3. fundur menninagarnefndar
3. fundur menningarnefndar Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014 haldinn fimmtudaginn 23. september 2010 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 18:00
Mætt:
Kjartan Björnsson, formaður, D-lista,
Björn Ingi Bjarnason, nefndarmaður D-lista,
Kjartan Ólason, nefndarmaður S-lista,
Bragi Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi,
Ásta Stefánsdóttir. framkvæmdastjóri,
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, greindi frá því að Andrés Sigurvinsson, verkefnisstjóri íþrótta-, forvarna- og menningarmála hafi látið af störfum. Bragi Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi, muni starfa með nefndinni.
Formaður leitaði afbrigða til að taka á dagskrá mál sem bæjarráð vísaði til umfjöllunar nefndarinnar í morgun varðandi kostnað við menningarviðburði á næstunni. Var þar samþykkt samhljóða og málið tekið til afgreiðslu á undan öðrum málum á dagskrá fundarins.
Bókun frá fulltrúa S-lista á fundi Menningarnefndar Árborgar fimmtudaginn 23. september 2010.
-Við upphaf þessa fundar er ástæða til að gera enn líkt og gert var á 2. fundi nefndarinnar alvarlegar athugasemdir við skipulag eða öllu heldur skiplagsleysið í starfi þessarar nefndar
-Eins og fram kemur í fundargerð 1. fundar nefndarinnar var lögð fram fyrirspurn um það m.a. hver tæki við störfum Andrésar Sigurvinssonar verkefnisstjóra og sinnti eða hefði umsjón með verkefnum nefndarinnar.
-Þetta var 5. júlí s.l. Nú 23.september hefur ekkert svar við þessari einföldu spurningu borist.
-Málinu hefur verið vísað frá. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði virðast ekki hafa vitað svarið því að þeir hafa ekki svarað þessari fyrirspurn.
-En veruleikinn fyrir þann fulltrúa sem hér bókar er sá að starfsmaður í Ráðhúsi Árborgar hringdi þriðjudaginn 21. sept. s.l. kl. 11:30 og gaf frest til kl. 13:00 samdægurs til að koma málum á dagskrá þessa fundar.
-Áður hafði formaður nefndarinnar, Kjartan Björnsson, hringt og frestað fundi, sem ákveðið hafði verið að haldinn skyldi miðvikudaginn 22. september s.l. kl. 18:00.
-Svona ringulreið og skortur á formfestu er varla bjóðandi í nútíma stjórnsýslu.
-En í ljósi þessa er nauðsynlegt að fjalla um fundarboðið sem hér liggur fyrir þessum fundi.
-Þar er tæpt á ýmsum atriðum án þess að nokkur viðeigandi fylgigögn liggi fyrir, sem eru hins vegar algjörlega nauðsynleg til þess að nefndarmenn geti myndað sér skoðun á þeim eða tekið þau til formlegrar afgreiðslu. Í raun er spurning hvort fundarfært sé með svo fátæklegum gögnum.
-Á þessum starfsháttum verður að gera bragarbót. Það er hverjum manni augljóst.
Dagskrá:
1. 1007061 - Erindi formanns menningarnefndar til bæjarráðs varðandi hátíðarhöld, vísað til umfjöllunar menningarnefndar af bæjarráði 23.09.2010
Fulltrúi S lista leggur fram formlega fyrirspurn:
-Hefur fjölskyldum þeirra manna sem er minnst í menningarmánuðinum október verið sent formlegt bréf um hvort þau séu samþykk þessum menningarkvöldum?
Svar fulltrúa D lista:
Við áttum samtöl við fulltrúa fjölskyldna þessara einstaklinga sem þarna eiga í hlut og tengdra aðila persónulega, símleiðis.
Fulltrúi S lista leggur til að fjölskyldum þeirra manna sem er minnst í menningarmánuðinum október verði sent formlegt bréf um dagskrá menningarkvöldanna.
Svar fulltrúa D lista:
Þegar hefur verið haft samband við fulltrúa fjölskyldnanna og aðra sem láta sig málið varða.
Tillagan felld með tveimur atkvæðum gegn atkvæði fulltrúa S lista
Fulltrúi S lista leggur formlega til að bréf formanns menningarnefndar verði birt í fundargerð.
Tillagan felld með tveimur atkvæðum gegn atkvæði fulltrúa S lista
Bókun fulltrúa S lista
Fulltrúi S lista lýsir furðu sinni á því að bréf formanns menningarnefndar Sveitarfélagins Árborgar þoli ekki dagsljósið og sé stungið undir stól.
Bókun fulltrúar D lista
Bréf þetta eða tillaga þessi er ekkert leyndarmál því úrdráttur úr þessu bréfi var birt í héraðsblöðum nýverið til hvatningar íbúanna um þátttöku í menningarmánuðinum október
Fomaður nefndarinnar leggur til að afgreiðsla nefndarinnar verði með eftirfarandi hætti:
Menningarnefnd tekur undir erindi formanns nefndarinnar til bæjarráðs og leggur til að fjárveiting til verkefnisins verði samþykkt. Nefndin óskar jafnframt eftir heimild bæjarráðs til að flagga í byggðarkjörnunum á hátíðisdögunum í menningarmánuðinum október.
Tillagan samþykkt með tveimur atkvæðum fulltrúa D lista, fulltrúi S lista situr hjá
2. 1007061 - Kostnaðaráætlun vegna Menningarmánaðarins og hernámsafmælisins
Formaður fer yfir kostnaðaráætlun sem er eftirfarandi: Gunnar Sigurgeirsson 175.000, húsaleiga 75.000, molakaffi 20.000, myndir í glugga ráðhúss vegna hernámsafmælis 30 þúsund, annað 40 þúsund krónur. Samtals 340 þúsund krónur. Aðgangur verður ókeypis í öllum tilvikum eins og staðan er núna.
Fulltrúi S lista leggur fram eftirfarandi fyrirspurn:
Hvaða starfsmaður Sveitarfélagsins Árborgar vann þessa kostnaðaráætlun?
Svar fulltrúa D lista
Því er til að svara að meirihluta menningarnefndarinnar vann þessa áætlun.
Bókun fulltrúa S lista
Líkt og á öðrum fundi mótmælir fulltrúi S lista því að pólitískir fulltrúar séu að ganga í störf starfsmanna sveitarfélagins. Í annan stað lýsir fulltrúi S lista furðu sinni á kostnaðaráætlun þessari og framsetningu hennar.
Formaður leggur til að fyrirliggjandi kostnaðaráætlun verði samþykkt
Tillagan samþykkt með tveimur atkvæðum fulltrúa D lista, fulltrúi S lista situr hjá
3. 1007061 - Samningur menningarnefndar við Gunnar Sigurgeirsson
Lögð fram drög að samningi
4. 1007015 - Menningarmánuðurinn október - yfirlit yfir dagskrá
Gunnar Sigurgeirsson kemur inn á fundinn. Formaður fer yfir dagskrá menningarmánuðarins.
Fulltrúi S lista leggur fram formlega fyrirspurn:
Hefur verið haft samband við eftirlifandi konu Sigurjóns Ólafssonar um minningakvöld í tilefni af afmælisdegi hans í tengslum við menningarmánuðinn október?
Svar fulltrúi D lista
Fagleg umsjón kvöldsins er í höndum Ingu Jónsdóttur, forstöðumanns listasafns Árnesinga
Formaður óskar eftir fundarhléi kl.19:34
Fundi haldið áfram 19:41
Að framansögðu leggur formaður menningarnefndar eftirfarandi ósk til nefndarinnar um skiptingu verka varðandi menningarmánuðinn október 2010:
Páll Lýðsson, 7.október annist Kjartan Björnsson
Páll Ísólfsson, 12.október annist Björn Ingi Bjarnason
Tryggvi Gunnarsson, 18.október annist Kjartan Björnsson
Sigurjón Ólafsson, 21.október annist Kjartan Ólason
Guðmundur Daníelsson, 28.október annist Kjartan Björnsson
Formaður óskar eftir fundarhléi kl.19:48
Fundi fram haldið kl.19:51
Í ljósi umræðna um ósk þessa þá gerir formaður breytingartillögu og felur Birni Inga Bjarnasyni að annast menningarkvöld tileinkað Sigurjón Ólafsson, 21.október.
Tillagan samþykkt samhljóða
5. 1007061 - Hernám Breta 70 ára - hugmyndir um dagskrá
Gunnar Sigurgeirsson fer yfir ýmsar hugmyndir að dagskrá 70 ára hernámsafmælisins og leggur fram drög að dagskrá. Umræður fóru fram og nefndin lýsir yfir ánægju sinni með framgang mála.
Fulltrúi S lista óskar eftir fundarhléi kl.20.37
Fundi fram haldið kl.20.43
6. 1009054 - Uppsetning á byggðamerkjum - umsögn menningarnefndar
Menningarnefndin gefur eftirfarandi umsögn:
"Byggðamerkin eru stolt byggðanna og hafa verið um áratugaskeið og minnugir orða þeirra manna er fremst stóðu að sameiningu sveitarfélagsins á sínum tíma þá, átti ekki að útmá þau byggðamerki sem þegar voru til heldur að halda þeim áfram á lofti, sérkenni hverrar byggðar. Sérstaklega má minnast orða Páls heitins Lýðssonar í þessa veru. Menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar fagnar því að byggðamerkjunum verði gert hærra undir höfði. Því miður átti Sandvíkurhreppur ekkert byggðamerki en það breytir ekki þeirri staðreynd að hin sveitarfélögin 3 áttu byggðamerki og þau ber að varðveita og halda á lofti. Við inngang á Stokkseyri, Eyrarbakka og Selfoss ætti því að vera skilti þar sem fólk er boðið velkomið í viðkomandi pláss og á skiltinu ætti að vera merki viðkomandi byggðar og merki stjórnsýslunnar. Í plássunum ætti síðan að vera byggðamerkið sem víðast það er að segja fáni eða flagg. Til dæmis við hringtorgið á Selfossi ætti að vera fáni/byggðamerki Selfoss, við sundlaugar, íþróttavelli og önnur opinber mannvirki ætti byggðamerkið að vera flaggað og síðan merki stjórnsýslunnar þegar við á. Sú hefð hefur til dæmis skapast við hátíðarhöld á Stokkeyri að flagga Stokkseyrarfánanum vítt og breitt um plássið, á Eyrarbakka flagga margir íbúar fána Eyrarbakka t.d. á Jónsmessuhátíðinni ofl. Við ráðhúsið ætti að flagga byggðamerkjum þeirra kjarna sem slík merki eiga og einnig merki stjórnsýslunnar. Því fagnar Menningarnefnd Sveitarfélagsins framtakinu og hvetur framkvæmda- og veitunstjórn til þess að halda áfram með málið."
Umsögnin samþykkt með tveimur atkvæðum fulltrúa D lista. Fulltrúi S lista situr hjá.
Fulltrúi S lista leggur fram eftirfarandi bókun:
Í ljósi þeirra umræðu sem nú á sér stað í sveitarfélaginu og fyrirhuguðum uppsögnum starfsmanna sveitarfélagsins sem sjálfstæðismenn hafa boðað finnst fulltrúa S lista það skjóta skökku við að eyða fjármunum til slíkra gæluverkefna.
7. 1009070 - Safnahelgi á Suðurlandi 2010
Menningarnefnd þakkar upplýsingarnar og fagnar framtakinu. Nefndin hvetur einnig íbúa á Suðurlandi til þátttöku í safnahelginni.
8. 1007010 - Pálsstofa á Stokkseyri
áður á dagskrá á 1. fundi nefndarinnar
Fulltrúi S lista kemur með eftirfarandi fyrirspurn til meirihluta Menningarnefndar:
-Hvar er þetta mál statt í bæjarkerfinu?
-Ræddi fulltrúi nefndarinnar þetta mál við fjölskyldu Páls þegar fjallað var um minningarkvöldið í október við þau?
Svar fulltrúa D lista:
Málið er í farvegi hjá bæjarráði sveitarfélagsins.
9. 1006075 - Uppbygging í Fuglafriðlandi í Flóagaflsmýri og uppbygging fjörustígs milli Stokkseyrar og Eyrarbakka
áður á dagskrá á 1. fundi nefndarinnar
Fulltrúi S lista kemur með eftirfarandi fyrirspurn til meirihluta Menningarnefndar:
-Hvað líður greinagerð um þetta efni sem boðað var að starfsmenn sveitarfélagsins myndu skila af sér í september?
Svar fulltrúa D lista:
Málið er í farvegi hjá bæjarráði sveitarfélagsins, leytað verður eftir upplýsingum hjá þartilgreindum aðilum um málið.
10. 1007011 - Safn mjólkuriðnaðarins á Selfossi
áður á dagskrá á 1. fundi nefndarinnar
Fulltrúi S lista kemur með eftirfarandi fyrirspurn til meirihluta Menningarnefndar:
- Hvar er þetta mál statt í ferli bæjarkerfisins?
- Hefur verið haft samband við forráðamenn MS um þetta mál?
Svar fulltrúa D lista:
Málið er í farvegi hjá bæjarráði sveitarfélagsins.
11. 0804042 - Menningarsalur í Hótel Selfoss
áður á dagskrá á 1. fundi nefndarinnar
Fulltrúi S lista kemur með eftirfarandi fyrirspurn til meirihluta Menningarnefndar:
- Hvað hefur gerst í boðuðum samningaumleytunum um þetta mál?
Svar fulltrúa D lista:
Málið er í farvegi hjá bæjarráði sveitarfélagsins.
12. 1008090 - Menningarsamskipti við San Antonio
áður á dagskrá á 2. fundi nefndarinnar
Fulltrúi S lista kemur með eftirfarandi fyrirspurn til meirihluta Menningarnefndar:
- Hefur framkvæmdastjóri sveitafélagsins svarað bréfi Castro, borgarstjóra San Antonio? og ef svo er óska ég þess formlega að afrit af svarbréfinu verði lagt fram í nefndinni.
Svar framkvæmdastjóra:
Bréfinu hefur verið svarað og verðu lagt fyrir næsta fund nefndarinnar
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 21.25
Kjartan Björnsson
Björn Ingi Bjarnason
Kjartan Ólason
Bragi Bjarnason
Ásta Stefánsdóttir