1.10.2019

27. fundur hverfisráðs Eyrarbakka

Fundargerð 27. fundar hverfisráðs Eyrarbakka
  1. september 2019
  Árið 2019, fimmtudaginn 19. september kl. 19:00 kom hverfisráð Eyrarbakka saman til fundar í samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka. Fundinn sátu Magnús Karel Hannesson, Drífa Pálín Geirs, Guðmundur Ármann Pétursson, Sigmar Ólafsson og Vigdís Sigurðardóttir, sem ritaði fundargerð. Að auki sátu fundinn Esther Helga Guðmundsdóttir, varamaður í hverfisráði, og bæjarfulltrúarnir Brynhildur Jónsdóttir og Eggert Valur Guðmundsson. Fundargerðin var færð í tölvu. Þetta var tekið fyrir:
  1. Samskipti við mannvirkja og umhverfissvið sveitarfélagsins
Á fundinn kom Atli Marel Vokes, sviðsstjóri mannvirkja- og umhverfissviðs Sveitarfélagsins Árborgar, en hann hafði með tölvubréfi dags. 9. júlí 2019 óskað eftir því að koma á fund hverfisráðs til þess að kynnast hverfisráðinu og ræða um þau málefni sem eru í gangi og þau málefni sem hverfisráðið óskar að tekin verði fyrir á sviðinu. Atli gerði grein fyrir verkefnum sviðsins og þeim málefnum sem efst eru á baugi. Hann óskaði eftir nánu samstarfi við hverfisráðið og íbúa á Eyrarbakka. Eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða: Hverfisráð Eyrarbakka óskar nýjum sviðsstjóra mannvirkja- og umhverfissviðs Sveitarfélagsins Árborgar velfarnaðar í mikilvægu starfi. Jafnframt óskar hverfisráðið eftir góðu samstarfi við sviðsstjórann og aðra starfsmenn mannvirkja- og umhverfissviðs í því þýðingarmikla verkefni að sinna umhverfismálum á Eyrarbakka og fegrun gatna og opinna svæða. Það verður aldrei nógsamlega brýnt fyrir starfsmönnum sveitarfélagsins að vera vakandi í þeim efnum og hlusta vel eftir sjónarmiðum íbúa.
  1. Umhverfismál
Sigmar Ólafsson hóf umræðu um ýmsa þætti umhverfismála sem snúa að Eyrarbakka og nefndi í því sambandi ýmis atriði sem þegar hafa verið rædd í hverfisráðinu, s.s. hreinsunarátak og hreinsun lóða (númerslaus ökutæki), göngustíg á sjóvarnargarði, aðkomu að listaverkinu Kríunni, upplýsingaskilti o.fl. Sigmar lýsti ánægju með lok framkvæmda við fjörustíginn milli Eyrarbakka og Stokkseyrar, sem malbikaður var nú á haustdögum, og endurbætur á húsum í þorpinu, sem væru til mikillar fyrirmyndar. Fram kom í umræðum að Sveitarfélagið Árborg mun standa fyrir strandhreinsunarátaki laugardaginn 28. september nk. í tengslum við verkefnið plastlaus september og BRIM kvikmyndahátíð sem er ætluð til að fræða og vekja athygli á mest aðkallandi umhverfisvanda-máli samtímans, og haldin verður á Eyrarbakka sama dag. Eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða: Hverfisráð Eyrarbakka ítrekar bókun sína frá 26. fundi ráðsins þann 12. júní sl. um átak Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um „Hreint Suðurland“ og væntir þess að átakinu verði ekki lokið fyrr en heilbrigðiseftirlitið hefur sinnt öllum byggðum Suðurlands og hafi beitt þeim valdheimildum sem eftirlitið hefur. Hverfisráðið lýsir ánægju sinni með lok framkvæmda við fjörustíginn milli Eyrarbakka og Stokkseyrar og því nauðsynlega viðhaldi gatna og gangstétta, sem nú er unnið að á Eyrarbakka. Hverfisráðið áréttar nauðsyn þess að göngustígur á sjóvarnargarði framan við þorpið verði lagfærður og að á hverju sumri verði lúpínubreiður, sem hafa tekið sér bólfestu í sjóvarnargarðinum, slegnar reglulega til að auðvelda gangandi umferð um garðinn. Hverfisráð Eyrarbakka fagnar endurbótum á húsum í þorpinu og þakkar þeim einstaklingum og stofnunum sem að því hafa staðið. Framtak einstaklinga í þessum efnum á að vera hvatning fyrir sveitarfélagið til að standa vel að umhverfismálum, snyrtingu opinna svæða og reglulegu viðhaldi gatna, gangstétta og göngustíga. Hverfisráð Eyrarbakka hvetur íbúa á Eyrarbakka til að taka myndarlega þátt í strandhreinsunar-átaki sveitarfélagsins 28. september 2019 og að nýta sér þá fræðslu og upplýsingar sem í boði verða á BRIM kvikmyndahátíð þann sama dag.
  1. Jólaskreytingar
Drífa Pálín Geirs hóf umræðu um  jólaskreytingar í þorpinu og nauðsyn þess að lífga upp á þær með meiri ljósum, sérstaklega við innkeyrslur í þorpið. Nefndi hún sem dæmi jólaskreytingar á ljósastaurum í Þorlákshöfn undanfarin ár sem góða fyrirmynd að breytingum. Drífa kynnti einnig beiðni Skógræktarfélags Eyrarbakka til sveitarfélagsins um að fá umráðarétt yfir lóðunum að Eyrargötu 2 og Álfsstétt 1, þar sem sett hefur verið upp jólatré á aðventunni í langan tíma. Hugmynd skógræktarfélagsins gengur út á það að gróðursetja jólatré á svæðinu, sem í framtíðinni geti nýst fyrir jólaskreytingar. Jafnframt að á jöðrum svæðisins verði gróðursett skjólbelti og rjóður með bekkjum – „svona eins og lítinn lystigarð“. Fram kom í umræðum að skiptar skoðanir eru um jólaskreytingaskilti sem sett hafa verið upp á ýmsum stöðum í þorpinu, fest á girðingar eða upplýsingaskilti, og vanda mætti betur til vals á þessum skreytingum. Eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða: Hverfisráð Eyrarbakka hvetur mannvirkja- og umhverfissvið sveitarfélagsins til þess að endurskoða jólaskreytingar á Eyrarbakka og fyrirkomulag þeirra. Hverfisráðið bendir á jólaskreytingar í Þorlákshöfn, Sveitarfélaginu Ölfusi, sem góða fyrirmynd að jólaskreytingum og að kannað verði hvort ekki megi taka mið af þeim við endurnýjun skreytinga á Eyrarbakka og víðar í sveitarfélaginu. Hverfisráðið leggur áherslu á að jólaskreytingar séu bjartar, líflegar og hafi heildrænt útlit. Hverfisráð Eyrarbakka hvetur til þess að afstaða sé tekin til erindis Skógræktarfélags Eyrarbakka frá 25. júlí 2019 sem allra fyrst, því væntanlega þarf að gera breytingar á skipulagi svo hugmyndir skógræktarfélagsins geti gengið eftir. Ljóst er að það getur tekið tíma. Atli Marel Vokes vék af fundi kl. 19:50
  1. Skipulagsmál í Einarshafnarhverfi
Með bréfi ritara bæjarstjóra Sveitarfélagsins Árborgar, dags. 30. ágúst 2019, er óskað f.h. bæjarráðs eftir umsögn hverfisráðs Eyrarbakka um beiðni Lifandi samfélags, dags. 25. ágúst 2019, um hugsanlegt samstarf um uppbyggingu Einarshafnarhverfis á Eyrarbakka. Hugmyndin gengur út á, að byggð yrðu í hverfinu hús/íbúðir sem myndu þjóna sem heimili fyrir félagsmenn í Lifandi samfélagi og að íbúðaformið verði sérstakt kjarnasamfélag að danskri fyrirmynd, en húsin byggð í anda þeirrar stórmerku byggingarhefðar sem er á Eyrarbakka. Á fundinn kom Sighvatur Lárusson, talsmaður Lifandi samfélags, og gerði nánari grein fyrir hugmyndum samtakanna og svaraði spurningum fundarmanna. Fram kom að hugmyndin gengur út á það, að leigufélag fjármagni og byggi 30–40 íbúðir, 50-110 m² að stærð, og leigi til félagsmanna Lifandi samfélags. Sighvatur Lárusson vék af fundi kl. 20:45. Eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða: Hverfisráð Eyrarbakka hefur á fundi sínum þann 19. september 2019 fjallað um erindi bæjarráðs frá 30. ágúst sl., þar sem óskað er umsagnar hverfisráðs um hugmyndir að breyttu skipulagi í Einarshafnarhverfi á Eyrarbakka, sem samtökin Lifandi samfélag hafa sett fram. Á fund hverfis-ráðs kom talsmaður Lifandi samfélags og gerði nánari grein fyrir hugmyndum samtakanna. Hverfisráðinu finnst hugmyndirnar athyglisverðar og að full ástæða sé til þess að þær séu skoðaðar nánar af bæjarstjórn. Áður en hverfisráðið tekur endanlega afstöðu til hugmyndanna þurfa að liggja fyrir drög að skipulagsskilmálum og skipulagsuppdrætti. Einnig telur hverfisráðið nauðsynlegt að fyrir liggi hvernig Lifandi samfélag hyggist fjármagna framkvæmdir og að samtökin leggi fram trúverðuga áætlun um framkvæmdatíma. Þegar framangreind gögn og upplýsingar liggja fyrir mun hverfisráðið taka afstöðu til málsins og senda bæjarstjórn umsögn sína. Hverfisráðið lýsir jafnframt vilja sínum og áhuga til að taka þátt í frekari umræðum um málið og undirbúningi þess.
  1. Götuheiti
Rætt um hugmynd Óskars Magnússonar, fyrrv. skólastjóra, og fleiri aðila sem komið hefur verið á framfæri við fulltrúa í hverfisráði, og snýr að því, að götustígur sem liggur á milli húsanna Búðarstígs 6 og 8 og að Hreggviði og Skúmsstöðum fái opinberlega heitið Bílastígur og sett verði upp skilti við stígsenda við Búðarstíg með því heiti. Stígur þessi gekk á árum áður undir þessu heiti, en það er þannig tilkomið að við stíginn stóð áratugum saman þrefaldur bílskúr á meðan bílskúrar voru ekki neinir annars staðar. Í skúrunum hafði Bifreiðastöð Eyrarbakka (BSE) aðsetur sitt fyrir austan fjall á árunum 1923–26. Seinna þjónuðu skúrarnir Eyrbekkingum sem stunduðu vörubílaakstur og nýttu þeir þá í sinni bílaútgerð. Eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða: Hverfisráð Eyrarbakka leggur til við bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar, að götustígur sem liggur milli húsanna Búðarstígs 6 og Búðarstígs 8 að austurhluta Skúmsstaðahverfis fái heitið Bílastígur með vísan til eldri hefðar um heiti á stígnum og að stígurinn verði merktur með götuskilti sem allra fyrst.
  1. Næsti fundur
Næsti fundur verður boðaður með dagskrá – hugsanlega seinni hluta nóvember með bæjarstjórn og hverfisráði Stokkseyrar til að ræða ákveðna þætti í fjárhagsáætlun ársins 2020. Formanni og ritara falið að ganga frá fundargerðinni. Fundi slitið kl. 21:00.                                   formaður                                                                                          ritari       Magnús Karel Hannesson                                                               Vigdís Sigurðardóttir     

Þetta vefsvæði byggir á Eplica