3. fundur skólanefndar
3. fundur Skólanefndar grunnskóla Árborgar haldinn miðvikudaginn 18. október kl. 17:10 í Ráðhúsi Árborgar 3. hæð.
Mættir kjörnir fulltrúar: Margrét K. Erlingsdóttir, formaður, Ari Thorarensen, varaformaður, Ásdís Sigurðardóttir ritari, Sandra D. Gunnarsdóttir ogHilmar Björgvinsson.
Aðrir fulltrúar: Guðbjörg Sveinbjörnsdóttir ( fulltr. kennara ),Birgir Edwald(fltr. skólastj.),Vigfús Andrésson, (fltr.kennara ) ,Elín Höskuldsdóttir, (fltr.Flóahr.)Sigurður Bjarnasonverkefnisstjóri fræðslumála, Hjalti Tómasson (fulltrúi foreldraráða).
Dagskrá:
1. Erindi frá bæjarráði Árborgar vegna Sunnulækjarskóla.
Sigurður Bjarnason gerði stuttlega grein fyrir erindinu. Birgir Edwald, skólastjóri Sunnulækjarskóla tók síðan til máls og studdi erindið enn frekar. Hilmar Björgvinsson þakkaði fyrir mjög góða greinargerð og lýsti því yfir að hann væri fullkomlega samþykkur þessari tillögu, Sandra Gunnarsdóttir lýsti yfir samþykki sínu. Margrét þakkaði fyrir hrós til nefndarmanna og þá skoðun að þetta væri mjög fagmannlega unnið. Skólanefnd er sammála um, að mæla með að þessi tillaga vinnuhópsins verði samþykkt. ( Sjá skjal 0601078 )
2. Greinargerð um stöðu tölvumála skv. bókun í fundargerð skólanefndar frá 4. september sl.
Sigurður Bjarnason fylgdi greinagerðinni úr hlaði. Málið var rætt milli nefndarmanna og virðist almenn ánægja með stöðu tölvumála í dag, þó svo að ýmislegt hafi skolast til í aðdragandanum, sem eðlilegt má teljast. Guðbjörg benti á að efla þyrfti kerfisþjónustu.
Framkvæmda- og veitusvið mun fá þessa greinargerð og meta þörfina á viðbótar starfsmanni. ( Sjá skjal 0610072 )
3. Svör við fyrirspurnum frá Hilmari Björgvinssyni skv. fundargerð skólanefndar frá 4. september sl.
Fundarmenn fengu svör við fyrirspurnum Hilmars. ( Sjá skjal 0610072 ) Fundarmenn tjáðu sig um málið.Vigfús Andrésson tók fyrstur til máls og vildi koma að ábendingum frá kennurum og starfsmönnum BES. Hann vildi benda fundarmönnum á ýmislegt sem skipti meira máli en akkúrat það sem kemur fram í svörum við fyrirspurnum Hilmars. Málið verður tekið fyrir undir önnur mál. Hilmar tók til máls og vill ekki að nauðsynlegum lagfæringum verði frestað þó svo að til standi að byggja nýja skóla. Hilmar óskaði eftir að bókuð yrði athugasemd um að ekki væri búið að gera framkvæmdaáætlun vegna athugasemda Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá því í feb. 2006. Hilmar leggur til að skólanefnd heimsæki skólana á ströndinni og kynni sér málin ítarlega. Margrét sagði okkur frá því að skólanefndir síðustu ára hafi ávallt farið í skólana, nær árlega, til að hitta starfsmenn og kynna sér aðstöðu þeirra. Sandra gerði að tillögu sinni að skólanefndin haldi aukafund og fari í skólana á ströndinni og sæju hvað væri brýnast. Ari tók til máls og taldi að taka ætti mál BES fyrir á næsta skólanefndarfundi, eftir heimsókn, en ekki að halda aukafund. Skólanefnd felur Sigurði Bjarnasyni að bóka daga hjá BES til að heimsækja skólana, send verður út tilkynning um dag. Elín Höskulds vakti máls á útivistarsvæðunum. Vigfús tók undir mál hennar og telur að ákveðnar öryggisvarnir verði að setja upp nú þegar, varðandi umferð vörubíla og annarra tækja sem eru á ferð um svæðið.
4. Erindi frá Hilmari Björgvinssyni.
Hilmar bar sjálfur upp tillögur sínar sem nefndarmenn höfðu fengið sendar með fundarboði og kynnt sér. -
Tillaga:1
Tillaga frá Hilmari Björgvinssyni (V) um að flýta framkvæmdum við innisundlaug í Sunnulækjarskóla.
,,Skólanefnd Árborgar leggur til við Bæjarstjórn Árborgar að framkvæmdum við innisundlaug Sunnulækjarskóla verði flýtt og hún tekin í notkun haustið 2008.”
Greinargerð:
Sveitarfélagið á samkvæmt grunnskólalögum að sjá nemendum fyrir sundkennslu. Í vetur eru um 250 nemendum Sunnulækjarskóla ekið í skólasund í hverri viku í Sundhöll Selfoss. Fyrirséð er að sá fjöldi mun vaxa með hverju ári og næsta vetur þarf væntanlega að aka um 300 nemendum skólans í sund í hverri viku.
Með því að koma sundlauginni við Sunnulækjarskóla í notkun losna nemendur óþægindi og slysahættu sem skólaakstur kann að hafa í för með sér og sveitarfélagið við þann kostnað sem fylgir akstrinum.
Skólanefnd leggur því til að flýtt verði framkvæmdum við innisundlaug Sunnulækjarskóla og hún tekin í notkun haustið 2008. Þar verði hönnuð fullkomin kennslulaug með þarfir fatlaðra í huga. Lagt er til að við fjárhagsáætlanagerð ársins 2007 verði gert ráð fyrir kostnaði sem fylgir því að hefja verkið.
Sundlaug við Sunnulækjarskóla mun auðvelda skipulag skólastjórnenda varðandi sundkennslu, betri samfella verður á skóladegi nemenda og nemendur þurfa ekki að sækja þessa tíma annað.
Um 1000 nemendur grunnskólanna á Selfossi nýta til fulls að degi til innilaugina í Sundhöll Selfoss. Með nýrri sundlaug við Sunnulækjarskóla mun álagið á Sundhöll Selfoss minnka til muna og það auðveldar skipulagningu sundkennslu nemenda í Vallaskóla. Einnig skapast meira svigrúm fyrir hinn almenna borgara að nota innilaugina.
Birgir tók til máls og lýsti yfir trausti sínu á að láta kjörna fulltrúa forgangsraða þessu.
Afgreiðsla skólanefndar:
Frávísunartillaga
Skólanefnd gerir sér fulla grein fyrir mikilvægi sundlaugar við Sunnulækjarskóla, skólanefnd bendir á að uppbygging seinni áfanga Sunnulækjarskóla er í fullum gangi og er íþróttahús skólans hlut af þeim áfanga. Í sveitarfélaginu er starfandi starfshópur um framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja og þar með sundlauga. Hópurinn hefur verið að störfum frá því í sumar og eru niðurstöður hans í vinnuferli hjá sveitarfélaginu. Einnig er í gangi vinna hjá framkvæmda og veitusviðsi vegna þessa. Þess vegna leggur meirihluti skólanefndar til að tillögunni verði vísað frá.
Frávísunartillagan var lögð fram og samþykkt af 3 fulltrúum meirihluta skólanefndar, einn var á móti, fulltrúi V lista og einn sat hjá, fulltrúi S lista.
Tillaga 2:
Tillaga frá Hilmari Björgvinssyni (V) um gjaldfrjálsan grunnskóla.
Skólanefnd Árborgar leggur til við Bæjarstjórn Árborgar að allri gjaldtöku af nemendum í grunnskólum sveitarfélagsins verði hætt haustið 2007.
Greinargerð:
Samkvæmt grunnskólalögum ber sveitarfélögum að halda skóla fyrir öll börn á aldrinum 6-16 ára. Þá kemur fram í lögunum að nemendur skuli eiga kost á skólamáltíðum. Loks er tekið fram að allur rekstur grunnskólans sé á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga.
Í dag er grunnskólinn ekki að öllu leyti á kostnað sveitarfélaga því nemendur og forráðamenn þeirra þurfa að borga fyrir skólamáltíðir, námsgögn og dvöl á skólavistun.
Öllum er ljóst mikilvægi þess að börnin okkar eigi kost á hollum og staðgóðum hádegisverði. Það hefur bæði uppeldislegt og heilsufarslegt.gildi og er því þýðingarmikið fyrir þroska nemenda og starfsorku. Hér á landi er offita barna vaxandi vandamál. Á því þarf að taka, það er samfélagslegt verkefni og þjóðhagslega mikilvægt. Það er réttlætismál að öll grunnskólabörn sitji við sama borð óháð efnahag foreldra.
Í Svíþjóð hefur ákvæði um ókeypis skólamáltíðir verið í grunnskólalögum um nokkurra ára skeið. Í Noregi er hafin umræða um að lögfesta þennan sjálfsagða rétt skólabarna. Finnar hafa boðið upp á skólamáltíðir allt frá árinu 1948 og leggja áherslu á mikilvægi þess til að tryggja eins og hægt er jöfnuð við matarborðið í skólanum, hollan og næringarríkan mat en ekki síður að kenna börnunum góða borðsiði og fræða þau um næringu og matarsamsetningu. Virðingu Finna fyrir skólastarfi og árangur þeirra á mælikvarða PISA má eflaust rekja að hluta til þessarar góðu venju.
Íslendingar ættu að lögfesta réttinn til skólamáltíða til að tryggja jafnrétti allra barna, óháð því í hvaða sveitarfélagi þau búa. Gera þarf öllum sveitarfélögum kleift að standa straum af þeim kostnaði sem af þessu hlýst.
Sveitarfélagið Árborg á að sýna gott fordæmi og taka forystu á þessu sviði.
Á meðan aðeins hluti grunnskólabarna fær skólamáltíðir ríkir ekki fullkomið jafnrétti til náms. Börn sem eru södd og sæl hljóta að njóta þeirrar fræðslu sem staðið er fyrir í grunnskólunum betur en hin. Skólamáltíðir eiga því að standa öllum börnum til boða, óháð fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Börn eiga enn síður að vera háð því að foreldrar þeirra leiti sér aðstoðar. Þau eiga að hafa skýlausan rétt til að njóta þeirrar menntunar sem samfélagið er sammála um að sé forsenda lífs og starfs í lýðræðisþjóðfélagi.
Grunnskólarnir ættu að sjá nemendum fyrir öllum námsgögnum en ekki aðeins að hluta. Í dag fá nemendur allar kennslubækur en þurfa sjálfir að útvega sér t.d. stílabækur og skriffæri. Þessi kostnaður er ekki hár en getur reynst efnalitlum fjölskyldum erfiður.
Grunnskólalögin gera einnig ráð fyrir því að sveitarfélög geti boðið upp á svokallaða lengda viðveru utan daglegs kennslutíma. Eftir að hinum hefðbundna skóladegi lýkur gefst nemendum í sveitarfélaginu Árborg kostur á skólavistun sem er orðinn eðlilegur þáttur í starfsemi grunnskólans. Með þeirri starfsemi er börnum boðið upp á öruggan samastað að loknum skóladegi, þar sem fengist er við fjölbreytt og skapandi viðfangsefni. Þessi þjónusta, sem stendur 6-9 ára börnum til boða, er mikilvæg og í raun ómissandi fyrir fjölmargar fjölskyldur í sveitarfélaginu.
Forsenda fyrir jafnrétti til náms er að skólamáltíðir, námsgögn og skólavistun standi öllum til boða án tillits til efnahags. Það jafnréttismál að gjaldtöku í grunnskólum verði hætt og að hann verði að öllu leyti gjaldfrjáls.
Ásdís tók til máls og er alls ekki sammála að skólinn eigi að vera gjaldfrjáls, telur að foreldrar verði að forgangsraða betur. Sandra segist vera sammála Hilmari en ekki að öllu leyti og leggur fram bókun. Margrét benti á að lögin leggi ekki þá kröfu á bæjarfélög að grunnskólinn sé algjörlega gjaldfrjáls, hún telur ekki tímabært að fella allan kostnað niður
Afgreiðsla skólanefndar:
Frávísunartillaga
Sveitarfélagið Árborg uppfyllir ákvæði grunnskólalaga þó að nemendur þurfi að kaupa skriffæri og pappír sbr. 33.gr. 3mgr. Laga nr. 66/1995. Öllum börn í grunnskólum sveitarfélagsins Árborgar eiga kost á skólamáltíðum sbr. 4gr.4.mgr.laga nr. 66/1995 á vægu verði. Sveitarfélagið Árborg er framsækið sveitarfélag og veitir íbúum sínum góða þjónustu, meðal annars með rekstri skólavistana í tengslum við grunnskólana. Búið er að tengja saman afslætti í öll vistunarúttæði barna þannig að greitt er 100% fyrir fyrsta barn, 75% fyir annað barn og 50% fyrir þriðja barn. Rekstur grunnskólans er einn af stæðstu rekstrarliðum sveitarfélagsins og er það mat meirihluta skólanefndar grunnskóla Árborgar að ekki sé tímabært að bæta þessum kostnaði við rekstur grunnskólana í sveitarfélaginu þess vegna leggur meirihluti skólanefndar til að tillögunni verði vísað frá.
Frávísunartillagan er samþykkt með 3 atkvæðum meirihluta skólanefndar, einn á móti fulltrúi, V lista , Sandra situr hjá og skilar sér bókun.
“Bókun frá Söndru D. Gunnarsdóttur fulltrúa Samfylkingarinnar í Skólanefnd Árborgar vegna tillögu Hilmars Björgvinssonar um gjaldfrjálsan grunnskóla.”
„Tillaga Hilmars Björgvinssonar er góðra gjalda verð og vonandi nást öll markmið hennar í náinni framtíð. Hins vegar tel ég rétt að verkefnum verði forgangsraðað á raunsæjan hátt og tillit tekið til fjárhagsstöðu sveitarfélagsins á hverjum tíma. Þá verður einnig að líta til þeirrar tekjuskiptingar sem nú er milli ríkis og sveitarfélaga við forgangsröðun verkefna.
Við forgangsröðun verkefna tel ég rétt að leggja m.a. áherslu á:
Lækkun leikskólagjalda og gjaldfrjálsan leikskóla í áföngum.
Lengda viðveru fyrir fötluð börn, 10 ára og eldri.
Aukna samþættingu skóla og tómstunda með samfelldan skóladag í huga.
Í tillögu Hilmars er gert ráð fyrir að skólamáltíðir séu ókeypis.
Skólamáltíðir í sveitarfélaginu eru töluvert niðurgreiddar nú og er sú niðurgreiðsla frekar há m.v. önnur sveitarfélög. Hins vegar er sjálfsagt að fylgjast með því að kostnaði sé eftir fremsta megni haldið í lágmarki. Einnig þarf að gera kröfur um að markmiðum um rétt næringargildi sé í hávegum haft.
Í tillögunum er einnig gert ráð fyrir að námsgögn séu með öllu ókeypis og er tekið undir þann hluta tillögunar. Er það í samræmi við grunnskólalögin og sjálfsagt að því verði framfylgt.
Þá er í tillögunum lagt til að skólavistun fyrir börn 6-9 ára verði endurgjaldslaus.
Skólavistun eftir að skóla lýkur er ekki eitt af lögbundnum verkefnum sveitarfélaga og ekki hluti af starfsemi skóla sem slíkra. Þarna er um að ræða tilboð fyrir fjölskyldur ungra grunnskólabarna eftir að skóla lýkur og ekki allir sem kjósa/þurfa að nýta sér þessa þjónustu. Hins vegar er mjög mikilvægt að standa vörð um gæði þessarar þjónustu og hafa kostnað í lágmarki til hagsbóta fyrir barnafjölskyldur í sveitarfélaginu.
Tillaga 3:
Tillaga frá Hilmari Björgvinssyni (V) um Skólaverkefnasjóð Árborgar
Skólanefnd Árborgar leggur til við Bæjarstjórn Árborgar að stofnaður verði Skólaverkefnasjóður Árborgar. Settar verða 3 milljónir í hann á ári frá ársbyrjun 2007.
Greinargerð:
Þróunarstarf og verkefnagerð í leik- og grunnskólum er forsenda fyrir öflugu og framsæknu skólastarfi. Í flestum skólum vinna kennarar að ýmiskonar nýbreytni sem gerir skólastarfið árangursríkara, markvissara og skemmtilegra.
Sveitarfélög eiga að hvetja og styðja kennara til slíkra verka.
Það hefur sýnt sig undanfarin ár að í skólum Árborgar er unnið metnaðarfullt og faglegt starf. Ýmis konar þróunarvinna er í gangi og margir kennarar leggja á sig mikla vinnu sem skólastjórnendur hafa ekki svigrúm til að greiða fyrir.
Skólanefnd Árborgar leggur til að stofnaður verði Skólaverkefnasjóður Árborgar. Tilgangur sjóðsins verði að hvetja kennara í leik- og grunnskólum til þróunarvinnu og nýbreytni í skólastarfi. Þau verkefni sem hljóta styrki verði eign sveitarfélagsins og aðgengileg öllum kennurum sveitarfélagsins.
Lagt er til að skipuð verði 3 manna verkefnastjórn til að móta úthlutunarreglur sjóðsins. Þar komi fram m.a. helstu áherslur og markmið sjóðsins. Reglur þessar ásamt umsóknareyðublaði verði aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins. Hluti sjóðsins á hverju ári verði notaður til verkefna sem sveitarfélagið vill leggja áherslu á. Verkefnastjórn verði skipuð verkefnisstjóra fræðslumála, einum fulltrúa leikskólanna og einum fulltrúa grunnskólanna.
Umræður urðu um tillögu Hilmars og komu fram upplýsingar um að bæjarráð hafi samþykkt þann 5 október að veita fjármagni í sjóðinn. Hilmar dró tillöguna til baka og lagið fram nýja tillögu.
Guðbjörg segist geta tekið undir þetta sem kennari. Sandra lýsti yfir ánægju sinni með þessa tillögu frá Hilmari. Málið var rætt og kom fram ný tillaga frá Hilmari.
Tillaga frá Hilmari Björgvinssyni (V) um Skólaþróunarsjóð Árborgar
Skólanefnd Árborgar fagnar því að endurvekja eigi Skólaþróunarsjóð Árborgar. Úthlutunarreglur sjóðsins þurfa að vera skýrar og aðgengilegar kennurum sveitarfélagsins. Lagt er til að settar verða 3 milljónir í sjóðinn á ári frá ársbyrjun 2007.
Greinargerð:
Þróunarstarf og verkefnagerð í leik- og grunnskólum er forsenda fyrir öflugu og framsæknu skólastarfi. Í flestum skólum vinna kennarar að ýmiskonar nýbreytni sem gerir skólastarfið árangursríkara, markvissara og skemmtilegra.
Sveitarfélög eiga að hvetja og styðja kennara til slíkra verka.
Undanfarin ár hefur metnaðarfullt og faglegt starf verið innt af hendi í skólum Árborgar. Ýmis konar þróunarvinna er í gangi og margir kennarar leggja á sig mikla vinnu sem skólastjórnendur hafa ekki svigrúm til að greiða fyrir.
Tilgangur sjóðsins er að hvetja kennara í leik- og grunnskólum til þróunarvinnu og nýbreytni í skólastarfi. Þau verkefni sem hljóta styrki verða eign sveitarfélagsins og aðgengileg öllum kennurum sveitarfélagsins.
Lagt er til að skipuð verði 3 manna verkefnastjórn til að yfirfara úthlutunarreglur sjóðsins. Þar komi fram m.a. helstu áherslur og markmið sjóðsins. Reglur þessar ásamt umsóknareyðublaði þurfa að vera aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins. Hluti sjóðsins á hverju ári verði notaður til verkefna sem sveitarfélagið vill leggja áherslu á. Verkefnastjórn verði skipuð verkefnisstjóra fræðslumála, einum fulltrúa leikskólanna og einum fulltrúa grunnskólanna.
Afgreiðsla skólanefndar:
Skólanefnd vísar ákvörðun um fjárveitingu í Skólaþróunarsjóð Árborgar til bæjarráðs.
Samþykkt með 5 atkvæðum.
5. Önnur mál.
Fulltrúi foreldraráða, Hjalti Tómasson flutti fyrirspurn frá foreldraráði BES:
- Bráðabirgðastofurnar á Eyrarbakka: er byrjað á einhverri vinnu varðandi þær? Ef ekki þá hvenær? Standast tímamörk um áramót? Eru þetta nýbyggingar eða notuð hús?
- Samkvæmt aðgerðaáætlun hjá bæjarstjórninni átti þarfagreiningu og rýmisáætlun að vera lokið 1. okt og ákvörðun um framgangsmáta útboðs að vera lokið 15. okt. Er þetta klárt?.
- Hvaða ráðstafanir á að gera vegna aðstöðuleysis fatlaðra? Foreldraráð BES ítrekar það sem fram kemur í fundargerð foreldraráðs frá því 3. október 2005 að ekki sé aðstað fyrir fatlaða í skólunum hér. Á Stokkseyri er ástandið mun verra og alvarlegra þar sem byggingin er þar á 3 hæðum. Einnig er ekki gert ráð fyrir fötluðum í sundlaugina á Stokkseyri þar sem skólasund Barnaskólans fer fram. Foreldraráð skorar á bæjaryfirvöld að gera eitthvað í málinu hið snarasta.
- Vegalengdin sem nemendur BES þurfa að ganga í dans og íþróttir út í íþróttahúsið á Eyrarbakka er 1,4 km hvor leið, 2.8 km samtals milli kennslustaða. Hverjar eru vegalengdir á Selfossi þar sem nemendur eru keyrðir frá skóla í íþróttir og sund. Er samræmi milli skóla í Árborg varðandi akstur. Dæmi er um að enginn tími sé gefinn fyrir nemendur til að koma sér á milli staða. T.d. lýkur einum tíma kl. 14.00 og dans á að hefjast kl. 14.00 einnig er dæmi um að nemendur fái seint í kladdann þar sem þau eðlilega koma of seint. Einnig missa nemendur góðan part af frímínútum við að koma sér á milli staða.
- Foreldraráð lýsir yfir óánægju með þá ákvörðun bæjaryfirvalda að byggja ekki þau biðskýli sem ákveðin voru fyrir ári og áttu að vera tekin í notkun í byrjun skólaárs
Til máls tókVigfús Andréssonog leggur hann fram samantekt um ýmislegt, sem bæta þarf, að mati kennara.
Vegna undangenginnar umræðu um skólamál á Stokkseyri og Eyrarbakka þá vil ég koma eftirfarandi á framfæri til bókunar:
- Ákvörðun yfirvalda um að klastra við skólahúsin á Stokkseyri og Eyrarbakka næstu árin, í stað þess að reisa eitt skólahúsnæði er nöturlegt dæmi um ófagleg vinnubrögð.
- Ekki var ráðinn deildarstjóri yfir sérkennslu við skólann í haust sem er ámælisvert.
- Liðinn er ¼ af skólastarfi vetrarins og enn er ekki hægt að halda uppi kennslu í upplýsingatækni á Stokkseyri því tölvur vantar.
- Biðskýli eru ekki komin eins og lofað var.
- 5.Sleifarlag við framkvæmd bráðnauðsynlegra lagfæringa á núverandi skólahúsnæði er ámælisvert.
- Ekki hefur verið séð fyrir almennum öryggisþáttum s.s..brunaæfingu. Sérkennslustofa á efstu hæð skólans á Stokkseyri er ekki með neinn öryggisbúnað ef eldur gysi upp. Ekki er tekið tillit til flóttaleiða úr stofunum á 2. hæð við smíði nýrra glugga.
- Nemendur á Stokkseyri þurfa að fara allt að 14 sinnum á viku yfir aðalgötuna til að sækja kennslu skv. stundaskrá en ekki eru merktar gangbrautir móti öllum kennslustofunum. Gangbraut er skólamegin við götuna.
- Nauðsynlegar breytingar á salernum til að fyrirbyggja einelti þar, eru ekki framkvæmdar þrátt fyrir ítrekaðar óskir og þrátt fyrir að skólinn er þátttakandi í Olweus-verkefninu. Einnig eru vankantar á lóðum í sömu veru.
- Lausar stofur sem neyðarlausn á Eyrarbakka, sem lofað var, eru ekki komnar.
- Framkvæmdir á lóð með þungum vinnuvélum og stórum bílum,. hafa verið innan um nemendur á skólatíma.Á sama tíma hefur ekki verið hægt að manna gæsluna sómasamlega vegna fjársveltis.
- Þá skal minnt á að skv. yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þá valda framkvæmdir eins og við göngu-og hjólreiðastíga ekki lengur þenslu í þjóðfélaginu en stígur milli þorpanna hefði góð félagsleg áhrif.
Þegar litið er á þessi mál í heild mætti ætla að yfirvöld Árborgar séu viljandi að skapa ástæður til að færa skólahald af ströndinni uppá Selfoss og styttist óðum í það með sama áframhaldi.
Nokkrir punktar voru ræddir strax, t.d. um ábyrgð skólastjórnenda á brunaæfingum.
Ari spurði um fjölda fatlaðra einstaklinga í BES
Kom fram að engir fatlaðir einstaklingar eiga í vandræðum með aðgengi að skólanum í dag.
Birgir dreifði Skólanámsskrá Sunnulækjarskóla til kjörinna fulltrúa.
Næsti fundur nefndarinnar er 13.nóv. kl. 17.10
Fundi slitið kl: 20:20
Margrét K. Erlingsdóttir
Ari Thorarensen
Ásdís Sigurðardóttir ritari
Sandra D. Gunnarsdóttir
Hilmar Björgvinsson
Guðbjörg Sveinbjörnsdóttir
Birgir Edwald
Vigfús Andrésson
Elín Höskuldsdóttir
Hjalti Tómasson
Sigurður Bjarnason