26.fundur bæjarráðs
26. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn 04.01.2007 í Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10
Mætt:
Jón Hjartarson, bæjarráðsmaður
Margrét Katrín Erlingsdóttir, bæjarráðsmaður
Þórunn J Hauksdóttir, bæjarráðsmaður
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri
Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari
1. Fundargerðir til staðfestingar:
|
|
|
|
2. Fundargerðir til kynningar:
|
|
|
|
Engar.
3. 0612021
Ráðningarsamningur bæjarstjóra til staðfestingar -
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri, vék af fundi við afgreiðslu þessa liðar.
Formaður bæjarráðs bar upp ráðningarsamning bæjarstjóra til staðfestingar.
Samningurinn var samþykktur með tveimur atkvæðum fulltrúa meirihluta, gegn atkvæði fulltrúa D-lista.
Margrét K. Erlingsdóttir, B-lista, bar upp svohljóðandi bókun:
Ráðningarsamningur þessi felur í sér umtalsverða lækkun kostnaðar vegna stöðu bæjarstjóra fyrir Sveitarfélagið Árborg. Annars vegar er um að ræða lækkun launakostnaðar og hins vegar bifreiðakostnaðar, samtals um 350.000 kr. á mánuði. Meirihluti bæjarstjórnar gerir ráð fyrir að með þessu móti sparist a.m.k. 14,5 m.kr. á þeim tíma sem eftir eru af kjörtímabilinu miðað við þann kostnað sem fyrri samningur hljóðaði upp á. Að auki gerir samningurinn ráð fyrir að uppsagnarfrestur núverandi bæjarstjóra, hætti hann störfum á kjörtímabilinu, sé 6 mánuðir en ekki 12 eins og í samningi þeim sem sagt var upp í desember s.l.
Kjör núverandi bæjarstjóra eru í samræmi við það sem tíðkast annars staðar á landinu og sambærileg kjörum bæjarstjóra Árborgar á síðsta kjörtímabili.
Meirihluti bæjarráðs.
Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, gerði grein fyrir atkvæði sínu:
Í samningnum kemur fram að laun Ragnheiðar Hergeirsdóttur, bæjarstjóra og bæjarfulltrúa S-lista, eru sambærileg launum Stefaníu Katrínar og starfsskyldur þeirra þær sömu. Því eiga þau orð Ragnheiðar (á 2. fundi bæjarstjórnar, 17.8 ‚06) um launakjör Stefaníu Katrínar - „að þau séu veruleg hækkun mánaðarlauna frá því sem var á síðasta kjörtímabili“ - vel um hennar eigin kjör.
Ég er á móti því að ráðinn sé nýr bæjarstjóri í Árborg þótt skipt hafi verið um meirihluta. Stefanía Katrín Karlsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri, sinnti starfi sínu af heilindum og með miklum sóma. Bæjarstjóri er embættismaður sveitarfélags og framfylgir vilja bæjarstjórnar. Bæjarstjórn er kosin af íbúum Árborgar og þeirra vilji í síðustu kosningum var að hafna fyrrverandi bæjarstjórn Framsóknarflokks og Samfylkingar. Með aðstoð Vinstri-grænna hefur þessi vilji kjósenda nú verið hafður að engu. Vegna þessa greiði ég atkvæði gegn því að staðfesta samning bæjarstjóra.
4. 0612079
Gjaldskrá sundstaða Árborgar 2007 -
Lögð var fram greinargerð með tillögu að hækkun gjaldskrár. Bæjarráð samþykkir tillögur að breytingum á gjaldskrá.
Þórunn Jóna Hauksdóttir, fulltrúi D-lista leggur fram svohljóðandi bókun:
Í nýrri gjaldskrá sundstaða Árborgar kemur fram hækkun einstakra þátta allt að 9,7%. Eðlilegt er að tekjuaukning vegna þessa nýtist til uppbyggingar sundlauga í Árborg. Eins og fram hefur komið er vilji hjá Sjálfstæðisflokknum til að byggja við núverandi Sundhöll Selfoss og auka við þjónustu Sundhallarinnar. Fyrsta skrefið að þessu er að bæta búningsaðstöðu gesta og treysti ég því að það verði gert með myndarlegum hætti fyrir mitt ár 2007.
Formaður bæjarráðs lagði fram svohljóðandi bókun:
Hækkun gjaldskrár sundlauga er mismunandi eftir gjaldskrárflokkum, frá 0 % til 9,7 %. Að meðaltali er um að ræða 5 % hækkun. Hún er ætluð til að mæta verðlagshækkunum ársins sem þó má búast við að verði mun meiri. Þar sem sveitarfélagið greiðir verulegar upphæðir árlega með sundstöðum í Árborg er óraunhæft að tengja lágmarks verðlagshækkun um áramót uppbyggingaráformum sem kosta tugi milljóna og byggjast á sérstökum fjárveitingum.
Fulltrúar meirihlutans.
5. 0611047
Beiðni Skógræktarfélags Selfoss um styrk fyrir starfsárið 2007 til eflingar skógræktar- og útivistarsvæði í Hellisskógi -
Bæjarráð vísar erindinu til fjárhagsáætlunar fyrir árið 2007.
6. 0611060
Beiðni Héraðssambandsins Skarphéðins um fjárstuðning -
Bæjarráð hafnar erindinu þar sem styrkveitingar sveitarfélagsins til HSK eru afgreiddar í Héraðsnefnd Árnesinga.
7. 0611139
Beiðni Félags eldri borgara um kaup á mini-golfi -
Formaður bæjarráðs bar upp tillögu um að erindinu yrði vísað til starfshóps um uppbyggingu íþróttamannvirkja.
Þórunn Jóna Hauksdóttir, fulltrúi D-lista, leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:
Bæjarráð tekur jákvætt í erindi Félags eldri borgara og lýsir vilja til að koma upp aðstöðu fyrir mini-golf fyrir vor 2007. Bæjarráð felur íþrótta- og tómstundanefnd að koma með tillögu að hentugri staðsetningu og vísar kostnaði til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2007.
Tillagan var borin undir atkvæði og felld með atkvæðum fulltrúa meirihlutans, gegn atkvæði fulltrúa D-lista.
Tillaga formanns bæjarráðs var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum fulltrúa meirihlutans gegn atkvæði fulltrúa D-lista.
8. 0612023
Beiðni um styrk við Snorraverkefnið 2007 -
Bæjarráð hafnar erindinu.
9. 0612075
Beiðni um umsögn um umsókn um leyfi til stofnunar lögbýlis á Nýja-Bæ -
Bæjarráð vísar erindinu til landbúnaðarnefndar.
10. 0510037
Skipan í vinnuhóp vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja. -
Bæjarráð skipar eftirtalda til setu í hópnum:
Jón Hjartarson, V-lista, Helga Haraldsson, B-lista, Grím Arnarson, D-lista og Gylfa Þorkelsson, S-lista, sem verði formaður hópsins.
11. 0612068
Beiðni menntamálaráðuneytisins um umsögn um stefnu stjórnvalda í fornleifavernd á Íslandi -
Bæjarráð vísar erindinu til skipulags- og byggingarnefndar, umhverfisnefndar og til menningarnefndar.
12. 0612074
Beiðni dómsmálaráðuneytisins um umsögn - reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna og lögregluumdæmi lögreglustjóra -
Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við drög að nýrri reglugerð.
13. Erindi til kynningar:
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 08:42.
Jón Hjartarson
Margrét K. Erlingsdóttir
Þórunn J Hauksdóttir
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Ásta Stefánsdóttir