vexti á undanförnum árum, íbúafjölgun með því sem mest gerist í landinu og uppbygging þjónustu því reynt mjög á þanþol sveitarsjóðs. Íbúum hefur fjölgað um 4,07 % síðustu 12 mánuði eða um 296 manns og nálgast íbúatalan nú óðum 7.600.  Íbúafjölgun síðustu fimm ára nemur tæpum 23 %, eða rúmlega 1.400 íbúum.

Uppbygging nýrra íbúða-, þjónustu-  og iðnaðarhverfa skilar fljótt beinum tekjum á móti kostnaði inn í sveitarsjóð.  Uppbygging skólahúsnæðis og íþróttamannvirkja skilar ekki beinum tekjum.  Ávinningurinn er engu að síður ótvíræður og sýnir sig í betri og eftirsóknarverði búsetuskilyrðum, sem með tímanum ættu að skila sér m.a. í bættri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. 

Sveitarfélagið Árborg er stór vinnuveitandi og sú þjónusta sem veitt er byggist að langmestu leyti á færu og öflugu starfsfólki.  Það er nauðsynlegt að saman fari fagleg og rekstrarleg "gæði" í öllu starfi á vegum sveitarfélagsins. Til þess að hafa efni á að veita bestu hugsanlegu þjónustu, eins og t.d. á sviði skóla- og velferðarmála, þá verðum við að nýta það fjármagn sem úr er að spila af skynsemi og ráðdeild.  Á yfirstandandi ári hafa lykilstjórnendur unnið að endurskoðun ýmissa vinnuferla og útgjaldaliða hjá sveitarfélaginu í þeim tilgangi að ná enn betri árangri í rekstri.  Skoðuð hafa verið útgjöld vegna launa, innkaupa og aðkeyptrar þjónustu og hefur áhrifa þessarar vinnu þegar gætt í bættri rekstrarniðurstöðu.  Nú er verið að leggja lokahönd á gerð innkaupastefnu fyrir sveitarfélagið og á árinu 2008 verða teknir í notkun samræmdir vinnuferlar við innkaup og birgðastýringu hjá sveitarfélaginu.  Áfram verður áhersla lögð á gæði þjónustu og þróun og nýsköpun á öllum sviðum í sveitarfélaginu.  

Markmið meirihlutans við gerð fjárhagsáætlunar eru skýr og miðast að því að efla og styrkja sveitarfélagið á alla lund.  Til að ná þeim markmiðum þarf að treysta enn frekar rekstrarafkomu sveitarfélagsins.  Nýta þarf rekstrarfjármagn sem allra best í þágu íbúanna og ráðast þarf í markvissar og skynsamlegar fjárfestingar sem skila okkur bættum aðstæðum og nýjum sóknarfærum í framtíðinni.  Mikilvægt er að samhliða uppbyggingu nýrra hverfa og þjónustuúrræða fari fram styrking og endurnýjun á þjónustu og aðstöðu sem þegar er til staðar í sveitarfélaginu. 

Meirihluti B, S og V lista leggur á árinu 2008 mikla áherslu á málefni fjölskyldna í sveitarfélaginu.  Áætlunin gerir ráð fyrir markvissri uppbyggingu og eflingu starfs í þágu barna og ungmenna í sveitarfélaginu, bættum hag barnafjölskyldna, bættri aðstöðu fólks með heilabilun, aukinni þjónustu við aldraða og stefnumörkun og styrkingu þjónustu við nýbúa.  Þá verður menningarstarfsemi efld og unnin undirbúningsvinna vegna framtíðar húsnæðis fyrir lista og menningarstarfsemi, almenningssamgöngum verður komið á innan sveitarfélagsins, kynningarmálum komið í markvissari farveg og auknu fjármagni verður varið til starfsmannamála í samræmi við starfsmannastefnu sveitarfélagsins.  Áhersla verður lögð á að efla enn frekar starfsemi á sviði skipulags-, bygginga og umhverfismála m.a. í þeim tilgangi að skipulag og landnýting í sveitarfélaginu verði í sem mestri sátt við menn og umhverfi í nútíð og framtíð.

Uppbygging mannvirkja í þágu íbúa og gesta verður mikil.  Má þar nefna byggingu leikskóla, grunnskóla og íþróttamannvirkja.  Ráðist verður í endurnýjun Tryggvagötu á Selfossi og gert er ráð fyrir að uppbygging hefjist í miðbæ Selfoss.  Tekið verður í notkun nýtt gámasvæði sem þjóna mun öllu sveitarfélaginu, hafin verður vinna vegna nýs kirkjugarðs á Selfossi og áfram verður haldið með stórar framkvæmdir á sviði fráveitu, vatnsveitu og hitaveitu.  Farið verður í að skipuleggja nýtt íbúðahverfi í landi sveitarfélagsins á Selfossi, nýjar atvinnu- og þjónustulóðir verða skipulagðar og tekið verður sérstaklega á umferðaröryggismálum og aðgengismálum.

IV. Meðal nýrra eða aukinna verkefna og þjónustu árið 2008:

Samgöngumál

  • Almenningssamgöngur innan sveitarfélagsins. Strætóferðir milli Stokkseyrar, Eyrarbakka og Selfoss munu hefjast fyrir lok janúar n.k.. Um er að ræða tímamóta ákvörðun sem vænta má að gjörbreyti búsetuskilyrðum í Árborg. Þetta er mikilvægt skref í þá átt að íbúar Árborgar njóti jafnræðis hvar sem þeir búa í sveitarfélaginu og er til þess fallið að styrkja enn frekar samkennd og samstöðu innan þessa unga sveitarfélags. Þá eru almenningssamgöngur mikilvægur þáttur í því að draga úr umferð vélknúinna farartækja og leiða þannig til minni mengunar og slits á vegum. Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs og verður fyrirkomulag þjónustunnar kynnt á næstunni.

Málefni barna og ungmenna

  • Niðurgreiðslur vegna vistunar barna hjá dagforeldrum verða hækkaðar úr 20 þús. á mánuði fyrir 8 stunda vistun í 30 þús. á mánuði fyrir sama tíma.
  • Námskeið fyrir foreldra leikskólabarna. Byrjað verður á að bjóða foreldrum 2ja ára barna þátttöku í uppeldisnámskeiði og er það fyrsti áfanginn í verkefninu. Gert er ráð fyrir að árið 2009 verði foreldrum eldri barna einnig boðin þátttaka í slíku námskeiði.
  • Í ágúst 2008 verður tekinn í notkun fyrri áfangi nýs leikskóla í Suðurbyggð á Selfossi. Um er að ræða fjórar deildir og mun starfsemi leikskólans Ásheima flytjast í nýja skólann. Núverandi húsnæði Ásheima verður selt.
  • Tekin verður í notkun einnar deildar viðbygging við leikskólann Æskukot á Stokkseyri auk þess sem eldri hluti hússins og lóðin verða endurbætt. Aðstaðan verður fyrsta flokks og mun gjörbreyta starfsumhverfi og aðbúnaði fyrir börn og starfsfólk.
  • Sjötta deildin á leikskólanum Hulduheimum verður opnuð frá og með 1. janúar.
  • Lengd viðvera fyrir fötluð börn kemur að fullu til framkvæmda. Starfsemin er til húsa í Sunnulækjarskóla.
  • Opnuð verður skólavistun í Sunnulækjarskóla frá og með næstu áramótum.
  • Íþrótta- og tómstundaiðkun barna og ungmenna verður niðurgreidd frá og með haustinu 2008. Gert er ráð fyrir 10 þúsund kr. niðurgreiðslu fyrir hvert barna og er um að ræða fyrsta skrefið til að jafna aðstöðu barna og ungmenna til þátttöku í íþrótta og tómstundastarfi.
  • Ungmennahúss verður opnað á Selfossi frá 1. apríl n.k. Ungmennahús er ætlað fyrir aldurshópinn frá 16 ára og framyfir tvítugt. Sköpuð verður aðstaða til fjölbreyttrar starfsemi undir handleiðslu sérstaks umsjónarmanns.
  • Stofnað verður ungmennaráð sem verði bæjarstjórn Árborgar til ráðgjafar ummálefni ungs fólks í sveitarfélaginu. Með þessum hætti verði sköpuð tækifæri fyrir ungmenni til að hafa áhrif á nærumhverfi sitt og aðstæður ungmenna í sveitarfélaginu.

Íþrótta- og tómstundamál

  • Samningar við Ungmennafélag Selfoss og við íþróttaakademíur Fjölbrautaskóla Suðurlands verða endurskoðaðir í kjölfar niðurstöðu í stefnumörkunarvinnu sem nú stendur yfir og þeirrar öflugu starfsemi sem fram fer á vegum þessara aðila.
  • Ráðinn verður íþrótta- og tómstundafulltrúi sem starfar á íþrótta- , forvarnar- og menningasviði Árborgar. Um er að ræða umfangsmikið og sívaxandi verkefnasvið sem meirihlutinn leggur mikla áherslu á að efla og styrkja. Ráðning íþrótta- og tómstundafulltrúa er liður í því að skipa Sveitarfélaginu Árborg meðal sveitarfélaga sem standa fremst í flokki hvað varðar íþrótta- og tómstundastarf barna og ungmenna. Meðal verkefna nýs starfsmanns verður að vinna að markvissri samþættingu skóla-, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfs með tilliti til bættra uppvaxtarskilyrða barna og ungmenna, betri nýtingar fjármuna og tíma.
  • Tekið verður í notkun nýtt íþróttahús við Sunnulækjarskóla á Selfossi. Í húsinu er sérhönnuð aðstaða fyrir fimleika.
  • Settur verður upp útivöllur fyrir körfubolta á Selfossi
  • Ákveðið er að byggja upp hjólabrettaaðstöðu í sveitarfélaginu og gert er ráð fyrir að á árinu 2008 verði byrjað við ströndina.

 

Málefni eldri borgara

  • Eldri borgurum og öryrkjum verður boðið upp á sérstaka jólahreingerningu í híbýlum sínum og verður framkvæmdin með svipuðum hætti og er með garða&thorn

Þetta vefsvæði byggir á Eplica