Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


28.4.2010

26. fundur lista- og menningarnefndar

26. fundur lista- og menningarnefndar Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn þriðjudaginn 27. apríl 2010 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 17:00

Mætt:
Andrés Rúnar Ingason, formaður, V-lista,
Ingveldur Guðjónsdóttir, nefndarmaður B-lista,
Kjartan Björnsson, nefndarmaður D-lista,
Andrés Sigurvinsson. verkefnisstjóri íþrótta-, forvarna- og menningarmála,

Samþykkt að taka inn með afbrigðum eftirtalin mál: 1004165, 1004167 og 1004168.

Nýráðinn forstöðumaður Bókasafns Árborgar, Heiðrún Dóra Eyvindardóttir mætti á fundinn. Eftir að nefndarmenn höfðu boðið hana velkomna til starfa fóru hún og verkefnisstjóri yfir mál no: 0812007,1004155, 1003125 og 1002166 og yfirgaf hún fundinn að þeim afgreiddum.

Safnastjóri Listasafns Árnesinga bað fyrir kveðjur, gat því miður ekki mætt á þennan fund eins og tilstóð, en stefnir á að hitta nefndina á næsta fundi.

Dagskrá:

1. 1002103 - Menningarstyrkir LMÁ 2010

Alls bárust 10 umsóknir til LMÁ að upphæð kr. 2.325.000. Til úthlutunar voru kr. 300.000 og hlutu eftirtaldir styrk: Gunnar Guðsteinn Gunnarsson, myndlistarmaður kr. 25.000, Hörpukórinn Selfossi kr. 50.000, Leikfélag Selfoss kr. 90.000, David Art Sigurðsson myndlistarmaður kr. 25.000, Magnús Hlynur Hreiðarsson fréttamaður kr. 50.000 fyrir verkefnið Hvað er í fréttum og Barna- og unglingakór Selfosskirkju kr. 60.000.

Eftirtaldir aðilar fengu ekki: Töfragarðurinn á Stokkseyri, Ásta Valdís Árnadóttir v. verkefnis í viðburðarstjórnun, Sandra Steinþórsdóttir, Flóahrepp vegna Götustuttmyndar og hljómsveitin The Assassin of a Beautiful Brunette, en umsókn þeirra barst eftir að umsóknarfrestur var útrunninn. Samþykkt samhljóða.

2. 1002105 - Menningarviðurkenning Árborgar 2010

LMÁ ræddi nokkra möguleika um útnefningu menningarviðurkenningar fyrir árið 2010 og hefur komst að sameiginlegri niðurstöðu. Afhending menningarviðurkenningarinnar verður á Vori í Árborg í maí nk. Eðli málsins samkvæmt er útnefningin enn trúnaðarmál.

3. 0912054 - Vor í Árborg 2010

Verkefnisstjóri gerði grein fyrir stöðu mála. Eins og fram kemur í þeim drögum sem lágu fyrir fundinum hafa einstaklingar og hópar sent inn tillögur og hugmyndir um aðkomu og/eða þátttöku í dagskrágerð á Vorinu 13.- 16. maí nk, en eins áður var kallað eftir almennri þátttöku í gegnum blöð og fjölmiðla. Þegar er byrjað er að ræða við hlutaðeigendur og væntanlega þátttakendur. Dagskráin verður smærri í sniðum en oft áður en uppbygging verður með svipuðu hætti og síðustu ár, líf og fjör í hverjum byggðarkjarna. Gaman saman- fjölskylduleikurinn verður á sínum stað og spilar stórt hlutverk í dagskránni. Dagskráin ásamt Gaman saman - vegabréfinu verður borið inn á hvert heimili. Helstu nýjungar, að nú er ætlunin að setja upp stórt tjald á lóðinni við Tryggvaskálann, þar er hugmyndin að vera með markað í bland við uppákomur, stórt handboltamót fer fram í íþróttahúsunum í Iðu og Vallaskóla, fjölmenn skólalúðrasveit heimsækir okkur þessa daga ofl. ofl. Söfnin og galleríin verða opin og lista- og handverksfólk opna vinnustofur sínar og sýningar. Elsti árgangur allra leikskólanna í Árborg leggur land undir fót og mun syngja í hverjum byggðarkjarna fyrir sig og vera með myndistasýningar í ýmsum stofnunum. Á næstu dögum verða drög að dagskrá birt á heimasíðunni www.arborg.is. Vor í Árborg 2010. LMÁ þakkar upplýsingarnar og hvetur menn að kynna sér dagskráatriði í tíma og taka virkan þátt.

Fulltrú D-lista lagði fram eftirfarandi fyrirspurnir:

1) Varðandi menningarhátíðina Vor í Árborg 2010 hvernig er málum háttað þar, er verslað við heimamenn varðandi þjónustu og stuðning við hátíðina? 2) Eru einhver laun greidd sérstaklega fyrir undirbúning og störf við og fyrir hátíðina af hálfu Sveitarfélagsins? 3) Hver er heildarkostnaður við hátíðina? 4) Er uppgjöri vegna fyrri hátíða Vors í Árborg lokið að fullu? Verkefnisstjóri upplýsti: 1) Reynt væri eftir fremsta megni að gera svo. 2) Nei, starfsmenn sveitarfélagsins sjá um undirbúningsvinnuna. 3) Fjárhagsáætlun fyrir hátíðina í ár hljóðar upp á 2. milljónir og eru þeir fjármunir notaðir til að greiða fyrir kostnað vegna dagskráratriða, kynninga og flagganna t.d. Eins og menn etv. vita þarf hver hátíð að greiða fyrir vinnu þá sem innt er af hendi af starfsmönnum annarra deilda sveitarfélagsins, eins og Áhaldahússins. 4) Já, og búið að leggja fram ársreikninga fyrir 2009.

4. 1003184 - Sameiginleg skóla-, íþrótta- og æskulýðsstefna Árborgar

LMÁ fagnar tillögu ÍTÁ um að hafinn verði undirbúningur að gerð sameiginlegrar skóla- og frístundastefnu fyrir sveitarfélagið, með það að markmiði að samhæfa áherslur og leiðir í skólagöngu og frístundum barna, skapa samfellu í daglegu starfi þeirra og fjölga samverustundum fjölskyldna. Með endurskoðun gildandi skipulags og vinnuferla gefast jafnframt tækifæri til hagræðingar, skilvirkari nýtingar fjármuna og ný sóknarfæri til að bæta góða þjónustu.

Fræðslunefnd tók undir tillögu ÍTÁ og mælir með því við bæjarráð að hefjast handa við undirbúning málsins. LMÁ tekur og undir tillögu ÍTÁ og sömuleiðis undir bókun fræðslunefndar og vill sérstaklega benda á mikilvægi þess að leggja aukna áherslu á verk- og listkennslu fyrir nemendur.

5. 1001011 - Höggmyndin Grettir á stall

LMÁ samþykkir fyrir sitt leyti niðurstöður þær er Lýður Pálson, safnstjóri Byggðasafns Árnesinga greindi frá um málið, sbr. gögn sem lágu fyrir fundinum. Niðurstöðurnar eru: Steyptur verði nýr sökkull á sama stað og styttan hefur verið undanfarna áratugi og sömu gerðar. Jafnframt myndi Sveitarfélagið Árborg ásamt söfnunum á Eyrarbakka og LSÓ leggja meiri áherslu á kynningu á listaverkum Sigurjóns Ólafssonar þeim sem sjá má á almannafæri í Sveitarfélaginu Árborg. Samþykkt samhljóða og var verkefnisstjóra falið að vinna málið áfram.

6. 1003039 - Árborgarstofa

Verkefnisstjóri greindi frá stöðu mála varðandi undirbúningsvinnu að Árborgarstofu (vinnuheiti) í Tryggvaskála, sem bæjarstjórn samþykki samhljóða á 56. fundi að fela honum að inna af hendi. Stofan hafi það meginhlutverk að annast menningar-, kynningar- og markaðsmál sveitarfélagsins auk þess sem ferða- og atvinnumál heyri undir hana. Verkefnisstjóri telur flesta vera sammála að Upplýsingamiðstöð Árborgar sem nú er staðsett í Bókasafni Árborgar á Selfossi verði ein af kjölfestum í starfseminni sömuleiðis verði sérstöku Ölfusársetri komið á fót, sem kynni sögu árinnar, byggingu brúarinnar og hina merku sögu Tryggvaskálans. Leitað verði eftir nánu samstarfi og samningum við Skálafélagið ses. um að Árborgarstofa verði staðsett í Tryggvaskála á Selfossi. Formleg opnun verði eigi síðar en vorið 2011. Stofan verði uppbyggð og starfrækt með sambærilegum hætti og Akureyrar-, Akranes- og Höfuðborgarstofa. Stofan verði eins og öðrum landsfjórðungum í nánu samstarfi við Markaðsstofu Suðurlands og Atvinnuþróunarfélag Suðurlands sem og hafi náið samráð og samstarf við einkaaðila, félagasamtök og fyrirtæki á svæðinu, sem eiga sameiginlega hagsmuni með starfsemi Árborgarstofu. Með þátttöku í Markaðsstofu Suðurlands verði markvisst farið í að markaðsetja Selfoss sem höfuðstað Suðurlands

LMÁ samþykkir og styður stofnun stofunnar heilshugar og hvetur bæjaryfirvöld til að fara í þessa aðgerð sem fyrst. LMÁ bendir á umræðu undanfarinna ára um mikilvægi þess að fá hin síaukna fjölda ferðamanna sem hér fer í gegn til að stoppa og hafa hér viðdvöl. Þar myndi Árborgarstofa í Tryggvaskála með öflugri upplýsingamiðstöð og kynningum á ársetri, söfnum og listastarfi byggðarkjarnann sem og áhugaverðum stöðum og svæðum s.s. fuglafriðlanið gegna lykilhlutverki, sbr.klásúla í Lista- og menningarstefnu Sveitarfélagsins Árborgar. Veitingarsalurinn rekinn af einkaaðilum yrði nýttur með svipuðum hætti og verið hefur, bjóða mætti upp á netcafé, veitinga- og minjagripasölu ofl. Það var mál manna í LMÁ að nafni Tryggva Gunnarssonar væri bestur heiður og sómi sýndur með því að tengja nafn hans fyrirhugaðri stofu í Tryggvaskála.

7. 1002101 - Menningaráð Suðurlands 2010 - greiðslur og úthlutanir

Verkefnisstjóri upplýsti að afhending styrkja sem sótt var um fyrir árið 2010 fari fram á sérstakri úthlutunarhátíð sem haldin verður í Versölum, menningarsal Þorlákshafnar, Hafnarbergi 1, 3. maí nk. kl. 15:00. Þess er vænst að fulltrúi/fulltrúar styrkþega sjái sér fært að mæta. Sveitarfélagið Árborg hefur fengið staðfest að styrkveitingar til ýmissa verkefna sem það sótti um nemi 1.1 milljón. Sömuleiðis kom fram að sveitarfélagið greiðir tæpar 2.9. milljónir í sameiginlegan sjóð till Menningarráðs Suðurlands fyrir árið 2010.

LMÁ þakkar upplýsingarnar og fagnar þessum styrkveitingum. Jafnframt felur nefndin verkefnisstjóra að kalla eftir upplýsingum frá stjórn Menningarráðs Suðurlands um heildargreiðslur frá sveitarfélögum Suðulands í sameiginlegan úthlutunarsjóð ráðsins, sömuleiðis hversu hár styrkurinn er frá ríkinu í ár og hver sé áætlaður rekstrarkostnaður ráðsins sé fyrir árið 2010.

8. 1004165 - Sumardagurinn fyrsti 2010

Eftirfarandi fyrirspurn var lögð fram af fulltrúa D-lista á fundinum: Hvernig gekk með hátíðarhöld á sumardaginn fyrsta, var mikil þátttaka og hvernig fór kynning og eftirfylgni fram af hálfu sveitarfélagsins? Verkefnisstjóri upplýsti að Skátafélagið Fossbúar og Sveitarfélagið Árborg hefðu gert þjónustusamning sín á milli 2008, sem m.a. kemur fram að Skátafélagið Fossbúar sjái alfarið um hátíðarhöldin á sumardaginn fyrsta og kynningar og um skrúðgöngu, þátttöku í skátamessu og skemmtidagskrá.. Skátarnir sendu tilkynningu inn á hvert heimili hvað stæði til og eftir því sem undirritaður best veit tókst vel til. Samningurinn lá frammi á fundinum. LMÁ þakkar upplýsingarnar.

9. 1004167 - Ályktun frá fulltrúa D-lista um opnunartíma sundlauga í Sv. Árborg.

Eftirfarandi ályktun var lögð fram af fulltrúa D - lista vegna opnunartíma sundlauga í Sv. Árborg: Ályktun: Menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar harmar lokanir á Sundhöll Selfoss og Sundlaug Stokkseyrar um páska og á sumardaginn fyrsta. Sundlaugarnar eru á tímum sem þessum einhver mikilvægasta samfélagsstoð við erfiðar aðstæður og mikilvægur samverustaður til andlegrar og líkamlegrar uppbyggingar fyrir íbúa Sveitarfélagsins. Ekki síður þjóna sundlaugarnar mjög mikilvægu hlutverki í ferðamanna og menningarlegu hlutverki í Sveitarfélaginu og hefur lokun þeirra skaðað ímynd okkar á því sviði. Um páskana varð fjöldi fólks frá að hverfa auk íbúanna, til að mynda ferðafólk að gosstöðvunum sem hér fór um í tugþúsundavís og gríðarlegur fjöldi fólks í frístundabyggð á svæðinu. Það er hryggilegt að hér sé Sveitarfélagið ekki meira með á nótunum með íbúunum og hagsmunaaðilum sem berjast við að halda úti þjónustu við íbúa og ferðamenn í Sveitarfélaginu.

Fulltrúar meirihlutans V - og B lista bókuðu: Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2010 var sviðinu gert að spara ákveðið % hlutfall í rekstri sundstaðanna og kaus m.a. að fara þessa leið frekar en að skerða daglegan vinnutíma starfsfólksins og unnið er eftir samþykktri fjárhagsáætlun fyrir árið 2010.

10. 1002179 - Listasmiðjur í tómstundahúsum

LMÁ þakkar David Art Sigurðssyni boð um samstarf og fyrir hugmyndir um kennslu og námskeið í "Listin að tjá sig í litum" og felur verkefnisstjóra að vinna málið áfram og finna því hentugan farveg.

11. 1004130 - Kynningarmyndbönd Sveitarfélagið Árborg

Verkefnisstjóri upplýsti að á næstunni verður formleg afhending á tveim diskum með þeim fjórum kynningarmyndböndum sem framleidd hafa verið fyrir heimasíðu Sveitarfélags Árborgar www.arborg.is Það fyrra er eingöngu á íslensku: og inniheldur

1) Sveitarfélagið Árborg, 2) Skóla og félags- og tómstundaþjónustu, 3) Áhugaverðir staðir í Árborg, 4) Friðlandið í Flóa, sem verður frumsýnt við afhendinguna. Þessi 4 kynningarmyndbönd eru öll á einum diski. Svo er annar diskur með kynningarmyndbönd á íslensku, ensku, þýsku, dönsku og frönsku. 1) Áhugaverðir staðir í Árborg og 2) Friðlandið í Flóa. Myndbönd þessi verða einnig sett inn á aðra vefi sveitarfélagsins s.s. Upplýsingamiðstöðvarvefinn og notað sem kynningarefni fyrir erlenda sem innlenda hópa þegar þess gerist þörf.

LMÁ þakkar upplýsingarnar og fagnar að þessu verkefni sé lokið um leið og það bendir á nauðsyn þess að uppfæra efnið reglulega.

12. 1003202 - Æskan - rödd framtíðarinnar - ráðstefna

LMá þakkar upplýsingarnar og boð á ráðstefnuna sem haldin verður 20.-21. maí nk. á Hilton Nordica hóteli í Reykjavík. Nefndin hvetur sem flesta að fara. Eins og fram kemur í upplýsingum boðsbréfsins var eitt af helstu verkefnum Íslands á formennskuári í Norrænu ráðherranefndinni 2009 samanburðarrannsókn á högum, líðan og lífsstíl meðal norrænna ungmenna, 16-19 ára. Rannsóknin var gerð á öllum Norðurlöndum, þ.m.t. Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum. Á ráðstefnunni verða settar fram hugmyndir um áframhaldandi vinnu við framkvæmd núverandi stefnu í æskulýðsmálum innan Norrænu ráðherranefndarinnar sem miðar að því að Norðurlöndin verði besti staður í heimi fyrir ungt fólk. Frekari upplýsingar má finna á www.nyr2010.is

13. 1004080 - Menningarþing - Menningarlandið 2010

LMÁ þakkar upplýsingarnar og hvetur sem flesta til að fara og kynna sér greiningu á núverandi menningarstefnu og fá viðbrögð og taka þátt í mótun menningarstefnu til framtíðar. Menningarþingið er haldið að Hótel Loftleiðum, 30. apríl nk. kl. 12:30 - 16:45 og er öllum opið. Á þinginu verður unnið í vinnuhópum með eftirfarandi fjóra málaflokka: listir, menningararfur og söfn, fjölmiðlar og íþrótta- og æskulýðsmál. Nánari upplýsingar um dagskrá: http://www.menntamalaraduneyti.is/menningarlandid2010

14. 1004094 - Röddin - söngvakeppni fyrir börn og unglinga 2010

LMÁ þakkar upplýsingarnar og fagnar að Röddin ætli að taka hús á Hótel Selfossi 23. - 24. júlí í sumar og þakkar hlutaðeigendum. Röddin er söngvakeppni á landsvísu fyrir börn og unglinga á aldrinum 10 -16 ára. Keppnin er haldin á tímabilinu júní - ágúst á átta stöðum á landinu. Þetta er samstarfsverkefni aðstandenda Raddarinnar og Hótel Selfoss. Nánari upplýsingar: www.roddin.is og hjá Maríu Björk Sverrisdóttur aria@islandia.is og Sigríði Beinteinsdóttur sbeinteins@simnet.is og hjá hótelstjóra Hótel Selfoss asi@hotelselfoss.is

15. 1004063 - Samningur við Fuglaverndarfélagið 2010

Sveitarfélagið Árborg var með sérstaka dagskrá í fuglafriðlandinu í Flóa í tilefni Dags umhverfisins sem var 25. apríl sl. Ragnheiður Hergeirsdóttir bæjarstjóri og Jóhann Ólafur undirritaður nýjan samning við Fuglaverndarfélag Íslands um umsjón og uppbyggingu í fuglafriðlandinu í Flóagaflsmýrinni og fuglaskoðunarskýli Fuglaverndar var formlega tekið í notkun. Fuglavernd verður með leiðsögn og upplýsingar á staðnum. LMÁ þakkar upplýsingarnar

16. 0812007 - Útilistaverk Sveitarfélags Árborgar

LMÁ þakkar upplýsingarnar og fagnar að skráin skuli vera komin upp og biður hlutaðeigendur að uppfæra skrána reglulega. Sjá nánar www.arborg.is flipi/ ARBORG tourist info / eða Upplýsingamiðstöð ferðamanna / þjónusta / útilistaverk.

17. 1002166 - Suðurstrandarkort 2010

Verið er að leggja lokahönd á uppsetningu á Suðurstrandarkorti sem er samvinnuverkefni fjögurra sveitarfélaga, Árborgar, Ölfuss, Hveragerðis og Flóahrepps og Orkuveitu Reykjavíkur. Kortinu verður dreift á upplýsingamiðstöðvar og á alla helstu ferðamannastaði landsins. LMÁ þakkar upplýsingarnar

18. 1004155 - Sunnlensk ætt - Reynifellsætt - niðjatal

Heiðrún Dóra Eyvindardóttir upplýsti að Þór Jakobsson hefði ásamt konu sinni komið á safnið og afhent Bókasafni Árborgar nýútgefið ritverk,sem nefnist "Reynifellsætt eftir Selmu Egilsdóttur - drög að niðjatali. Þetta er ættartal í sex bindum en auk þess fylgir nafnaskrá eftir Kristínu Auði Jónsdóttur í tveimur bindum. Samtals átta bindi í þykkum lausblaðamöppum, mikið og merkilegt verk sem Þór Jakobsson, veðurfræðingur ritstýrði. Ættartalið nær til ársins 2002 og er í gamla stílnum, án mynda. Verkin verða til sýnis niðri í Lesstofu Bókasafnsins á Selfossi út maímánuð. LMÁ þakkar höfðinglega gjöf og hvetur gesti og gangandi að koma og skoða þessar gersemar.

19. 1003125 - Götukort 2010

Forstöðumaður upplýsti að prentuð hefðu verið 12.000 kort eins og gert er ráð fyrir árlega. Prentmet sá um prentun og hefur kortinu verið dreift til allra upplýsingamiðstöðva landsins svo og á stoppistöðvar strætó, svo og inn á hvert heimili í sveitarfélaginu. LMÁ þakkar upplýsingarnar.

20. 1004144 - Ársskýrsla Byggðasafns Árnesinga og Sjóminjasafnsins 2009

LMÁ þakkar hlutaðeigendum fyrir skýrsluna.

21. 1004056 - Drepstokkur 2010

Drepstokkur menningarhátíð ungs fólk á Suðurlandi fór fram í Pakkhúsinu um sl. helgi. Gylfi Þorkelsson, bæjarfulltrúi opnaði hátíðina á föstudagskvöldinu og vígði um leið nýja heimasíðu Pakkhússins og upptökustúdíó í kjallara hússins. Nokkur ungmenni sýndu síðan fyrstu stuttmyndina sem unnin var í upptökustúdíóinu. Gaman var að sjá hvað margir mættu á opnunina og skoðuðu húsið og þá aðstöðu sem það veitir ungmennunum. Útvarp Himnaríkis, FM 89,9 fór síðan í loftið á föstudagskvöldinu og voru útsendingar í gangi alla helgina. Tæknilegir örðuleikar urðu þó til þess að hætta varð útsendingu aðeins fyrr á sunnudeginum en til stóð en annars gengu útsendingar mjög vel. M.a. gesta í útvarpinu voru dagskrárgerðamennirnir Frosti og Máni frá X-inu sem komu á laugardaginn og voru með útvarpsþáttinn sinn Harmageddon í Pakkhúsinu sem vakti mikla lukku. Fatahönnunarkeppni fór fram yfir helgina og tóku sjö keppendur þátt. Þemað sem unnið var útfrá var eldgos. Keppendurnir fengu námskeið á fimmtudeginum og gátu síðan nýtt sér aðstöðu í Pakkhúsinu til vinnu alla helgina en úrslitin voru á sunnudeginum. Sigurvegari keppninnar varð Vala Hauksdóttir. Fleiri viðburðir voru í gangi yfir helgina og má þar nefna myndlistarsýningu á veggjum Pakkhússins, kvikmyndamaraþon og brjóstssykursgerð. Fresta varð þó tónleikum á sunnudagskvöldinu vegna vandamála með flutningsfyrirtæki hljómsveitarinnar en tækjabúnaður þess var læstur inn og fékkst ekki afgreiddur fyrr en eftir helgina. Tónleikarnir verða þó haldnir fljótlega og þá í tengslum við Vor í Árborg. LMÁ þakkar upplýsingarnar og óskar ungmennunum til hamingju með kröftuga og lifandi starfsemi.

22. 1001181 - Ungmennalandsmót UMFÍ sumarið 2012 á Selfossi

LMÁ tekur undir með ÍTÁ og fagnar því að Sveitarfélagið Árborg ætli í samstarfi við HSK að sækja um að halda unglingalandsmót UMFÍ sumarið 2012. Það er til marks um þann mikla metnað sem sveitarfélagið hefur í málaflokknum, en Sveitarfélagið Árborg verður sem kunnugt er gestgjafi Landsmóts UMFÍ árið 2013 og á sem fyrst að fara að huga að kynningu á málinu og sveitarfélaginu öllu.Tekur sömuleiðis undir eftirfarandi niðurstöðu bæjarráðs frá 18. mars sl. Bæjarráð fagnar áhuga HSK á að ganga til viðræðna við Sveitarfélagið Árborg um að sækja um að halda Unglingalandsmót á Selfossi árið 2012. Bæjarráð tilnefnir Braga Bjarnason og Helga S. Haraldsson sem fulltrúa til að vinna að málinu.

23. 1003093 - Ráðstefna - ungt fólk og lýðræði 2010

Dagana 7. - 9. apríl sl. hélt Ungmennafélag Íslands ráðstefnuna, Ungt fólk og lýðræði, á Laugum í Dalabyggð. Tveir fulltrúar í ungmennaráði Árborgar fóru á ráðstefnuna fyrir hönd Sveitarfélagsins Árborgar ásamt forstöðumanni tómstundahúsa Árborgar og tóku þar virkan þátt í umræðum og verkefnavinnu. Ályktun sem samþykkt var á þinginu hefur nú verið gefin út og er hægt að nálgast hana á heimasíðu sveitarfélagsins www.arborg.is undir frétt Ungt fólk og lýðræðið. LMÁ þakkar upplýsingarnar.

24. 1004168 - Hörpukórinn Selfossi - tónleikar

Hörpukórinn ásamt fjórum öðrum kórum eldri borgara halda kóramóti í sal Fjölbrautaskóla Suðurlands laugardaginn 8. maí nk. kl. 16:00 og er aðgangur ókeypis. Hinir kórarnir eru: Eldey Suðurnesjum, Gaflarakórinn Hafnarfirði, Vorboðar Mosfellsbæ og Hljómur Akranesi.

LMÁ þakkar upplýsingarnar og hvetur bæjarbúa til að fjölmenna á þennan viðburð.

Þar sem ekki er gert ráð fyrri fleiri fundum á kjörtímabilinu vill verkefnisstjóri þakka kærlega fyrir ánægjulegt og skemmtilegt samstarf. Nefndarmenn þökkuðu sömuleiðis fyrir samstarfið.

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 18:55

Andrés Rúnar Ingason
Ingveldur Guðjónsdóttir
Kjartan Björnsson
Andrés Sigurvinsson


Þetta vefsvæði byggir á Eplica