Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


22.3.2018

3. fundur Hverfisráðs fyrrum Sandvíkurhrepps

Þriðji fundur Hverfisráðs Sandvíkurhrepps 14. febrúar 2018 haldinn að Eyravegi 27, Selfossi kl. 17.00. Mætt voru: Aldís Pálsdóttir, Anna Valgerður Sigurðardóttir varaformaður, Margrét K. Erlingsdóttir formaður, Oddur Hafsteinsson og Páll Sigurðsson ritari, einnig bæjarfulltrúarnir Arna Ýr Gunnarsdóttir og Kjartan Björnsson með áheyrn. Á dagskrá fundarins voru þessi mál: 1. Skólaakstur í Sandvíkurhreppi. ÁLYKTUN HVERFISRÁÐS SANDVÍKURHREPPS 14. FEBRÚAR 2018 (UM SKÓLAAKSTUR): Ályktun Hverfisráðs um skólaakstur er í þremur liðum: a. Um tímasetningar og nauðsyn fleiri bíla.  Hverfisráð Sandvíkurhrepps óskar eftir því við bæjarráð (og fræðsluráð) að bætt verði við að a.m.k. einum skólabíl í morgunakstri í Sandvíkurhreppi, ekki síðar en við næsta útboð á skólaakstri, helst fyrr ef tök eru á. Fyrstu börn fara nú í bílinn um kl. 7:15 á morgnana. Miðað við fjölda barna, stopp, afleggjara og akstur heim að húsum og það að bíllinn þarf að vera kominn tímanlega í skóla jafnvel í slæmri færð, auk þess sem ekið er í Vallaskóla og FSu, er ekki hægt að byrja skólaakstur síðar en þetta, m.v. tvo bíla. Skólar byrja kl. 8:10. Börnum fer fjölgandi í Sandvíkurhreppi,  húsum og afleggjurum sömuleiðis. Hverfisráð bendir á að skv. reglugerð nr. 656/2009 (Reglur um skólaakstur í grunnskóla) mega börn ekki vera í skólabíl meira en 120 mínútur á dag (samtals í og úr skóla), að meðtöldum biðtíma fram að skólabyrjun. Allnokkur óánægja er með tímasetningar skólaaksturs meðal foreldra barna í hreppnum og bendir Hverfisráð á að þær verði að vera í einhverju vitrænu samhengi við raunverulegar vegalengdir hér í sveitarfélaginu. Það er til stórs vansa, að börn í örfárra mínútna akstursfjarlægð frá grunnskóla séu uppundir klukkustund á leið í skóla með skólabíl. Margir eru hættir að nýta sér skólaaksturinn, sérstaklega þau börn sem þurfa að koma í bílinn fyrir hálf átta, enda vinna margir foreldrar á Selfossi og skutla þá börnunum með. Allt aukið skutl er óumhverfisvænt, óhagkvæmt og skapar aukna umferð og hættu við skólana á morgnana. Hverfisráð telur a.m.k. þrjá bíla grundvallaratriði, en hvort notaðIr verða minni eða stærri bílar og hvernig bæjum og börnum er skipt niður á bíla er í höndum þeirra sem sjá um skipulagninguna. b. Um upplýsingar um skólaakstur. Hverfisráð bendir einnig á að skv. 3 grein reglugerðar 656/2009 á áætlun um skólaakstur fyrir hvert skólaár að vera aðgengileg íbúum. Þessar upplýsingar eru mjög torfundnar, nema að takmörkuðu leiti á heimasíðu Sunnulækjarskóla. c. Um það, að fyrstu börn í bíl á morgnana séu ávalt þau seinustu úr bílnum síðdegis. Hverfisráð bendir á þá staðreynd, að bíllinn tekur alltaf sömu börnin fyrst á morgnana, en skilar þeim seinast heim eftir skóla. Eðlilegt væri að hringnum væri snúið við aðra leiðina, ef þess er kostur. Hverfisráð óskar eftir því að þeir sem sjá um skipulagningu skólaaksturs athugi þetta atriði, jafnvel þó að þar væri um að ræða breytingu á áratuga gamalli hefð. Hverfisráð óskar eftir því að nýjar áætlanir um skólaakstur verði kynntar Hverfisráði og umsagnar þess leitað. 2. Um tippinn við Lækjamót. Hverfisráð óskaði eftir upplýsingum frá sveitarfélaginu um eftirfarandi atriði varðandi tippinn við Lækjamót: (1) hvort starfsleyfi sé til staðar, (2) hvort skipulagsteikningar séu til af tippnum og umhverfi hans, (3) hvort til séu áætlanir um lokaútlit tippsins, hversu mikið efni megi fara á svæðið, endanleg breidd og hæð tippsins, (4) hvaða efni megi losa á tippnum og (5) hvernig eftirlit með tippnum og losun í hann sé háttað. Samkvæmt svörum sveitarfélagsins er ekkert starfsleyfi fyrir tippinn. Engar teikningar eða áætlanir um lokaútlit tippsins eftir lokun hans eru til. Yfirstjórn sveitarfélagsins hefur í lengri tíma verið kunnugt um að eftirlit með losun á tippnum er með öllu ófullnægjandi og að þar hefur verið losað efni sem með engu móti ætti að vera heimilt að losa þar. Hafa verður í huga að tippurinn er starfræktur með leyfi og vilja sveitarfélagsins. Sveitarfélagið greiðir fyrir tippinn og brotalamir í rekstri hans hljóta því að vera á ábyrgð þess. Ekki er ljóst hvernig eða hvenær tippnum verður lokað, þótt unnið sé að því að stefna að lokun hans, að sögn sveitarfélagsins. Hverfisráð lýsir óánægju sinni með það, hve sveitarfélagið stendur illa að málum hvað varðar tippinn og lokun hans. Benda má á, að það eru meira en 10 ár síðan Hverfisráð Sandvíkurhrepps og þáverandi umhverfisnefnd sveitarfélagsins viðruðu áhyggjur af ástandi tippsins við bæjaryfirvöld, en ekkert hefur breyst til batnaðar. 3. Bundið slitlag á Byggðarhornsveg.  Hverfisráð myndi fagna því ef það kæmist á veg. Hin mikla umferð sem er niður veginn skapar mikið vegryk, íbúum í næstu húsum til mikils ama. Varla mun meiri umferð vera um nokkurn malarveg í sveitarfélaginu núna en þennan. 4. Bæjaskilti við Votmúlaveg, svipuð þeim sem sett hafa verið upp við stofnvegi í öðrum sveitum. Gott væri að fá slíkt, enda hefur býlum og húsum fjölgað undanfarna áratugi og ókunnugir rata illa þarna um. 5. Óþarfa ljós og lýsing. BYKO hefur mikla ljóskastara í planinu hjá sér sem sjást langt að. Þetta er alger óþarfi að mati Hverfisráðs, að beina ljósum þannig að þau skeri í augu fólks sem er statt fleiri hundruð metra og kílómetra í burtu. Annarsskonar ljósmengun er af annarsvegar ljósaskilti sem hefur verið komið upp við Steypustöðina (austan við hringtorgið á Suðurlandsvegi), sem sést langt niður allan Flóann vestanverðan. Hinsvegar er hús eitt í Tjarnabyggð með bláum ljósum, sem sjást langt að. Blá ljós eru einkennandi fyrir umferð sjúkrabíla, slökkviliðs og lögreglu og eiga að sjást langt að. Hverfisráð býst ekki við að ljós þessi séu ólögleg eða andstætt einhverjum reglum, en bendir þó á þann ama sem er af þeim. 6. Snjómokstur í Tjarnabyggð. Tjarnabyggð er þéttbýli og fasteignagjöld greidd í samræmi við það. Hverfisráð vill árétta, að almannaþjónusta á hendi sveitarfélagsins, s.s. snjómokstur, hljóti þá að vera í samræmi við það. Næsti fundur hverfisráðs er áætlaður 14. mars kl. 5 e.h. Aðalmál á næsta fundi:
  1. Tippurinn fyrir ofan Lækjamót.
  2. Skipulag og atvinnustarfsemi í Tjarnabyggð.
  Fundi slitið.    

Þetta vefsvæði byggir á Eplica