Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


21.2.2013

29. fundur fræðslunefndar

29. fundur fræðslunefndar Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014, haldinn fimmtudaginn 14. febrúar 2013  í Norðursal, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 17:15. 

Mætt: Sandra Dís Hafþórsdóttir, formaður, D-lista, Grímur Arnarson, varaformaður, D-lista, Brynhildur Jónsdóttir, nefndarmaður, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, nefndarmaður, S-lista, Andrés Rúnar Ingason, nefndarmaður, V-lista, Birgir Edwald, fulltrúi skólastjóra, Eygló Aðalsteinsdóttir, fulltrúi leikskólastjóra, Már Ingólfur Másson, fulltrúi kennara, Málfríður Garðarsdóttir, fulltrúi foreldra grunnskóla, Gunnar Már Kristjánsson, fulltrúi foreldra leikskóla, Ingibjörg Harpa Sævarsdóttir, fulltrúi starfsmanna, Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri. 

Dagskrá:

Almenn afgreiðslumál

1.

1302081 - Efling skólastarfs og sérfræðiþjónusta skóla í Árborg

 

Formaður lagði fram eftirfarandi tillögu: 
Í ljósi þeirrar vinnu sem fram hefur farið um mótun framtíðarsýnar fyrir sérfræðiþjónustu skóla í Sveitarfélaginu Árborg, þar sem lögð er áhersla á þróun þjónustunnar til hagsbóta fyrir notendur hennar, leggur fræðslu­nefnd til við bæjarstjórn að sveitarfélagið segi sig úr byggða­samlagi um Skólaskrifstofu Suðurlands og taki alla sérfræðiþjónustu til sín og felli hana að stjórnkerfi sínu.  

Greinargerð:
Margt styður að tillagan sé lögð fram hér á fundi fræðslunefndar og að bæjar­stjórn taki sem fyrst ákvörðun um næstu skref. Í kjölfarið er hægt að vinna að frekari undirbúningi og framkvæmd þeirrar framtíðarsýnar sem mótuð hefur verið. Fram hafa komið bókanir sem styðja við samþykkt  tillögunnar, svo sem bókun allra leikskólastjóra á fundi  17. desember 2012, sameiginleg bókun vinnuhóps frá 28. janúar síðastliðnum um framtíðar­sýn fyrir sérfræðiþjónustu skóla og tillaga fjögurra fulltrúa af þeim fimm sem hafa verið að vinna að verkefninu síðastliðna 7-8 mánuði. Þá hefur verið boðið upp á nokkra kynningar- og umræðufundi fyrir aðila skólasamfélagsins um skýrslu Trausta Þorsteinssonar og Gunnars Gíslasonar (des. 2012), sem birt var á heimasíðu Árborgar 19. desember 2012, tölvupóstur var sendur á allt starfsfólk skólanna og fulltrúa í skólaráðum þar sem fólk var hvatt til að kynna sér skýrsluna og þeim jafnframt boðið til frekari umræðna og kynninga, stjórn Skólaskrifstofu Suðurlands fékk skýrsluna senda og allir helstu hagsmunaðilar hafa fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  

Það er mat formanns að með þessum breytingum á formgerð sérfræðiþjónustunnar verði auðveldast að vinna að þeirri framtíðarsýn sem birtist í skýrslunni og í fundargerðum vinnuhópsins. Lögð verði áhersla á þróun þjónustunnar og gerð sóknaráætlunar í skólamálum út frá þeim áherslupunktum sem fram hafa komið.  

Í undirbúningsvinnunni fram undan verði meðal annars hugað vel að eftirfarandi atriðum:

  • Efnt verði til viðræðna við sveitarfélög á Suðurlandi um faglegt samstarf í skólamálum undir nýjum formerkjum; meðal annars verði leitað eftir samningum um að sérfræðiþjónusta Skólaskrifstofu Suðurlands við skóla sveitarfélagsins standi þeim til boða út skólaárið 2013-2014. Þá myndast síður rof í þjónustunni og betri tími gefst til undirbúnings bæði hér í Árborg og hjá öðrum sveitarfélögum.
  • Unnt er að auka þjónustuna sem nemur u.þ.b. 2,5-3,0 stöðugildum og verði þeim fjármunum ráðstafað í verkefni sem snúa að þróun forvarnar­verkefna út frá hugmynda­fræðinni um snemmtæka íhlutun og úrræða fyrir nemendur sem glíma við félags- og tilfinningavanda. Í þeirri vinnu verði lögð áhersla á heildstæða nálgun í hverjum skóla að höfðu samráði við ráðgjafa sérfræði­þjónustunnar, félags- og frístundaþjónustu sveitar­félagsins, ART teymi og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Einnig verði lögð áhersla á að bæta skilyrði starfsfólks skólanna til að stunda símenntun og vinnu við starfs­­- og skólaþróun, bæði innan og utan starfstíma skóla. Skapa þarf tíma í öllum skólum sveitarfélagsins til faglegs samráðs og samvinnu, m.a. við mótun nýrrar formgerðar sérfræði­þjónustu skóla.
  • Í sóknaraðgerðum sveitarfélagsins í skólamálum verði unnið að því að móta hvatningarkerfi sem stuðlar að góðum árangri  nemenda á ýmsum sviðum. Stutt verði við viðleitni skóla til að greina og upp­fylla þarfir kennara eða skólasamfélagsins í heild fyrir nýja þekkingu og færni sem miðar að því að auka gæði náms.
  • Málefni sérfræðiþjónustu skóla verði tekin reglulega á dagskrá funda fræðslunefndar og lögð verði áhersla á að þjónustan verði skipulögð á sveigjanlegan hátt út frá þörfum hvers skóla í góðu samráði við skólastjórnendur. Í undirbúningsferlinu á næstu mánuðum verði haldnir sérstakir þróunar- og fagfundir með helstu hagsmunaaðilum skólasamfélagsins sem tryggir virka aðkomu skólanna að mótun og þróun þjónustunnar.

                               Sandra Dís Hafþórsdóttir, formaður fræðslunefndar.

Tillagan samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa D-lista og fulltrúar S-lista og V-lista  greiddu atkvæði á móti og lögðu fram eftirfarandi bókun:

Undirrituð greiða atkvæði gegn tillögu formanns fræðslunefndar um úrsögn Sveitarfélagsins Árborgar úr byggðasamlagi um Skólaskrifstofu Suðurlands.

Greinargerð: Undirrituð lýsa ánægju sinni með þá vinnu sem hefur farið fram síðastliðna mánuði í mótun framtíðarsýnar sérfræðiþjónustu skóla í Sveitarfélaginu Árborg. Það var augljóslega tímabært að fara í slíka vinnu því eins og fram kemur í skýrslu Trausta Þorsteinssonar og Gunnars Gíslasonar hefur Sveitarfélagið Árborg ekki mótað sér ákveðna sýn um hvers konar þjónustu megi vænta frá Skólaskrifstofu Suðurlands né að það hafi einhverjar væntingar til hennar.

Miðað við þá vinnu sem hefur farið fram í vinnuhópnum og niðurstöður í úttektarskýrslunni geta undirrituð ekki séð annað en að hugmyndir Sveitarfélagsins Árborgar um þróun og framtíðarsýn á sérfræðiþjónustu skóla geti auðveldlega orðið að veruleika með áframhaldandi aðild að byggðasamlaginu um SKS.

Það er skoðun undirritaðra að skólarnir í sveitarfélaginu eigi afar sterkt bakland í þeirri þjónustu sem SKS veitir. Með sérfræðiþjónustu með mörgum fagmönnum er hægt að veita fjölbreyttari og öflugri þjónustu en mögulegt er með færra starfsfólki. Með öflugri sérfræðiþjónustu verður til breið þekking og fagleg deigla sem skilar sér í betri þjónustu öllum til heilla. Afar mikilvægt er að með sérfræðiþjónustu sem sinnir svo mörgum skólum og raunin er með SKS verður til reynsla í flóknum einstaklingsmálum sem koma upp í skólum víðs vegar á svæðinu jafnvel með löngu millibili. Eftir því sem sérfræðiþjónustan sinnir færri nemendum myndast síður reynsla í slíkum málum.

Með úrsögn úr byggðasamlaginu um SKS setjum við það góða starf sem greiningarteymi barna á Suðurlandi hefur sinnt í uppnám. Greiningarteymið hefur fengið tilvísanir frá öllu starfssvæði HSu og SKS og hefur sú vinna sem þar fer fram skipt sköpum varðandi það að vinna samkvæmt hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar. Víðs vegar um landið hefur verið horft til greiningarteymisins sem fyrirmyndar að því hvernig hægt er að sinna þjónustu/snemmtækri íhlutun við börn með frávik heima í héraði.

Öflugt samstarf um sérfræðiþjónustu skóla á Suðurlandi hefur leitt ýmislegt gott af sér. Eitt af því er ART verkefnið sem sett var á laggirnar þegar skólar á Suðurlandi upplifðu knýjandi þörf fyrir úrræði fyrir börn með hegðunarraskanir. ART verkefnið er gott dæmi um hvað samstarf margra aðila getur leitt af sér. Það er nánast hægt að fullyrða að slíkt verkefni hefði ekki náð að vaxa og verða að því sem það er í dag ef ekki hefði verið fyrir úthald og seiglu fjölmargra skóla- og sveitastjórnarmanna á Suðurlandi.

Með úrsögn úr samstarfi um SKS bregst sveitarfélagið Árborg sínu hlutverki sem stærsta Sveitarfélagið á Suðurlandi. Það er ekki góður samstarfsaðili sem ákveður einhliða að segja sig frá margra ára farsælu samstarfi án þess að eiga gagnkvæmar samræður við samstarfsaðila sína og láta sig varða hvaða áhrif það hefur á sérfræðiþjónustu í hinum sveitarfélögunum. Afar mikilvægt er að sveitarfélögin á Suðurlandi eigi í góðu samstarfi þar sem þeim eru sífellt falin fleiri og flóknari verkefni til þess að sinna. Með því að kljúfa sig út úr samstarfinu um SKS stefnir Sveitarfélagið Árborg samstarfi sveitarfélaganna í núverandi og framtíðarverkefnum í uppnám. Gott samstarf kemur ekki að sjálfu sér. Það byggir á áralöngu trausti milli aðila, trausti sem maður ávinnur sér með því að sýna raunverulegan samstarfs- og sáttavilja í þeim verkefnum sem maður tekur sér á hendur. Sveitarfélagið Árborg hefur með þessu útspili tekið mikla áhættu varðandi stöðu sína í framtíðarsamstarfi sveitarfélaganna á Suðurlandi. Með þessari ákvörðun er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.

Við viljum þakka vinnuhópnum sem sem fékk það hlutverk að fjalla um sérfræðiþjónustu skóla hér í Svf. Árborg fyrir gott og óeigingjarnt starf.

                                   Arna Ír Gunnarsdóttir, fulltrúi S-lista.

                                   Andrés Rúnar Ingason, fulltrúi V-lista.

 

   

Erindi til kynningar

2.

1208041 - Vinnuhópur um sérfræðiþjónustu leik- og grunnskóla í Árborg

 

Fundargerðir vinnuhóps um sérfræðiþjónustu leik- og grunnskóla frá 14. janúar, 21. janúar og 28. janúar 2013 til kynningar. Einnig athugasemdir sem bárust vinnuhópnum frá framkvæmdastjóra Skólaskrifstofu Suðurlands við skýrslu um úttekt á skólaþjónustu Árborgar. Í fundar­gerðum vinnuhópsins er áréttað að skýrslan sé unnin af fagmennsku og vandað sé til verka. Nánari upplýsingar um afgreiðslu hópsins koma fram í tillögu og greinargerð formanns undir dagskrárliðnum um eflingu skólastarfs og sérfræðiþjónustu skóla í Árborg. Fræðslunefnd þakkar vinnuhópnum fyrir vel unnin störf.

 

   

3.

1301198 - Fundargerðir Skólaskrifstofu Suðurlands 2013

 

145. stjórnarfundur Skólaskrifstofu Suðurlands frá 18. janúar 2013 til kynningar. Undir dagskrárlið 2 var rætt um úttekt Trausta Þorsteinssonar og Gunnars Gíslasonar. Framkvæmdastjóri skrifstofunnar lagði fram athugasemdir sínar og stjórnin telur eðlilegt að bregðast við skýrslunni í heild.  

Bókun um málsmeðferð:

Á fundi fræðslunefndar þann 10. janúar sl. lagði ég fram eftirfarandi: 
Undirritaður telur það nauðsynlegt fyrir afgreiðslu þessa máls að fá umsögn Skólaskrifstofu Suðurlands á efnislegum atriðum skýrslu um sérfræðiþjónustu skóla í Árborg. Því fer ég fram á að óskað verði eftir formlegri umsögn stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands um skýrsluna.

Jafnframt fer ég fram á að haldinn verði fundur með stjórn Skólaskrif­stofunnar til að ræða efnisatriði skýrslunnar.  

                             Andrés Rúnar Ingason, fulltrúi V-lista. 

Ég lýsi vonbrigðum mínum yfir að ekki hafi verið orðið við þessum til­mælum um eðlilegan hátt á samskiptum þeirra samstarfsaðila sem nú er rætt um samstarfsslit í milli. Í skýrslunni Sérfræðiþjónusta skóla í Árborg, eru í 4.kafla lagðar fram þrjár leiðir til að ljúka þessu máli. Tvær þær fyrri kalla á viðræður við Skólaskrifstofu Suðurlands um fyrirkomulag. Hér er lagt fyrir fræðslunefndina að taka afstöðu með þriðju leiðinni, fullum slitum á samstarfi við Skólaskrifstofuna, án þess að hafa nokkra hugmynd um það hverju fyrri leiðirnar hefðu getað skilað með samræðum milli aðila.  

                              Andrés Rúnar Ingason, fulltrúi V-lista.

 

   

4.

1302080 - 10-12 ára starf í Zelsiuz

 

Minnisblað tómstunda- og forvarnarfulltrúa til kynningar. Þar er kynning á tillögu sem snýr að eflingu frístundastarfs fyrir 10-12 ára nemendur í félagsmiðstöðinni Zelsiuz a.m.k. tvisvar í viku í 3 mánuði á vorönn 2013. Einnig eru áform um að bæta síðar við þriðju opnuninni úti í grunn­skólunum að höfðu samráði við skólastjórnendur. Fræðslunefnd fagnar tillögunni og hvetur til að hún fái jákvæða afgreiðslu.

 

   

5.

0901049 - Erindisbréf fræðslunefndar

 

Þar sem nokkrir nýir áheyrnarfulltrúar hafa komið inn í nefndina frá því síðasta kynning á erindisbréfi fræðslunefndar fór fram kynnti formaður helstu atriði þess, svo sem réttindi og skyldur fulltrúa og hvatti fulltrúa til að kynna sér innihald bréfsins nánar.

     

6.

 

1302087 - Framhaldsskóli barnanna - samstarfsverkefni Fjölbrautaskóla Suðurlands og Sveitarfélagsins Árborgar

 

Minnisblað skólameistara og fræðslustjóra til kynningar en unnið er að undirbúningi að nýju samstarfsverkefni sem enn er á undirbúningsstigi. Stefnt er að því að hrinda verkefninu í framkvæmd næsta sumar. Fræðslunefnd fagnar framtakinu sem verður börnunum örugglega til hagsbóta. Þetta samstarf Fjölbrautaskólans, grunnskólanna í Árborg, fræðslusviðs og menningar- og frístundasviðs er einstaklega ánægjulegt.

 

   

7.

1302086 - Þjónustukönnun Capacent - Niðurstöður Árborgar fyrir leik- og grunnskóla, haust 2012

 

Til kynningar sá hluti könnunar sem snýr að leikskólum og grunnskólum sveitarfélagsins. Heildarskýrslan er aðgengileg á heimasíðu Árborgar. Könnunin var gerð 15. október−29. október 2012. Það er fagnaðarefni að ánægja með þjónustu leikskóla í Árborg hefur verið að aukast jafnt og þétt á undanförnum árum en í samanburði við önnur sveitarfélög færist Árborg upp um 5 sæti milli ára. Grunnskólar sveitarfélagsins eru að mælast örlítið betur í samanburði við árið á undan en þar eru enn sóknarfæri. Niðurstöðurnar veita ákveðnar upplýsingar sem nýtast í því umbóta- og þróunarstarfi sem er fram undan í skólamálum sveitarfélagsins. 

 

   

8.

1109098 - Skólastefna Sveitarfélagsins Árborgar

 

Til kynningar fundargerðir frá 24. janúar 2013 og 1. febrúar 2013.

 

   

9.

1301027 - Fundir leikskólastjóra, sérkennslufulltrúa og fræðslustjóra

 

Til kynningar fundargerðir frá 15. janúar og 29. janúar 2013.

 

   

10.

1203169 - Samstarf leikskóla og grunnskóla

 

1) Minnispunktar og kynningarglærur fræðslustjóra til kynningar en samstarfsfundur var haldinn 22. janúar 2013. Fundinn sóttu 18 manns frá öllum skólum sveitarfélagins og skrifstofu fræðslusviðs. Á fundinum var stofnaður faghópur leikskóla og grunnskóla sem í sitja 10 manns, þ.e. einn fulltrúi frá hverjum skóla. Faghópurinn mun vinna að eflingu faglegs samstarfs milli leikskóla og grunnskóla í Árborg.  

2) Fundargerð samstarfsfundar leikskólastjóra, skólastjóra, fræðslustjóra og sérkennslufulltrúa frá 5. febrúar 2013 til kynningar. Á fundinum var m.a. unnið að samræmingu leikskóladagatala og skóladagatala fyrir skólaárið 2013-2014. Stefnt er því að leggja dagatölin fram á fundi fræðslunefndar í mars nk.  

 

   

11.

1204180 - Álfheimafréttir

 

Fréttabréf frá 15. janúar og 6. febrúar 2013 til kynningar. Þar eru m.a. fundargerðir foreldraráðs Álheima frá 8. janúar og 5. febrúar 2013.

 

   

12.

1201073 - Fréttabréf Brimvers og Æskukots

 

Fréttabréf Brimvers og Æskukots í janúar og febrúar 2013 til kynningar.

 

   

13.

1301060 - Samræmd könnunarpróf skólaárið 2013-2014

 

Bréf mennta- og menningarmálaráðuneytis, dags. 7. janúar 2013, til kynningar. Þar koma fram dagsetningar samræmdra könnunarprófa í 4., 7. og 10. bekk í grunnskólum 2013.

 

 

 

14.

1301025 - Aðalnámskrár leikskóla og grunnskóla

 

Bréf mennta- og menningarmálaráðherra frá 21. janúar 2013 til kynningar. Þar kemur m.a. fram að hvert sveitarfélag skuli setja sér almenna stefnu um leik- og grunnskólamál og kynna fyrir íbúum þess. Einnig að allir leikskólar og grunnskólar hafi lagað sig að nýrri menntastefnu á skólaárinu 2014-2015. Til að innleiðing aðalnámskráa og stefnumiða sveitarfélaga í skólamálum gangi vel fyrir sig hefur ráðuneytið tekið höndum saman við Samband íslenskra sveitarfélaga, Skólastjórafélag Íslands og Félag stjórnenda leikskóla til að skipuleggja verkefni sem beinist að menntun kennara og skólastjórnenda í leikskólum og grunnskólum.

 

   

15.

1301330 - Úttektir á leik- og grunnskólum 2013

 

Til kynningar bréf mennta- og menningarmálaráðuneytis, dags. 22. janúar 2013, þar sem það er tilkynnt að Námsmatsstofnun hafi framvegis umsjón með framkvæmd ytra mats á leik- og grunnskólum.

 

   

16.

 1209123 - Viðmiðunargjaldskrá 2013 vegna nemenda í grunnskóla utan lögheimilissveitarfélags

 

Til kynningar. Viðmiðunarreglur vegna grunnskólanáms utan lögheimilissveitarfélags ásamt gjaldskrá, samþykktar af stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 25. janúar 2013.

 

   

 

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 19:25.

 

Sandra Dís Hafþórsdóttir

 

Grímur Arnarson

Brynhildur Jónsdóttir

 

Arna Ír Gunnarsdóttir

Andrés Rúnar Ingason

 

Birgir Edwald

Eygló Aðalsteinsdóttir

 

Már Ingólfur Másson

Gunnar Már Kristjánsson

 

Málfríður Garðarsdóttir

Þorsteinn Hjartarson

 

Ingibjörg Harpa Sævarsd.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica