1.10.2019

26. fundur hverfisráðs Eyrarbakka

Fundargerð 26. fundar hverfisráðs Eyrarbakka
  1. júní 2019
Árið 2019, miðvikudaginn 12. júní kl. 17:15 kom hverfisráð Eyrarbakka saman til fundar í samkomu-húsinu Stað á Eyrarbakka. Fundinn sátu Magnús Karel Hannesson, Drífa Pálín Geirs, Guðmundur Ármann Pétursson, Sigmar Ólafsson og Vigdís Sigurðardóttir. Að auki sátu fundinn Esther Helga Guðmundsdóttir, varamaður í hverfisráði, og Eggert Valur Guðmundsson bæjarfulltrúi. Brynhildur Jónsdóttir bæjarfulltrúi var forfölluð. Fundargerðin var færð í tölvu. Þetta var tekið fyrir:
  1. Skipan hverfisráðs Eyrarbakka
Lögð fram til kynningar ný samþykkt fyrir hverfisráð Sveitarfélagsins Árborgar, sem bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum 15. maí sl. Hin nýja samþykkt byggir að mestu leyti á þeirri tillögu sem hverfisráð Eyrarbakka sendi bæjarstjórn fyrr á þessu ári. Hverfisráð Eyrarbakka lýsir ánægju sinni með nýja samþykkt fyrir hverfisráð Sveitarfélagsins Árborgar og telur að með henni sé lagður grundvöllur að eflingu hverfisráðanna sem samráðvettvangs um málefni einstakra hverfa sveitarfélagsins. Hverfisráð Eyrarbakka hvetur bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar að skipa sem fyrst annan varamann í hverfisráðið, sbr. 1. mgr. 3. gr. samþykktarinnar, svo hverfisráðið sé fullskipað.
  1. Verndarsvæði í byggð á Eyrarbakka
Rætt var um verkefnið „Eyrarbakki – Verndarsvæði í byggð“ og lagðar fram ýmsar upplýsingar um það. Þar kemur m.a. fram, að á fundi bæjarráðs Sveitarfélagsins Árborgar þann 10. mars 2016 var að frumkvæði tveggja einstaklinga á Eyrarbakka ákveðið að fela framkvæmdastjóra sveitarfélagsins að vinna að því, að stór hluti þéttbýlisins á Eyrarbakka yrði afmarkaður sem sérstakt verndarsvæði, samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015, en þau lög tóku gildi um mitt ár 2015. Markmið með lögum um verndarsvæði í byggð er að stuðla að verndun sögulegrar byggðar. Í lögunum og reglugerð um verndarsvæði í byggð nr. 575/2016 er kveðið nánar á um það hvað felst í tillögu að verndarsvæði í byggð. Verndarsvæði í byggð er byggð innan afmarkaðs svæðis sem nýtur sérstakrar verndar  samkvæmt  ákvörðun  ráðherra og á að stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi. Í greinargerð með frumvarpi til laga um verndarsvæði í byggð segir m.a.: „Með hliðsjón af mikilvægi stefnumörkunar á sviði ferðaþjónustu skapast með uppbyggingu verndarsvæða í þéttbýli tækifæri til að leggja aukna áherslu á áhugaverða áfangastaði í þéttbýli og þar með dreifa því álagi sem aukinn ferðamannastraumur hefur á helstu náttúruperlur landsins.“ Samkvæmt lögunum skulu sveitarstjórnir að loknum sveitarstjórnarkosningum meta hvort innan sveitarfélagsins sé byggð sem hafi slíkt gildi hvað varðveislu svipmóts og menningarsögu varðar, ásamt listrænu gildi, að ástæða sé til að útbúa tillögu til ráðherra um að hún verði gerð að verndarsvæði í byggð. Haustið 2016 fékk sveitarfélagið styrk úr húsafriðunarsjóði til þess að standa undir hluta af kostnaði við framgang verkefnisins. Styrkjum úr húsfriðunarsjóði til endurbóta á friðuðum eða varðveisluverðum húsum á Eyrarbakka hefur fjölgað og þeir hækkað eftir að verkefnið fór af stað, sbr. gögn sem lögð voru fram á fundinum. Á fundinum var lagt fram minnisblað skipulagsráðgjafa (Landform – landslagsarkitektar) um stöðu verksins, dags. 11. júní 2019, þar sem m.a. er gerð grein fyrir þeim þáttum sem hafa tafið verkefnið og fjallað um samráð við íbúa. Verkefnið er sagt mjög umfangsmikið vegna fjölda húsa og minjastaða á svæðinu og af þeim sökum hafi það tafist. Næstu skref til þess að ljúka megi verkefninu eru þessi, skv. minnisblaðinu:
  • Svo hægt sé að ljúka við tillöguna þarf minjaskráning að liggja endanlega fyrir og vegna hennar þarf að eiga sér stað ákveðið samráð við Minjastofnun um það að hve miklu leyti hún eigi að hafa áhrif á tillöguna (úrval staða).
  • Árborg þarf að skipa nýjan samráðsaðila í verkefnið eftir að Ásta Stefánsdóttir hætti störfum.
  • Gera þarf kostnaðarmat á þá eftirstandandi vinnu sem eftir er, svo hægt sé að ljúka verkefninu en ljóst er að m.v. þær breytingar og tafir sem orðið hafa að þá reynist upphaflegt fjármagn ekki duga til að ljúka verkefninu.
Að loknum umræðum var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða: Hverfisráð Eyrarbakka hefur fjallað um verkefnið „Eyrarbakki – Verndarsvæði í byggð“ og leggur áherslu á mikilvægi verkefnisins fyrir vernd og varðveislu þeirrar götumyndar sem tekist hefur að varðveita á Eyrarbakka frá síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Ekki þarf að eyða mörgum orðum að því, hve mikla þýðingu byggðin á Eyrarbakka getur haft í markaðssetningu sveitarfélagsins sem áfangastaðar ferðamanna. Þekkt er erlendis frá, að friðuð hverfi og verndarsvæði geta verið mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Hverfisráðið telur mikilvægt að bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar sýni í verki hver stefna hennar er í málefnum Eyrarbakka og gömlu byggðarinnar þar, ekki síst í ljósi þess að nú eru að hefjast framkvæmdir við nýjan miðbæ á Selfossi, sem munu kosta mikla fjármuni, og á að verða einhvers konar eftirlíking af gamalli byggð. Götumyndin á Eyrarbakka er einstök og mikilvægt að hún verði vernduð sem ein heild, þótt vernd einstakra bygginga skipti einnig máli. Ekki er síður mikilsvert að gætt sé vel að því, hvort og hvernig byggt verður á auðum lóðum innan væntanlegs verndarsvæðis. Bæjarstjórnin hefur einstakt tækifæri í höndunum til þess að staðfesta menningarsögulegt gildi gömlu byggðarinnar á Eyrarbakka fyrir Sveitarfélagið Árborg, og reyndar landið í heild, og stuðla þannig að frekari þróun og uppbyggingu á þjónustu við ferðamenn í sveitarfélaginu. Ljóst er að verkefnið um verndarsvæði í byggð hefur þegar aukið styrkveitingar úr húsafriðunarsjóði til einstaklinga sem eiga húseignir á Eyrarbakka, og eru friðaðar eða þykja varðveisluverðar. Mikilvægt er að verkefninu verði lokið, svo sú þróun haldi áfram. Hverfisráð Eyrarbakka hvetur bæjarstjórn til þess að gera gangskör að því að verkefninu „Eyrarbakki – Verndarsvæði í byggð“ verði lokið sem allra fyrst og tillaga þar að lútandi verði send Minjastofnun Íslands til afgreiðslu í kjölfarið.
  1. Umhverfismál og umgengni í þorpinu
Rætt um ýmislegt sem snýr að umgengni og viðhaldi á einstökum lóðum og opinberum svæðum í þorpinu og utan þess. Bent var á nokkra staði í þorpinu þar sem umgengni er ekki nægjanlega góð, uppsöfnun númerslausra bifreiða, opin svæði sem ekki eru slegin og ástand göngustígs á sjóvarnargarði þar sem gróður er að taka yfir. Þá var sérstaklega rætt um umgengi á lóðum við innkeyrslur í þorpið og þar megi ýmislegt færa til betri vegar. Fram kom á fundinum, að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands stendur nú fyrir átakinu „Hreint Suðurland“ sem miðar að átaki í hreinsun lóða og lendna í umdæmi heilbrigðiseftirlitsins. Skorað verður á lóðarhafa, íbúa og landeigendur á Suðurlandi, að þeir gangi í það að hreinsa af lóðum sínum og lendum allt það sem valdið getur ónæði, mengun eða lýti á umhverfinu. Jafnframt mun heilbrigðiseftirlitið krefjast lagfæringa og viðgerða á lóðum, girðingum og mannvirkjum ef nauðsynlegt þykir, auk þess sem gripið verður til þess ráðs að láta fjarlægja á kostnað eigenda númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun. Heilbrigðiseftirlitið hefur valdheimildir, sem sveitarfélagið hefur ekki, til þess að beita úrræðum sem geta leitt til úrbóta á umgengni. Upplýst var á fundinum að stefnt er því að ljúka malbikun á göngustíg milli Eyrarbakka og Stokkseyrar á þessu ári. Eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða: Hverfisráð Eyrarbakka hefur á fundi sínum fjallað um umhverfismál og umgengni í þéttbýlinu á Eyrarbakka og í umhverfi þorpsins. Hverfisráðið hvetur starfsmenn umhverfisdeildar sveitar-félagsins til þess að vera vel á verði og kanna umgengni og þrif á öllum opnum svæðum á Eyrarbakka og bæta úr þar sem þörf er á. Hverfisráð Eyrarbakka fagnar átaki Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um „Hreint Suðurland“ og treystir því að heilbrigðiseftirlitið beiti þeim valdheimildum sem það hefur til þess að bæta umgengni á einstökum lóðum í þorpinu. Hverfisráð Eyrarbakka lýsir ánægju sinni með það, að nú hilli undir lok á framkvæmdum við göngustíginn á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar
  1. Upplýsingaskilti
Rætt var um upplýsinga- og leiðbeiningaskilti í þorpinu og að nauðsynlegt sé að bæta það sem fyrir er af slíkum skiltum og að fjölga þeim, bæði innan þorps og við innkeyrslurnar inn í þorpið. Bent var á að skilti sem fauk niður í roki fyrir nokkrum árum, og var hluti af skiltaröð sem sett var upp fárum árum eftir stofnun Sveitarfélagsins Árborgar, hafi ekki enn verið sett upp að nýju – á skiltinu voru upplýsingar um gömlu húsin á Eyrarbakka. Auk þess var rætt um að skilti með upplýsingum um elsta starfandi barnaskóla á landinu – Barnaskólann á Eyrarbakka – sé ekki vel staðsett á lóð skólahússins með tilliti til þess að vegfarendur geti auðveldlega haft not af því. Þá var rætt um, að þörf væri á upplýsingaskiltum meðfram göngustígnum milli Eyrarbakka og Stokkseyrar. Vakin var athygli á að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitir styrki til uppbyggingar, viðhalds og verndunar ferðamannastaða sem eru í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila um land allt og til aðgerða sem stuðla að öryggi ferðamanna og verndun náttúru landsins. Einnig er sjóðnum ætlað að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði. Eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða: Hverfisráð Eyrarbakka hvetur bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar til þess að setja sér stefnu um heildstæða uppsetningu upplýsingaskilta í sveitarfélaginu, þannig að samræmis verði gætt í útliti og efnistökum á slíkum skiltum hvar í sveitarfélaginu sem er. Hverfisráðið lýsir vilja sínum til þess að leggja lið við slíka stefnumótun og sérstaklega varðandi skilti á Eyrarbakka og næsta nágrenni, hvað eigi að fjalla um á upplýsingaskiltunum og framsetningu efnis. Hverfisráð Eyrarbakka bendir á þá möguleika sem geta falist í umsóknum í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða til þess að fjármagna slíkt verkefni. Hverfisráðið hvetur eindregið til þess að hugað verði að umsókn í sjóðinn á hausti komanda þegar opnað verður fyrir umsóknir vegna ársins 2020. Hverfisráðið lýsir sig tilbúið til þess að aðstoða við gerð umsóknar vegna upplýsingaskilta á Eyrarbakka.
  1. Kvikmyndahátíðin BRIM
Guðmundur Ármann Pétursson gerði grein fyrir kvikmyndahátíðinni BRIM, sem hann hefur undirbúið og haldin verður á Eyrarbakka laugardaginn 28. september 2019. Markmið hátíðarinnar er að fræða, tengja fólk og skóla á nýjan samfélagslegan hátt og að bregðast við einu stærsta umhverfismáli samtímans, sem felst í aukinni notkun plasts, eyðingu þess, uppsöfnun og mengun af völdum plasts, sérstaklega í heimshöfunum. Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri er einn af þeim aðilum sem koma að verkefninu, en unglingastig skólans mun gera stuttmyndir og annað miðlunartengt efni er varðar plastmengun sjávar. „Það fer vel á því að gestir BRIM kvikmyndahátíðar mæti „plastlausu“ Norður-Atlantshafinu við Eyrarbakka. Sá hreinleiki er ekki sjálfgefinn og það er okkar allra að halda hafinu hreinu“, eins og segir í kynningarefni kvikmyndahátíðarinnar. Óskað verður eftir samstarfi við einstaklinga og fjölskyldur, því stefnan er að kvikmyndasýningarnar fari fram á heimilum fólks. Eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða: Hverfisráð Eyrarbakka fagnar því framtaki um BRIM kvikmyndahátíð, sem kynnt hefur verið á fundi ráðsins. Umfjöllunarefni kvikmyndahátíðarinnar er aðkallandi og mikilvægt að brugðist sé við til þess að sporna við aukinni mengun af völdum plastnotkunar. Þar er brýnast að fræða allan almenning um vandamálið og hvernig eigi að bregðast við til að leysa það. Mengun hafs og stranda af völdum plasts snertir íbúa á Eyrarbakka og umhverfi þeirra mjög náið. Hverfisráðið hvetur bæjarstjórn til þess að styðja við bakið á þeim sem standa að kvikmynda-hátíðinni og hvetur íbúa á Eyrarbakka til þess að taka þátt í hátíðinni á einn eða annan hátt.
  1. Næsti fundur
Stefnt er að því að næsti fundur hverfisráðsins verði um mánaðamótin ágúst-september. Formanni og ritara falið að ganga frá fundargerðinni. Fundi slitið kl. 18:45.                                   formaður                                                                                          ritari Magnús Karel Hannesson                                                                            Vigdís Sigurðardóttir  

Þetta vefsvæði byggir á Eplica