Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


9.1.2009

29. fundur skólanefndar grunnskóla

29. fundur skólanefndar grunnskóla, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn fimmtudaginn 8. janúar 2009  í Norðursal, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 17:15

Mætt: 
Sigrún Þorsteinsdóttir, nefndarmaður V-lista (V)
Þórir Haraldsson, formaður, B-lista (B)
Sandra D. Gunnarsdóttir, nefndarmaður S-lista (S)
Grímur Arnarson, nefndarmaður D-lista (D)
Samúel Smári Hreggviðsson, nefndarmaður D-lista (D)
Sigurður Bjarnason, verkefnisstjóri
Birgir Edwald, fulltrúi skólastjóra
Elín Höskuldsdóttir, fulltrúi Flóahrepps
Guðmundur B. Gylfason, fulltrúi kennara
Málfríður Garðarsdóttir, fulltrúi foreldra
Guðrún Thorsteinsson, fulltrúi kennara

Dagskrá:

  • 1. 0812051 - Skólanámsskrár grunnskóla Árborgar skólaárið 2008-2009

    Á 28. fundi skólanefndar þann 11. desember 2008 voru lagðar fram til staðfestingar skólanámsskrár allra grunnskóla í Árborg.
    Staðfestingu frestað vegna framkominna athugasemda um stundafjölda í einstökum greinum og upplýsinga verður aflað af verkefnisstjóra fyrir næsta skólanefndarfund.

     

Erindi til kynningar:

  • 2. 0808021 - Húsnæðismál Sunnulækjarskóla

    Formaður skólanefndar kynnti greinargerð og tillögu frá starfshópi vegna stefnumótunar um framtíðaruppbyggingu skólamannvirkja. Greinargerð og tillaga er send skólanefnd til kynningar og síðan umsagnar.

    Tilaga frá starfshópi vegna stefnumótunar um framtíðaruppbyggingu skólamannvirkja er eftirfarandi:

    Nemendur úr skólahverfi Sunnulækjarskóla ljúki tveimur síðustu bekkjum grunnskólans í Vallaskóla, og flytjist í Vallaskóla við upphaf 9. bekkjar. Taki gildi haustið 2009.

    Greinargerð:
    Vinnuhópur um uppbyggingu skólamannvirkja í Árborg sem skipaður var af bæjarráði þann 16. október 2008 hefur farið yfir stöðu húsnæðismála grunnskólanna í Árborg. Með framangreindri tillögu skilar hópurinn fyrsta áfanga tillagna sinna sem varða bráðavanda í skólahverfi Sunnulækjarskóla næsta haust.

    Nýleg áföll í efnahagsmálum, hrun í byggingariðnaði og á húsnæðismarkaði, óvissa á fjármagnsmarkaði og skert aðgengi að lánsfé leiðir til þess að nú er mjög erfitt að spá fyrir um fólksfjölgun í Árborg á næstu árum. Hefur því hópurinn að mestu horft til núverandi íbúa en jafnframt gert ráð fyrir að mögulegt verði að taka við nokkurri fjölgun.

    Ljóst er að fjöldi nemenda á upptökusvæði Sunnulækjarskóla næsta haust verður það mikill að nær ómögulegt verður að koma nemendum fyrir í skólahúsnæðinu með viðunandi hætti. Til þess að unnt eigi að vera að koma þremur til fjórum nýjum bekkjardeildum 1. bekkjar fyrir, ásamt núverandi nemendafjölda þyrfti að bæta við húsnæði.

    Vinnuhópurinn telur bráðabirgðahúsnæði koma vel til álita á meðan unnið væri að varanlegum lausnum. Hópurinn hefur auk þess sérstaklega horft til þess að stækka húsnæði Sunnulækjarskóla varanlega og breyta honum í þriggja hliðstæðna skóla og telur álitlega möguleika vera til þess með viðbyggingu austan við núverandi skólahús. Nauðsynlegt er að halda áfram að skoða þann möguleika og fleiri og mun hópurinn halda þeirri vinnu áfram.

    Staðan í efnahagsmálum og þær breytingar sem nú hafa orðið á efnahagsumhverfi sveitarfélagsins og lánamörkuðum leiða hinsvegar til þess að ekki er mögulegt að gera ráð fyrir að hægt verði að bæta við nýju skólahúsnæði við Sunnulækjarskóla fyrir næsta og reyndar ekki næstu tvö skólaár. Gildir þar einu hvort horft er til tímabundinna eða varanlegra lausna. Er því óhjákvæmilegt að skoða hvaða aðrir kostir kunni að vera til staðar.

    Vinnuhópurinn hefur því leitað leiða til að hægt verði að sinna með sóma þörfum nemenda og starfsfólks skólanna til a.m.k. næstu tveggja ára. Jafnframt hefur hópurinn horft til þess að óhjákvæmilegar breytingar geti nægt a.m.k. til tveggja ára en hugsanlega til lengri tíma ef það reynist nauðsynlegt, sérstaklega í ljósi mikillar óvissu í efnahagsmálum og á fjármagnsmörkuðum.

    Við núverandi aðstæður er óhjákvæmilegt að nýta fjárfestingar eins vel og kostur er og sveitarfélagið hefur hreinlega ekki efni á því að vera með vannýtt húsnæði. Því er óhjákvæmilegt að leita allra leiða til að koma þjónustunni fyrir í núverandi húsnæði. Ljóst er að þegar horft er til skólahúsnæðis Sunnulækjarskóla og Vallaskóla þá er sameiginlega fyrir hendi nægilegt húsrými til að sinna þörfum allra grunnskólanemenda sem eiga vísa skólavist í þessum skólum næstu tvö árin. Vandamálið kemur hins vegar til af því að búseta nemenda á upptökusvæðum fellur ekki nægilega vel saman við það húsnæði sem hvor skólinn hefur uppá að bjóða.

    Því liggur fyrir að skipta verður nemendum á skólana, a.m.k. tímabundið, með öðrum hætti en nú er gert. Eru þar tiltækar einkum tvær leiðir; annars vegar að breyta mörkum upptökusvæða og hinsvegar að breyta aldurssamsetningu skólanna. Hópnum er ljóst að allar breytingar eru mjög viðkvæmar, snerta grundvallarþætti í fjölskyldulífi þeirra íbúa sem um ræðir og geta haft neikvæðar afleiðingar fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Hópurinn telur reyndar að valið standi milli tveggja slæmra kosta en fyrir liggur að gera eins gott úr stöðunni og mögulegt er og vinna að því að ná sátt eða a.m.k. skilningi sem flestra barna og fjölskyldna á þeirri leið sem fyrir valinu verður.

    Við skoðun á valkostum og nýrri skiptingu telur vinnuhópurinn að tveir möguleikar standi uppúr. Annarsvegar að breyta mörkum upptökusvæða þannig að færri nemendur eigi skólasókn í Sunnulækjarskóla a.m.k. næstu tvö árin en núverandi upptökusvæði gerir ráð fyrir og þannig verði færri bekkjardeildir í næstu árgöngum Sunnulækjarskóla en í þeim árgöngum sem þar eru nú. Sú lausn nægir ekki til að leysa fyrirliggjandi vanda til næstu tveggja ára. Hinsvegar að hverfa tímabundið frá því að Sunnulækjarskóli nái allt upp í 10. bekk en að nemendur úr Sunnulækjarskóla ljúki tveimur síðustu grunnskólaárum sínum í Vallaskóla sem þá verði að safnskóla fyrir tvo elstu árganga grunnskólanemenda á Selfossi.

    Hópurinn er samála um framangreinda tillögu þ.e. að nemendur úr skólahverfi Sunnulækjarskóla ljúki tveimur síðustu bekkjum grunnskólans í Vallaskóla, og flytjist í Vallaskóla við upphaf 9. bekkjar. Taki gildi haustið 2009.

    Að mati hópsins er nauðsynlegt að ákvörðun verði endurskoðuð tímanlega fyrir skólaárið 2011 - 2012.

    Afgreiðsla:

    Skólanefnd tekur framangreinda tillögu til umsagnar og óskar jafnframt eftir að skólaráð, foreldrafélög og starfsfólk Sunnulækjarskóla og Vallaskóla taki tillöguna til umsagnar og skili inn niðurstöðum sínum eigi síðar en 30. janúar 2009. Umsögn skólanefndar verður tekin fyrir og afgreidd á næsta fundi sem er 11. febrúar 2009

    Samþykkt samhljóða

    Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 18:15

    Sigrún Þorsteinsdóttir                           
    Þórir Haraldsson
    Sandra D. Gunnarsdóttir                                  
    Grímur Arnarson
    Samúel Smári Hreggviðsson                             
    Sigurður Bjarnason
    Birgir Edwald                                                  
    Elín Höskuldsdóttir
    Guðmundur B. Gylfason                                   
    Málfríður Garðarsdóttir
    Guðrún Thorsteinsson


Þetta vefsvæði byggir á Eplica